SunnudagsMogginn - 09.10.2011, Page 28
28 9. október 2011
gera þeim kleift að vinna upp forskotið á
svipstundu.
„Evran var eins konar paradís“
Engu að síður voru vonir bundnar við að
með tilkomu evrunnar myndi efnahagslífið
á evrusvæðinu blómstra. Bankar, lífeyr-
issjóðir og aðrir fjárfestar alls staðar að
opna sjóði sína. Grikkir nutu góðs af því.
Þeim stendur til boða ódýrt fé á miklu lægri
vöxtum, en þeir hefðu fengið fyrir evruna.
„Evran var eins konar paradís,“ sagði
Papantoniou, þáverandi fjármálaráðherra
Grikklands.
Löndin í Suður-Evrópu hættu að reyna
að taka til í ríkisfjármálunum og peningar
flæddu frá norðri til suðurs.Grikkir tóku
lán eins og þeir ættu lífið að leysa í skjóli
lánstrausts, sem þeir hefðu aldrei haft án
evrunnar.
Vextirnir eru aðeins litlu hærri en Þjóð-
verjar þurftu að borga af ríkisskuldabréf-
um. Vorið 2003 eru vextir af grískum rík-
isskuldabréfum aðeins 0,09
prósentustigum hærri en af sambærilegum
þýskum bréfum. Samkvæmt því töldu
markaðirnir á þeim tíma að Grikkland, sem
byggði efnahag sinn á framleiðslu jógúrts
og ólífuolíu, siglingum og ferðamanna-
eyjum, væri jafn lánshæft og Þýskaland,
eitt helsta iðnríki heims og heimsmeistari í
útflutningi, eins og Der Spiegel orðar það.
Ástæðan var sú að menn trúðu því aldrei í
raun að staðið yrði við ákvæðið um að ríkj-
um evrusvæðisins yrði ekki komið til
bjargar lentu þau í vandræðum. Kæruleys-
isleg umgengni við reglur og skuldbind-
ingar Maastricht-sáttmálans þóttu til
marks um það að ákvæðin, sem lutu að
myntbandalaginu, bæri að taka hæfilega
alvarlega. Ekki bætir úr skák þegar Þjóð-
verjar og Frakkar víkja sér undan refsingu
vegna fjárlagahallans. Sýni fyrirmyndirnar
ekki aga, hver á þá að gera það?
Árið 2004 kemst hægri stjórn til valda á
Grikklandi. Hún greinir frá því að frá árinu
2000 hafi stjórn sósíalista látið Eurostat
hafa rangar hagtölur. Evrópusambandið
hrósar Grikkjum fyrir hreinskilnina og gef-
ur þeim frest til 2006 til leiðréttingar. Hin
nýja stjórn er hins vegar enginn eftirbátur
fyrri stjórnar í hagræðingu talna. Útgjöld til
varnarmála eru til dæmis skráð á pönt-
unar- en ekki greiðsludag og koma því
ekki fram í bókhaldinu. Tölur eru færðar til
og frá eftir þörfum þannig fjárlagahallinn
virðist aldrei fara yfir þrjá af hundraði.
Árið 2004 gefur Eurostat út skýrslu þar
sem fjallað er um árin 1997 til 1999 og 2004.
Þar kemur fram að í útreikningum Grikkja
megi finna þrjár meginveilur. Útgjöld til
varnarmála séu skráð eftir hentugleika, út-
gjöld til félagsmála séu ávallt metin lægri
en raun sé og skatttekjur ofmetnar.
Skuldirnar hlaðast upp
Á evrusvæðinu hlaða ríkin upp skuldum.
Þegar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á
vandann heldur samkvæmið einfaldlega
áfram eins og ekkert hafi í skorist. Aðeins
Þjóðverjar bregðast við og knýja fram um-
bætur við hávær mótmæli. Hin löndin
halda áfram að taka lán og slá vandanum á
frest. Fyrir vikið eykst samkeppnishæfni
Þjóðverja enn gagnvart hinum löndunum á
evrusvæðinu og þeir uppskera gagnrýni
fyrir að þrýsta félögum sínum upp að vegg.
Neysla Grikkja byggðist á ódýrum lán-
um, sem þeir notuðu til að kaupa þýsk
heimilistæki og bíla. Engar umbætur áttu
sér stað. Ekkert er gert til að draga úr
skuldum og minnka viðskiptahallann.
Spilling, niðurgreiðslusvik og óverð-
skulduð forréttindi eru eitur í efnahagslíf-
inu. Frumkvöðlar í Grikklandi rekast á
hindranir við hvert fótmál. Í Der Spiegel er
lýsing á iðnaðarsvæði í Komotini þar sem
stendur verksmiðja við verksmiðju, allt
virðist glænýtt og nánast engin starfsemi.
Viðmælandi Der Spiegel segir að aldrei hafi
verið ætlunin að hefja starfsemi í þessum
byggingum. Verktakarnir hafi einfaldlega
fengið ódýr lán hjá grískum stjórnvöldum
og Evrópusambandinu til þess eins að reisa
byggingarnar. Meira hafi ekki staðið til.
