Morgunblaðið - 17.12.2010, Blaðsíða 16
BAKSVIÐ
Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Í fornum eldgosum eins og til dæmis
í Öskjugosinu 1875 og gosinu í
Öræfajökli 1362 var mikil framleiðsla
á fínefnum. Dr. Ármann Höskulds-
son eldfjallafræðingur segir að fram
að þessu hafi menn talið að fram-
leiðslan hafi verið háð mjög öflugum
gosfösum og blöndun þeirra við vatn.
Gosið í Eyjafjallajökli síðastliðið vor
bendi hins vegar til þess að eldgosin
þurfi alls ekki að vera svo öflug. Fín-
korna askan sé síðan svo smá að það
taki hana marga daga að falla til
jarðar ef ekki komi til rigning.
Þótt gosinu í Eyjafjallajökli hafi
lokið fyrir nokkrum mánuðum eiga
vísindamenn áralanga vinnu fyrir
höndum við að vinna úr gögnum. Ár-
mann Höskuldsson og fleiri hafa
skoðað hvað gerðist í eldgosinu og
liður í því er að skoða öskuna. „Það
gefur okkur hugmynd um hvað gerð-
ist í gosrásinni, hvernig gosið hagaði
sér,“ segir hann.
Ármann segir að vísindamenn
skilji æ betur ástæðuna fyrir þessari
fínu öskuframleiðslu sem var í gos-
inu og hafi séð blöndun á kvikunni,
sem kom upp á Fimmvörðuhálsi, við
svipaða kviku og upp kom í gosinu
1821.
Gjóskan í toppgíg Eyjafjallajök-
uls hafi verið seigari en gjóskan í
gosinu á Fimmvörðuhálsi, vegna
þess hafi hún byrjað að springa djúpt
í gosrásinni.
Gjóskan á Fimmvörðuhálsi hafi
myndast við gígana vegna afgösunar
kvikunnar og þegar hraun runnu of-
an í gil og blönduðust snjó.
Í báðum tilfellum hafi gjóskan
verið gróf og þung og ekki borist
langt frá upptökum.
Í Eyjafjallajökli hafi gjóskan
myndast fyrst og fremst vegna
sundrunar á sjálfri kvikunni sökum
útlosunar eldfjallaeims í gosrás.
Þrír þróunarfasar
Vísindamennirnir skipta þróun-
arfösunum í eldgosinu í þrennt.
Fyrsti fasinn, svonefndur phreato-
plínískur fasi, hafi staðið yfir 14. til
18. apríl. Ármann segir að um hafi
verið að ræða mjög sprengivirkan
fasa, þar sem kvikan hafi byrjað að
tætast niðri í gosrásinni og tæst enn
meira þegar hún hafi komið upp
vegna bræðsluvatns jökulsins.
19. til 20. apríl hafi orðið breyt-
ing á gosinu og það orðið vúlkanskt
með tætingu ofar í gosrásinni. Á
sama tíma hafi hraun runnið frá gos-
stöðinni niður gígjökulinn, en þá
heyrðist mest frá eldgosinu. Spreng-
ingarnar hafi verið mjög ofarlega í
gosrásinni og í gígunum og þá hafi
drunurnar heyrst vestur á firði og
norður á land.
4. maí hafi annar sprengifasi,
lágplínískur fasi, byrjað með fal-
legum gosmekki sem hafi verið ýtt á
hliðina af sterkum vindum. Þannig
hafi gosið haldist þar til því lauk 22.
maí.
Varla kröftugt sprengigos
Gjóskudreif barst um allt land,
utan Vestfjarða, og til Evrópu. Ár-
mann segir að þrátt fyrir tiltölulega
lágan gosmökk hafi askan borist
þetta víða vegna þess að mjög fín
kornastærð, minna en 125 míkron í
meira en 70% tilfella (míkron er einn
milljónasti úr metra), valdi því að
gjóskan geti haldist á lofti í allt að
viku. „Þessum kornum liggur ekkert
á að setjast aftur niður á jörðina,“
segir hann. Ármann bætir við að sér-
staklega í fyrsta fasanum hafi askan
ferðast og fokið víða og þótt gosið
hafi ekki verið umfangsmikið
sprengigos hafi það nægt til þess að
koma töluvert miklu magni gosefna
til Evrópu og skapa vandræði þar.
