Heima er bezt


Heima er bezt - 01.03.1987, Blaðsíða 28

Heima er bezt - 01.03.1987, Blaðsíða 28
Minningar Einars Frá Hafranesi Margir voru þeir dagar, einkum á veturna, sem ekki var kveiktur eldur, nema stutta stund úr deginum, því mikið var notaður kaldur matur, súrsaður og hertur, þ.e. slátur, svið, riklingur af lúðu, harðfiskur, hákarl, brauð o.fl. Jafn- vel vatnsgrautar, sem ætlaðir voru í skyrhræring, voru eld- aðir til margra daga í einu. Mundi nú á dögum þykja ónotalegt að neyta þessa kalda matar, í óupphituðum, köldum húsum, „en svo verður að búa sem á bæ er títt“, og fólkið var þessu barnsvant og fann því ekkert til þess. Kaldur miðdegismatur var aldrei sjaldnar en tvisvar í viku og stundum oftar. Kaffi hafði móðir mín ætíð einu sinni á dag, nema ef gesti bar að garði, og svo mun víðast hafa verið á heimilum. Á hverju sumri lét móðir mín tína jurtir í te. Var það einkum rjúpnalauf, blóðberg og vallhumall, en þó kom fleira til greina. Þessar jurtir þurrkaði hún vel og geymdi þær svo í poka, sem hékk yfir eldavélinni. Notaði hún þetta til tegerðar hvern morgun að vetrinum, meðan það entist og brauð með. Mun hún hafa notað þennan drykk fyrstu 15-20 búskaparár sín. Þetta te fannst mér engu verra til neyslu en hið útlenda te, sem nú er drukkið. Stöku sinnum var tínt dálítið af fjallagrösum. Voru þau notuð bæði í mjólkurgrauta, soðin í tómri mjólk og einnig í pottbrauð og slátur, en pottbrauð kölluðust rúgbrauð, sem bökuð voru þannig, að þau voru látin á glóð, þegar búið var að hnoða eins og þurfti (ekki þó kolaglóð), hvolft yfir þau mátulega stórum potti og kynt glóð utan á honum, með afraki, mómylsnu eða moðsalla, þangað til þau voru bökuð. Fjallagrös hefði mátt nota meira en gert var. Þau eru ljúffengur matur, holl og næringarrík að þeirra dómi, er best vita. Eigi var á þessum árum matast með hníf og gaffli. Hver maður notaði sinn eigin sjálfskeiðung, sem best honum hentaði og svo fingurna. Flestir áttu sjálfir matskeiðar þær, sem þeir borðuðu með. Skeiðarnar voru af ýmsu efni, s.s. homi, járni, tini og silfri, en þeir voru allmargir, sem þær áttu. Helst vildu menn ekki lána öðrum matskeiðar sínar. Það var venja, að hver þurrkaði upp skeið sína og hirti að öllu um hana sjálfur. Geymdu menn þær oft undir sperru yfir rúmi sínu, því á því borðuðu menn með diskinn eða skálina á hnjám sér, en væri ekki um skarsúð yfir rúminu að ræða, gerðu menn sér slíður af tré eða leðri fyrir skeiðina. Heldur þótti húsfreyjum þessa tíma leiðinlegt, er heldri mann bar að garði, sem þáði mat, að geta eigi borið fram hnífapör, því á stöku heimili voru þau tiltæk handa gestum. Ég man eitt slíkt atvik frá þessum árum og ætla að rifja það upp rétt til gamans. Læknirinn á Eskifirði, Fr. Zeuthen, var á ferð og gisti náttlangt á Berunesi hjá Guðrúnu og Sigurði. Orð fór af því, að hann hefði mikla ánægju af góðum mat, sem enginn tekur til. Honum var um kvöldið borinn á borð góður og mikill matur, þar á meðal saltkjöt og hangikjöt, hvoru tveggja vel feitt, því Guðrún tók aldrei af hinum verri enda handa gestum sínum. Þegar læknir var svo sestur að borði, bað Guðrún afsökunar á því, að ekki væru til hnífapör. Zeuthen leit með ánægjusvip yfir borðið og mælti bros- andi: „Verið þér ekkert að fást um það, Guðrún mín. Þetta er bara dálítil tilbreyting. Það er ekki svo oft að hnífur minn kemur í feitt“. Tók hann svo upp sjálfskeiðung sinn og tók til matarins. Ég heyrði oft fyrir austan orðtakið: „Það er ekki svo oft að hnífur minn kemur í feitt“. En ég býst við að fáir hafi vitað tildrög þess. Eitt atvik kom fyrir annað sumarið, sem við vorum á Berunesi, og vil ég geta þess hér vegna þess, að það lýsir nokkuð þeim hugsunarhætti, sem þá var ríkjandi hjá ýms- um gegnum mönnum í garð hjálparþurfandi samborgara þeirra. Stúlka á 17. ári þarna á heimilinu átti barn, sem hún fyrst kenndi Bjarna Magnússyni Mandal, en hann var faðir Guðrúnar húsfreyju. Var Bjarni nokkuð við aldur, er þetta gerðist og heimilismaður þarna, að nokkru leyti í skjóli dóttur sinnar og tengdasonar. Kona hans, Sigríður Eyj- ólfsdóttir, dvaldist að öllu hjá þeim hjónum, en Bjarni og hún höfðu slitið samvistum, er hér var komið, að öðru en því, að hún þjónaði honum. Ekki vildi Bjarni gangast við faðerni barnsins, enda lét stúlkan fljótlega af því að kenna honum það. Töldu þó allir, sem til þekktu, að hún flytti þar rétt mál. Fór svo, að barnið, sem var piltur, var skírður Hansson, en sú var þá tíska með börn, er enginn fannst faðir að. 100 Heimaerbezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.