Morgunblaðið

Dagsetning
  • fyrri mánuðurjanúar 2010næsti mánuður
    SuÞrMiFiLa
    272829303112
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
    31123456

Morgunblaðið - 04.01.2010, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 04.01.2010, Blaðsíða 25
Minningar 25 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 4. JANÚAR 2010 ✝ Ástkær móðir, tengdamóðir, amma, langamma og langalangamma, ÁSTA JÓNSDÓTTIR, sem lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni sunnudaginn 20. desember, verður jarðsungin frá Laugarnes- kirkju þriðjudaginn 5. janúar kl. 15.00. Óskar Sigurðsson, Brynja Kristjánsson, Hörður Sigurðsson, Svala Birgisdóttir, Gunnar Sigurðsson, Anne-Marie Sigurðsson, Marta Guðrún Sigurðardóttir, Magnús Sigsteinsson, Jón Sigurðsson, Margrét Einarsdóttir, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabarn. að hann vildi reyna sig í frétta- mennsku. Hann var 28 ára glæsi- menni með blik í auga, vel menntað- ur, hógvær og kurteis. Hann hafði allt til að bera. Hrafnkell var sá fyrsti sem ég réð til starfa eftir að ég varð íþróttastjóri á Ríkisútvarpinu. Í ljós kom að hann bjó yfir óvenju mikilli þekkingu á íþróttum og íþróttasögu. Hann var sérlega hæfileikaríkur, tók starfið fumlausum tökum, óx með hverju verki og varð hvers manns hugljúfi. Þegar ég hætti föstum störfum á Ríkisútvarpinu sumarið 2007 bauðst Hrafnkatli starf íþróttastjóra. Hann hafði áhyggjur af atburðarásinni og tók fyrst við eftir að við höfðum rætt málið í mikilli hreinskilni. Við unnum næstu 15 mánuði mikið og náið saman við undirbúning, skipulagningu og út- sendingar Ólympíuleikanna í Peking. Útsendingar sjónvarpsins frá Peking voru meiri og fjölbreyttari en áður. Skipulag dagskrár, útsendinga og vinnu var flóknara en nokkru sinni. Þetta starf gekk hnökralaust og glæsilega. Hrafnkell var skemmtileg- ur. Hann sagði sögur, renndi í fer- skeytlur og limrur, gat líka búið þær til. Hann var svo mikill húmoristi að maður gat fengið harðsperrur í mag- ann. Honum lét sérlega vel að herma eftir. Hann tók Bjarna Fel betur en aðrir og hálftíma þáttur í rútunni frá Álfsnesi til Reykjavíkur um árið gleymist seint. Eftir valda kafla úr eftirminnilegum fótboltaleikjum lýsti kappinn aksturslagi bílstjórans um stræti og torg eftir öllum kúnstarinn- ar reglum. Keli var líka söngvinn og hafði góða rödd. Hann ætlaði að koma í karlakórinn, það var ekki spurning hvort, heldur bara hvenær. Þegar okkur leiddist þokan í Peking töldum við í íslensk einsöngs- og kórlög. Við sungum gjarnan ljóðið fagra; Í fjar- lægð, sem kappinn kunni frá orði til orðs. Síðustu orðin í ljóði eru áleitin nú: „Þú fagra minning eftir skildir eina, sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.“ Samstarf, samvera og sameiginleg áhugamál leiddu til góðrar vináttu. Hrafnkell var virkur félagi í Stang- veiðiklúbbi Rúv og haustið 2008 upp- lifðum við saman í Tungufljóti stærstu ævintýri beggja í sjóbirtings- veiði. Við háfuðum boltafiska hvor fyrir annan. Við ortum vísur og stundum fylgdi hundurinn minn hon- um frekar en mér. Við áttum sameig- inlegt að vera ekki miklir laxveiði- menn, ekki enn. En sjóbirtingur er líka miklu merkilegri fiskur. Andlát Hrafnkels Kristjánssonar er mikil harmafregn, en minning lifir um góðan dreng sem var öðrum hvatning og fyrirmynd. Megi allar góðar vættir styrkja og styðja Guð- ríði og börnin, bróður, foreldra og ástvini alla. Hrafnkell hefur kveðið dyra á nýjum stað. Nú verða ekki vandræði með íþróttalýsingar í efra og þar verður örugglega glatt á hjalla. Kæri vinur, takk fyrir allt og allt. Samúel Örn Erlingsson. Það er með miklum söknuði sem við félagarnir setjumst niður og skrif- um hinstu kveðju um þig, Hrafnkell