Fréttablaðið - 28.12.2011, Blaðsíða 12

Fréttablaðið - 28.12.2011, Blaðsíða 12
28. desember 2011 MIÐVIKUDAGUR12 V æri þér kringara að vera heima að búi föður þíns og stanga úr tönnum þér rassgarnarenda merarinnar, er þú ást áður en þú reiðst til þings ...“ Svo mælir Skarphéðinn Njálsson er hann kveður Þorkel hák í kútinn í Brennu-Njáls sögu. Við kunnum svo sannarlega að fara með móðganirnar hér fyrr á öldum. Enda var máttur þeirra mikill. Heiður einstaklingsins var hornsteinn þjóðveldistímans. Allt var undir þegar æran var annars vegar. Virðing- arlaus maður var mannleysa. Hetjur Íslend- ingasagnanna víluðu ekki fyrir sér að mæta hvössum orðum með stálum stinnum, svo mikið var í húfi. Mikilvægi sæmdarinnar birtist jafnframt í hinum norræna orðaforða sem að sögn norska sagnfræðingsins Bjørn Bandlien inniheldur jafnmörg orð yfir níð og Inúítar eiga yfir snjó. Á því herrans ári 2012 sem senn gengur í garð verða 750 ár liðin frá því þjóðveldið leið undir lok er Íslendingar gengust Noregskon- ungi á hönd. Er það langur tími. Þegar horft er yfir árið sem nú kveður mætti hins vegar ætla að lítið hefði breyst á þessum 750 árum. Hörundsár, hvumpin og blautgeðja Eitt af því sem stóð upp úr í umræðinni árið 2011 var umræðan sjálf; umræðan var í umræðunni. Sumir dæmdu hana ómál- efnalega. Öðrum þótti hún ofsakennd. Mörg- um þótti að sér vegið. Einn þáttur hennar glumdi hins vegar sem leiðarstef allt frá upphafi árs til loka þess. Líkt og Njáls- synir stukku upp á nef sér við það eitt að vera kallaðir taðskegglingar með þekktum afleiðingum einkenndust viðbrögð þeirra sem til umræðu voru á árinu 2011 af sömu viðkvæmni. 750 árum eftir lok þjóðveldisins erum við jafnhörundsár, hvumpin og blaut- geðja og forfeður okkar sem bjuggu við kvaðir heiðurssamfélagsins. Eini munurinn er sá að í stað vopna grípum við umhugsun- arlaust til hótana. Siðaðra manna háttur Það var ekki að ástæðulausu sem stjórnir Hagþenkis, Rithöfundasambands Íslands, Bandalags þýðenda og túlka, Reykjavíkur Akademíunnar, Blaðamannafélags Íslands og PEN á Íslandi sendu undir lok árs frá sér tilkynningu þar sem rétturinn til tjáningar- frelsis er áréttaður. „Þyki hópum eða ein- staklingum að sér vegið í ræðu eða riti, þá stendur þeim til boða, nú sem fyrr, að svara fyrir sig með sama hætti. Það kallast skoð- anaskipti – jafnvel ritdeilur – og er siðaðra manna háttur í löndum þar sem lýðréttindi ríkja.“ Árið 2011 virtist mörgum einmitt gleymd listin að svara fyrir sig. Þeim mun fleiri höfðu hins vegar þróað með sér mikla færni á sviði hótana, einkum um málshöfðun. Og oft þurfti lítið til að nýfengin kunnáttan væri hagnýtt. Dæmin urðu mýmörg. Gunnlaugur M. Sigmundsson, fyrrverandi alþingismaður, stefndi bloggaranum Teiti Atlasyni fyrir umfjöllun sína um áratuga gamla frétt Morgunblaðsins um Gunnlaug og viðskipti hans. Gunnlaugur lét þó ekki þar við sitja heldur sendi bloggaranum fjölda nafnlausra SMS-skilaboða þar sem hann kallaði Teit meðal annars „væluskjóðu“ og „ofstækis- mann“. Svavar Halldórsson, fréttamað- ur RÚV, stóð í ströngu á árinu, en tveir