Saga - 2002, Page 290
288
RITDÓMAR
skemmtileg og vel skrifuð. Hún grípur lesandann og sleppir ekki fyrr
en að lestri loknum, og varla þá heldur. Hún er full af sögum af fólki,
fólki sem meikaði það, fólki sem ekki meikaði það, fólki sem meikaði
það og fór í hundana og fólki sem ekki meikaði það og fór líka í hund-
ana, og svo eru allir hinir. Bókin er full af skemmtilegum smáatriðum,
eins og myndinni af einu hljómsveitinni í bítlabylgjunni sem hafði
stelpu innanborðs. Sú var trommari! Sögur úr bransanum eru sagðar í
löngum bunum, alls konar sögur sem gefa skýrt til kynna hvers konar
lífi hefur verið lifað í þessum menningarkima. Auðvitað hljóta rokk-
fíklar að hafa mest gaman af bókinni, alveg eins og hestafólk hefur
mest gaman af bókum um hestamennsku, eða íþróttafólk af frásögn-
um af íþróttum, en ég held að mjög margir aðrir geti haft gaman af
lestri þessarar bókar.
Einna mest sláandi er allur sá fjöldi hljómsveita og listamanna sem
fram hefur komið á þeim um það bil 45 árum sem sagan fjallar um.
Alveg síðan rokkið barst til landsins hefur því fylgt mikill kraftur og
virkni, og þótt á stundum virðist svo sem ládeyða hafi verið í rokk-
inu þá sýnir samantekt Dr. Gunna talsvert aðra mynd. Þegar búið er
að draga efnið saman og þjappa því í svona frásögn fær maður á til-
finninguna að íslenska rokkið hafi verið alveg einstaklega frjó grein og
fjöldi og fjölbreytni þeirra hljómsveita sem fram kom er hreint ótrúleg-
ur. Öll þessi fjölbreytni varð til í andstöðu við ríkjandi opinbera menn-
ingu og stuðningur frá fjölmiðlum og ríkisvaldi hefur lengst af verið í
algjöru lágmarki. Það kemur vel fram í bókinni að afstaða ábyrgra að-
ila í samfélaginu sveiflaðist upphaflega milli fyrirlitningar og tilrauna
til að koma í veg fyrir útbreiðslu rokksins og þess að gera góðlátlegt
grín að fyrirbærinu. Enginn svokallaður málsmetandi maður tók rokk-
ið alvarlega. Það átti sitt vígi meðal unglinga sem höfðu litla mögu-
leika á að tjá sig um það með öðrum hætti en að kaupa plöturnar og
mæta á böll og tónleika, og það var í rauninni nóg.
Það sýnir hyldýpið sem enn er á milli opinberrar menningar og
rokksins að nær hvergi skuli hafa verið fjallað um það í fræðilegu sam-
hengi. Einstakir fræðimenn hafa tekið það til umfjöllunar af hetjuskap
og ekki alltaf hlotið mikla þökk fyrir. Þetta á þó líklega fremur við um
það sem gerðist fyrir 1990, verið getur að eitthvað hafi breyst síðan. Nú
er til dæmis farið að fjalla um unglingamenningu í söguþætti samfé-
lagsgreina í grunnskóla. Þar kemur bók Dr. Gunna án efa að góðum
notum, því hún gefur góða innsýn í það sem efst var á baugi í ung-
lingamenningu hvers tíma á rokksviðinu.
Mikilvægur hluti af sögu rokksins er einmitt að heilar kynslóðir
greindust í fylkingar eftir afstöðu til tónlistar. Sumir urðu bítlar og aðr-
ir fylgdu Stones, og svo varð hvort tveggja hálfhallærislegt; næsta kyn-
slóð var hippar. Kynslóðin þar á eftir var síðan annaðhvort pönk eða