Heima er bezt


Heima er bezt - 01.03.1987, Blaðsíða 20

Heima er bezt - 01.03.1987, Blaðsíða 20
Símonarson frá Jórunnarstöðum, ungur maður, myndar- legur með rautt hár. Á Akureyri settist eg að í Brekkugötu hjá Steinþóri bróður mínum. Þar var þá tengdafaðir hans, Brynjólfur Eiriksson, og hef eg skrifað að eg hafi rætt við Brynjólf og frænda hans, Þormóð Sveinsson, um ýmsan fróðleik úr Austurdal. Eg var á Akureyri tvo daga, 17. og 18. des. Þá daga var allhvöss sunnan- og vestanátt og þíðviðri. Eg rak ýmis erindi í bænum, keypti áttavita fyrir 93 kr„ sem kom sér vel á leiðinni vestur, og tók víxil kr. 2500, en við Sigurður bróðir minn vorum þá að byggja íbúðarhús á Sveinsstöðum. Fyrst eg nefni lántöku, get eg ekki stillt mig um að segja dálítið frá Ólafi Thorarensen, en hann er einn af þeim mönnum sem eg gleymi ekki meðan eg man eitthvað. Ólafur var mikill á velli, fríður sýnum með hátt og breitt enni. Andlitsdrættir báru vott um sterkan vilja og ylur var undir augabrúnum. Ólafur Thorarensen var útibússtjóri Landsbankans á Akureyri í 30 ár. Af þeim tíma hafði eg viðskipti við bank- ann í 26 ár. Á árunum eftir 1938 var mikil fjármálakreppa hér á landi. Hún var ekki búin til heima, heldur kom hún að utan, óviðráðanleg eins og hafís eða eldgos. Margir bændur voru þá gjaldþrota, áttu ekki fyrir skuldum og það var ekki hægt að gera upp eignir þeirra því engir gátu keypt. Þá voru sett lög um Kreppulánasjóð. Það var ráð sem dugði vel, þangað til verðlag hækkaði á stríðsárunum. Eg man ekki eftir að nokkur bóndi yrði að hætta búskap vegna skulda. Þegar kreppulánin voru veitt voru eignir og skuldir manna eftir ástæðum. Ýmsum fannst það niðurlægjandi að geta ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar og til voru þeir menn sem greiddu það sem fellt var niður, síðar þegar úr rættist. Stórbóndi í Blönduhlíð, Jóhann á Úlfsstöðum, vildi ekki taka kreppulán undir neinum kringumstæðum en skuldaði þó allmikið. Annar góðbóndi vestan Vatna tók kreppulán. Það var Sveinn á Tunguhálsi, stórbóndi og mikill umbóta- maður í búnaði. Þegar Jóhann á Úlfsstöðum frétti það var haft eftir honum: „Sveinn á Tunguhálsi búinn að taka kreppulán. Ekki veit eg hvað eg hefði heldur gert.“ Haustið 1934 gerði eg ferð til Akureyrar til þess að biðja um lán. Eg fór með nokkra víxla fyrir mig sjálfan og sveit- unga mína. Þessir víxlar voru allir 200 kr. að fjárhæð. 200 krónur voru þá dálítil upphæð, því dilkurinn gerði 8-10 kr. Okkur datt í hug að biðja um lán í Landsbankanum, því sá banki átti að lána landsmönnum öllum. Ekki man eg hvar Landsbankinn var þá til húsa, en eg sporaði það uppi og gekk inn í skrifstofu til Ólafs Thorarensen. Eg hafði ekki séð manninn áður og þótti hann mikilúðlegur. Eg bar upp erindið og lagði víxlana á borðið. Bankastjóri spurði hvort þeir sem samþykktu víxlana hefðu tekið kreppulán. Eg svaraði eins og satt var að þeir hefðu gert það og þá ýtti hann blöðum þessum til hliðar. Síðast kom röðin að mínum víxli og þá spurði hann hvort eg hefði tekið kreppulán. Eg hafði ekki gert það, hef líklega ekki skuldað nógu mikið. Svo leit bankastjóri á bakið á víxlinum, hver væri ábyrgð- armaður og varð þá að orði: „Þessu nafni get eg ekki neitað.