Heima er bezt - 01.03.1987, Blaðsíða 4
Ég sá þá
sjóinn
í fyrsta sinn
Áskell Jónsson söngstjóri
minnist liðinna stunda
í síðdegisspjalli við Bolla í Laufási
Af Mýrarætt
Það styður þá fullyrðingu Látra-Bjargar, að Bárðardalur sé
besta sveit, að ennþá eru þeir bæir mun fleiri í dalnum, sem
setnir hafa verið af sömu ættinni í marga liði, en hinir þar
sem orðið hafa tíð ábúenda- og eigendaskipti. Sérstaklega á
þetta við um bæina innan við miðjan dal, nær öræfum. Þar
hefur ætíð verið gott að búa með sauðfé, enda dalurinn
verið talin ein hin besta sauðsveit á landinu. Fara þar
saman mikið landrými, fóðurgæði engja og afréttir þykja
með afbrigðum góðir. Veðurfar er sérstætt. Eru þeyvindar
tiðir þar inni og leysir fljótt snjóa. Hefur því löngum verið
haldið fram, að þegar kemur suður fyrir Lundarbrekku sé
Bárðardalur einn af veðursælustu dölum norðanlands.
Innsti bærinn fyrir dalbotni er Mýri og stendur vestan
vatna í fjallsrótum undir lágri en brattri hlíð. Sama ættin
hefur setið þar nokkuð á þriðju öld, a.m.k. 8 ættliðir.
Hermir arfsögnin að um eða fyrir miðja átjándu öld hafi
Jón nokkur Halldórsson komið ungur í Mýri og sest þar í
bú hjá ungri ekkju. Árið 1762 býr hann á Mýri 35 ára. Frá
þeim er komin Mýrarætt. Og þegar við nefnum Mýrarætt á
ofanverðri tuttugustu öld, þá kemur okkur óðar í hug
söngur og hljóðfærasláttur. Sá þáttur efldist mjög, er Jón
sonur Karls Friðrikssonar og Pálínu Jónsdóttur frá Stóru-
völlum kvæntist Aðalbjörgu Jónsdóttur frá Mýri. Varð
Aðalbjörg ein eftir, þegar faðir hennar og öll systkini héldu
til Vesturheims skömmu eftir síðustu aldamót. Kom hún þá
í veg fyrir það, að jörðin færi úr ættinni. Og sem fyrr getur
þá hafa tónlistarhæfileikarnir eflst við giftingu hennar. Má
með sanni segja, að ættin gefi ekki eftir hinni kunnu
Bergsætt í Árnesþingi í þeim efnum og er þó við mikið
saman að jafna. Sækir Mýrarætt nú fast á í höfuðborginni
ekki síður en Bergsættarmenn fyrrum, þegar Páll Isólfsson
var dómorganisti og leiðandi maður í tónlistarlífi borgar-
innar. Nú stýrir Hörður Áskelsson af Mýrarætt söng í
Hallgrímskirkju og er þá jafnframt freistandi að láta þess
getið, að Þingeyingar stjórna söng í þeim kirkjum borgar-
innar, sem kenndar eru við Langholt og Nes. En það var
alls ekki ætlun mín að hrinda hér af stað lítilsverðum met-
ingi, heldur einungis að minna á það, að höfuðborgin nýtur
landsbyggðarinnar í ýmsum efnum, ekki síst á sviði lista og
hverskonar menningar, og svo mun löngum verða. Og
þannig er því og háttað um aðra stærstu byggðakjarna
íslands. Á Akureyri við Eyjafjörð hafa dreifbýlismenn, sem
í mínu ungdæmi nefndust sveitamenn, ekki síður komið við
menningar- og listasöguna. Þeir hafa m.a. stýrt þar skólum
og söngsveitum.
76 Heimaerbezt