Grikkland í ruslflokk
27. apríl 2010 gerðist það í fyrsta skipti í
sögu evrunnar að land á evrusvæðinu var
fellt í ruslflokk í áhættumati. Standard &
Poor’s settu þá grísk ríkisskuldabréf í
flokkinn BB+ þarsem fyrir voru Aserbaíd-
sjan og Egyptaland, svo dæmi séu tekin.
Marko Mrsnik, sérfræðingur hjá matsfyr-
irtækinu, var höfundur greiningarinnar.
Hann hafði fylgst með Grikklandi í nokkur
ár og smám saman lækkað matseinkunn
landsins. Þegar Standard & Poor’s lækkaði
einkunn Grikkja niður í A- má segja að
hrunið hafi hafist. Við það féllu hlutabréf á
markaði í Grikklandi og Grikkir urðu að
bjóða hærri vexti af ríkisskuldabréfum ef
þeir vildu að einhver tæki áhættuna af að
kaupa þau.
Í grísku samfélagi ríkir mikil tortryggni
í garð ríkisins. Í Grikklandi eru næstlægstu
skattar allra evruríkjanna. Skatttekjurnar
eru um 30% af þjóðarframleiðslu. Talið er
að umfang svarta markaðarins sé um
fjórðungur af opinbera efnahagslífinu og
nemi veltan 59 milljörðum á ári.
„Hægt er að hrista höfuðið yfir öllu
þessu, yfir Grikkjum og þrjósku þeirra og
afdalamennsku, hvernig þeir stunda við-
skipti með hætti, sem er íbúum Mið- og
Norður-Evrópu mjög framandi,“ segir í
Der Spiegel. „En nær væri að furða sig á
pólitíkinni og gerendum hennar í Evrópu,
hvernig horft var í aðra átt og stað-
reyndum ýtt til hliðar og afneitað svo ár-
um skipti.“
Blaðið kemst að þeirri niðurstöðu að
höfundar evrunnar og arftakar þeirra hafi
tapað veðmálinu um evruna. „Þeir lögðu
þjóðartekjur landanna tólf undir í þeirri
von að markaðirnir tækju ekki eftir því
hvað hinn fagri, nýi gjaldmiðill væri við-
kvæmur. Og þá bresti, sem forvígismenn
evrunnar skildu eftir í regluverkinu, not-
uðu eftirmenn þeirra á næstu tíu árum til
að gera evruna enn veikari fyrir.“
Blaðið bendir á að frá 1997 hafi þjóð-
arskuldir evruríkjanna næstum því tvö-
faldast þrátt fyrir allar reglur. Þar af hafi
þær hækkað um tvær billjónir
(2.000.000.000.000) evra eða 30% á
undanförnum þremur árum. Ef fjár-
málakreppan hefði komið til hefði veð-
málið ef til vill tapast seinna, að mati
blaðsins, en það hefði tapast.
Helstu evruloforðin öll brotin
„Helstu evruloforðin fjögur, sem sett eru
fram í Maastricht-sáttmálanum, voru öll
brotin: böndum var ekki komið á rík-
isskuldirnar heldur tvöfölduðust þær, aðeins
fimm ríki af 15 eru undir 60% mörkunum, þak
var ekki sett á fjárlagahallann, aðeins fjögur ríki
eru undir mörkunum, og bannið við björgun
einstakra ríkja var brotið því að evrópski seðla-
bankinn er ekki lengur sjálfstæður heldur rusl-
banki fyrir aðþrengd ríkisskuldabréf.“
Blaðið segir að þetta séu ekki venjulegar van-
efndir án afleiðinga eins og hvert annað kosn-
ingaloforð, sem ekki sé staðið við: „Þetta eru
vanefndir tveggja kynslóða stjórnmálamanna (og
-kvenna) sem hafa búið til háskalega losaralega
fléttu, sem tvinnar saman seðlabanka þeirra,
seðlabanka Evrópu, bankana og fjárfesta.“
Nú reyna ríki Evrópu að bjarga gjaldmiðlinum,
sem svo miklar vonir voru bundnar við í upphafi.
Enn er ekki útséð um hvernig fer fyrir evrunni og
Kenneth Rogoff á fyllilega von á því að kvarnast
muni úr myntbandalaginu. Ljóst virðist að
Grikkir muni komast í greiðsluþrot og það gæti
komið af stað keðjuverkun verði ekkert að gert.
Allar aðgerðir hingað til hafa verið of umfangs-
litlar til að sannfæra fjármálaheiminn. Hvernig
sem fer eru erfiðir tímar framundan og björg-
unaraðgerðir munu kosta hundruð milljarða
evra, sem munu koma úr vösum óánægðra
skattborgara. Der Spiegel kallar evruna peninga-
sprengju og á forsíðu blaðsins var evruklukka,
sem vantaði nokkrar mínútur í miðnætti, tengd
við tímasprengju. Klukkan tifar.
Evrunni var hleypt af stokkunum með flugeldum og lúðrablæstri og lít-
ið gefið fyrir raddir efasemda, sem sögðu að í myntsamstarfinu væru
banvænir brestir. Nú eru veikleikarnir að koma fram. Forustumenn
ríkja evrusvæðisins vilja að evran haldi velli, en það mun verða dýr-
keypt fyrir skattborgarana að halda gjaldmiðlinum gangandi.