SunnudagsMogginn - 31.07.2011, Qupperneq 23
31. júlí 2011 23
nægja sínar þjáningar. Jú, reyndar dreymdi mig
um að verða mikill barnasöngvari eins og Robert-
ino. Var sannfærður um að ég hefði jafn góða rödd
og hann. Við Arnþór fórum að spila saman sem
krakkar á píanó og blokkflautu og þegar við
fermdumst keyptum við Farfisa-rafmagnsorgel.
Árið 1966, fjórtán ára gamlir, vorum við beðnir
um að fara hringferð í kringum landið til að safna
peningum fyrir hjálparsjóð æskufólks og á sum-
armánuðum 1966-67 komum við fram á 130 tón-
leikum. Við vöktum feikilega athygli um allt land,
ekki síst vegna þess að við vorum báðir sjón-
daprir. Arnþór sá nánast ekki neitt og ég sá eitt-
hvað, með annað augað brúnt og hitt grátt. Það
má segja að við höfum orðið landsfrægir á þessum
árum. Við vorum hálfgerðar barnastjörnur, sem
ég er svosem ekkert kátur yfir að hafa orðið.“
Var ekki ágætt að vera þekktur? Það gerir
margt þægilegra.
„Jú jú, svosem. En hvað gerir það þægilegra?“
Það er auðveldara að fá verkefni og er fólk
ekki yfirleitt almennilegt við mann?
„Stundum. En ef maður á við fötlun að etja þá
þarf maður að sýna að maður sé miklu betri en sá
ófatlaði. Ég hef oft haldið því fram að barátta fatl-
aðra fyrir mannréttindum sé ekki ósvipuð baráttu
kvenna. Konur eru oft vanmetnar af því að þær
eru konur og fatlaðir eru vanmetnir af því að þeir
eru fatlaðir. Ég er svo heppinn að ég hef yfirleitt
getað aflað mér verkefna og ég stofnaði eigið fyr-
irtæki með konunni af því að enginn vill hafa mig
í vinnu.“
Ertu mjög ákveðinn?
„Ég er hrútur og ef ég þarf á því að halda get ég
sett út hornin en mér finnst alltaf vont að þurfa að
gera það.“
Eyjapistlar urðu sameiningartákn
Svo fóruð þið bræður í menntaskóla, var ekkert
erfitt að verða sér úti um lesefni á blindraletri?
„Við bræðurnir fórum í Menntaskólann í
Reykjavík. Við fengum mikið efni á blindraletri og
ættingjar lásu svo ýmsar skólabækur inn á segul-
bandsspólur fyrir okkur. Björn Sigfússon há-
skólabókavörður og kona hans, Kristín, lásu líka
fyrir okkur efni á spólur. Björn var óskaplega
skemmtilegur og hafði ákaflega gott minni. Þegar
hann var að lesa Íslandssöguna inn á band þá átti
hann til að romsa upp úr sér ýmsum staðreyndum
sem ekki var getið í skólabókum, eins og til dæm-
is um það hversu margar brennur hefðu verið á
Sturlungaöld. Hann las líka Brennu-Njáls sögu
inn á band fyrir okkur. Eitt sinn mætti hann heim
til okkar í vesturbæinn á sunnudegi. Systir okkar
bjó þar með okkur bræðrunum og hún pikkaði í
mig og spurði hvort ég vildi ekki bjóða Birni kaffi.
Þegar Björn gerði hlé á lestrinum sagði ég: „Systir
mín, Guðrún, er að bjóða upp á kaffi og meðlæti.“
Björn svaraði: „Það er vani minn, þá er eg hef les-
ið, að drekka eigi kaffi og vil eg eigi að eg sé van-
inn á þann ósið hér.“
Ég lauk svo stúdentsprófi og fór í lögfræði og á
fyrsta árinu mínu þar varð eldgos í Vestmanna-
eyjum. Þá fór ég ásamt Arnþóri að sjá um þátt á
Ríkisútvarpinu sem hét Eyjapistill. Stefán Jónsson
fréttamaður fékk þá hugmynd að við ættum að sjá
um Eyjapistlana. Hann sagði að umsjónarmenn
þessara þátta yrðu að vera menn sem allir Vest-
mannaeyingar þekktu og gætu talað við. Okkur
var tilkynnt með tveggja daga fyrirvara að við
ættum að gera þessa þætti og svo var okkur hent í
djúpu laugina.
Eyjapistill var nokkurs konar sameiningartákn
Vestmannaeyinga því þar gat fólk sent inn alls
kyns tilkynningar, til dæmis um týnda muni.
