Saga - 2002, Side 277
RITDÓMAR
275
ævisagnahöfundi er í lófa lagið að spila á tilfinningar lesenda sinna -
og það gerir Sigríður á afar fínlegan hátt.
Lesandi ævisögu Bjargar fær innsýn í líf hennar og að einhverju
marki hugsanir. Ótrúlegir atburðir úr lífi Bjargar eru dregnir fram en
samt er hún stundum undarlega fjarlæg lesandanum. Hvar er hjartað
og sálin? Þarna er vísast heimildunum um að kenna, þær opna ekki
leiðina að hjarta Bjargar. Sigríður víkur hvergi af vegi heimildanna,
sem að mínu mati er kostur. Hún segir ekki meira en þær gefa tilefni
til og sviðsetur sjaldan. Sigríður Dúna nýtir margvíslegar heimildir til
þess að draga upp mynd af lífi Bjargar. Lesandinn sér konu með sterk-
an vilja, konu sem vill fara nýjar leiðir, konu sem bíður skipbrot í
einkalífinu, konu sem virðist lifa gleðisnauðu lífi, konu sem þjáist,
konu sem þráir að afreka eitthvað í lífinu.
Lýsingar á heimssögulegu tímabili eins og fyrri heimsstyrjöldinni
skyggja aldrei á aðalpersónuna Björgu, ekki heldur lýsingar á því ís-
lenska samfélagi sem Björg fæddist inn í. Lesendur fá að vita það sem
skiptir máli fyrir æviferil Bjargar, s.s. um stöðu kvenna á 19. öld
(menntun, eða öllu heldur menntaskort, þvílík bylting kvennaskól-
arnir voru á sínum tíma og réttleysi kvenna í hjónabandi) og að þetta
samfélag var að taka örum breytingum. Framfarir, menntun og félags-
leg vakning. Þó var fátækt og eymd fyrri alda ekki langt undan og það
kemur skýrt fram hjá Sigríði Dúnu að Björg bjó að því að alast upp í
blómlegu héraði á fremur efnuðu heimili. Ekki áttu allar stúlkur sömu
möguleika - og ekki heldur sama viljastyrk.
Myndefni bókarinnar er vel valið og er ég sérlega ánægð með að
myndunum skuli komið fyrir þar sem minnst er á það sem þær sýna í
stað þess að draga þær saman á einn til tvo staði í bókinni. Ég vek sér-
staka athygli á bls. 107 þar sem sjá má annars vegar mynd af Björgu og
Sigfúsi Blöndal með stúdentshúfurnar sínar, hún á dönskum búningi
og þau standa hlið við hlið, jafningjar. Hins vegar er mynd af Jóni
bróður Bjargar, síðar forsætisráðherra, ásamt unnustu sinni Ingibjörgu
Claessen í peysufötum. Jón situr í stól með bók í hönd en Ingibjörg
tyllir sér á stólarminn hjá honum. Þarna kristallast nýi og gamli tím-
inn, ný viðhorf og gömul til hlutverks og eðlis kvenna.
Allt frá því ég heyrði fyrst að Sigríður Dúna hefði hafist handa við
rannsókn á lífi og störfum Bjargar C. Þorláksson hef ég beðið spennt
eftir þessari fyrstu fræðilegu ævisögu um íslenska konu. Alvöru rann-
sókn sem byggði á kenningum kvenna- og kynjafræða, bók sem væri
nýmæli og myndi marka tímamót í íslenskum fræðaheimi. Nú þegar
hún er loksins komin út, er óhætt að segja að hún stenst væntingar.
Ævisaga Bjargar C. Þorláksson er tímamótaverk og það er mikill feng-
ur að henni, bæði fyrir ævisagnahefðina og fyrir kvenna- og kynja-
fræðin.