Heima er bezt - 01.06.1984, Page 46

Heima er bezt - 01.06.1984, Page 46
fleiri nætur. Velkomnir skulu þeir vera, eins góðar viðtökur og við fengum hjá þeim. Lóa mín, flýttu þér heim og taktu til í stofunni og hugsaðu fyrir kvöldmat. Það er best að þú farir líka, Oddný, og hjálpir til, það verður í mörgu að snúast,“ Þær Lovísa og Oddný létu ekki segja sér það tvisvar, en hlupu í spretti heim. Oddný var eitthvað kímileit. Gestirnir komu heim í tröðina, sáu þá fólkið sem var þar rétt fyrir ofan, fóru af baki og gengu til þess og teymdu hestana. Magnús hafði getið rétt til með gestakomuna, þeir bræður heilsuðu honum með mestu virktum, og hann bauð þá velkomna. Svo heilsuðu þeir hinu fólkhinu. Magnús bauð þeim til bæjar og sagði ellefu ára vikadreng, sem hét Kári, að koma með þeim og flytja svo hrossin í haga. Nú var mikið um að vera á Ljótsstöðum. Lovísa þvoði sér og greiddi, og fór svo í fallega sumarkjólinn sinn. Svo færði hún gestunum kaffi fram í stofu og eitthvað með því, — hún hafði bakað gestabrauð fyrir sláttinn. Hún heilsaði bræðrunum, bauð þá velkomna og þakkaði þeim fyrir síðast, og þeir tóku henni eins og hvítum hrafni. Magnús kom með vínflösku og lét á borðið. Ágúst horfði hýrum augum á hana, eins og Lovísu. Ármann þakkaði henni fyrir bréfið og peningana, sem voru borgun fyrir krossinn sem hann lét setja á leiði Einars. „Það var gott að það komst til skila,“ sagði Lovísa. Magnús bauð þeim út í kaffið, og Ágúst þáði með þökkum en Ármann sagði: „Þakka þér fyrir, ekki núna, Gústi drekkur fyrir okkur báða. Við ætlum að fá að gista hér um helgina, förum austur á mánudagsmorgun. Við svifum okkur nú eitthvað frá, — nokkrir nemendur mínir eru búsettir hér um slóðir, ég ætla að heimsækja þá.“ Magnús sagði að það væri velkomið, og hann fór út að lokinni kaffidrykkju og bað pilta sína að slátra mánaðar- gömlum kálfi — sem hann hafði hálfvegis ætlað að láta lifa. Nú átti að hafa steik handa gestunum og láta heimafólkið njóta góðs af. Kvöldmaturinn var eins góður og kostur var á, og svo var búið um þá bræðurna í stóru lokrekkjunni í stofunni. Lovísa tók á sparihöndunum á laugardaginn, og matur- inn hjá henni var framúrskarandi góður. Hún bar á borð fyrir bræðurna og pabba sinn í stofunni. Að lokinni máltíð sagði Ármann skólastjóri: „Nú þekki ég af eigin reynslu matreiðslukunnáttu þína. Ég vildi fá þig fyrir ráðskona í fyrra, og nú er ég sama sinnis. Mig langar að fá þig fyrir ráðskonu í vetur. Hverju svararðu núna?“ „Ég þarf nú að hugsa mig um og ráðfæra mig við for- eldra mína, en mér er það ekki á móti skapi,“ svaraði Lovísa. „Mér ekki heldur, Lóa mín,“ sagi faðir hennar, hýrgaður af víni — Ágúst hafði vín með sér. Bræðurnir tóku hesta sína eftir matinn og fóru að heim- sækja kunningjana og komu ekki aftur fyrr en um kvöldið. Þá voru piltarnir á Ljótsstöðum að draga fyrir í ánni, og voru svo heppnir að fá átta fallega silunga. Voru þeir mat- reiddir á sunnudagsmorguninn. Þá fóru bræðurnir og Magnús og Lovísa til messu á Kirkjubóli. Þá var það að Anna húsfreyja á Arnarstöðum kom fram í bæjardyrnar og sá til þeirra og sagði: „Þarna fer þá Lovísa á Ljótsstöðum