“ Ábyrgðarmaður var Sigurður Þórðarson hrepp- stjóri á Nautabúi. Hann var vel efnaður, en enginn vissi um eignir hans. Hann gæti hafa átt innstæðu í Landsbankan- um. Það er skemmst af að segja að eftir þetta hafði ég víxla- viðskipti við Landsbankann allan þann tíma sem Ólafur réði þar fyrir. Oftast tók ég víxla seinni hluta árs og borgaði þá á næsta gjalddaga, bað sjaldan um framlengingu. Eins var það ef eg var með víxla fyrir aðra menn sem hann þekkti ekki neitt, þá var það nóg ef eg skrifaði á þá. Það var aðeins einu sinni að hann gat ekki keypt af mér víxil og sagði að það væri kominn tappi í þá fyrir sunnan. Þetta var um miðjan desember og líklega hefur honum verið bannað að lána meira fyrir þau áramót. Nýlega spurði eg mann nokkurn um Ólaf Thorarensen. Maður þessi hafði haft kynni af Ólafi og áleit að hann hefði verið einfari, einkum seinni hluta ævinnar. Mér fannst hann ekki vera það. Hann var alltaf fljótur að afgreiða fjármálaerindi og svo fór hann að ræða um þetta og hitt ótilkvaddur og kom víða við. Eitt sinn barst tal að því að sjóðþurrð hefði orðið hjá nafnkenndum manni í Reykjavík. „Já, það hefurekki verið notalegt að sofna í dellunni,“ sagði hann. Eg man ekki hvert árið það var að eg fór norður snemma vetrar og hreppti norðan stórhríð í Öxnadalnum. Eg sagði banka- stjóra að litlu hefði munað að eg yrði úti á leiðinni norður. Hann svaraði að það væri fullmikil Mammonsþjónusta að eiga það á hættu. Svo barst talið að lífinu eftir dauðann. Hann hafði engar áhyggjur af því: „Eg verð með fólkinu þar sem það er,“ sagði hann. Einhverju sinni, þegar eg var að biðja um lán, sagði eg við Ólaf bankastjóra að eiginlega ætti eg ekkert nema bækur. „Já, en það þurfa að vera sparisjóðsbækur," sagði hann. Það mun hafa verið 1960 sem Ólafur var ekki í bankan- um og fór eg þá heim til hans í Brekkugötu. Hann tók mér alúðlega og bauð mér til stofu. Við tókum tal saman eins og svo oft áður. Eg hafði þá átt viðskipti við Landsbankann í 26 ár. Eg spurði um gjaldkerann sem þá var í bankanum, en það var Sigurður Ringsted. „Hann er hundrað prósent,“ svaraði Ólafur. Eg sagði þá, að þegar bankastjórar veldu gjaldkera yrðu þeir að athuga að ekki væru þjófar í ættinni. „Já, eg hef fengið að kenna á því lítið eitt,“ sagði banka- stjóri en ekki vildi hann ræða um það. Víkur þá sögunni aftur að ferð minni fyrir jólin 1946. 19. desember síðdegis fór eg fram að Villingadal og gisti þar. Næsta dag, 20. des„ gekk eg vestur yfir Nýjabæjarfjall og tek nú upp það sem eg hef skrifað í dagbók þennan dag: Allhvass vestan, úrkomulaust í byggð en snjókoma til fjalla, svolítið frost. Eg lagði af stað frá Villingadal kl. 7 um morguninn vestur yfir Nýjabæjarfjall. Jón í Villingadal lánaði mér hest suður yfir Svartá, en hann átti að fara heim þaðan. Eg var kominn kl. 9.30 upp á brúnina fyrir norðan Galtárhnjúk. Dimmviðrishríð var að sjá vestur fjallið. Eg tók því upp kompásinn til þess að ákveða stefnuna. Vindstaðan var þvervestan, eftir áttavita. Eg hélt niður fjallið, lítið eitt 92 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.