Morgunblaðið - 30.09.2009, Blaðsíða 17
Daglegt líf 17
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 30. SEPTEMBER 2009
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur
khk@mbl.is
Í
sland er stórkostlegt land. Hér er allt
sem til þarf til að byggja upp gott
samfélag. Þið eigið að nota gjafirnar
sem ykkur hafa verið gefnar og nýta
sköpunarkraftinn í fólkinu sem býr
hérna. Þið þurfið ekki að ganga í neitt
bandalag til að lifa af kreppuna. Sjálfstæði
ykkar er það síðasta sem þið eigið að láta
frá ykkur,“ segir Garry Raven, Ojibway-
frumbyggi frá Kanada, sem er kominn hing-
að til lands til að miðla af reynslu sinni sem
sáttasemjari. Hann verður með erindi á ráð-
stefnu Sáttar sem hefst á fimmtudaginn en
um helgina ætlar hann að vera með tvo fyr-
irlestra sem eru opnir öllum.
Gerir heildina sterkari
„Ég ætla meðal annars að kynna þá aðferð
sem ég hef notast mikið við og ég kalla trún-
aðarhring (Sharing Circle). Þetta gengur út
á það að ég sest niður með því fólki sem er
að leita sátta og bið það að raða sér í hring.
Hver einstaklingur í hringnum fær tækifæri
til að tjá sig í ákveðinn tíma um líðan sína og
hvert hann stefnir. Enginn má grípa fram í
og enginn má fara á meðan á þessu stendur.
Þannig átta ég mig á hvað fólkið er að ganga
í gegnum og hvernig hverjum og einum líður
í þeim hópi sem ég vinn með. Fólkið áttar
sig líka betur hvað á öðru. Þetta gerir heild-
ina sterkari, hvort sem það er vinnustaður,
hjónaband, samband foreldra og barna eða
heilt samfélag.“
Hann segir það taka mislangan tíma að ná
sáttum með þessum hætti, stundum er nóg
að hittast í nokkur skipti, stundum þarf að
hittast mjög oft. „Þessu lýkur ekki fyrr en
allir eru sáttir,“ segir Garry sem hefur notað
trúnaðarhringinn mikið til að vinna með
hjónum sem eru ekki sátt sem og fjöl-
skyldum. „Það er ótrúlegt hvað börn og for-
eldrar segja hvert öðru lítið um það hvernig
þeim líður. Og þá er hætta á að foreldrarnir
missi tökin á börnum sínum. Það sama á við
um fyrirtæki. Yfirmenn fyrirtækja átta sig
því miður allt of sjaldan á nauðsyn þess að
starfsmenn séu ánægðir og að þeir fái að
tala sínu máli. Fyrirtæki tapa ótrúlega mikl-
um peningum á því einu að hafa óánægða
starfsmenn. Það þarf að draga fram það
allra besta í hverjum einstaklingi í heildinni.
Það sama á við um samfélög. Ég óttast að
sumir leiðtogar Íslands séu til dæmis ekki í
nógu góðum tengslum við almenning núna í
þessu ástandi sem hér ríkir. Að þeir átti sig
ekki á hversu miklu máli skiptir að tala við
og hlusta á fólkið í landinu.“
Tengslin mega ekki rofna
Undanfarin 25 ár hefur Garry unnið við að
miðla menningu frumbyggja og hann notar
þá þekkingu og reynslu til að vinna með
fólk. Svokallað lækningahjól (Medicine
Wheel) er aldagömul aðferð sem Garry hef-
ur notað til að upplýsa fólk um ábyrgð þess
hvers gagnvart öðru sem og samfélagslega
ábyrgð. Hvernig það þarf að gæta hvert
annars. „Ég bý til táknrænt hjól eða hring
úr 36 steinum og hver og einn þeirra stend-
ur fyrir kennslu í einhverju ákveðnu í lífi
okkar. Hjólið myndar allt æviskeiðið, frá
vöggu til grafar. Á þennan hátt kenni ég
fólki að hverju tímabili í lífinu fylgja skyldur
og ábyrgð. Það þarf að upplýsa fólk um
ábyrgðina sem við berum sem foreldrar,
makar, vinnuveitendur eða hvar sem við er-
um stödd hverju sinni í lífshlaupinu. Fólk
þarf að gæta hvað annars og það skiptir máli
að horfa til menningarinnar, þeirra róta sem
við erum sprottin úr. Við megum ekki slá
slöku við í því að bera áfram milli kynslóða
þau gildi sem skipta máli og tengja okkur
við fortíðina. Ef þessi tengsl rofna þá koma
upp vandamál.“
Ólst upp með Vestur-Íslendingum
Garry var alinn upp með Vestur-
Íslendingum og hefur alla tíð kunnað vel við
þá. „Vesturíslensku krakkarnir sem ég var
með í skóla á sínum tíma voru aldrei að velta
því neitt fyrir sér að ég væri frumbyggi eða
uppnefna mig sem indíáni. Það var ekki fyrr
en ég fór í franskan skóla sem ég fann fyrir
slíku. Faðir minn vann með Vestur-
Íslendingum allt sitt líf, hann verslaði með
fisk sem hann keypti af þeim. Íslendingar og
frumbyggjar hafa alltaf lifað í sátt og sam-
lyndi, þeir lærðu hver af öðrum. Það er svo-
lítið skondið að fyrst kenndum við Íslending-
unum að veiða en þeir urðu fljótt mjög góðir
í því og þurftu þá að kenna okkur síðar meir.
