Heima er bezt - 01.07.1988, Síða 26
jarðraki er misjafn eftir árstíðum, og jarðvegur eðlisþéttur.
Regnvatnið rennur eftir göngum hans, og á sumrin fylgja
fíngerðustu plönturæturnar þeim, til að njóta rakans í dýpri
lögum jarðvegsins.
Ýmsar ánumaðkategundir loka opinu á göngum sínum
með stilkum blaða, sem þeir hafa etið, en aðrar draga blöð
og strá niður í holur sínar og eta þau þar. En hvort sem er,
eykur þetta mjög magn lífrænna efna í moldinni og blanda
hana.
Charles Darwin.
Ánumaðkar dafna best i hóflega rökum jarðvegi, sem
einnig er vel ræstur. Þeir þyngjast venjulega mest í vætutíð.
En ekki dafna þeir vel nema loft geti leikið um moldina,
sem þeir lifa í, enda firrast þeir mjög þéttan og loftlausan
jarðveg. Þó eru til tegundir, sem geta hafst við í jarðvegi
með miklu magni koltvísýrings eins og oftast vill verða,
þegar loftræsting er lítil í jarðveginum. Fjöldi ánumaðka í
moldinni fer mjög eftir því hve mikið er í henni af lífrænum
efnum. Því fækkar þeim mjög, ef graslendi er breytt i akra,
þar sem allur grasvöxturinn er fluttur burt.
Ánumaðkarnir hafa margvísleg áhrif á moldarmyndun-
ina og frjósemi hennar. Þeir sundra og melta að nokkru
leyti dauð og lifandi Iífræn efni, og eiga með því drjúgan
þátt í hringrás efnanna í moldinni. Þeir draga plöntuleifar
o.fl. lífrænt af yfirborðinu djúpt niður í jarðveginn, þar sem
það rotnar, og dregur þetta úr myndun efnasnauðra jarð-
vegslaga. Ormaskíturinn á yfirborðinu dregur mjög úr
sýrumyndun, vegna þess að í honum er kolsúrt kalk. Efna-
greiningar á ormaskít hafa sýnt að hann er sérlega auðugur
af næringarefnum, sem eru auðunnin af plöntunum, og er
einnig lítt súr.
Ánumaðkarnir grafa göng hvarvetna um jarðveginn, svo
að andrúmsloftið fær leikið um hann, en loftrásin greiðir
mjög fyrir öllum efnabreytingum í jarðveginum, og er
nauðsynleg þeim lífverum, sem þar búa, og ekki síst rótum
plantnanna. Efsta borð moldar, sem mjög er blandað
ormaskít, er holótt líkt og fíngerður svampur og heldur í sér
hóflegum raka i göngum og holum. Þannig helst rakastig
jarðvegsins furðujafnt, og miklu jafnara en í ormalausum
jarðvegi. Gerð og stærð moldarkornanna er einnig stöðugri
þar sem ánumaðkar eru í moldinni en annars staðar. Á
síðari árum hafa komið fram margskonar stefnur og að-
ferðir í meðferð jarðvegs við ræktun hans. Sumar þessar
ræktunaraðferðir hafa reynst hagstæðar ánumöðkum en
aðrar ekki. Þurrkun lands og frumræktun, meðal annars
með því að kalka súran jarðveg, fjölgar ánumöðkum í
moldinni. Hinsvegar hefir skipting lands í beitarlönd og
akurlendi valdið því að þau svæði sem engan lífrænan
áburð fá, hafa stækkað á kostnað hinna. Lífræn efni í
akurlendi eru að jafnaði lítil, og ánumaðkar því sjaldséðir
þar í jarðveginum. Barrskógar eru ræktaðir í súrum og
maðkasnauðum jarðvegi.
Yfirlit.
Dýr og plöntur skapa gróðurmold með því að blanda
saman lífrænum efnum og steinefnum og valda einnig
efnabreytingum. Lífverurnar, og þá umfram allt ánu-
maðkarnir skapa loftrásir í jarðveginum, sem er harla
mikilvægt hinum æðri plöntum. Sumar dýrategundir, sem
lifa á ránum halda í skefjum ýmsum þeim tegundum, sem
skaðlegar eru nytjagróðri.
Margt er enn ókannað um líffræði jarðvegsins. Margar
ólíkar jarðvegstegundir hafa verið teknar til ræktunar með
mismunandi aðferðum og breytt á margvíslegan hátt.
Margt er þó kunnugt í meginatriðum, og vér verðum að
hafa stjórn á mörgu í meðferð moldarinnar. Má þar nefna
uppsöfnun þungmálma, sýkingarhættu og ýmsa nútíma-
tækni sem hefir áhrif á lífið í jarðveginum. En yfirleitt
skortir enn mjög á, að vér vitum til fullnustu hver áhrif
nútímaþróun í byggð og ræktun hefir á hina dýrustu eign
vora, hinn lifandi jarðveg.
Gróðurmoldin er dýrmætasti hiuti jarðvegsins. í henni
lifa ánumaðkarnir og fjöldi annarra dýra auk baktería og
plantna. Ánumaðkar og raunar fleiri dýr eta plöntuleifar
þær, sem falla til jarðar, melta þær að nokkru leyti og
blanda þeim saman við steinefni jarðvegsins. Við þetta
verða ýmsar efnabreytingar á plöntuleifunum, sem greiða
fyrir starfi baktería og sveppa, sem sundra efnunum enn
meira og fullkomna moldarmyndunina. Ormar og önnur
dýr gera jarðveginn einleitari. Þar sem dýrin vantar safnast
lífrænar leifar fyrir og myndast þar þunnt moldar- eða
mókennt lag af lífrænum leifum. Efnabreytingar eru þar
seinvirkar og eru þar einkum sveppir að verki. Dýralíf í
þessu lagi er fáskrúðugt og sérhæft. Þesskonar lag verður
einkum til í næringarsnauðum jarðvegi, heiðum og mó-
lendi og hinum súra jarðvegi barrskóganna.
(Þýtt og endursagt)
St. Std.
242 Heima er bezt