SunnudagsMogginn - 20.02.2011, Side 47

SunnudagsMogginn - 20.02.2011, Side 47
20. febrúar 2011 47 Þ að laumar sér köttur inn fyrir þröskuld með blaðamanni á Lindargötu þegar Guðrún Eva Mínervudóttir opnar útidyrnar og gerir sig heimakominn í stofunni. Rithöfundurinn hef- ur hins vegar hreiðrað um sig við borðstofuborðið með drög að nýrri bók. Í fljótu bragði virðist dæmigert fyrir starfsstéttina að það blasi við rammgerður skjalaskápur í eldhúsinu. En auðvitað er dýpra á fléttunni en það, eins og í bókum höfundarins. „Ég nota hann undir pasta og hrökkbrauð,“ segir Guðrún Eva. „Ég á ekki nóg af skjölum til þess að fylla hann.“ Hún spilar ekki á píanóið í stofunni eða gítarinn við gluggann, en einu sinni lék hún á þverflautu. „Það er hljóðfæri með háan og skæran hljóm, sem hæfir á yngri árum, en eldist ekki endilega með manni,“ segir hún. „Ég skil ekki af hverju ég lærði ekki frekar á selló. Ég æfði mig á þverflautu árum saman, var orðin nógu fær til að spila hvað sem er, en gafst upp á því að vera alltaf að æfa tónstigana fyrir enn eitt stigsprófið – það var svo leiðinlegt. Áhuginn var ekki nógu brennandi til að verða konsertflautuleikari.“ Á veggnum er verk eftir bandarísku listakonuna Roni Horn, áhrifavald í lífi Guðrúnar Evu. „Þetta er kort af Vatnasafninu, sem ég lét ramma inn, því þaðan á ég góðar minningar,“ segir hún. „Ég bjó heilt ár í lista- mannsíbúð á safninu sem Roni hannaði í Stykkishólmi. Ég bjó í þessu ótrúlega húsi, með stórbrotið útsýni og átti þarna fallegan tíma, skrifaði mikið og svo komu margir í heimsókn. Stykkishólmur er stutt frá Reykja- vík, þannig að allir eru til í að skreppa þangað. Þar kynntist ég líka Matta mínum, sem var mikil gæfa.“ – Þú hittir kannski fleiri þar en í Reykjavík? „Nei, mér þykir gott að fara út úr bænum til að vinna, af því að ég á erfitt með að neita mér um samneyti við skemmtilegt fólk. Þess vegna fer ég út í sumarbústað. Heimili mitt er lúxushótel samanborið við þann dásam- lega kofa, sem er ekki alveg veðurheldur. En það er bara til að geta einbeitt sér, þannig að allt skemmtilega fólkið sé ekki að þvælast fyrir manni!“ – Hvar er bústaðurinn? „Á Grímsnesi. Ég tók hann á leigu, fékk ábendingu um hann í gegnum Facebook. Ég leigi hann mjög ódýrt, svo nýta eigendurnir hann einstaka helgi, þá vík ég. Þannig að þetta er draumatilhögun fyrir alla.“ – Ertu þar bara á virkum dögum? „Líka stundum um helgar. Ég fer þegar ég get og nenni – og er mikið þarna. Matti fer yfirleitt með mér og stundum vinkonur mínar, sem vilja taka sér hús- mæðraorlof og þurfa að vinna að einhverjum verk- efnum. Það er gott næði þarna og ekkert netsamband. Það er ekki langt síðan ég uppgötvaði hvað fólk átti við með að „sörfa“ á netinu. Áður þekkti ég bara nokkrar síður og skoðaði þær reglulega, en svo rann ég af stað niður brekkuna og ekki varð við neitt ráðið. Það eru ótrúlegustu hlutir sem ég les og skoða. Það geta farið fjórir klukkutímar í samfellt netráp. En ef ég hef unnið vel í bústaðn- um, get ég sukkað á netinu eins og mér sýnist þegar heim er komið.