Við unnum líka mikið saman í skógarhöggi,“
segir Garry og bætir við að sumir gömlu
frumbyggjarnir kunni hrafl í íslensku, en
reyndar séu það helst blótsyrði. „Áður en ég
fór hingað í þessa fyrstu ferð mína til Ís-
lands reykti ég gömlu góðu pípuna mína með
nokkrum öldnum Vestur-Íslendingum, vin-
um mínum. Þannig vildi ég þakka fyrir líf
þeirra, blessa þá og þakka fyrir það sem
þeir gerðu með okkur frumbyggjunum.“
Brjálaður hrafn
Garry gerði sér sérstaka ferð norður í
land til að heilsa upp á Hvítserk í Húnaflóa,
hinn tignarlega dranga sem þar rís úr sæ.
„Hvítserkur er hvíti vísundur norðursins, sá
sem gætir þeirrar höfuðáttar. Vísundur er
skepna sem stendur fyrir mikinn andlegan
styrk í menningu okkar frumbyggjanna. Ég
heimsótti Hvítserk við sólarupprás, því sá
tími er tákn nýs upphafs. Ég var með at-
höfn, reykti pípuna mína honum til heiðurs
og til að þakka fyrir gjafir jarðar. Heimsókn
mín til Hvítserks fullkomnar ferðalag mitt til
höfuðáttanna. Ég hef heimsótt Moskvu í
austri, Hawaieyjarnar í suðri og Vancouver í
vestri,“ segir Garry Raven. En hvers vegna
er hann kenndur við hrafn? „Hrafnsnafnið
hefur fylgt fjölskyldu minni kynslóð fram af
kynslóð. Indíánanöfnin gömlu komu þannig
til að fólk var nefnt eftir einhverju lifandi í
náttúrunni, tré, dýri eða jurt. Mitt eðli er
eðli hrafnsins og ég ber ábyrgð á þessum
fugli. Mér ber að tala fyrir hann og verja
hann í einu og öllu, í orði og borði,“ segir
Garry sem ber tíðindi milli heima, rétt eins
og margur krumminn. Hann getur séð fram-
tíðina. „Þegar ég ber slík tíðindi þá segir
fólk að hrafninn sé orðinn brjálaður, enda
eru hrafnar í mínu samfélagi taldir vand-
ræðagemsar,“ segir Garry og hlær og það er
ekki laust við að hlátur hans minni á krunkið
í krumma.
Ber í sér eðli hrafnsins
Hann er heillaður af Íslandi
og vill ekki að Íslendingar
fórni sjálfstæði sínu með því
að ganga í bandalag með öðr-
um þjóðum. Garry Raven er
alvöru indíáni og ætlar að
miðla mörlandanum af
reynslu sinni við að sætta þar
sem sátta er þörf.
Morgunblaðið/Heiddi
Hrafninn Garry Raven er vel tengdur náttúrunni enda er indíánum ætlað að gæta móður jarðar.
Auk erinda sinna sem Garry verður með á
ráðstefnu Sáttar (satt.is) 1.-3. október verður
hann með tvo fyrirlestra sem eru öllum opnir:
Lækningahjólið (Medicine Wheel): SÁÁ-
salurinn í Efstaleiti 7, 4. okt. kl. 13.30-17.00
Trúnaðarhringurinn (Sharing Circle): Nor-
ræna húsið 5. okt. kl. 17.30-20.:00
Ykkur gleðifregn ég flyt;
ferskeytlunnar glæðist von,
út er komið úrvalsrit
eftir Pétur Stefánsson.
