Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1953, Qupperneq 112
höfðu verið sveipaðar gliti ímyndunaraflsins, og nú
reikaði hann ár eftir ár um götur þessarar borgar,
sem varð æ þysmeiri og hávaðasamari, æ vélrænni,
var síbreytileg eins og titur salamöndrunnar og
ekki alltaf sem skáldlegust í hamskiptum sinum. Fé-
lagarnir hurfu einn af öðrum til hversdagslegra
starfa, og hinar fögru konur urðu misjafnlega stáss-
legar frúr og mæður, og umtals- og áhugaefnin urðu
ærið lítið háfleyg, bundin deginum i dag, — hjá karl-
mönnunum: peningar, atvinna og flokkarefskákin,
sem varð með hverjum deginum meira og meira hita-
mál; hjá konunum: börn og vinnukonur og grann-
konur og kjólar — enginn blær mikilla hugsjóna,
enginn andi háleits áhuga eða þjóðlegrar fórnar-
lundar. Loks umheimurinn: Grár fyrir járnum, heim-
ur kreppu og ringulreiðar, heimur harðstjórnar og
frelsissviptinga, heimur örvænis og þreytu eða trú-
arbragða á óskeikulleik einstakra foringja, sem
hrópuðu æ hærra og gerðu sífellt meiri kröfur
um undirgefni almennings og óskilyrðisbundna trú
á forsjá þeirra. Tómas Guðmundsson mun engan
veginn hafa fundið hjá sér vilja eða getu til sam-
löðunar slíkri veröld. Hann varð að skapa sér aðra.
Hann var barn fagurrar sveitar og mundi hafa átt
iþess kost að yrkja sig frá hinu þysmikla og erilsama
flífi á asfaltgötunni til hins frumstæða gróandlífs í
faðmi náttúrunnar. En lif og draumar unglingsins
liöfðu bundið hann sterkum böndum hinu nýja um-
hverfi, og svölun hans varð sú að fegra þetta um-
hverfi og stæra og flytja frá framandi löndum það,
sem samræmdist þeirri veröld, sem hann bjó sér til
hér heima. En í hinum leikandi og listrænu ljóðum
Tómasar frá þessum árum dylst ekki hneigð hans
til að sjá eitthvað dulið, þessum sýnilega heimi fjar-
lægt, undir hinu fágaða en tómlega yfirborði. Það
mun engin tilviljun, að fegurst allra kvæða hans frá
þessum tima eru þau, þar sem hið skvnjanlega og
(110)