Sameiningin - 01.09.1950, Blaðsíða 18
128
Sameiningin
Þegar kvöldaði að, fór hópurinn frá Winnipeg heim.
Seinna um kvöldið buðu Paines hjónin heim til sín nokkru
af starfsfólki heilsuhælisins. Þar var mikið sungið og glatt
á hjalla.
Hraðskeyti, aðrar kveðjur, blóm og aðrar gjafir bárust
að víðsvegar.
Ástvinahópurinn sérstaki hélt kyrru fyrir þangað til
á mánudag. Sá tími var vel notaður. Systkinahópurinn í
heild hafði ekki komið saman í 15 ár. Mikið var skrafað,
gamlar endurminningar fengu nýtt líf; stundirnar ómuðu
af hjartfólginni gleði. Á laugardaginn átti Guðrún dóttir
okkar afmæli. Þetta var sæludagur fyrir hana. Þegar ég
kom, um morguninn, inn í stofuna þar sem hljóðfærið er,
heyrði ég glymjandi söng. Allur hópurinn var þar að syngja
íslenzka sálma. Algjörlega var það af eigin hvöt. Við höfð-
um ekki .nefnt það. Þau sungu fjölda íslenzkra sálma, svo
skara af íslenzkum ljóðum og þá enska söngva. Jafnvel
tengdadóttir okkar frá Vancouver tók nokkurn þátt í ís-
lenzka söngnum, og Dr. Paine kom með fiðluna sína og
aðstoðaði bæði við íslenzka og enska sönginn. Þegar ég
hlýddi á þetta, fanst mér, ísland vera þar hjá mér, með
þau dásamlegu verðmæti, sem það hefir eignast og ræktað
á vegferð sinni. Þetta alt færði mér unað.
Má vera, að frjóangarnir, sem vér leitumst við að vökva,
beri nokkurn ávöxt.
Á sunnudaginn, 1. júlí, var guðsþjónusta haldin í
Brúar-kirkju, í Argylebygð, þar sem séra Eric þjónar. Hann
mæltist til þess, að ég kæmi þangað og veitti sér nokkra
hjálp; en ég var ekki viss um, að af því gæti orðið; en
börnin voru öll með því. Þar átti að vera ferming og altaris-
ganga. Við fórum, ég tók nokkurn þátt í guðsþjónustunni,
og við vorum öll til altaris. Það var dýrðleg stund. Börnin
voru á því, að þar hefði hátíð þessi náð hámarki sínu. Alt
voru þetta unaðsstundir, og ekkert skygði á ljóma þeirra.
Á engan hátt get ég hugsað mér, að þær hefðu getað verið
betri. Guð blessi börnin okkar og aðra góða vini.
Þannig er saga mín.
Rúnólfur Marteinsson