Saga - 2002, Side 243
RITDÓMAR
241
14. öld og eru hugmyndir Óskars um norðlenskan útgerðarauð þess
virði að athuga þær nánar. Væri ekki úr vegi að Óskar ritaði rækilega
grein um skilning sinn á Norðlensku öldinni.
Óskar hefur vissulega rétt fyrir sér um það að 14. öld var mikil bók-
menningaröld en hún var öðru fremur bókagerðaröld. Um útflutning
bóka til Noregs hefur Óskar lært mikið af grein Stefáns Karlssonar en
hefur því miður farið á mis við ágæta tilgátu Ólafs Halldórssonar í
Nýrri sögu um það hvers vegna Flateyjarbók var tekin saman en fór þó
ekki úr landi. Hugleiðingar hans um þetta í eftirmála eru því minna
virði en ella væri (bls. 244).
Mér kemur nokkuð á óvart að margreyndum fréttahauki og skríbent
um pólitísk efni, sem Óskar er, skuli ekki verða meira úr ýmsu efni
sem er að finna í skjölum 14. aldar. Aftur og aftur eru birtar klausur um
jarðasölu fóks sem ekki er kynnt nánar eða sagt frá hlunnindum sem
kirkjur áttu án þess það hafi neitt „fréttagildi", svo að séð verði (t.d.
bls. 107, 152, 157,181,191, 198, 207, 231, 237). Stundum má þó álykta
að Óskar vilji með þessu veita innsýn í þjóðhætti og líklegt verður að
telja að hann vilji líka með þessu koma konum að, það er annars varla
einleikið hversu oft er sagt frá konum sem seldu jarðarskika. En þetta
tengist vart sérstökum reynsluheimi kvenna og er hvorki fréttnæmt né
upplýsandi.
Óskar notar oft skjöl Helgafellsklausturs í þessum klausum án þess
að sjá fréttagildið. Ein af helstu fréttum aldarinnar er gífurleg jarð-
eignasöfnun klaustranna á Helgafelli og í Viðey. Á hið síðamefnda
klaustur er varla minnst. Óskar hefði getað sameinað þetta allt saman,
skýrt eignasöfnun klaustranna um leið og hann gerði grein fyrir kon-
um og þjóðháttum. Hinir harðsæknu ábótar, Ásgrímur á Helgafelli og
Páll kjarni í Viðey, hefðu sómt sér vel í umfjöllun Óskars en á Pál er
ekki minnst og Ásgrímur er nafnið tómt. Sem dæmi um frétt sem Ósk-
ar missti af má taka klausu með fyrirsögninni „Gyrðir og Inga gera
góð kaup" (bls. 152). Það gerðu þau ekki, svo sem auðsætt er, enda
töldu þau Ásgrím ábóta hafa neytt sig til kaupa en gátu ekki sannað
það, þannig að klaustrið náði af þeim jörðinni.
Stundum er tekið rangt eða ónákvæmlega upp úr skjölum (svo sem
á bls. 70, 74,103,137 og 139). Þetta mun kannski ekki breyta skilningi
á íslandssögunni en getur þó verið villandi og má nefna að fyrirsögn
ein er á þessa leið, „Af gnægtabrunni Grímseyjarkirkju" (bls. 53). Ekki
kemur fram í máldaga að kirkjan sé sérstaklega auðug en í fréttinni
undir fyrirsögninni er lögð áhersla á að kirkjan sé vel efnuð og segir
m.a. að hún eigi hundrað kúgildi hjá Jóni á Hlöðum. Þetta er tvíllaust
misskilningur fyrir hundraðskúgildi sem algengt mun hafa verið á
fyrri hluta 14. aldar að gefa í sálugjöf (kúgildi gátu þá enn verið 90 álna
virði líka).
16-SAGA