SunnudagsMogginn - 20.02.2011, Síða 26
26 20. febrúar 2011
I
lulissat-ísfjörðurinn, sem heimamenn á
Grænlandi kalla Ilulissat Kangerlua, er eitt af
undrum veraldar. Landslagið er engu líkt og
jökulhljóðin stórfengleg þegar ísinn molnar
og steypist í hafið.
Fjörðurinn er fjörutíu kílómetra langur,
um sjö km breiður og 1.200 metra djúpur.
Hann byrjar við Grænlandsjökul og liggur út
í Diskóflóa. Skriðjökullinn, sem nefndur er Sermeq Ku-
jalleq á grænlensku, rennur niður í austurenda fjarð-
arins og skilar af sér mesta jökulruðningi á norðurhveli
jarðar. Hann rennur fram 20-35 metra á dag og skilar af
sér um 20 milljörðum tonna af ís út í fjörðinn á hverju
ári. Ísjakarnir eru allt að 1.000 metra háir og standa um
150 metra upp úr hafinu. Það er tilkomumikil sjón.
Þrýstingur frá skriðjöklinum og sjávarföll gera það að
verkum að ísjakarnir fljóta smám saman út fjörðinn. Í
mynni fjarðarins er hins vegar svo mikill jökulaur að
dýpið er einungis um 300 metrar. Stóru ísjakarnir
stranda því þarna en bráðna og brotna smám saman og
fljóta áfram út í Diskóflóa. Berast ísjakarnir þá fyrst
norður Baffinsflóa með Vesturgrænlandsstraumi og síð-
an suður með kanadísku eyjunum og berast að lokum
með Labradorstraumi út í Atlantshafið. Stærstu ísjak-
arnir hverfa ekki fyrr en þeir ná um það bil 40-45 gráð-
ur norður, sem er sunnan við Bretland og á svipaðri
breiddargráðu og New York.
Sagan segir að einn frægasti ísjaki allra tíma hafi
komið frá Ilulissat, sá sem sökkti áætlunarskipinu Tit-
anic vorið 1912. Þetta hefur aldrei verið formlega stað-
fest en heldur ekki hrakið.
Ilulissat-ísfjörðurinn var tilnefndur á Heims-
minjaskrá UNESCO árið 2004.
Hlýnun jarðar mikið áhyggjuefni
Loftslagsbreytingar eru óvíða ofar á baugi en á Græn-
landi en hlýnun jarðar er samfélaginu þar mikið
áhyggjuefni. Eðli málsins samkvæmt eru vísindamenn
tíðir gestir í Ilulissat. Evrópusambandið og fleiri aðilar
hafa varað sérstaklega við þróuninni og mælst til rót-
tækra aðgerða. Svo sem fram hefur komið bráðnar
Grænlandsjökull hraðar en nokkurn óraði fyrir. Vís-
indamenn telja að jökullinn rýrni nú um 50 rúmkíló-
metra á ári. Það er þrisvar sinnum meira en jöklarnir í
evrópsku Ölpunum. Bráðni allur jökull á Grænlandi er
talið að vatnshæðin í heimshöfunum hækki um sjö
metra.
Bærinn við fjörðinn, Ilulissat, er að vonum vinsæll
áfangastaður ferðamanna. Aðeins tveimur km frá Ilul-
issat er hinn friðsæli Sermermiut-dalur sem opnast út í
hinn ísiþakta fjörð. Suður af Ilulissat-ísfirðinum er ein
elsta byggð á Grænlandi, Ilimanaq, þar sem vinsælt er
að dveljast í kofum.
Ilulissat, sem á íslensku heitir Jakobshöfn, er þriðja
stærsta byggðarlagið á Grænlandi með um 4.500 íbúa.
Það er hluti af sveitarfélaginu Qaasuitsup og þar er að-
setur sveitarstjórnar og helstu þjónustustofnana. Bær-
inn er á miðri vesturströnd landsins og um 200 kíló-
metra norðan við norðurheimskautsbaug. Grænlenska
nafn bæjarins Ilulissat þýðir Ísfjallið. Grænlensk-danski
heimskautafarinn Knud Rasmussen fæddist og ólst upp
í Ilulissat og er þar nú safn um hann og rannsóknir
hans.
Í Ilulissat eru tvö fiskverkunarhús og er einkum
rækja og grálúða verkuð þar. Í hafinu fyrir utan er
einnig mikið af sel, hvölum og þar eru mestu rostunga-
göngur við Grænland. Enda hefur þetta svæði verið
kjörið veiðisvæði í þúsundir ára. Hundasleðar eru enn
notaðir enda eru um 6.000 hundar í bænum. Fyrir utan
fiskveiðar er ferðaþjónusta stöðugt vaxandi atvinnu-
grein.
Hitastig fer niður í -30°C
Á vetrum fer hitastig í Ilulissat allt niður í -30°C (en
hins vegar er mjög þurrt loftslag sem veldur því að
kuldinn verður bærilegur). Að sumri til er hitinn oft um
20-25°C.
Bráðnun íss hefur haft mikil áhrif á lífsafkomu veiði-
mannasamfélagsins á Grænlandi. Líkt og aðrir íbúar
Ilulissat hefur Niels Gundel átt erfitt með að láta enda
ná saman. Í samtali sem birtist á mbl.is fyrir rúmu ári
sagði hann: „Ísinn er ekki jafn þykkur og áður. Það er
ekki hægt að sigla en það er heldur ekki hægt að fara út
á ísinn á hundasleða. Áður fyrr gátum við farið fyrir
norðurenda flóans en það er ekki lengur hægt. Þar sem
sjórinn hefur hlýnað og straumurinn er aðeins sterkari
þá getum við ekki notað ísinn með sama hætti og við
vorum vanir að gera.“
Í stað þess að veiða fer Gundel nú með ferðamenn í
útsýnisferðir á sleða sínum. Er það framtíðin?
Heimildir: Wikipedia og fleiri.