Heima er bezt - 01.07.1988, Síða 19
Sökum þess að stundum hafa birst í
Heima er bezt frásagnir um álfatrú og
álfabyggð, ætla ég að skrifa eina slíka
og senda blaðinu til birtingar.
Ég gjöri hvorki að játa né neita til-
vist huldufólks, en þetta sem ég ætla
að segja hér frá, bendir þó frekar á að
það sé til.
Mér finnst fátt mæla á móti að svo
geti verið. Eða hver hefði trúað að þær
smáverur, sem aðeins greinast með
smásjá, væru til, áður en smásjáin var
fundin upp. Getur ekki það sama gilt
um huldufólkið, að sjónsvið okkar sé
svo þröngt að við greinum ekki þessar
verur, nema einstaka manneskja, sem
hefur fullkomnara sjónsvið. Mér
finnst slíkt geti vel átt sér stað.
Menn vita ekki „Að veröldin er
auðug af öflum geysisterkum, ofar
þeirra verkum.“ Þegar ég var í æsku,
dreymdi mig oft að ég væri komin
inn í huldufólksbústað. Aldrei hef ég
séð slíkar verur, utan einu sinni. Varð
það ef tii vill til að bjarga mér og
Friðriki bróður mínum úr lífsháska.
Stutt frá æskuheimili mínu voru
tveir nokkuð stórir melhólar, æði spöl
fyrir neðan bæjarfjallið. Hjá öðrum
þessara hóla var stór, stakur steinn,
kallaður Grásteinn. Steinn þessi var
ekki ólíkur húsi í lögun.
Það var gömul trú að steinn þessi
væri huldufólksbústaður. Þangað
kom ég oft í draumum mínum. Þar sá
ég ljós og ljósabúnað, sem var alveg
eins og rafljós, en þau sá ég þar í fyrsta
sinni.
SIGURLAUG
GUÐMUNDSDÓTTIR:
En sagan sem ég ætla að segja er á
þessa leið:
Það var alltaf venja að sýna á
hverjum vetri eitt eða tvö leikrit í
kauptúninu á Kolbeinstanga, en svo
heitir Vopnafjarðarkauptún; í dag-
legu tali kallað Tangi.
Þar átti heima maður að nafni
Nikulás Albertsson. Var hann fæddur
og uppalinn í Reykjavík. Ungur flutt-
ist hann til Vopnafjarðar, giftist þar
og átti þar heima síðan.
Hann þótti hafa góða leikhæfileika
og hafði nokkuð fengist við leiklist i
Reykjavík. Átti hann stóran þátt í
leikstarfsemi á Vopnafirði.
Safnaði hann saman nokkrum hópi
af fólki. sem honum fannst hafa ein-
hverja hæfileika á því sviði, en var
alltaf sjálfur aðal driffjöðrin.
Eitt sinn um hávetur var sýnt leik-
ritið Tengdamamma eftir Kristínu
Sigfúsdóttur. Við yngri systkinin fór-
um að sjá það þótt færð væri ekki góð
og löng leið að fara. En við vorum
dugleg að ganga og tókum ekki nærri
okkur þótt ferðin tæki um fjóra tíma
hvora leið.
Framorðið var orðið þegar leiksýn-
ingunni lauk, en þá var farið að dansa
eins og venja var eftir leiksýningar, og
dansað þar til birta tók af nýjum degi.
Þá var veður svipað og daginn áður,
stillt en dimmt og fremur ískyggilegt
að líta til lofts. Ekki komum við í neitt
hús til að hvíla okkur eftir dansinn,
heldur héldum strax af stað heimleið-
is. Hofsá er í leiðinni og vildum við
fyrir hvern mun komast yfir hana áð-
ur en veður versnaði. Hún var þá
óbrúuð og hið mesta foraðsvatnsfall,
var að vísu á ís en alltaf talin varasöm.
Við komumst klakklaust yfir ána en
þá var farið að hvessa og komin hrið.
Var nú auðséð að blindbylur væri í
aðsigi.
Við fórum þá heim að Krossavík,
sem er ekki mjög langt frá ánni, og
hvíldum okkur þar dálitla stund. í
Krossavík var þá þríbýli. Var jörðin
talin stærsta jörð á Austurlandi, enda
lengi sýslumannssetur.
Tveir bæir voru í aðaltúninu, kall-
aðir Efri- og Neðribær. Þriðja býlið
var nokkurn spöl frá hinum, alveg
niður við sjóinn, hét það Hellisfjöru-
bakkar. Fjórða býlið hafði svo verið
utan við aðaltúnið, hét það Hjáleigan.
Það var komið í eyði er þetta gjörðist,
en þó sáust þar enn tóftarbrotin.
Við fórum heim að Neðribænum,
því þar bjó gott kunningjafólk okkar.
Fengum við þar mjög góðar viðtökur.
