Litli Bergþór - 01.12.2004, Page 19

Litli Bergþór - 01.12.2004, Page 19
Pling — Brúará í kringum verslunarmannahelgi. Fimm ára mannskæðri styrjöld er lokið með skiptingu landa. Fólksflutningabifreið með kirkjukór frá Azóreyjum á leiðinni að skoða náttúruperlur Biskupstungna, kemur að brúnni. Grímsnesmegin kemur grímsneskur landamæravörður með alvæpni um borð og gaumgæfir vegabre'f kórfélaga. Við hinn enda brúarinnar bíður biskupstungskur landamæravörður með alvæpni, tilbúinn í hvað sem er. Þetta leiftraði um hugann þegar kom að landamærastöð milli Slóveníu og Króatíu. Þarna var ekki einu sinni brú, bara svona venjulegur vegur yfir tún. Línan hafði verið dregin og vopnuðum vörðum komið fyrir. Ekki meira um það. Pling — Asnaskapur í Króatíu eftir siglingu meðfram nektarnýlendu Króata. Það getur verið að altinn og sópraninn hafi vitað af þessari nektarnýlendu þarna, en tenórinn hafði ekki hugmynd um hana og gat því ekki undirbúið sig með fullnægjandi hætti. í 500 metra fjarlægð frá ströndinni þarf hjálpartæki til að njóta náttúrufegurðarinnar til fullnustu. Það gekk því miður ekki upp og því var það, að kórfélagar einbeittu sér að ann- airi afþreyingu við undirleik einhvers, sem í upphafí ferðar var talinn vera óbreyttur harmónikkuleikari á lélegum launum, en reyndist síðar vera ríkur óðalseigandi í botnlausri ferðamannaútgerð. Hann tók miklu ástfóstri við það sem íslenskt var og stefndi lengi dags í að brot af landinu bláa yrði þarna eftir, sem annar tveggja eigenda óðalsins. Hvort þetta brot hefði tekið að sér harmonikkuleikinn, vínræktina eða matargerðina, mun enginn nokkurn tíma fá að vita, nema þá að eitthvað hafi gerst fleira sem tenórarnir fengu ekki að vita af. Það hefur nú svosem gerst fyrr að þeim sé haldið frá upplýsingum eða upplýsingum frá þeim, algerlega óverðskuldað. Pling — spegilslétt Adríahafið, sigling í sjóræningjaskipi í ljósaskiptunum. Tenórar eru nú að öllu jöfnu ekki mikið fyrir að bera tilfinningar sínar á torg. Það rekur ekki oft á fjörur þær aðstæður sem kalla fram í þeim rómatískan streng. Þessi strengur er þarna, og þegar vélargnýrinn loksins þagnar, við þær aðstæður sem að ofan er lýst, verður ekki við neitt ráðið. Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu hér og nú að orðaforði hans nái ekki að lýsa því sem þarna átti sér stað, meira að segja þótt hann sé af röddinni ljúfu, blíðu. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að endurvekja þessa upp- lifun síðar í ferðinni, náðist hún ekki og verður örugglega bið á að hún skjóti upp kollinum aftur. Það er kannski eins með hana og hinn ógleymanlega og seiðmagnaða flutning á Lífi og starfi tenórs hér fyrir ofan. Töfraleiftur lýsa stundum upp dauflegt hugskot mannskepnunnar, svona rétt eins og eld- ingaleiftrin hjá Arsenik. Svo er það búið og verður ekki endurtekið. Það kemur aftur seinna af sjálfu sér. Punktur. Pling — Fjárrekstur í neðanjarðarhelli í skítakulda. Tenórar eru nú ekki mikið fyrir að barma sér, en eftir langa og ítarlega umhugsun ætlar þessi að gera það nú og vonar bara að það skaði ekki orðspor raddarinnar helgu til fram- búðar. Það er auðvitað skiljanlegt, að slfk karlmenni sem tenórar eru, ákveði að láta lönd og leið ráðleggingar um að hylja sólsteiktan líkamann þegar halda skal í iður jarðar í brunandi lest, ekki síst ef sá klæðnaður sem í boði var, varð Munkatenorar? Hemmi, Kári, Jói, Þrúða, Loftur og Emma (kona Hemma). að teljast fremur ókarlmannlegur nema fyrir munka. Þessi tenór er ekki munkur og hélt nú að létt verk yrði það og löðurmannlegt að skjótast niður í helli og upp aftur á svita- storknum stuttermabol í stuttbuxum einum fata. Hann var svosem spurður að því ítrekað á leiðinni um þennan töfra- heim náttúrunnar hvort honum væri ekki kalt, en þverneitaði auðvitað jafnharðan, þó svo hann einbeitti sér svo að því að koma í veg fyrir tannaglamur, sem einhver gæti heyrt, að hann var næstum búinn að villast inn í tælenska hópinn, eða ítalska hópinn, eða brasilíska hópinn. Litadýrðin og ótrúlegur fjölbreytileikinn í þessari ólýsanlegu neðanjarðaveröld fór næstum því fyrir ofan garð og neðan, og ekki er ólíklegt að þessi tenór hefði orðið til þarna niðri, ef hann hefði bara getað numið staðar einhvers staðar á leiðinni. Það lá við að hann öfundaði eðlukvikindið sem lifði ljóslaust og matarlaust í þessu hellaumhverfi og hafði það bara gott. Til að forðast hugsanlegar ásakanir um léttúð og ábyrgðarleysi í efni því sem hér hefur verið borið fram vill höfundur segja þetta: Það er hægt að klæða hvað sem er í hvaða búning sem er. Ef allt gengur vel að öllum líður vel þá skapast tækifæri til að færa atburði og umhverfi lítið eitt í stílinn, jafnvel svo að það verði óþekkjanlegt, og það er bara allt í lagi. Ferð þessi öll, fyrir utan náttúrulega ýmislegt sem var að, og hægt væri að tíunda fjálglega, var einstaklega vel heppn- uð og skipuleggjendum, fararstjóra, kórstjóra, einsöngvara og undirleikurum til hins mesta sóma. Tenórar ferðarinnar fóru langt fram úr væntingum, sem þó voru feikilegar fyrir, en það sem kom hvað mest á óvart var, hvað margir eru í rauninni tenórar inni við beinið. í ágúst 2003, Páll Skúlason. Viðbætir blaðsins: Tenórar í þessari ferð voru: Páll Skúlason, Kistuholti, Bragi Þorsteinsson, Vatnsleysu, Þorleifur Sívertsen, Lambamýri, Sveinn Svavarsson frá Drumboddsstöðum (vinnur í Össuri), Jóhann I. Stefánsson trompettleikari frá Selfossi og Hermann G. Jónsson (Hemmi) frá Þorlákshöfn. Kjartan Jóhannsson, Kistuholti, var maki í ferðinni. Litli Bergþór 19

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.