Ármann segir að sem betur fer
hafi mjög lítið magn efnis komið upp
í einu. Hefði gosið verið kröftugra
hefði verið hætta á stærri gjósku-
flóðum en urðu og þau hæglega get-
að runnið niður á láglendi. Úrvinnsla
Olgeirs Sigmarssonar bendi til þess
að magn basaltkvikunnar, sem kom
upp á Fimmvörðuhálsi, hafi aukist
eftir því sem liðið hafi á gosið og það
sé jákvætt því hún sé ekki eins
sprengivirk og hin kvikan.
Að sögn Ármanns Höskulds-
sonar eru miklu minni líkur á kröft-
ugu sprengigosi fari eldgos af stað á
næstu mánuðum.
Ný vitneskja í kjölfar gossins
Morgunblaðið/Kristinn
Gosið og gjóskan Ármann Höskuldsson frá Jarðvísindastofnun á Eyjafjallajökli tæpum tveim kílómetrum frá gos-
stöðvunum. Dúkur er yfir framrúðunni til að verja hann gjóskufallinu og gosmökkurinn yfir.
Framleiðsla fínefna ekki háð mjög öflugum eldgosum eins og talið var fyrir gosið í Eyjafjallajökli
Gjóskan myndaðist einkum vegna sundrunar á kvikunni sökum útlosunar eldfjallaeims í gosrás
Höfn
Akureyri
Reykjavík
Keflavík
0,01 cm
0,1 cm
0,5 cm
1 cm
2 cm
3 cm
Gjóskufall á landinu
Samkvæmt korti eftir Guðrúnu Larsen, Ármann Höskuldsson, Þorvald Þórðarson,
Magnús Tuma Guðmundsson og Þórdísi Högnadóttur.
Breytingar
» Ármann segir að breytingar
á gosinu haldist í hendur við það
sem vísindamennirnir sjá í efna-
samsetningu gjóskunnar. Þegar
gosið hafi farið í þennan lág-
plíníska fasa hafi tæting kvik-
unnar aftur færst niður í gosrás-
ina. Þegar það gerist spýtist hún
hátt upp, rétt eins og þegar
skrúfað sé kröftuglega frá garð-
slöngu, en þegar tætingin eigi
sér stað ofarlega í gígnum verði
splundrunin víðari.
» Heildarrúmmál gjósku sem
kom upp í eldgosi Eyjafjallajök-
uls var nálægt 0,27 km³ og þar
af fóru um 0,12 km³ út fyrir
landsteinana.
16 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 17. DESEMBER 2010
Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
Verkalýðsforingjar á almenna vinnu-
markaðinum segja nánast biðstöðu í
viðræðunum um endurnýjun kjara-
samninga. Ástæðan sé fyrst og
fremst sú að lítill sem enginn trún-
aður ríki milli launþegasamtakanna
og stjórnvalda. Þess vegna hafi litla
þýðingu á þessari stundu að halda
áfram tilraunum til að koma á breiðri
samstöðu á vinnumarkaði.
Fundir boðaðir eftir áramót
Samningar þorra launþega runnu
út um seinustu mánaðamót. Flest
stærstu landssambönd og félög hafa
enn ekki kynnt viðsemjendum sínum
kröfur sínar. Starfsgreinasambandið
hefur þó gert það og lokið kynningu
krafna fyrir Samtökum atvinnulífs-
ins og samninganefndum ríkisins og
sveitarfélaganna.
Í gær var haldinn langur fundur
SGS og SA þar sem farið var yfir
áherslur einstakra sviða innan SGS.