Heilu fjölskyldurnar dreifðust og vinir og kunn-
ingjar voru um allt land. Fólk auglýsti hvað eftir
öðru og þá voru engir gemsar og ekkert net, held-
ur náði fólk saman í gegnum Eyjapistil. Lands-
frægar urðu auglýsingar okkar um svarta plast-
poka sem fóru með tilteknu skipi til
Þorlákshafnar og var saknað. Kona auglýsti meðal
annars eftir postulínslampa og skipstjórinn
hringdi til okkar og sagðist hafa reynt að verja
lampann eins og hann gat en brotsjór hefði komið
yfir skipið og lampinn splundraðist. Hann sagðist
geyma brotin ef konan vildi fá þau. Margt í þess-
um þáttum fjallaði um það hversdagslega sem
skiptir fólk samt svo miklu máli, eins og postu-
línslampinn.
Okkur var sagt að vinna við þennan þátt myndi
taka tvo tíma á dag en við þurftum að sækja efni
víða. Bróðir minn var á kafi í háskólanámi en ég
hætti námi því ég sá fram á það að vera ekki af-
burðanemandi og klúðra náminu með stæl. Ég
hélt áfram vinnu við útvarpið. Svo fór ég reyndar
í heimspekideild og var í íslenskum fræðum, sögu
og norsku en lauk aldrei prófi því háskólanám átti
ekki við mig. Ég fór á bólakaf í fjölmiðlun og
starfaði líka mikið í tónlist á þessum árum, sem ég
geri reyndar enn. Nýt þess meðal annars að spila
með góðum vinum á mínu reki úr Eyjum og víð-
ar.“
Orð sem skiptu máli
Þú áttir þátt í stofnun Blindrabókasafns Íslands,
varst um tíma forstöðumaður Hljóðbókagerðar
Blindrafélagsins og frumkvöðull í því að dagblöð
yrðu gerð aðgengileg sjónskertu fólki. Hvernig
gerðist þetta?
„Það er saga á bak við það að ég fór að skipta
mér af hljóðbókum. Þegar ég var ungur maður í
námi í Menntaskólanum í Reykjavík frétti ég að
Eiríkur Hreinn Finnbogason borgarbókavörður
væri byrjaður að lána út hljóðbækur. Ég hafði
samband við hann til að fá slíkar bækur lánaðar.
Hann bauð mér inn á skrifstofu til sín og sagði:
„Þú sem sjóndapur námsmaður hefur áhuga á
bókmenntum. Þér ber skylda til að sjá til þess að
bókum verði miðlað til sjónskerts fólks með þeim
hætti sem því hentar.“ Þessi orð hans brenndu sig
inn í mig. Ég fór að vinna að þessum málum innan
Blindrafélagsins og þar var síðan stofnað Hljóð-
bókasafn í samvinnu við Borgarbókasafnið og það
varð svo grunnurinn að Blindrabókasafni Íslands.
Mér fannst líka nauðsynlegt að blindir og sjón-
skertir hefðu aðgang að dagblöðum. Ég fór ásamt
félögum mínum á fund Morgunblaðsmanna og
áskriftir hófust í október 1995. Morgunblaðið er
eina aðgengilega dagblaðið í tölvutæku formi fyrir
blint og sjónskert fólk því aðrir blaðaútgefendur
hafa ekki sinnt margítrekaðri beiðni um slíkt.“
Við hvað starfarðu dagsdaglega?
„Í dag rek ég ásamt konu minni hljóðbóka-
útgáfuna hljodbok.is, sem gefur út hljóðbækur á
almennum markaði og nýja diskinn minn, og við
rekum einnig ásamt félaga okkar fyrirtækið
Fimmund sem sér um tónlistarútgáfu.“
Konan þín er Herdís Hallvarðsdóttir
tónlistarmaður, en hún var í Grýlunum á sínum
tíma. Hvernig kynntust þið?
„Við kynntumst þegar ég var í hljómsveitinni
Hálft í hvoru. Hún var ráðin sem bassaleikari
hljómsveitarinnar en ég var alfarið á móti því að
fá Grýlurokkhund eins og hana í hljómsveitina.
Hún sagði seinna að þegar hún sá mig fyrst hefði
hún haldið að það væri hræðilegt að vera með svo
sjóndapran mann í hljómsveit. Okkar samskipti
þróuðust þannig að við fórum að vera saman og
giftum okkur árið 1985. Það hefur gengið á ýmsu,
eins og í öllum samböndum, en maður gleymir
því vegna þess að það er alltaf svo mikið sólskin.“
Morgunblaðið/Eggert
’
Ef maður á við fötlun að etja þá þarf
maður að sýna að maður sé miklu betri
en sá ófatlaði. Ég hef oft haldið því fram
að barátta fatlaðra fyrir mannréttindum sé
ekki ósvipuð baráttu kvenna. Konur eru oft
vanmetnar af því að þær eru konur og fatlaðir
eru vanmetnir af því að þeir eru fatlaðir. Ég er
svo heppinn að ég hef yfirleitt getað aflað mér
verkefna og ég stofnaði eigið fyrirtæki með
konunni af því að enginn vill hafa mig í vinnu.