fyrrverandi auðjöfrar kærðu hann fyrir meiðyrði vegna umfjöllunar hans um við- skiptafléttur þeirra. Ólafur Arnarsson, hag- fræðingur og pistlahöfundur hjá vefmiðlin- um Pressunni, lýsti því yfir í fjölmiðlum að hann íhugaði meiðyrðamál gegn Morgun- blaðinu eftir að hafa verið kallaður „vesa- lingur“ í Reykjavíkurbréfi. Pistlahöfundur Fréttablaðsins, Davíð Þór Jónsson, hótaði að lögsækja femínistann Maríu Lilju Þrastardóttur, en honum þótti María Lilja vega að æru sinni er hún kall- aði Bleikt og blátt sem Davíð Þór ritstýrði á árum áður klámbækling. Nokkrir pistla- höfundar vefsins Bleikt.is hótuðu að kæra aðstandendur vefsíðunnar Bleikur.is fyrir að skopstæla skvísuvefinn. Vefpressan ehf. íhugaði að höfða mál á hendur einstakling- um sem löttu auglýsendur til að eiga við- skipti við Pressuna eftir að miðillinn birti ljósmynd af fórnarlambi meintrar nauðg- unar. Og svo mætti lengi telja. Heilagleiki sjálfsins Erfitt er að verjast brosi yfir sumum ofan- greindra dæma. Viðbrögð við því sem mörgum kann að þykja fremur léttvæg móðgun eru hvatvísleg. Enda var lítið um efndir. En heilag leiki sjálfsins var skyndilega orðinn kappsmál. Húmor fyrir eigin skinni komst ekki á lista yfir heitustu tísku-fylgi- hluti ársins sem innihélt ofvaxnar leðurtösk- ur, munstraða trefla og silkimjúka skinhelgi. Tvennt greinir hins vegar að uppnæmi persóna og leikenda Íslendingasagnanna og þeirra sem slegið er til með orðum í dag. Hið fyrra er ásetningurinn. Á þjóðveldisöld var tilgangur hefndar að endurheimta skertan heiður. Árið 2011 kann fleira að hafa hangið á spýtunni. „Til að hræða starfsfólkið“ „Tjáningarfrelsið er grundvallarmannrétt- indi,“ sagði Eva Joly í blaðaviðtali um mitt ár 2009. „Það að mega tjá skoðanir sínar opinber- lega er grundvallarréttindi. Og það má alltaf gera ráð fyrir því að þeir sem mögulega hafa framið efnahagsbrot og eiga hagsmuna að gæta haldi uppi vörnum með ógnunum og til- raunum til þöggunar.“ Halda má því fram að Eva hafi reynst sannspá. Það eru einkum einstaklingar sem hafa tjáð sig um viðskiptahætti fyrrverandi og núverandi auðmanna sem endað hafa fyrir dómi. Þótt vel kunni að vera að í sumum til- fellum hafi tilgangur stefnenda aðeins verið að fá uppreisn æru er erfitt að verjast þeirri hugsun að á tíðum hafi hann verið heldur ískyggilegri. Ógnanir hvers konar hafa löngum þótt áhrifarík aðferð til að bæla niður skoðanir og stýra umræðunni. Ekki er tilgangurinn ávallt eingöngu sá að þagga niður í þeim sem ráð- ist er að. Árið 2011 hefur reynst blaðamanna- stétt heimsins blóðugt. Samkvæmt skýrslu frá Varnarnefnd blaðamanna (The Committee to Protect Journalists) hafa 45 blaðamenn verið drepnir vegna starfa sinna um heim allan á árinu, flestir í Pakistan. Fyrr í mánuðinum var stofnandi sjálfstæðs dagblaðs í Dagestan í Rússlandi, Khadzhimurad Kamalov að nafni, skotinn til bana af grímuklæddum byssu- manni. Ritstjóra blaðsins duldist ekki þær hvatir sem lágu að baki morðinu. „Hann var viljandi drepinn fyrir utan skrifstofur blaðs- ins til að hræða starfsfólkið,“ sagði ritstjórinn í