Sigríður húsfreyja bar okkur mjólk og
smurt brauð og allskonar kökur. Hún
var mjög gestrisin og rausnarleg. Á
meðan við dvöldum þar versnaði
og maður hennar endilega að ég færi
ekki lengra, þótt Friðrik reyndi að
halda áfram. Ég vildi það ekki, en
Kvaddi þá Friðrik heimilisfólkið og
Alfkonan
í Stórhólnum
234 Heima er bezt
mig og fylgdi Sigriður honum til dyra.
En rétt í því birti töluvert og lygndi
nokkuð. Sagði þá Friðrik að alveg
myndi vera óhætt að ég kæmi líka.
Vildi ég það gjarnan enda veðrið orð-
ið sýnu betra þá stundina. Ekki taldi
Sigríður mig vera nógu skjóllega búna
því frost var talsvert. Dreif hún mig þá
í hlýja ullarsokka utan yfir þá sem ég
var í. Einnig setti hún á mig hlýja ull-
arhyrnu, sem hún var nýbúin að
hekla, innan undir kápuna.
Fórum við svo af stað. En fljótlega
versnaði veðrið aftur. Og er við kom-
um út á Hjáleiguna var kominn
blindbylur. Þar hittum við bóndann á
Efribænum, Jörgen að nafni. Stóð
hann þar yfir fé sínu, en var að fara
með það heim. Vildi hann endilega að
við snérum aftur heim að Krossavík
annað hvort að Neðribænum eða að
sínum bæ. Taldi hann að það væri að
ganga í blindbyl. Við vorum nú ekki á
því, bentum honum á að grillti í veg-
inn og símalínan sæist. Þá bað Jörgen
okkur að lofa sér því að fara heim að
Vindfelli, næsta bæ, ef veðrið versn-
aði ennþá meira og bíða þar til veðr-
inu slotaði. Við lofuðum því til að
friða hann, en auðvitað datt okkur
ekki í hug að gjöra það. Enda værum
við þá komin langleiðina heim.
Rétt eftir að við vorum komin út
fyrir Hjáleiguna grilltum við i mann
sem fór á undan okkur í sömu átt og
við. Aðallega var það ég sem sá hann,
en Friðrik sá þó þessa mannveru
annað slagið. En það sem meira var
að okkur sýndist þetta vera kven-
maður svo ólíklegt sem það þó var.
Við héldum fyrst að þetta væri maður
frá Vindfelli, en hann hélt áfram þó
komið væri fram hjá bænum þar.
En er við loks komum að túngirð-
ingunni heima, hvarf hann skyndilega
eins og jörðin hefði gleypt hann. Þá
héldum við að hann hefði verið þetta
fljótari en við og væri kominn heim og
ætlaði að gista. Enda virtist vart um
annað að gera, því enginn óvitlaus
maður hefði látið sér detta í hug að
leggja á Hellisheiði í slíku veðri.
Þegar við svo opnuðum útidyrnar
heima, kom mamma fram og var hún
að hyggja að hvort eldri bróðir okkar
væri að koma frá gegningunum.
Hún var alveg hissa á því að við
skyldum vera komin í slíku veðri. Við
spurðum hana þá hvort þau hefðu
ekki verið orðin hrædd um okkur, en
hún kvað það ekki vera. Að vísu hefði
hún verið hálfsmeyk í gærkveldi því
veðurútlit hefði þá verið svo slæmt og
svo hefði loftvogin fallið mjög mikið.
En svo dreymdi hana um nóttina, að
til hennar kæmi ókunnug kona, sem
sagðist ætla að hjálpa okkur heim
daginn eftir, enda myndi ekki af veita,
þvi þá yrði mjög vont veður. Sagðist
hún bæði geta og vilja hjálpa okkur.
Hún kvaðst vera huldukona og eiga
heima í Grásteini og væri hún okkur
vinveitt. Er hún hafði þetta mælt,
vaknaði móðir mín og sagði hún að
sér hefði þá verið horfin öll hræðsla.
Friðrik fyrri maður mömmu og
systkini hans, sem áttu heima á Ey-
vindarstöðum. trúðu því að Grá-
steinninn væri huldufólksbústaður.
En þó að það komi ekki beinlínis
þessari sögu við, þá vil ég geta þess að
rétt fyrir neðan Stórhólana er djúpur
hvammur, vaxinn birki og lyngi. Þar
er alltaf mjög mikið af berjum, bæði
bláberjum og aðalbláberjum. Fór ég
mjög oft þangað til að tína ber, því þó
nægtir séu af berjum í Eyvindar-
staðalandi, fannst mér hvergi eins gott
að vera eins og þar. Það var alltaf eins
og legði þar um mig hlýja strauma,
sem mér er ómögulegt að lýsa.
Ég var einu sinni að hugsa um af
hverju þetta gæti stafað og hvað það
væri lítið sem við vissum um lífið og
tilveruna.
Þá kom í huga minn þessi vísa:
Áfram geng ég æviveg,
aldrei fæ þá gátu leyst.
Hvaðan kom ég? Hvert fer ég?
Og hverju fær minn andi breytt?
Heimaerbezl 235