Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1953, Síða 96
helztu forvígismönnum kommúnismans hér á landi.
Hann neytti mjög' i baráttu sinni þeirrar stefnu að
samstilla sem flest skáld og rithöfunda undir merkjum
andfasista, og' varð honum talsvert ágengt um skeið,
en eftir þá atburði, sem gerðust haustið 1939, varð
samstillingin að engu. Af öðrum, sem skrifuðu grein-
ar um bókmenntir frá kommúnistisku sjónarmiði,
voru helztir séra Gunnar Benediktsson og Halldór
Kiljan Laxness, en af hinum, sem andæfðu eða hófu
sókn gegn sjónarmiðum kommúnista, má nefna Jónas
skólastjóra frá Hriflu, fyrrum alþingismann og ráð-
herra. Hann skrifaði á þessu tímabili margt um bók-
menntir og menningarmál og beitti sér fyrir nýmæl-
um, sem skyldu að nokkru bæta það tjón, sem bók-
menning íslendinga hafði beðið, þá er hinn gamli
skóli heimilanna i sveitum landsins féll að mestu nið-
ur vegna nýrrar þróunar í atvinnu- og fjármálum
þjóðarinnar.
Skáld nýrra tíma I.
Stefán frá Hvítadal. Stefán Sigurðsson frá Hvíta-
dal fæddist á Hólmavik árið 1887, ólst upp norður i
Strandasýslu fram yfir fermingu, en fluttist síðan
að Ilvitadal i Dölum og kenndi sig við þann bæ.
Stefán fór að heiman innan við tvítugt og stundaði
prentnám á ísafirði og i Reykjavik, en svo ýmis
önnur störf, unz hann fór til Noregs og vann þar
fyrir sér i Haugasundi og Stafangri. Hann veiktist af
lungnaberklum i Noregi og dvaldist um hrið á heilsu-
hælum, en fór heim árið 1917 og settist að vestur í
Dölum. Þar reisti hann bú og bjó fyrst á Krossi á
Skarðsströnd, en síðan til dauðadags i Bessatungu í
Saurbæ. Stefán gat aldrei á heilum sér tekið, eftir
að hann kom frá Noregi, og lézt hann árið 1933.
Fyrsta bók Stefáns var Söngvar förumannsins. Þeir
komu út 1918. Síðan komu út eftir hann fjórar ljóða-
(94)