sjónvarpsviðtali. Það er langt á milli kúgunaraðferða í Rúss- landi og á Íslandi. Takmarkið er engu að síður hið sama. Íslendingasögur hinar nýju En aftur að fornmenningu Íslendinga. Hið síð- ara atriði er greinir að deilur manna á þjóð- veldistímanum og á árinu 2011 er orðheppni. Rúmt ár er síðan undirrituð hóf að létta á skoðunum sínum í svokölluðum bakþönk- um hér á síðum Fréttablaðsins. Hver sem tekur að sér slíkt verk gerir sér grein fyrir að óhjákvæmileg aukaverkun starfsins er að verða reglulega fyrir daunillum orðaflaumi upprunnum í iðrum internetsins. Í einfeldni minni beið ég hans með eftirvæntingu. Ég var nefnilega þeirrar skoðunar – að minnsta kosti í sjálfsþóttafullu orði – að væri ekki verið að svívirða mig sem pistlahöfund í málfræðilegu tómarúmi athugasemdakerfa vefmiðla á borð við dv.is, Eyjuna og Facebook þar sem staf- setningarkunnátta er jafnsjaldséð og almenn skynsemi væri ég að gera eitthvað rangt; væri ég ekki að pirra þá sem bólusettir höfðu verið fyrir meðalhófi eða reita til reiði þá sem mátu hugmyndafræði ofar hlutlægni í hugsun væru skrifin vart að vekja marga til umhugsunar heldur. Loks rann upp stundin sem ég hafði beðið eftir. Internetmóðgununum hafði ég hugsað mér að mæta af svölu tómlæti og aðdáunar- verðri yfirvegun. Það var jú réttlátt að þeim sem settist í yfirlætislegt dómarasæti pistla- höfundar væri sýnt aðhald með andstæðum skoðunum. En viðbrögð mín urðu önnur. Eftir að hafa velt mér upp úr hverju einasta illa stafsettu orði svo lengi að það missti merk- ingu sína svall mér skyndilega móður. Leið mín lá beint inn á Gulu síðurnar. Leitarorðið var: Lögfræðingur. Það var ekki fyrr en símtólið var komið á loft að æðið bráði af mér. Það rann upp fyrir mér ljós. Þetta voru engir „rassgarnarendar“ eða „taðskegglingar“. Höggin voru að mestu rislitlar klisjur: Femí-nasisti; frjálshyggjufas- isti; vitlaus vinstrimaður. Vonbrigðin helltust yfir mig. Eftir önnur 750 ár er landinn læsi Íslendingasögur hinar nýju, Auðjöfrasögu og Davíðs sögu Oddssonar kæmist ég ekki á blað með svo aum uppnefni. Ég fengi ekki einu sinni aukahlutverk á borð við Hámund halta sem bregður svo stuttlega fyrir í Njálu að enginn man eftir honum. Ég beið í ofvæni eftir að ástandið batnaði, eftir móðgun sem kæmi mér á spjöld sögunnar, en leiðin lá aðeins niður á við. Af hugmyndafræðilegum uppnefnum tóku andlausar samlíkingar við þá sem reyndust óvinsælastir þann daginn. Er ég ritaði pistil um aðdáun mína á geitaosti og óbeit á innflutningshöftum var mér jöfn- um höndum líkt við Björn Inga Hrafnsson, stjórnarformann Vefpressunnar sem hafði nýlega hótað fjölda fólks meiðyrðamáli, og hinn alræmda Gillzenegger. Það er hins vegar ástæða fyrir því að skegg- leysi Njáls er ein eftirminnilegasta móðgun Íslendingasagnanna. Í þeim beittustu er sann- leikskorn. Ég lét mér detta í hug að redda þessu sjálf; skrifa einfaldlega nokkrar móðg- anir um sjálfa mig á vefinn. Ég íhugaði að fá eina fræga að láni úr Simpson-fjölskyldunni þar sem Frökkum er lýst sem „ost-gúffandi uppgjafaröpum“ (e. „cheese-eating surrender