“ – Ertu þá á Facebook? „Já, en það fer ekki mesti tíminn í það. Ég skoða frekar spennandi og misgáfulega fjölmiðla, eins og Arts & Letters Daily, sniðuga síðu sem safnar á hverjum degi þremur áhugaverðustu greinunum á net- inu, auðvitað að þeirra mati. Og nerve- .com sem býður upp á eintóm skemmtilegheit.“ – Nú hefurðu á samviskunni að vekja áhuga minn á þessum vefmiðlum! „Ég get látið þig fá lista yfir tíu síður, sem myndu rústa lífi þínu!“ segir hún og hlær. – Talarðu um verk í vinnslu? „Já, ég geri það. Ég er ekkert hjátrúarfull að því leyti. Ég tala um verkin og geri ekkert nema græða á því. Oft kemur fólk með athugasemdir og gagnlegar ábend- ingar.“ – Hvað ertu að skrifa um? „Ég er að ljúka við bók sem heitir Allt með kossi vek- ur. Ég á einn og hálfan kafla eftir og geri ráð fyrir að ljúka við fyrstu drögin eftir viku. Þá stefni ég á að hvíla mig á henni áður en ég byrja að laga og endurskrifa.“ – Tvær síðustu bækur þínar, Yosoy og Skaparinn, eru afar ólíkar að uppbyggingu. Á hvaða vegferð ertu sem höfundur? „Yosoy er að margra mati afar margbrotin, margar persónur og flókið plott. En svo voru aðrir sem hrósuðu Skaparanum fyrir að ganga hreint til verks, vera saga sem allir geta skilið sínum skilningi. Hún er með öðum orðum ekki yfirmáta vitsmunaleg. En mér finnst báðar aðferðirnar heillandi, bara ólíkar. Sumar sögur eru ein- faldar, byggjast á næmi og tilfinningum, og nýja sagan beislar það, en hún er líka eins og Yosoy að því leyti að hún leitast við að túlka atburðina í gegnum hugmyndir. Ég er orðin óhrædd við tilfinningasemina og alveg hætt að vera feimin við það sem þykir kvenlegt. Hetja bók- arinnar er eiginlega grátandi allan tím- ann, alveg rosalega grátgjörn.“ Guðrún Eva hlær innilega. „Það er nokkuð, sem mér hefði ein- hvern tíma ekki þótt töff – raunar alveg óhugsandi að bjóða upp á sígrátandi konu og ætlast til að lesandinn hefði samúð með henni. En nú orðið finnst mér það fallegt, naktar tilfinningar og allt blautt. Hún hefur líka oft ríka ástæðu til að gráta, þannig að ég segi bara: Gjör svo vel. Og hún er með kaup- æði, ræður ekkert við sig. En samt er hún stórkostleg! Svo þurfti ég að taka glósur úr tímaritinu Vogue, því hún er sérfræðingur í tískumerkjum.“ – Liggur galdurinn í smáatriðunum? „Það sem sagt er í stórum dráttum vekur sjaldnast áhuga. En ef maður lýsir einhverju nákvæmlega, þá byrjar fólk að sjá það ljóslifandi fyrir sér og trúa að það hafi í einhverjum skilningi átt sér stað. Þegar ótrúlegir atburðir eru annars vegar, eins og í þessari bók, Allt með kossi vekur, þá skiptir öllu máli að fólk geti lifað sig inn í söguna. Til þess þarf frásögnin að vera hversdagsleg og nákvæm.“ Texti Pétur Blöndal pebl@mbl.is Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is Síðasta orðið… Guðrún Eva Mínervudóttir ’ Ég er orðin óhrædd við tilfinninga- semina og alveg hætt að vera feimin við það sem þykir kvenlegt. Svo rann ég af stað niður brekkuna

x

SunnudagsMogginn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.