Vesturland

Árgangur

Vesturland - 24.12.1963, Blaðsíða 3

Vesturland - 24.12.1963, Blaðsíða 3
Jólin „Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði í kringum þá.“ Lúkas 2,9. Enn þá einu sinni koma blessuð jólin til okkar inn í myrkurhaf skammdegisins. Þau eru alltaf Ijóssins hátíð. Þau eru það ekki einungis vegna þess, að þá keppast allir við að hafa sem bjartast í kringum sig og leitast við að prýða heimilin sín eftir því sem föng eru til. Þar er líka einhver alveg sérstök birta, sem fylgir jólunum. Það er rétt eins og gamla, fallega jólasagan, sem við lærðum fyrst sem lítil börn, sé sí og æ að endur- taka sig á sérliverjum jólum. Þar voru þessar ógleymanlegu setningar: „Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins Ijómaði í kringum þá.“ Mikið gat barnshugurinn orðið hrifinn af að heyra þessi orð lesin og hugsa um þau. En sem betur fer endist barnshugarfarið mörgum svo fram á efri árin, að þeir skilja, að gamla, fallega sagan er annað og meira en falleg helgisögn. Hún er raunveruleikinn sjálfur, á sér enn í dag hlið- stæður á þúsundum heimila víðsvegar um hinn kristna heim, þar sem auðmjúk og biðjandi mannssál leitar samfélags við frelsara sinn og Drottinn. Það er gömul reynsla, en þó sífellt ný, sem bergmálar í þessum orðum skáldsins: Ó, Jesú barn, þú kemur nú í nótt, og nálægð þína ég í hjarta finn. Þú kemur enn, þú kemur undrafljótt í kotin jafnt og hallir fer þú inn.“ Þannig eru jólin. Þau færa okkur nær því helga og háa, nær því, sem gott er, fagurt og göfugt, færa okkur nær Jesú Kristi sjálfum. Þau eru okkur eins konar lykill að þeim leyndardómi, sem fólginn er í fyrirheitinu, sem hann gaf. „Sjá, ég er með ykkur alla daga allt til enda veraldar- innar.“ Sannarlega er hann alla daga nálægur okkur öllum, bræðrum sínum og systrum hér á jörð. 1 háreysti og þys hins daglega lífs vill það falla í gleymsku fyrir okkur. En á jólunum hljóðnar þysinn um stund. Og þegar hljóðlátur helgiblær fæðingarhátíðar Krists orkar á hugi okkar, þá verðum við ríkari en endranær af því hugarfari, sem hann átti í svo ríkum mæli, þeirri löngum að gefa og gleðja aðra, vera öllum góðir. Það væri óvenjulega kaldrifjaður maður, sem ekki reyndi að leggja til hliðar skapbresti sína og annmarka rétt um jólin, en umgangast meðbræður Séra Jón Ólafsson sína með góðvild og hlýlegu viðmóti. Þannig færa jólin okkur nær Iionum, sem þau eru helguð. Þau eru hátíð Jesú Krists, ekki einungis vegna þess að þau eru haldin til minningar um fæðingu hans, heldur einnig vegna þess að þau gera okkur ofur- lítið betri og sannari lærsveina hans heldur en við erum flesta aðra daga. Jólaguðspjallið segir frá því, að hirðarnir hafi farið rakleiðis til Betle- hem og hafi fundið þar litla sveininn í jötunni og foreldra hans. „Og þeir sneru aftur og vegsömuðu og lofuðu Guð fyrir allt það, sem þeir höfðu heyrt og séð.“ Vafalaust hafa áhrifin, sem þeir urðu fyrir á hinum fyrstu jólum orðið örlagarík fyrir þá og orðið varanleg, enzt þeim alla ævina upp frá því. En er það ekki einmitt vandinn mesti að geta geynit hugblæ jólanna og átt hann inn við hjartaræturnar, til að breiða birtu og hlýju á alla aðra daga ársins. Við megum ekki við því að missa Ijós jólanna úr hugum okkar. Við þurfum að eiga það alla daga. Til þess gaf Guð okkur Jesú að hann yrði Ijósið, sem lýsti okkur mönnunum alla daga, í öllum örlagaveðrum. Hvernig ætli að heimurinn væri, ef Jesú hefði aldrei fæðst? Þeirri spurningu getum við ekki svarað, en eitt er víst, að mikið lifandi skelfing væri líf okkar snautt af mörgu því dýrmætasta, ef við ættum hann ekki. En það er annað, sem við skulum leiða hugann að líka. Hvernig gæti líf okkar mannanna orðið, ef við gætum varðveitt hugblæ jólanna svo vel, að hann fylgdi okkur og setti sinn svip á alla breytni okkar, orð og athafnir allan ársins hring? Þegar við snúum aftur til hversdagsleikans að loknum jólum, þá er það vandinn mesti, sem allt veldur á, að varðveita áhrif jólanna, snertinguna af heilagri bróðurhendi Krists. Þar er sú leiðarstjarna, sem ekkert örlaga- myrkur getur varpað skugga á. 1 Jesú nafni gleðileg jól!

x

Vesturland

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vesturland
https://timarit.is/publication/633

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.