Vísuna orti Pétur Stefánsson af
sinni alkunnu hógværð. Auðvitað er
það fagnaðarefni að þessi góðvinur
Vísnahornsins hefur gefið út vísna-
bók. Hann vinnur hjá búsetu- og
stuðningsþjónustu fyrir geðfatlaða
og rennur ágóði af sölu bókarinnar
til Búsetukjarnans. Bókin nefnist
Stefjahnoð og fer ágóðinn í ferða-
sjóð sem nýttur verður til dagsferða
út fyrir bæinn og til annarra gagn-
legra hluta. Formála að bókinni rit-
ar annar góðvinur Vísnahornsins,
Björn Ingólfsson. Hægt er að panta
eintak af bókinni með því að senda
póst á: peturstef@simnet.is. Fyrir
fáeinum dögum orti Pétur:
Engu stjórnað er með glans,
ekkert bætir haginn.
Allt á leið til andskotans
eins og fyrri daginn.
Ólafi Þ. Auðunssyni datt í hug vísa
er hann var staddur við tónlistar-
húsið og sendi Vísnahorninu:
Útá miðin enginn rær
enginn sést að bauki
Þett’ er orðinn líflaus bær
ljótur þar að auki.
VÍSNAHORN pebl@mbl.is
Gleðifregn
og andskoti
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur
Reykjanesbær | Íbúar í Reykjanesbæ gáfu heilsu
og forvörnum sérstakan gaum í liðinni viku, en
þá var heilsu- og forvarnarvika haldin í fyrsta
sinn í bænum. Framkvæmd vikunnar er samstarf
fjölmargra aðila og á sér nokkurn aðdraganda
en á undanförnum þremur árum hefur bæði ver-
ið blásið til forvarnarviku og heilsuviku í sitt-
hvoru lagi með það að markmiði að efla vitund
bæjarbúa um heilsu og forvarnir.
Vikunum var steypt saman á þessu ári, enda
tengsl heilsueflingar og forvarna órjúfanleg.
Sigfús Sigurðsson, landsliðsmaður í handbolta,
kom m.a. inn á það í fyrirlestri sínum „Það er
pláss fyrir okkur öll einhvers staðar“. Hann
sagði þar frá hvernig íþróttaiðkun og vináttunet
innan íþróttahreyfingarinnar hefðu bjargað
honum frá óreglu.
Andleg heilsa sem og líkamleg
Mikil heilsuvakning hefur verið í Reykjanesbæ
að undanförnu. Framboðið af heilsutengdri af-
þreyingu hefur aukist, bæði í formi námskeiða
og aðstöðu í bænum, s.s. íþróttavalla og leik-
svæða. Nýr göngustígur sem liggur meðfram
strandlengjunni frá Gróf að Stapa hefur verið
hvati fyrir marga til þess að labba meira, hjóla
meira eða drífa sig út að skokka. Í heilsu- og for-
varnarviku minnti starfsfólk Bókasafns Reykja-
nesbæjar stígfarendur á að lestur er sálinni það
sem hreyfing er líkamanum með ljóðum, fróðleik
og textabrotum sem fest hafði verið víðsvegar á
leiðinni. Þá minnti starfsfólk Bjargarinnar, Geð-
ræktarmiðstöðvar Suðurnesja, á mikilvægi þess
að rækta geðheilsuna, bæði með geðrækt-
argöngu og málþingi um geðheilsu. Flestallar
líkamsræktarstöðvar og námskeiðshaldarar
kynntu starfsemi sína og buðu fría prufutíma,
ásamt því að ýmsar íþróttagreinar voru kynntar.
og fólki var gefinn kostur á að mæla heilbrigði
sitt. Skólamatur, sem sér um matseldina í öllum
grunnskólum bæjarins, lagði áherslu á hollt fæði
í vikunni og slíkt gerðu leikskólarnir einnig. Ým-
is íþróttamót voru háð, fjölskyldan fékk frítt í
sund á lokadegi vikunnar og hlaupatúttan Guð-
björg Jónsdóttir leiddi fjölskylduskokk um bæ-
inn.
Heilsan sett í forgang
Fyrstu heilsu- og
forvarnarviku lokið
Ljósmynd/Dagný
Upp Mikil heilsuvakning hefur verið í Reykjanesbæ – bæði hvað varðar líkamlega heilsu og andlega.