Heima er bezt - 01.06.1984, Blaðsíða 47

Heima er bezt - 01.06.1984, Blaðsíða 47
vann með, voru að kenna henni að dansa, og sögðu að henni færi vel fram. Ágúst Gunnarsson væri mikill dans- maður, hann dansaði stundum við hana og hældi henni á hvert reipi, bæði fyrir dansinn og matreiðsluna. Seinna um veturinn skrifaði hún skemmtilegt bréf. Það hafði verið haldið Þorrablót á Hvoli. Það kom fjöldi fólks og hafði með sér hátíðamat, sem það lét í trog, og voru fjórir um trogið. Það voru haldnar ræður og sungið og kveðið og dansað. Hún sagði að Ágúst hefði tekið mars með sér, það hefði verið feikna gaman. — Svo leið veturinn, og Lovísa kom heim snemma í maí. Hún fór hringlaus austur, en kom með hring. Hann var frá Ágústi Gunnarssyni. — Hafði verið settur upp á sumar- daginn fyrsta. Agúst „agent“ 2^.gúst kom ekki með Lovísu, hann kom ekki fyrr en í sláttarbyrjun. Ekki bar á öðru en heimilisfólkið á Ljóts- stöðum væri ánægt með trúlofunina, einkum Magnús. Ástríður var það líka, hún var miklu ánægðari núna, en þegar Lovísa trúlofaðist Einari. En Vilfríður sagði: „Þú veist að ég óska þér alls góðs, elsku Lóa mín, — en það eru forlögin, — forlögin.“ Og það var ekki hægt annað en finna það, að henni geðjaðist ekki vel að Ágústi Gunnarssyni. Það hafði nýlega verið stofnað búnaðarfélag í Hjarðar- dalnum og var Magnús á Ljótsstöðum formaður. Þá tíðk- aðist það að búnaðarfélögin tóku búfræðinga í sína þjón- ustu, létu þá vinna að jarðabótum haust og vor, og vera í kaupavinnu á sumrin og kenna börnum á vetrum. Nú réðist það svo að Ágúst varð starfsmaður hins ný- stofnaða búnaðarfélags, skyldi hann eiga heima á Ljóts- stöðum og vera þar um sláttinn. Vel fór á með þeim Magnúsi i fyrstu, en miður þegar frá leið. Þótti honum Ágúst laus við verk, ráðríkur og breytingagjarn. Og svo drakk hann of mikið. Þó Magnúsi þætti gott vín, hafði hann aldrei drukkið sér til skammar, en það gerði Ágúst — því miður. Hann kom oftar en einu sinni og oftar en tvisvar mikið drukkinn neðan af Ós, og keyrði þá yfirlæti hans og hávaði úr hófi. Hann svaf í stofunni og Lovísa mátti sitja hjá honum langt fram á nótt. Þegar hann var drukkinn talaði hann um að sig langaði til að flytja til Ameríku. Hann skrifaðist á við skólabróður sinn, sem hafði farið þangað fyrir þremur árum, og hann þreyttist ekki á að lýsa vel- gengninni og dásemdunum þar vestra, og hvatti hann til að koma. Lovísa tók því með hægð, en sagði þó að maður vissi hverju hann sleppti, en ekki hvað hann hreppti. Og hann talaði um þetta þar sem hann var í vinnu og við kennslu um veturinn, og prédikaði fyrir fólki að fara til Ameríku. Ýmsir tóku mark á orðum hans og hann var kallaður Ágúst „agent“. Nú voru hjónin á Ljótsstöðum meira en lítið óánægð. Þeim fannst sárt að hugsa til þess að Lóan þeirra flygi frá þeim til Ameríku og kæmi aldrei aftur. — Og færi með manni, sem var hálfgerður glæfrafugl. En hún varð að ráða. Ágúst fór að kenna henni ensku um veturinn, hann hafði lært eitthvert hrafl í ensku, þegar hann var í Noregi. Hann fékk bréf frá skólabróður sínum í Ameríku, sem skoraði á hann að koma, sagðist geta útvegað honum atvinnu og húsnæði og allt sem hann vanhagaði um. Ágúst ákvað þá að fara vestur um vorið og Lovisa ætlaði með honum, en þá veiktist móðir hennar seint um veturinn af heiftarlegri liðagigt. Hún lá sárþjáð í rúminu, og Lovísa reyndi að hjúkra henni jafnframt því sem hún sá um húsmóður- störfin. Batinn var hægfara, og Lovísu fannst hún ekki geta yfirgefið hana svona veika. Það var því afráðið að Ágúst færi einn til Ameríku um vorið, en Lovísa sæti í festum og kæmi á eftir honum að ári. Hann var því ekki mótfallinn, sagðist ætla að kaupa hús og búa sig undir að taka vel á móti henni. Vilfríður sat oft inni í suðurhúsinu hjá Ástríði, þegar stúlkurnar voru að sinna verkum sínum. Einu sinni sagði hún: „Hún Lóa okkar fer aldrei til Ameríku, það eru hennar forlög að lifa og deyja á okkar blessaða íslandi — Það eru forlögin. Og Ástríður trúði þessu og gladdist mjög af þvi. Ágúst fór til Ameríku um vorið og þrír ungir menn úr dalnum með honum. Það var sjaldan talað um hann á Ljótsstöðum. Lovísa var döpur og fálát fyrst eftir að hann fór, en svo tók hún gleði sína fljótt aftur. Jónsmessudögg og óskasteinar i^.sta frá Valafelli fór ekki frá Ljótsstöðum að endaðri vetrarvist, en varð vinnukona þar. Það var dugnaðar- og myndarstúlka, en ekki öll þar sem hún var séð. Henni hafði fundist mikið til um Ágúst og honum geðjaðist greinilega vel að henni. Hún talaði oft um hvað það hlyti að vera gaman í Ameriku. Þar voru stúlkurnar svo fínar, í hvítum, blúndulögðum léreftskjölum, á stígvélaskóm og með upp- sett hár. Og þar var svo mikið til af kaffi og sykri og fínabrauði. Og þar voru skógar og aldingarðar. Það tóku fáir undir þetta raus hennar nema Kári vika- drengur, hann sagði að hún skyldi bara fara þangað, það sæi enginn eftir henni. Þau voru oft á kanti. Ástríði húsfreyju batnaði gigtin þegar leið á sumarið, tók hún þá við sínum verkum. Lovísa keypti sér saumavél um haustið og saumaði mikið um veturinn, ekki aðeins fyrir heimilið, einnig fyrir fólk á öðrum bæjum. Líkaði því vel vinna hennar. Hún saumaði bæði kvenfatnað og karlmannaföt, saumaði spariföt handa pabba sínum og Agli bróður sínum og fermingarföt handa Kára Sigmundssyni vikadreng, sem fyrir hennar orð var þar um veturinn, Hann var frá fátæku barnaheimili úti á ströndinni. Lovísa kenndi honum að skrifa og reikna, og kristin fræði og fleira. Hún var ósköp góð við hann og honum þótti vænt um hana og honum þótti vænt um fermingarfötin — hafði víst ekki átt mikið af fötum um dagana. Framhald í nœsta blaði. Heimaerbezt 227

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.