Fréttablaðið - 20.02.2010, Qupperneq 96
60 20. febrúar 2010 LAUGARDAGUR
KÖRFUBOLTI Heather Ezell hjá
Haukum og Kristi Smith hjá
Keflavík verða í aðalhlutverkum
í Laugardalshöllinni í dag þegar
lið þeirra mætast í úrslitaleik
Subway-bikars kvenna.
Það vita kannski færri að þær
spiluðu báðar með háskólaliðum í
Iowa-ríki og eru því hvort tveggja
búnar að þekkjast lengi sem og
mætast oft í leik á milli tveggja
erkifjenda. Heather spilaði fyrir
Iowa State-skólann en Kristi lék
fyrir Iowa-skólann.
„Við vorum erkifjendur í
háskólaboltanum í Bandaríkjun-
um og svo komum við báðar til
Íslands og erum eiginlega aftur
í sömu kringumstæðum. Þetta
er bara gaman og við erum mjög
góðar vinkonur utan vallar. Við
erum búnar að þekkjast í langan
tíma og það er gaman að vita af
henni hérna á Íslandi líka,“ segir
Heather.
„Já, við vorum erkifjendur í
háskóla. Hún er góður leikmaður
og var í góðum skóla alveg eins
og ég. Það er mjög skemmtileg til-
viljun að við skyldum báðar enda
hér á Íslandi,“ segir Kristi.
Heather var í sigurliði í þrem-
ur af fjórum leikjum skóla þeirra
en Kristi skoraði aðeins meira í
innbyrðisleikjunum fjórum eða
12,5 stig á móti 11,0 stigum hjá
Heather. Heather var hins vegar
með fleiri fráköst og fleiri stoð-
sendingar.
„Hún hefur kannski smá for-
skot af því að hún vann síðasta
leikinn en ég hef unnið fleiri
leiki heilt yfir,“ segir Heather
og Kristi tekur undir það. „Hún
vann fleiri leiki en ég endaði á því
að vinna síðasta leikinn,“ segir
Kristi en hún hefur síðan unnið
báða leiki þeirra á Íslandi og er
því er komin með þrjá sigra í röð
á móti Heather.
Kristi er með 23,5 stig að með-
altali í tveimur sigurleikjum á
móti Haukum en Heather hefur
skorað 25,5 stig og gefið 4,0 stoð-
sendingar að meðaltali. Kristi
skorar yfir meðaltali sínu á móti
Heather en Heather er hins vegar
nokkuð undir sínu meðaltali í inn-
byrðisleikjum á móti Kristi. Það
er ljóst að það þarf að breytast
ætli Haukarnir að vinna í dag.
„Við gerum margt fyrir okkar
lið og erum mikilvægar í að koma
hlutunum af stað. Við vitum líka
að við þurfum að spila okkar
besta leik til þess að liðin okkar
vinni. Við skiljum okkar hlut-
verk og við gerum okkar besta í
að koma öllu af stað og öllum leik-
mönnum okkar liða inn í leikinn,“
segir Heather.
Kristi ætlar ekki að láta leik-
inn snúast bara um sig og Heath-
er. „Við ætlum að reyna að stoppa
Heather en megum ekki gleyma
hinum leikmönnunum. Það eru
margar í þeirra liði sem geta
skorað og við þurfum bara að
leggja áherslu á að stoppa þær
allar,“ segir Kristi. - óój
Bandarísku leikmenn kvennaliða Hauka og Keflavíkur hafa marga hildina háð:
Góðar vinkonur utan vallar
MARÍN OG HEATHER Marín Rós Karlsdóttir, annar fyrirliða Keflavíkur, sést hér
með bikarinn ásamt Haukakonunni Heather Ezell. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
BÚIN AÐ VINNA ÞRJÁ Í RÖÐ Kristi Smith
hefur gengið vel í síðustu leikjum sínum
á móti Heather Ezell. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN
KÖRFUBOLTI Það hefur sjaldan verið
erfiðara að spá fyrir um bikarúr-
slitaleik karla en þegar Grindavík
og Snæfell mætast í Laugardals-
höllinni klukkan 16.00 í dag. Liðin
eru jöfn í deildinni og innbyrðis-
viðureign liðanna fór í framleng-
ingu. Það er því von á dramatík.
Grindvíkingar unnu bikarinn
síðast fyrir fjórum árum en þetta
er í fyrsta sinn sem Friðrik Ragn-
arsson kemur liðinu í Höllina.
„Að mínu mati eru þessi lið nán-
ast hnífjöfn að getu. Þetta eru gríð-
arlega jöfn, vel mönnuð og góð lið.
Þetta er því bara spurning um hug-
arfarið og að langa aðeins meira,“
segir Friðrik Ragnarsson, þjálfari
Grindavíkur, en hann hefur sex
sinnum orðið bikarmeistari, þar
af fimm sinnum sem leikmaður.
Grindvíkingar hafa glímt við
meiðsli í allan vetur og Friðrik
talaði um það á blaðamannafundi
fyrir leikinn að liðið myndi líka
tefla fram fullmönnuðu liði í fyrsta
sinn í Höllinni í dag.
„Við höfum alltaf verið að spila
leiki þar sem hefur vantað einn
eða tvo menn. Við höfum fengið
aðra til þess að taka meiri ábyrgð
í staðinn. Við tókum þá ákvörðun
að elta ekki önnur lið í því að bæta
við sig útlendingi,“ segir Friðrik.
