Morgunblaðið - 13.08.2011, Side 14
14 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 13. ÁGÚST 2011
Lára Hilmarsdóttir
larah@mbl.is
Ferðamönnum fjölgar ört á Íslandi að því er fram kemur í
nýlegri skýrslu frá Ferðamálastofu. Í júlí fóru tæplega 100
þúsund ferðamenn frá landinu, sem er um 14 þúsund fleiri
en í júlí á síðasta ári. Aukning er því 17,9 prósent milli ára.
Ekki er þar með allt upptalið því aukning milli ára á þeim
mánuðum, sem liðnir eru á þessu ári, nemur 19,6 prósent-
um. Ferðamenn sem farið hafa frá landinu á þessu ári eru
næstum jafn margir og Íslendingar, ríflega 300 þúsund,
það er 50 þúsund fleiri en á sömu mánuðum í fyrra. Banda-
ríkjamönnum hefur fjölgað ört eða um 59 prósent og eru
þeir ásamt Þjóðverjum helstu þjóðirnar sem sækja til lands-
ins.
Náttúra Íslands virðist vera það sem dregur flesta ferða-
menn til landsins. Þórsmörk, Landmannalaugar og Gullni
hringurinn eru meðal vinsælustu ferðamannastaðanna.
Ferðaþjónusta á Íslandi verður hinsvegar fjölbreyttari ár
frá ári, til að mynda má tala um náttúru-, heilsu-, og æv-
intýraferðamennsku hérlendis. Í ljósi náttúruhamfara má
einnig tala um tilkomu svokallaðrar „hamfara-ferðaþjón-
ustu“ en þar fór Eyjafjallajökull án efa með aðalhlutverkið.
Morgunblaðið/Eggert
Blómstrandi Ferðamenn setja vissulega svip sinn á Reykjavík á sumrin og síðustu vikurnar hafa þeir líklega verið í aðalhlutverki í miðborg Reykjavíkur á meðal sólþyrstra Íslendinga.
Ferðaþjónusta
blómstrar
Wim frá Suður-Afríku og, Bart og Jonas frá Belgíu voru í óða
önn að pakka í bakpokana sína í gær því þá lögðu þeir af stað
til Þórsmerkur. „Næstu fjóra daga ætlum við svo að ganga
Laugaveginn,“ segja þeir og þaðan mun leiðin liggja um há-
lendið. „Þú getur ekki upplifað slíka náttúru annars staðar en
á Íslandi,“ segja þremenningarnir en það er helsta ástæða
þess að þeir hafa lagt leið sína hingað. Sögusagnir um fallegt
kvenfólk hafa heldur ekki skemmt fyrir. Þeir taka svo allir
undir að „hérna er meira að segja betra veður en í Belgíu!“
Wim van de Wijgaert, Bart Buelen og Jonas Windey
Einstök náttúrufegurð heillar
og veðrið betra en í Belgíu
„Vinur minn á Akureyri lánaði mér bílinn sinn og við höfum
verið að keyra um og skoða Ísland,“ segir Hasse en hann er í
fríi hér með kærustunni sinni, Nönnu frá Danmörku. Þeim
fannst Ísland í dýrari kantinum því vanalega halda þau suður á
bóginn í sólarlandafrí. Þau sjá hinsvegar ekki eftir því að hafa
komið til Íslands og prófað eitthvað nýtt. Hálendið segja þau
hafa verið hápunkt ferðarinnar. Að sögn Nönnu hefur veðrið
verið mjög gott. „Einstaka skúrir inn á milli en þá vorum við
alltaf í bílnum eða tjaldinu, svo við vorum heppin með veður.“
Nanna Hovkjar Lassen og Hasse Fensmann
Morgunblaðið/Kristinn
Hálendið var hápunkturinn og
heppni með veður
„Það var sólskin í morgun,“ segir Andreas um fyrstu kynnin
af Íslandi en hann og konan hans, Yvonne, eru frá Þýskalandi
og komu hingað til þess að fara í jógaferð í Þórsmörk. „Það
verður hugleitt á morgnana og á kvöldin og síðan er gengið
og náttúran skoðuð á daginn,“ segir Yvonne, en ferðin er alls
sex dagar. Ferðin er skipulögð af íslenskum samtökum og
tengist alþjóðlegri jógahreyfingu. „Loftið er æðislegt, það er
það fyrsta sem ég tók eftir þegar ég steig út úr Leifsstöð. Það
er salt og ferskt,“ segir Yvonne brosandi.
Yvonne og Andreas Schmek
Morgunblaðið/Kristinn
„Loftið það fyrsta sem ég tók
eftir, það er salt og ferskt“
„Við höfum verið á ferðalagi á vegum skólans á Grænlandi
með viðkomu á Íslandi,“ segir Martina frá Þýskalandi en hún
og Stefan ákváðu að vera tíu dögum lengur á Íslandi eftir að
þau komu til landsins.
Ætlunin er að taka góðan tíma, eða átta daga, í að ganga
Laugaveginn og njóta náttúrunnar.
„Fyrir Þjóðverja er Ísland heldur dýrt, sérstaklega að fara
út að borða og slíkt,“ segir Martina og telur að þau muni ekki
versla mikið né fara út að borða.
Martina Hodrius og Stefan Knopp
Ákváðu að bæta tíu dögum við
Íslandsferðina
„Vinur vinar míns rekur fyrirtæki sem skipuleggur hreni-
dýraveiðar á Eskifirði og með honum fór ég í veiði í fyrra,“ seg-
ir Lars frá Svíþjóð en þetta er þriðja skiptið sem hann kemur til
Íslands í veiðiferð. Nú voru Nils og Alexander, einnig Svíar,
með í veiðiferðinni sem hefur gengið ágætlega. Þeir fengu bæði
bleikju og urriða í veiði í Laxá í Aðaldal og í Minnivallalæk á
Suðurlandi. „Ekki einn regndropi hefur fallið á okkur og veðrið
hefur verið æðislegt,“ segja þeir. Ísland segja þeir almennt
ódýrara heldur en Svíþjóð þó veiðileyfið hafi ekki verið gefins.
Lars Lindgren, Nils Eklund og Alexander Värdling
Ísland ódýrara en Svíþjóð þótt
veiðileyfi hafi ekki verið gefins