Tímarit lögfræðinga - 01.11.1974, Qupperneq 27
arjörð sína og flutti vestur á Breiðabólstað til Hafliða, sem við honum tók,
og þar var hann prestur lengi síðan. En það var að frumkvæði fyrsta bisk-
upsins að Hólum, Jóns Ögmundssonar, sem Þingeyrarklaustur var stofnað,
að margir halda árið 1112, enda segir Björn Þorsteinsson sagnfræðingur í
,,Is!enska þjóðveldinu": ,,Ritun laganna norður á Breiðabólstað sýnir best
orðstír norðlenskra mennta um þessar mundir.“
Freistandi væri, en hér er hvorki staður né stund til þess, að rekja sögu
Breiðabólstaðar í Vestur-Hópi, en hér var löngu síðar annáll ritaður og
fleira, né heldur að geta afkomenda Hafliða Mássonar, er varð kynsæll
maður. En svo mikið varð fall Breiðabólstaðar sem höfðingjaseturs, að
rúmum tuttugu árum eftir fall Hafliða Mássonar árið 1130, var dóttir hans,
prestsekkjan Valgerður, orðin einsetukona á Breiðabólstað. Hún átti son,
er lllugi hét, sem drukknaði, þá er hann flutti lím til steinkirkju þeirrar, sem
hann ætlaði að gera að Breiðabólstað f Vestur-Hópi. Þykir mér hlýða að
skiljast eigi svo við þessi ávarpsorð, að minnast eigi þessa atburðar með
nokkrum orðum, vegna höfuðstaðarins Breiðabólstaðar, er gnæfði hátt sem
slíkur á fyrri hluta 12. aldar. Vitna ég í því sambandi orðrétt til þess, sem
Hermann Pálsson segir í bók sinni, „Tólfta öldin“, í kaflanum „Konan á
Breiðabólstað":
„íslensk höfuðból hafa löngum búið við hverful örlög. Á fyrstu áratugum
tólftu aldar er Breiðabólstaður í Vestur-Hópi einhver virðulegasti bær á
öllu íslandi, mikið höfðingjasetur. Þar situr hinn voldugi sonur Grikklands-
farans við mikla reisn, og þar eru landslögin fyrst á bókfell sett. En um
miðja öldina þolir staðurinn hvert áfa'lið eftir annað. Presturinn fellur frá
árið 1150, og síðan stórhuga sonur hans, sem ætlar sér að reisa eitthvert
veglegasta guðshús á landinu, úr ævarandi steini Vestur-Hóps. Ef hann hefði
ekki drukknað í þessari för og hefði honum auðnast að reisa þetta hús hefði
byggingarsaga Islands orðið með öðrum hætti en raun ber vitni um. Þá
hefði þess skammt orðið að bíða að biskupsstólar, klaustur og stórbýli kæmu
sér upp kirkjum og öðrum húsum úr steini. En slíkt átti ekki fyrir Breiða-
bólstað að liggja. Steinlímið sökk niður á hafsbotn og með því umbóta-
maðurinn lllugi Ingimundarson, og það helsta, sem minnir oss á hverful örlög
Breiðabólstaðar um miðja tólftu öld er andlát prestsins þar, drukknun sonar
hans og einvera ekkju hans árið 1154.“
En til þess erum vér nú komin saman hér að minnast þess, er reisn
Breiðabólstaðar var mest i sögum og Hafliði goðorðsmaður var gestgjafi
laganefndarinnar miklu, sem vann afrekið að Breiðabólstað veturinn 1117
—1118. Þá hefur verið gestkvæmt hér, og hinir fróðustu menn, lagasmiðir
og lögmenn, er þá voru í nefndinni og kunnu gildandi lög utan að, þegið
beina hér og borið saman ráð sín með þeim árangri, sem mun í minnum
hafður, meðan island er byggt.
Ég viðurkenni, að okkur lögmönnum var mikill vandi á höndum að reisa
minnisvarða í tilefni þessa atburðar. Við völdum þá leið, að varðinn skyldi
vera stuðlaþergssteinn, áletraður, ættaður úr Gnúpverjahreppi, svo að eigi
hallaðist á milli landshluta og til þess að undirstrika það, að varðinn sé ekki
reistur fyrir Norðlendinga eða Húnvetninga eina, heldur sem gjöf til þjóð-
arinnar allrar, enda eru gefendurnir, starfandi lögmenn á íslandi, nokkuð á
annað hundrað að tölu, ættaðir úr öllum landshlutum. Fjórir minni steinar
153