„Við erum að njóta þess að í þess-
um meiðslum leikmanna höfum við
fengið leikmenn eins og Ólaf Ólafs-
son til þess að stíga fram. Hann
er búinn að spila eins og bosman-
ígildi. Ég held að við höfum tekið
réttan pól í hæðina,“ segir Friðrik
en Ólafur átti meðal annars frá-
bæra innkomu í fyrri leik liðanna
sem Grindavík vann með einu stigi
eftir framlengingu.
Friðrik hefur ekki áhyggjur
af „meiddu“ mönnunum en þeir
Arnar Freyr Jónsson, Brenton
Birmingham og Þorleifur Ólafs-
son hafa misst marga leiki í vetur.
„Arnar Freyr var ristarbrotinn
og frá í fimm vikur og Brenton
var frá í mánuð og auðvitað vant-
ar eitthvað upp á leikæfingu hjá
þeim. Ég veit bara að þegar kemur
í svona leik þá taka menn eins og
Brenton og Lalli [Þorleifur] fram
spariskóna. Þeir mæta bara í þenn-
an leik og geta þá legið alla vikuna
á eftir, mér er alveg sama um það,“
segir Friðrik.
Friðrik er einn af þeim sigur-
sælustu í sögu bikarúrslitaleiks
karla og nú kemur hann í fyrsta
sinn í Höllina með félaginu sem
hefur aldrei tapað. „Það er ótrú-
leg saga að Grindavík sé 4-0 í bik-
arúrslitaleik og við ætlum ekki að
breyta því. Við ætlum að mæta og
gefa allt í þetta. Ég er bjartsýnn
á það að það fari vel fyrir okkur,“
segir Friðrik.
Snæfellingar urðu bikarmeistar-
ar fyrir tveimur árum og unnu þá
sinn fyrsta stóra titil. Stærsti hluti
liðsins í dag fékk gullið um hálsinn
fyrir 24 mánuðum.
„Mér heyrist að nánast allir sem
vettlingi geta valdið í Hólminum
séu á leiðinni á leikinn. Það er
mjög góð stemning í bænum og það
er sama hvert maður fer, í skólann,
í búðina eða í sund, það eru allir
að fylgjast með okkur,“ segir Ingi
Þór Steinþórsson, þjálfari Snæ-
fells. Þótt flestir leikmanna hans
hafa orðið bikarmeistarar er önnur
saga að segja af þjálfaranum.
„Þetta er eitt af þeim verkefnum
sem ég á eftir að klára á mínum
metnaðarfulla þjálfaraferli. Það
væri frábært ef að ég myndi klára
það með Snæfelli. Ég náði ekki
að klára Norðurlandameistaratit-
il fyrr en síðasta vor og það var
virkilega sætt að klára svona verk-
efni sem maður er búinn að bíða
lengi eftir,“ segir Ingi og eitt tapa
hans var á móti Friðriki Ragnars-
syni þegar þeir þjálfuðu lið KR og
Njarðvíkur árið 2002.
Snæfellingar komust í Höllina
eftir sannfærandi sigur í Kefla-
vík þar sem þeir slátruðu heima-
mönnum í Sláturhúsinu. „Ég held
að sárafáir hafi átt von á því að
við myndum vinna Keflavík í
þessum tveimur leikjum. Þar sem
við unnum deildarleikinn svona
stórt þá held ég að allir hafi reikn-
að með því að okkur yrði slátrað í
Keflavík,“ segir Ingi.
Snæfell er eitt þeirra lið sem
bættu við sig erlendum leikmanni
og þrátt fyrir frábæran sigur í
fyrsta leik Martins Berki þá segir
Ingi Þór að liðið sé enn að stilla sig
saman. „Við vorum ólíkir okkur
sjálfum í síðustu tveimur leikjum
og við höfum notað síðustu viku til
þess að finna jafnvægið í liðinu og
stilla saman liðið. Við erum í raun-
inni með tvo nýja leikmenn, Pálma
og Martin Berki, og við erum að
setja upp hlutverk manna upp á
nýtt,“ segir Ingi.
„Grindavík er með gott körfu-
boltalið og er vel þjálfað lið. Þeir
hafa mikla hefð í kringum sig og
við þurfum að eiga algjöran topp-
leik til þess að vinna þá,“ segir
Ingi og hann veit eins og aðrir að
liðin eru mjög jöfn.
„Þessi lið gætu ekki verið á jafn-
ari róli í deildinni. Þetta er bara
leikur þar sem bæði lið eiga jafna
möguleika og allir eru sammála
því,“ segir Ingi. ooj@frettabladid.is
Hundrað prósent árangur í Höllinni að veði
Grindavík og Snæfell mætast í dag í Laugardalshöllinni í úrslitaleik Subway-bikars karla í körfubolta. Grindavík hefur unnið alla fjóra
bikarúrslitaleiki sína til þessa en Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, er hins vegar enn að bíða eftir fyrsta gullinu sínu.
MÆTTUST LÍKA FYRIR ÁTTA ÁRUM Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur, og Ingi
Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, með bikarinn sem keppt er um í dag. Þeir
mættust einnig með liðin sín árið 2002 og þá höfðu lærisveinar Friðriks í Njarðvík
betur á móti KR-liðinu hans Inga Þórs. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON
Vegleg og aukin íþróttaumfjöllun
í Fréttablaðinu mánudaga
Íþróttahelgin gerð
upp í Fréttablaðinu
Allt sem þú þarft...