Heima er bezt - 01.07.1988, Blaðsíða 27
Það var vorið 1902 sem byggð var brú
yfir Laxá í Þingeyjarsýslu hjá Brett-
ingsstöðum í Laxárdal. Mikið var um
það rætt, hve þá yrði stór samkoma er
brúin yrði vígð. Við systurnar vorum,
eins og aðrir, að hugsa um þetta, og
tókum okkur saman um að vera nú
sérstaklega vikaliðugar við vorverkin.
Það þurfti að vinna á túninu og passa
ærnar, reka frá á kvöldin, en er á leið,
að vaka alveg yfir túninu.
Ég var þá ellefu ára en Ása systir
mín níu. Það kom í minn hlut að vaka
og bera af á nóttunni, en Ása bar af
túninu á daginn.
Við vorum búnar að minnast á það
við mömmu, hvort við mundum ekki
fá að fara að brúarvígslunni ef við
yrðum duglegar. Jú, það hélt mamma
að gæti skeð, en það þyrfti fyrst að
sauma á okkur kjóla — og föt á
pabba. Og pabbi fór og sótti sauma-
konu vestur í Ystafell, Vigdísi Mar-
teinsdóttur. Þetta gekk allt vel, föt á
pabba voru saumuð og grænir mat-
rósakjólar á okkur Ásu.
En nú þurfti að hugsa fyrir hestum
og reiðtygjum. Pabbi átti þrjá hesta,
Rauð, sem var reiðhestur og Jarp,
sæmilegan til reiðar. Svo var það
gamli Bleikur, sem var bæði latur og
seinn. En pabbi hafði þrjá hesta, sem
hann var að temja. Var einn þeirra svo
þægur, að við vissum að við gætum
setið hann, ef pabbi vildi lofa okkur
að fá hann.
Um þetta var skrafað fram og aftur.
Á Einarsstöðum fengum við lánaða
söðla og mamma samþykkti að lána
mér sunnudagapilsið sitt fyrir reiðpils,
en Ása fékk lánað pils af stúlku á
heimilinu. Við áttum báðar hvíta
stráhatta með bláum borða svo ekki
vantaði okkur höfuðföt.
Nú leið óðum að hátíðinni og enn
vissum við ekki hvaða hesta við
fengjum, þar til daginn áður, að pabbi
segir að mamma verði á Rauð, Vigdís
á Jarp, en við Ása eigum að skiptast á
um gamla Bleik og Nasa, sem var eitt
af tryppunum þremur, er ég gat um.
Ja — gaman var þetta ekki. Sérstak-
lega varð þetta mér mikið áhyggju-
efni, því mér fannst, þó ég segði það
ekki, að ég væri nú eiginlega að verða
fullorðin.
Og ekki kveið ég klæðnaðinum:
Nýr kjóll, stráhattur og reiðpils. Og
amma á Arnarvatni hafði sent okkur
Ásu svarta skinnskó með eltiskinns-
bryddingum, og þá var líka fótabún-
aðurinn í lagi. En nú hugsa ég mér að
leika á Ásu systur, og spyr hana, hvort
henni sé ekki sama þó hún sitji á Nasa
alveg yfir í Brettingsstaði, en ég til
baka. Mér sé sama þó ég ríði á Bleik
yfir um. Jú, hún féllst á það.
Ég þóttist koma ár minni vel fyrir
borð því ég vissi að ekki yrði riðið
hratt austur yfir, en um kvöldið til
baka yrði sprett úr spori, og þá yrði
ekki skemmtilegt að vera á gamla
Bleik. En þetta átti eftir að koma mér í
koll.
Samkomudagurinn rann upp
bjartur og fagur. Við Ása vöknuðum
snemma og sóttum hestana upp í
Botna og komum þeim í réttina. Svo
var að klæðast þessum fínu fötum,
leggja á hestana og halda af stað með
nesti, sem skipt var niður og bundið
við söðulsveifar okkar Ásu. Bleikur
gamli fór sér hægt, ég var á eftir hin-
um með stóra hríslu og danglaði í
hann, en hann gerði ekki annað en að
slá taglinu og hrista hausinn. Þetta
gerði ekki mikið til, því að allir riðu
hægt upp Stórulaugabrekkuna. Það
náði okkur fólk úr dalnum; man ég að
Einarsstaðafólkið og læknishjónin á
Breiðumýri, Ingólfur og Oddný, riðu
hratt upp brekkuna og hurfu okkur,
en Aðalgeir á Stórulaugum varð okk-
ur samferða og börn hans. Aðalgeir
teymdi lausan hnakkhest.
Og austur yfir heiðina var haldið og
komið niður að Laxárdalnum sunnan
við Ljótsstaði. Alltaf vorum við
Bleikur á eftir. Ég fór af baki og pabbi
líka, hann vildi ekki leggja það á
tryppin að bera sig niður brekkuna,
en er við náðum götunni var aftur
Frásögn Sólveigar Stefánsdóttur frá Öndólfsstöðum
búin til prentunar af dóttur hennar, Báru Sigfúsdóttur.
Heima er bezt 243