monkeys“) og uppnefna sjálfa mig „geitaosts landráðsmanninn“. Jafnvel gera grín að því að ég er með stórt nef og óeðlilega langa hand- leggi. En í því hefði falist jafnlítil fróun og að skreyta sig stolnum fjöðrum. Tepruskapur og tjáningarfrelsið Viðkvæmni þjóðveldisins án orðheppni Íslend- ingasagnanna er aum blanda. Af henni er þó lítill ami annar en sá að opinber umræða er svipt öllu skemmtanagildi. Öðru gildir hins vegar um hótanagleðina sem fylgt hefur hneykslunargirninni. Íslenskufræðingurinn og rithöfundurinn Ármann Jakobsson hefur gert athuganir á hugmyndum um karlmennsku í Njálu, en ein vinsælasta aðferð Íslendingasagnanna þegar hafa átti af mönnum heiðurinn var einmitt að grafa undan manndómi þeirra. Í grein sinni „Masculinity and politics in Njáls saga“ leiðir Ármann að því líkur að Njáls saga sé í raun ádeila á karlmennskuhugsjónina sem höfundi ritsins hafi þótt vera karlmönnum áþján og samfélaginu öllu til eyðileggingar. Fyrrnefndur heilagleiki sjálfsins hefur burði til að verða samfélagi nútímans álíka niðurrifsafl og karlmennskan var samtíðar- mönnum Njáls og sona hans. Tjáningarfrelsið er grunnstoð lýðræðis. Ítrekaðar hótanir um málshöfðun letja fólk frá að taka þátt í skoð- anaskiptum. Ein stærsta frétt ársins var hið svokallaða arabíska vor, viðleitni almennra borgara í arabaheiminum sem búið hafa við langtíma skoðanakúgun til að brjótast undan okinu. Á sama tíma, í lýðræðisríkinu Íslandi, var það látið viðgangast að tepruskapur þeirra sem til umræðu voru vegna starfa sinna eða gjörða gæfi tjáningarfrelsinu langt nef. „Kann það oft verða að þeir menn lifa lang- an aldur er með orðum eru vegnir,“ mælti Kári Sölmundarson í Njálu. Hetjum Íslend- ingasagnanna þótti það þó skammgóður vermir að vera slegnar orðum en ekki stál- um stinnum. Í dag finnst flestum slíkt við- horf vafalaust kjánalegt. Fólki sem fórnar nú lífi og limum í fjarlægum löndum fyrir tján- ingarfrelsið þykir þó líklega jafnkjánalegt að norður á Íslandi skuli menn tilbúnir að falla svo skeytingarlaust frá þessari grunnstoð lýðræðisins vegna þess eins að maður kallaði mann „vesaling“. Maður kallaði mann vesaling Húmor fyrir eigin skinni komst ekki á lista yfir heitustu tísku-fylgihluti ársins að sögn Sifjar Sigmarsdóttur er íslensk umræðu- hefð hvarf aftur til tíma þjóðveldisins. „Taðskegglingar“ og „rassgarnarendar“ Íslendingasagnanna viku hins vegar fyrir „vælu- skjóðum“, „frjálshyggjufasistum“ og „vitlausum vinstrimönnum“ í Auðjöfrasögu og Davíðs sögu Oddssonar. INNLENDIR VENDIPUNKTAR 2011 Eitt af því sem stóð upp úr í umræðinni árið 2011 var umræðan sjálf; umræðan var í umræðunni. Sumir dæmdu hana ómálefnalega. Öðrum þótti hún ofsakennd. Mörgum þótti að sér vegið. Sif Sigmarsdóttir er rithöf- undur og pistlahöfundur í Fréttablaðinu. Innlendir vendirpuktar 2011 Fréttablaðið gerir upp árið með greinum um innlenda vendipunkta eftir valda höf- unda. Vendipunktarnir snúast um markverð- ar fréttir og atburði sem gerðust á árinu og gætu haft áhrif til frambúðar á Íslandi.

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.