Tímarit Verkfræðingafélags Íslands


Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1963, Blaðsíða 5

Tímarit Verkfræðingafélags Íslands - 01.12.1963, Blaðsíða 5
TlMARIT VFl 1963 99 væri eina færa leiðin til þess að tryggja nægilega mikið af eins ódýrri orku og þörf væri á til framleiðslunnar. Að loknum þessum athugunum lagði Bjarni Ásgeirsson, sem þá var orðinn atvinnumálaráðherra, fram frumvarp á Alþingi 1947 um heimild fyrir rikisstjórnina til að reisa áburðarverksmiðju, er gæti bundið 2500 tonn á ári af köfnunarefni í ábuiði. Frumvarpið fékk hins vegar ekki afgreiðslu á þvi þingi. Unnið var að frekari athugunum á málinu á vegum atvinnumálaráðuneytisins á árinu 1948, og önnuðust þær athuganir verkfræðingarnir Jóhannes Bjarnason, Björn Jóhannesson og Ásgeir Þorsteinsson. Á Alþingi 1948 kom frumvarpið enn fram frá atvinnumálaráðherra, og var nú gert ráð fyrir að verksmiðjan gæti bundið allt að 7500 tonn á ári af köfn- unarefni. Þetta frumvarp náði fram að ganga, með þvi að vorið 1949 voru samþykkt lög um áburðarverksmiðju, sem heimiluðu ríkisstjórninni að láta reisa verksmiðju, er gæti bundið allt að 10 000 tonn á ári af köfnunar- efni í áburði. Jafnframt var í lögunum heimild fyrir rikisstjórnina til að láta stofna hlutafélag um verk- smiðjuna, ef tilteknum skilyrðum væri fullnægt. Á þessu sama þingi var fyrsta stjórn verksmiðjunnar kosin, og skipuðu hana þeir Steingrímur Steinþórsson, er var formaður stjórnarinnar, Jón Jónsson og Pétur Gunnars- son. Næst gerðist það markverðasta í sambandi við þetta mál, að árið 1950 fékkst loforð frá Marshall-stofnuninni bandarísku um aðstoð við byggingu áburðarverksmiðju, og er óhætt að fullyrða, að með því hafi endanlega verið tryggt, að áburðarverksmiðja yrði reist á Islandi. Sótt hafði verið um aðstoð frá Marshall-stofnuninni árið 1949, og að undangengnum allmiklum málarekstri og útskýr- ingum fékkst loforð um aðstoðina í árslok 1950. Að málinu unnu aðallega sendiherrar Islands í París og Washington, svo og Vilhjálmur Þór, er var sérstakur erindreki ríkisstjórnarinnar í málinu. Árið 1951 varð sú breyting á högum fyrirtækisins, að stofnað var hlutafélag um verksmiðjuna samkvæmt heimild þar um í verksmiðjulögunum, sem áður getur. 1 þvi hlutafélagi á ríkissjóður 60% hlutafjárins, en ein- staklingar og samtök þeirra afganginn. Um leið og þessi breyting var gerð, var sett yfir fyrirtækið fimm manna stjórn, og voru í hana kosnir þessir menn: Vilhjálmur Þór, er skipaður var formaður stjói'narinnar, Jón Jóns- son, Pétur Gunnarsson, Ingólfur Jónsson og Jón Ivars- son, og hafa þessir menn allii' setið í stjórn fyrirtækisins síðan að undanskildum Jóni Jónssyni, en hann hvarf úr stjórninni 1955, og kom i hans stað Kjartan Ólafsson. Árið 1952 var hafizt handa um byggingarframkvæmd- ir við verksmiðjuna, og var fundinn staður fyrir hana í Gufunesi við Reykjavík. Samið var við bandaríska verk- fræðinga, Charles O. Brown og firmað Singmaster & Breyer, um verkfræðiþjónustu vegna tækja og véla verksmiðjunnar. Byggingar teiknaði Halldór H. Jóns- son, en Almenna byggingafélagið h.f. annaðist útreikn- ing þeirra. Hinn 7. marz 1954 rann svo upp sá merkilegi dagur, er fyrsti áburðurinn var sekkjaður, og voru þá liðnir 22 mánuðir síðan byggingaframkvæmdir hófust, en 19 ár, síðan fyrsta áætlun um áburðarverksmiðju á íslandi var samin. Áburöarvinnslan í Gufunesi. Helztu atriðin í undirbúningi að áburðarframleiðslu á Islandi hafa nú verið rakin. Er þá komið að því að skýra frá því, á hvern hátt köfnunarefnisáburður er framleidd- ur í verksmiðjunni í Gufunesi. 