vinur okkar. Okkur finnst í raun óraunverulegt að skrifa minningar- grein um þig, svo langt fyrir aldur fram ertu tekinn frá okkur. Okkur verður hins vegar hugsað til allra góðu stundanna sem við áttum saman. Þær eru ófáar sumarbústaða- ferðirnar, ferðalögin, körfuboltast- undirnar, spilakvöldin, golfhringirn- ir, fótboltaæfingarnar, sem við áttum saman. Við kynntumst fyrst í gegnum fót- boltann hjá FH þegar við vorum litlir guttar. Þú varst tveimur árum yngri en við og þar af leiðandi vorum við aldrei saman í flokki, ekki fyrr en í meistaraflokki, en samt tókst okkur að bindast ákveðnum vinaböndum snemma. Svo nokkrum árum seinna þegar þú og Gurrý byrjuðuð að vera saman þá varst þú kominn inn í okkar innsta vinahóp. Við áttum ógleyman- legar stundir, þar sem þú varst ávallt hrókur alls fagnaðar. Minnumst við allra fimmaura- brandaranna, „besser wisser“-hátta- lagsins og hvernig þér ávallt tókst að snúa aðstæðum upp í grín. Snemma sýndir þú mikla takta á knattspyrnu- og handboltavellinum, margfaldur Íslandsmeistari í hand- og fótbolta. Þið frændur, þú og Orri voruð með mestu keppnismönnum okkar tíma í FH. FH-ingur varstu í húð og hár og sannur Liverpool aðdá- andi. Ósjaldan áttum við líflegar um- ræður um fótboltann, en þú varst þó vel að þér um allar íþróttir. Það má með sanni segja að þú hafir fengið að starfa við þitt draumastarf. Við minnumst allra sumarbústaða- ferðanna með öllum vinahópnum, Trivial Pursuit-keppnanna, þar sem stelpurnar áttu ekki séns því við vor- um með þig í liði. Var aðalmálið að vera með þér í liði þar sem það bókaði hagstæð úrslit. Einhvern veginn tókst þér að vita og muna allt milli himins og jarðar, hluti sem skiptu máli og aðra sem engu skiptu, að okk- ur fannst. Á ferðalögum gastu þulið upp landamerki, sögur af stöðum, og ef þú þekktir ekki söguna þá hefur þú sennilega skáldað hana upp fyrir okk- ur, víðfróðari mann var varla hægt að finna. Í þessum ferðum fórum við ófá skiptin í göngur, iðulega fékkstu við- urnefnið fjallageitin enda mikill áhugamaður um útivist og útiveru. Við minnumst fjölda stunda í mat- arklúbbnum og fór matargerðarlistin ekki framhjá þér, betri grillara er vart hægt að finna. Síðasti klúbbur var einmitt haldinn heima hjá ykkur Gurrý með indversku þema þar sem þið voruð meira að segja búin að dressa ykkur upp í indverskum stíl. Við minnumst tveggja golfferða, þar sem þið feðgar voruð saman. Þessar ferðir voru ógleymanlegar og alltaf mjög létt yfir mannskapnum, við vorum að leggja drög að annarri slíkri ferð til Spánar. Tókst þér að upplifa draum allra golfara að fara holu í höggi enda meira en liðtækur golfspilari. Við kveðjum þig með söknuði, elsku Hrafnkell, hvíl þú í friði. Okkur langar til að votta Gurrý, Atla, Þóru, Bryndísi, Kristjáni og Ólafi, bróður þínum, okkar innileg- ustu samúð, megi guð styrkja ykkur í sorginni. Hafþór og Róbert. Við Keli kynntumst sem samherjar í unglingalandsliði í knattspyrnu. Það var auðvelt að kynnast honum, jafn- vel fyrir feiminn strák lengst utan af landi því hann bar það óvenjuaugljós- lega með sér að vera hinn mesti öð- lingur sem tók sig ekki of alvarlega. Fljótlega vakti athygli mína að hann vissi allt um íþróttir og skipti engu hvort um var að ræða nöfn, afrek, staði eða ártöl. Kom það mér því ekki á óvart að hann ætti eftir að enda í starfi íþróttafréttamanns, og skila því með einstökum sóma. Vinátta okkar náði aldrei sérlega nánum stalli en það fór alltaf ákaflega vel á með okkur er við rákumst hvor á annan. Ófáir brandarar fuku og einn- ig var hann að hjálpa mér lítillega við ákveðið verkefni, síðustu mánuði. Ekki þurfti að spyrja að því að hann var boðinn og búinn í það, þó að hann hefði engan persónulegan