á Herrauð sínum — kannske hún þurfi ekki að syrgja lengur, auminginn,“ Hún vissi um ferðir þeirra bræðra. Þegar þeir fóru á mánudagsmorguninn, var það fast- mælum bundið að Lovísa yrði ráðskona á Hvoli um vetur- inn, Hún hafði hitt stúlku við kirkjuna, og nefnt við hana að vera vetrarstúlka á Ljótsstöðum, og hafði hún tekið því mjög vel. Svo var kvaðst með kærleikum, þeir bræður þeystu út bakkana á gæðingum sínum. Lovísa fór að heiman um haustið, stuttu eftir göngur, hún þurfti að sinna sláturstörfum á Hvoli, áður en skólinn byrjaði. Þá kom vetrarstúlkan að Ljótsstöðum, hún hét Ásthildur, var kölluð Ásta, bóndadóttir frá bæ sem er framarlega í dalnum og heitir Valafell. Lovísa spurði Vilfríði hvort hún héldi ekki að henni leiddist að vera ein í norðurhúsinu um veturinn. „O, nei,“ sagði Vilfríður, „ég veit að ég sakna þín, en ég kviði ekki fyrir að vera ein.“ „Ásta gæti verið hjá þér, ef þú vildir,“ sagði Lovísa. „Nei, ég vil heldur vera ein,“ svaraði Vilfríður. „Þú skilur mestallt dótið þitt eftir hérna í húsinu, og ég veit að mér finnst, annað slagið, að þú sért hjá mér og ég veit að þú kemur aftur. Jæja, Lóa mín, nú kemur annar maðurinn til sögunnar, hvort sem þið verðið hjón eða ekki — það flýr enginn forlögin.“ Lovísa roðnaði. Hún tók trúlofunarhringinn af fingrin- um, tók svo hring Einars upp úr kommóðuskúffu, batt hringana saman með silkiborða og fékk Vilfríði þá og bað hana að geyma þá um veturinn, ásamt stokkabeltinu og koffrinu. Þetta sagði hún að væri sín dýrasta eign, og hún vildi helst vita hana í hennar höndum. — Svo fór hún, hafði ekki annað meðferðis en fötin sín — þó ekki brúðarbún- inginn. Allir kvöddu hana með kærleik og heillaóskum. Faðir hennar fylgdi henni til skips. Ósköp var nú tómlegt á Ljótsstöðum, fyrst eftir að hún fór. Svo kom bréf frá henni, hún lét vel af sér, hafði nóg að gera, en hún hefði duglegar stúlkur sér til aðstoðar. Þær voru góðar við hana og allir sem hún umgekkst voru góðir við hana. Og allsnægtir voru fyrir af öllu sem þurfti hendi til að rétta. En hún hugsaði oft heim, það mátti lesa milli línanna að hún var ekki laus við óyndi. Þau settust niður og skrifuðu henni, mamma hennar og Egill og jafnvel Vilfríður, þó hún væri orðin gömul og sjóndöpur. Þau reyndu að segja henni fréttir, sem þau héldu að hún hefði gaman af, en það bar nú fátt til tíðinda þar í dalnum núna. Mamma hennar skrifaði henni að það væru tvær kýr bornar, önnur hefði eignast kvígu, ósköp fallega, rauðskjöldótta — kannske fengi Lóan sín hana einhvern tíma í búið. Og hún sagði henni hvað kýrnar hefðu komist í háa nyt. — Egill sagði henni frá því þegar lömbin voru að læra átið, og þrjú voru höfð í fjósinu af því það þurfti að gefa þeim mjólk og stundum deigbita. Ein gimbrin var golsótt, ein grá og ein mórauð. Svo sagðist hann vera að byrja að læra kverið, sér þætti það leiðinlegt. En hvað Vilfríður skrifaði vissi enginn. Lovísa skrifaði aftur og aftur. Hún sagði að á Hvoli væri dansað á sunnudögum. Einn skólapilturinn ætti harmon- ikku og spilaði á hana fyrir dansinum. Stúlkurnar sem hún 226 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.