1 stuttu máli má segja, að framleiðsla áburðarins fari fram í fimm stigum, og er því um fimm mismunandi verksmiðjur eða sjálfstæðar verksmiðjudeildir að ræða á verksmiðjusvæðinu. Þessar verksmiðjur eru: I fyrsta lagi vatnsefnisverksmiðja, en þar er framleitt vatnsefni úr vatni. Er það gert með því að kljúfa vatnið í frumefni sín, vatnsefni og súrefni og nota til þess raforku. I ööru lagi köfnunarefnisverksmiðja, en þar er framleitt köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Er það gert með þvi að skilja köfnunarefnið úr fljótandi lofti með eimingu. í þriðja lagi ammoníakverksmiðja, þar sem ammoníak er framleitt með því að leiða blöndu af vatnsefni og köfnunarefni inn í sérstakan ofn, og sameinast þau þá í ammoníak. 1 fjórða lagi saltpéturssýruverksmiðja, þar sem framleidd er saltpéturssýra úr ammoníaki, lofti og vatni. Og í fimmta lagi saltpétursverksmiðja, þar sem framleitt er ammoníum nítrat með því að leiða sam- an ammoníak og saltpéturssýru, og er þá áburður- inn fenginn. V atnsefnisframleiðslan. Framleiðsla hinn mismunandi efna, sem nú hafa verið talin, verður nú nánar útskýrð, og er þá fyrst fram- leiðsla vatnsefnis og vatnsefnisverksmiðjan. Vatnsefnið er, eins og áður segir, framleitt úr vatni með raforku. Heitir sú aðferð á íslenzku rafgreining vatns, og er talað um að rafgreina vatn í vatnsefni og súrefni. Þetta er gert með því að leiða jafnstraum gegn- um sterka vatnsupplausn af kalíum-hydroxíði í þar til gerðum tækjum, og klofnar þá vatnið í vatnsefni og súrefni. Tæki þau, sem hér um ræðir og nefnd hafa verið vatnsefnissellur eða einfaldlega sellur á íslenzku, eru þannig úr garði gerð, að sérstaklega lagaðar plötur, er mynda jákvæð og neikvæð skaut, eru á kafi í 28% kalí- umhydroxið upplausn í stálgeymum. Milli skautanna er komið fyrir skilvegg úr asbestdúk. Þegar jafnstraumi er hleypt á skautin, klofnar vatnið í vatns-kalíum- hydroxíðblöndunni í vatnsefni og súrefni, og kemur vatnsefnið fram við neikvæðu skautin, en súrefnið við þau jákvæðu. 1 stað þess vatns, sem þannig eyðist stöðugt úr upplausninni, er jafnóðum bætt við nýju vatni. Það vatn verður að vera mjög hreint, þ.e. ekki innihalda nein uppleyst efni eins og allt vatn meira og minna gerir, og er það því hreinsað vandlega og hinum uppleystu efnum náð burtu með svonefndum jónaskiptum. Vatnsefnið og súrefnið eru bæði lofttegundii' við venjulegan þrýsting og hitastig og losna sem slík úr upplausninni. Að öllu jöfnu eru þau mjög hrein, þegar þau koma frá tækjunum eða um 99,5%. Þannig er vatns- efnið nálega 99,5% með um 0,5% súrefnisinnihaldi. Við rafgreininguna hitna vatnsefnissellurnar allmikið og mundu ná suðumarki vatns, væru þær ekki kældar með vatni. Hins vegar er nauðsynlegt að halda þeim um 75 °C heitum vegna þess, að þá er nýtni rafgreining- arinnar bezt. Vatnsefnið er því heitt, er það kemur frá sellunum, og auk þess mettað af upplausn úr þeim. Er það því kælt niður og eftir kælinguna dælt út í geymi og geymt þar, unz not eru fyrir það til framleiðslu ammoniaks. Súrefnið aftur á móti er ekki nýtt og því sleppt út í andrúmsloftið að lokinni kælingu.

x

Tímarit Verkfræðingafélags Íslands

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit Verkfræðingafélags Íslands
https://timarit.is/publication/860

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.