ávinning af. Ég fékk jafnvel á tilfinninguna að hann hefði meiri áhuga á því en ég sjálfur að koma því í höfn. Ég þekki Kela líklega ekki jafn vel og margir aðrir sem skrifa hér, en langar að lýsa minni upplifun af hon- um í fáum línum, sem fyrst og fremst var af knattspyrnumanninum. Góður vinur minn, sem tilkynnti mér að bar- áttunni væri lokið, minnti mig á atvik sem við Keli áttum saman á vellinum, jafnvel þó að við værum mótherjar. Það atvik finnst mér lýsa honum og þeim húmor sem við deildum ágæt- lega. Við mættumst þá í mikilvægum 2. flokks leik í Kaplakrika. Keflvík- ingar byrjuðu með boltann og ég fékk hann strax. Tóku sumir félaga minna andköf, þegar ég sendi hann rakleiðis yfir á vallarhelming FH-inga, beint á mótherja, sem auðvitað var Keli. Þeir klóruðu sér svo nokkrir vel í hausnum þegar Keli sendi hann beint á mig aft- ur. Þetta var þá ákveðið okkar á milli í upphitun, sem smákrydd í tilveruna og er ágætis dæmi um þann kost sem ég tel hafa verið áberandi hjá honum, ekki síst í íþróttafréttamennskunni, að geta blandað saman gamni og al- vöru. Ekkert vantaði upp á baráttuna og sigurviljann í viðkomandi leik, þó svo að við hefðum byrjað hann á þennan hátt. Keli var sannur og dríf- andi baráttujaxl af gamla skólanum, sem hlífði sér ekki og lét vel í sér heyra inni á vellinum, alltaf á þeim nótum sem var samherjunum til hvatningar. Skyldi einhver efast um að Keli hefði leikið knattspyrnu af eldmóði, hjarta og sál fyrir sitt félag, bendi ég viðkomandi á að leita uppi myndband af fyrsta meistaraflokks- marki hans í Kaplakrika og skoða hvernig hann fagnaði því. Sjaldan vakna upp jafn margar spurningar hjá manni um lífið og til- veruna og þegar afbragðsmenn á borð við Kela eru hrifsaðir frá okkur, löngu áður en þeir ná sínum besta aldri. Svona atburðir minna okkur hin á að reyna að gera það besta úr hverjum einasta degi því grunlaus gætum verið að upplifa okkar síðustu stundir. Maður skyldi ekki taka nokkurn einasta hlut sem sjálfgefinn. Fjölskyldu og vinum Kela sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin lifir um góðan dreng. Eysteinn Hauksson. Manni verður orða vant við svip- legt fráfall Hrafnkels Kristjánssonar og fallast hendur. Hvernig getur það gerst að vera grandalaus á ferð og fá skyndilega bíl fljúgandi í gegnum framrúðuna? Þetta er eins og að verða fyrir loftsteini. Mér finnst mér skylt að hripa nokkur orð um einn ljúfasta og skemmtilegasta sam- starfsmann sem ég minnist allt frá því er ég sá um íþróttafréttir Sjón- varpsins 1970-76 og gegndi þá því starfi sem Hrafnkell gegndi þegar kallið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hrafnkell var hógvær hæfileika- maður, til dæmis búinn fágætum hæfileikum til að létta þeim lund sem í kringum hann voru. Ég kom eitt sinn að honum þar sem hann var að leika sér að því hvernig það myndi hljóma ef Bjarni Felixson lýsti leikn- um sem hann var með í klippiborðinu. Ég minnist þess enn að mér varð illt í maganum af hlátri – nokkuð sem kemur sjaldan fyrir mig. Starf íþróttafréttamanna er oft ekki metið að verðleikum en þó er það svo að mínum dómi að það starf er besti skóli sem hægt er að fá í frétta- mennsku. Og það mátti binda miklar vonir við Hrafnkel á vettvangi sjón- varpsins, vonir sem grimm örlög hafa slökkt. En minningin lifir hjá þeim sem nú harma örlög góðs drengs og þakka fyrir að hafa fengið að kynnast honum. Djúpur samúðarhugur margra er nú hjá ástvinum hans sem syrgja og sakna sárt. Guð styrki þá. Ómar Ragnarsson. Kæri Hrafnkell. Hugurinn reikar og minningarnar rifjast upp ein af annarri. Við fjöl- skyldan erum svo lánsöm að hafa átt þig fyrir vin. Fjölskyldan er okkar líf og yndi og alltaf var sama tilhlökk- unin