Næstu fundir eru þó ekki boðaðir
fyrr en eftir áramót. Flóafélögin þrjú
munu eiga fyrsta samningafundinn
með SA í næstu viku.
Enn á ný skarst í odda milli ASÍ
og ríkisstjórnarinnar í seinustu viku
þegar í ljós kom að ríkisstjórnin
hefði gert breytingar á frumvarpi
um atvinnuleysistryggingar án sam-
ráðs við aðila vinnumarkaðarins.
Skv. heimildum blaðsins bárust
verkalýðshreyfingunni þó skilaboð í
fyrrakvöld um að stjórnvöld hygðust
koma eitthvað til móts við kröfur
hreyfingarinnar. Í fjárlögum næsta
árs, sem samþykkt voru í gær er
gerð sú breyting að lenging bótatíma
atvinnulausra í 4 ár nái til þeirra sem
misst hafa vinnuna eftir 1. mars 2008
en ekki 1. maí eins og gert var ráð
fyrir í ákvæðinu sem olli ágreiningn-
um í seinustu viku. Ósennilegt er þó
að það dugi verkalýðshreyfingunni
sem vill að lenging bótatímans nái
lengra aftur auk fleiri breytinga.
Þessi breyting er talin leiða til 110
milljóna kr. viðbótarútgjalda.
Vilja 220 þús kr. lágmarkslaun
SFR hefur átt samningafundi með
viðsemjendum hjá ríki og sveitar-
félögum.
Í kröfugerð SFR er m.a. lögð
áhersla á að auka og verja kaupmátt
og tryggja störf starfsmanna. Þá er
þess krafist að lágmarkslaun verði
220 þúsund, farið er fram á aukinn
orlofsrétt og stefnir félagið að því að
gengið verði frá samningi með til-
tölulega stuttan gildistíma.
Undirbúa aðgerðir
Viðræðum AFLs á Austurlandi og
Drífanda við SA vegna starfsfólks í
fiskimjölsverksmiðjum hefur verið
slitið. Í fyrradag samþykkti trúnað-
arráð AFLs tillögu þar sem samn-
inganefnd félagsins og Drífanda í
Vestmannaeyjum er falið að hefja
undirbúning aðgerða, þar með talin
verkföll í fiskimjölsverksmiðjum.
Biðstaða og vantraust
Kjaraviðræður komast ekki á skrið fyrr en eftir áramót
Mörg stéttarfélög hafa enn ekki lagt fram kröfur sínar
Staðan
» ASÍ hefur lagt fram kröfur
um sameiginleg mál aðildar-
sambanda og félaga fyrir við-
semjendur sína.
» Viðræður um að reyna að
byggja brýr milli aðila og koma
á víðtæku samstarfi með
stjórnvöldum liggja þó niðri.
Tekið er á móti framlögum á reikningi
Fjölskylduhjálpar:
Bnr. 101-26-66090 – Kt. 660903-2590.
Tökum á móti matvælum og fatnaði að
Eskihlíð. Upplýsingar í síma 551-3360
og 892-9603.
Jólaúthlutun verður dagana 14, 15,
21. og 22. desember í Eskihlíð 2-4.
Skráning í síma 892 9603.
Jólasöfnun Fjölskylduhjálpar
Íslands er hafin fyrir
starfsstöðvar okkar í Reykjavík,
á Akureyri og í Reykjanesbæ.
Þúsundir einstaklinga eru nú án atvinnu, auk
þeirra fjölmörgu sem minna mega sín í þjóð-
félaginu og eiga um sárt að binda. Leggjum okkar
af mörkum til að allir geti haldið gleðileg jól.
Fjölskylduhjálp Íslands | Eskihlíð 2-4 | Sími 551 3360 og 892 9603
fjolskylduhjalpin.net | fjolskylduhjalp@simnet.is
Athugið að við erum einu óháðu og sjálfstætt starfandi
hjálparsamtökin, áttunda árið í röð.