Freyr - 01.09.1954, Blaðsíða 7
FRE YR
259
þaö vopnið, sem flestir myndu sízt ætla, að
gera sig svo heimskan að hann skilji ekki
mælt mál.
3. „Svo er á Helga að skilja, að hann
þekki okkur Sókrates jafn vel.“
Ekki voru það mín orð, en ég sagðist hvor-
ugan þekkja nema af afspurn. Þetta er rétt,
því þó að ég hafi talað við Jón í Felli í nokkr-
ar mínútur á ævinni, þá tel ég mig ekki
þann mannþekkjara að ég þekki hann
vegna þess. En ég þekki hann af afspurn á
sama hátt og Sókrates.
Þetta er nú allt aðeins formáli hjá Jóni
og kemur ekkert við því efni, sem um var
deilt.
Það voru aðeins þrjú atriði, sem ég mót-
mælti hjá Jóni og þau voru þetta:
I. Að engin framför hafi orðið í kynbót-
um sauðfjár.
II. Að enginn fjármaður hefði skímu um
það, hvernig sauðkind ætti að vera byggð til
þess að gefa sem mestan arð í samanburði
við tilkostnað.
III. Að sauðfjárrækt Þingeyinga í 100 ár
hefði engan árangur borið.
Nú er bezt að sjá, hvernig Jóni tekst að
hrekja þau rök, sem ég færði fyrir mínu
máli og þá komum við að fjórða atriðinu.
4. Jón segir, að ég fari að bera saman
hrúta og naut þeirra Hrunamanna og finni
þar engan kostamun til kynbóta. Hann
undrar að ég sé ekki þann reginmun sem
er á þessu og nefnir sem dæmi nautið Suðra
í Mývatnssveit, og við munum geta rakið
ætt hans 50 ár aftur í tímann.
Við þetta er nú það að athuga, að það eru
hrein og bein ósannindi, að ég gerði nokkra
tilraun til þess að bera saman sauðfjárrækt
og nautgriparækt Hrunamanna. Aðeins
lagði ég á borðið blákaldar staðreyndir um
það, að framför hefði orðið í sauðfjárrækt-
inni á síðustu 20 árum. Staðreyndir, sem
Jón vogaði sér ekki að hagga við og kýs þá
heldur að halla réttu máli í stað þess að
þegja.
Um nautið Suðra er það að segja, að hann
keypti ég og sendi norður í Mývatnssveit.
Hann var undan Huppu nr. 12 á Kluftum.
Við vitum, hvað móðir Huppu hét, en svo
getum við ekki rakið þá ætt lengra aftur
í tímann.
Ég held að það sé alveg vonlaust að Jón
í Yztafelli slái sér upp á því að fræða mig
um ættir nauta og hrúta í Hrunamanna-
hreppi síðustu 50 árin. Hann ætti því held-
ur að halda uppteknum hætti og ættfæra
kerlingarnar í Köldukinn.
Svo er á Jóni að heyra, að við Hruna-
menn munum heldur lítið vita um ættir
sauðfjárins. Til dæmis hefi ég merkt og
vigtað hvert lamb undan ánum á sauðfjár-
búinu á Hrafnkelsstöðum í meira en þrjá
tugi ára og það eru til skýrslur um vigt bæði
á ám og lömbum jafn lengi, og ættina sömu-
leiðis. Fjöldi af bændum merkir og vigtar
lömbin undan ánum og sauðfjárræktarfélag
hefir starfað í sveitinni um nokkur ár og
gerir ennþá.
5. „H. H. heldur, að auknar afurðir sauð-
fjár um allt land hljóti að stafa af kynbót-
um.“
Þar greip Jón nú á kýlinu; á þessu hélt
ég að hann mundi ekki flaska.
Það er nú fyrst að ég hélt, að Jón teldi
engan bónda á íslandi svo fávísan, og ég
ekki undan skilinn, að hann vissi ekki, að
búfjárrækt byggist á þessu tvennu: kyn-
bótum og bættri meðferð.
Annað, að meðferðin var alls ekki á dag-
skrá. Jón nefndi hana ekki á nafn í grein
sinni, og þá var engin ástæða fyrir mig að
gera það. Eða heldur Jón, að framfarirnar
í nautgriparæktinni séu eingöngu vegna
kynbóta og að þær kýr, sem nú mjólka 4000
kg, fái ekki meira fóður en kýrin um alda-
mótin, sem mjólkaði 2000 potta á ári.
Ég efa ekki, að kýrnar hefðu mjólkað
stórum meira um aldamótin en þær gerðu,
hefðu þær þá fengið fóðurbæti.
Hitt er líka jafn víst, að ef farið væri að
fóðra nútíma kúna á sama hátt og gert var
fyrir 50 árum, mundu flestar beztu kýrn-
ar steindrepast og stór spurning, hvort þær,
sem lifðu það af, mjólkuðu meira en kýr
gerðu þá.
Nei! Við höfum ræktað kýrnar þannig,
að þær geta umsett meira fóður og breytt
því í afurðir, en ekki til þess að geta skap-
að neitt úr engu.
Nákvæmlega sama gildir um sauðféð, og
er ekki spurning, að við séum komnir nokk-
uð skemmra með það.