að hitta þig. Ræða um tuðru- spark, golf, veiði eða bara að gera gott þras. Rökfastur og ákveðinn, eins og alfræðiorðabók þegar að spilaleikjum kom. Okkur er sérstaklega minnisstæð heimsóknin til ykkar Gurrýjar til Ala- bama það var einstakt ævintýri. Brosandi út að eyrum í rigningunni á Hockenheim í þýskalandi, í essinu þínu á golfvellinum í Tungudal eða á bökkum Laxár í sumar sem leið, ekki vantaði kraftinn eða áhugann. Minningarnar eru margar og góð- ar. Við biðjum góðan guð að blessa þig Hrafnkell, þú verður alltaf hluti af okkar tilveru sem og fjölskyldan þín sem er okkur svo kær. Við söknum þín óendanlega mikið og munum heiðra minningu þína svo lengi sem við lifum. Elsku Gurrý, Atli og Þóra. Við elskum ykkur af öllu hjarta og biðjum guð og góða vætti að styðja okkur öll í þessari miklu sorg. Haraldur J. Baldursson, Elfa Stefánsdóttir og fjöl- skylda. Hrafnkell Kristjánsson var ein- stakur maður. Þegar ég hóf störf á íþróttadeild RÚV í maí tók Hrafnkell mér opnum örmum. Mér varð strax ljóst að við yrðum ekki bara sam- starfsfélagar heldur einnig vinir. Hann hafði svo hlýja nærveru, alltaf brosandi og hafði yndi af því að segja manni lélega brandara, sem maður gat ekki annað en hlegið af, því þeir voru svo aulalega lítið fyndnir. Keli bar virðingu fyrir mér sem samstarfsmanni frá fyrsta degi, sýndi mér áhuga og lét mig finna að við værum algjörlega jafnir, þó hann væri búinn að vinna í Efstaleitinu fimm eða sex árum lengur en ég sjálf- ur. Ég notaði það líka óspart að leita til Hrafnkels meðan hann var í sum- arfríi, þegar ég þurfti ráðleggingar varðandi eitthvað í vinnunni eða lá eitthvað á hjarta. Hann var bæði fljótur að svara tölvupóstunum og gaf sér góðan tíma að spjalla við mig í símann. Keli var heldur ekki spar á hrósið þegar maður átti það skilið. Eiginleiki sem alltof fáir hafa. Öllum hugmyndum sem ég kom með, tók hann vel og var duglegur við að hjálpa mér við að útfæra þær eða bæta þær. Þó ég hafi aðeins fengið að vinna með þér í sjö mánuði, þá var sá tími mikill skóli og algjör forréttindi. Þú reyndist mér líka afskaplega vel og varst ótrúlega góður vinur. Það var líka alltaf létt í kringum þig og alltaf til í eitthvað djók. Núna um miðjan desember var til dæmis mjög skemmtilegt þegar ég, þú og Hjörtur breyttum öllum stillingum í tölvunni hans Jónatans og fiktuðum í vinnu- símanum hans. Bara af því hann hafði hengt upp stöðuna í ensku úrvals- deildinni í knattspyrnu fyrir framan okkur, og strikað sérstaklega undir Liverpool. Lífið á íþróttadeildinni verður tómlegt án þín, og margt sem mun minna á þig. „Þeir deyja ungir sem guðirnir elska,“ segir einhvers staðar. Það er engin sanngirni eða réttlæti fólgin í þeim orðum og að þú sért farinn frá okkur. En eitt er víst, að það var ekki nokkrum manni illa við þig, Hrafnkell. Þú varst óumdeild- ur maður, allir sem höfðu samskipti við þig, kunnu vel við þig, og það eru góð eftirmæli. Við munum alltaf sakna þín! Gurrí, Atli, Þóra, Óli og aðrir fjöl- skyldumeðlimir. Missir ykkar er mik- ill og svo sár. Guð veri með ykkur á þessum erfiðu tímum. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson. Framan af unglingsárunum vorum við Hrafnkell kunningjar en svo breyttist það þegar við urðum bekkj- arfélagar haustið ’93, þá urðum við vinir. Hrafnkell féll eins og flís við rass inn í þann litla kjarna sem hafði myndast árið áður þegar ég og fleiri hófum brokkgenga ferð okkar til mennta í MR. Flest var ungum mönnum ofar í huga en námið. Við urðum þó fjandi góðir í Trivial Pursu- it og ég gleymi seint hvernig Hrafn- kell gat talið upp sýslur, firði, dali og krummaskuð sem ég hef enn ekki fundið á landakorti, sem og ótrúleg- ustu smáatriði úr heimi