Saga - 1980, Síða 380
366
RITFREGNIR
í mannafla eða búnaði, heldur fyrst og fremst á því, hvernig þeir
beittu liðsafla sínum, einkum skriðdrekaherfylkjum og flugher. Það
er ljóst, að í byrjun stríðsins hafði þýzki herinn yfirburði yfir
andstæðinga sína, hvað varðar frumleik og áræði í skipulagningu
og hernaðaraðgerðum. í samanburði við þýzka herinn voru herir
Pólverja og Frakka staðnaðir, og hafi þau gömlu sannindi einhvern
tíma átt við, að herforingjar séu haldnir þeirri áráttu að búa sig
jafnan undir að heyja síðustu styrjöld upp á nýtt, giltu þau um
pólska og franska herinn. Nægir í því sambandi að minna á það
hlutverk, sem Pólverjar ætluðu riddaraliði sínu, og óbilandi trú
Frakka á varnargildi Maginotlínunnar, sem var eins konar skot-
grafir í æðra veldi.
Itarleg grein er gerð fyrir undirbúningi Þjóðverja að innrásinni
í vestri. Hún var í upphafi fyrirhuguð þegar fyrir árslok 1939, en
ýmis atvik urðu til þess að skjóta henni á frest. Sá dráttur, sem varð
í þessu efni, varð Þjóðverjum vafalítið til happs, því að hann
réð úrslitum um, að ný og djörf hernaðaráætlun var að lokum lögð
til grundvallar innrásinni, áætlun, sem svo sannarlega átti eftir
að sanna gildi sitt með ótvíræðari hætti en jafnvel upphafsmann
hennar hafði órað fyrir. Að sama skapi sem sigur Þjóðverja á
vesturvígstöðvunum var skjótur og alger, var upplausnin og ringul-
reiðin í herbúðum bandamanna mikil. Þó hefði jafnvel getað farið
enn verr, því að greinilegt er af frásögn Wernicks að yfirherstjórn
Þjóðverja urðu á mistök í sambandi við lokasókn sína að brezka
hemum við Dunkerque. Það hik, sem Þjóðverjar sýndu þarna,
átti mikinn þátt í, að Bretum tókst að búast til varnar og síðan
koma meginhluta hers síns yfir Ermarsund.
Þótt gangur stríðsins í Evrópu sé aðalefni bókarinnar, eins og
áður var rakið, ver höfundur nokkru rými til að rekja viðhorf
Bandaríkjamanna til stríðsins, bæði stjórnvalda og almennings.
Fer vel á því með hliðsjón af hlutdeild Bandaríkjanna að stríðinu
síðar. Er ljóst af umfjöllun höfundar, að F. D. Roosevelt átti
framan af örðugt um vik að beita sér til stuðnings Bretum vegna
styrkleika einangrunarsinna í Bandaríkjunum. Þetta fór þó að
breytast, þegar líða tók á árið 1940.
I heild er bók Roberts Wernicks um leifturstríðið læsileg og
kemst hann mun betur frá verki sínu en Robert T. Elson í riti sínu
um aðdraganda stríðsins. Þetta ræðst ef til vill af því, að viðfangs-
efni Wernicks er annars eðlis, mun afmarkaðra og heildstæðara,
atburðasaga fyrst og fremst, þar sem minna reynir á ályktanir og
túlkanir af pólitískum og samfélagslegum toga. Sú aðferð að
tengja frásögnina á stundum ákveðnum einstaklingum og hlutdeild
þeirra sérstaklega í því, sem er að gerast, nýtur sín að ýmsu leyti