íþróttanna. Hrafnkell var athugull, eftirtektar- samur, minnugur og fljótur að hugsa, eiginleikar sem gögnuðust honum í starfi og gerðu hann jafn fyndinn og skemmtilegan og hann var. Hrafn- katli var eðlislæg sú list að fíflast á ábyrgan hátt, án þess að særa nokk- urn mann og réttum megin við sið- ferðislínur. Það var alltaf gaman að hitta Hrafnkel, eftir því sem við elt- umst, þroskuðumst og skyldunum fjölgaði fækkaði að sjálfsögðu skipt- unum sem við strákarnir komumst út að leika, en það liðu þó sjaldnast meira en fimm mínútur þegar því var komið við þangað til við vorum farnir að hlæja eins og smástrákar og oftast hver að öðrum. Ég man alltaf þegar dóttir mín fæddist og ég sendi sms um allar jarðir, þá hringdi Hrafnkell strax í mig og sagði skilurðu núna hvað ég var að meina með að það væri ekki hægt að lýsa þessu. Sem ég játti, þá var Hrafnkell búinn að sitja á fjár- sjóði í mörg ár sem við hinir höfðum engin tól til að skilja. En þá skildi ég hann, af hverju hann var alltaf þess- ari ögn skynsamari en við. Heima biðu kona og börn sem Hrafnkell elskaði heitar en allt annað og setti að sjálfsögðu fremst í röðina. Það fæst seint fullþakkað að kvöldið fyrir slys- ið skyldum við strákarnir allir hafa hist og ég náði að kveðja þig með brosi. Mikið á ég eftir að sakna þín, elsku vinur. Líf þitt var fallegt og það er minningin einnig. Elsku Gurrý, Atli og Þóra, guð geymi ykkur og gefi ykkur styrk Tómas Axel Ragnarsson. Heimsins þegar hjaðnar rós og hjartað klökknar Jesús gefðu mér eilíft ljós sem aldrei slokknar Það er með miklum harmi sem við skrifum þessar línur til minningar um okkar kæra vin Hrafnkel Kristjáns- son. Tilfinningum okkar verður ekki lýst með orðum á blaði. Hugur okkar hvílir hjá fjölskyldu hans. Á hana eru nú lagðar þungar byrðar en við vitum að hún stendur saman sem ein mann- eskja. Hrafnkell var hvers manns hugljúfi og hrókur alls fagnaðar hvar sem hann kom. Glettni hans og glað- værð gerði lífið skemmtilegra fyrir alla sem voru í kringum hann. Hrafnkell og Jón Gunnar kynntust í Menntaskólanum í Reykjavík og urðu fljótt nánir vinir enda með sam- eiginlegan áhuga á fánýtum fróðleik, gamalli rokktónlist og því að skrópa í þýsku. Þrátt fyrir að á stundum hafi liðið langur tími á milli þess sem við hittumst var vináttan engu að síður þess eðlis að það var alltaf eins og við hefðum hist í síðustu frímínútum og tekið í spil. Við vitum að þannig verð- ur það aftur þegar við hittumst á ný. Hrafnkell var lífsglaður maður sem kunni að njóta augnabliksins. Hann var einnig mikill fjölskyldu- maður og brosti sínu breiðasta brosi þegar hann sagði sögur af nýjustu uppgötvunum eða uppátækjum barnanna sinna. Þá var öllum við- stöddum augljóst hversu stoltur af fjölskyldu sinni hann var og hversu dýrmætar allar stundir með Gurrý, Atla og Þóru voru honum. Hrafnkell kunni vel við sig í allri útiveru, fluguveiði, golfi og fjallgöng- um. Við þurftum alltaf að útbúa sér- stakan félagsskap í kringum áhuga- málin okkar. Þannig urðu til veiðifélagið Endur fyrir löngu veidd- um við hvorki fugl né fisk, göngu- klúbburinn Kúkalabbar en meðlimir hans fara ekki hratt yfir heldur ganga í hægðum sínum og svo golfklúbbur- inn Kúlugrill sem slær kúlur og grill- ar svo á eftir. Hann var sérstaklega fróður um allt sem vakti áhuga hans og vissi allt um ólíklegustu hluti. Öll þessi kunnátta gerði það að verkum að hann var sérstaklega erfiður við- ureignar í spurningaleikjum á borð við Trivial Pursuit og alls ekki víst að SJÁ SÍÐU 26

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað: 1. tölublað (04.01.2010)
https://timarit.is/issue/336494

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

1. tölublað (04.01.2010)

Aðgerðir: