Litli Bergþór - 01.03.2008, Blaðsíða 7

Litli Bergþór - 01.03.2008, Blaðsíða 7
Sveinn Kristjánsson Minning Hann var fæddur að Langholtsparti í Hraungerðishreppi 20. desember 1912. Foreldrar hans voru Guðríður Sveinsdóttir, f. á Rauðafelli undir Eyjafjöllum, og Kristján Diðriksson, f. í Króki í Hraungerðishreppi. Sveinn var næstyngstur 12 alsystkina. A fjórða ári fór hann í fóstur að Bergsstöðum til móðurbróður síns, Sigurfinns Sveinssonar og Guðrúnar Þorsteinsdóttur, konu hans. Þar eignaðist hann fjögur uppeldissystkini. Barnafræðslu fékk hann í farkennslu en var veturinn 1930 - 1931 í íþróttaskólanum í Haukadal hjá Sigurði Greipssyni. I æsku fór hann að vinna bústörf, sem fólust aðal- lega í að gæta kúa, hesta og kinda. Þá var enn fært frá ám og þær mjólkaðar í kvíum á vorin. Hann náði þá góðu sambandi við húsdýrin og fór ungur að temja hesta. Ungur mun hann hafa eignast hest og eitthvað af kindum og refarækt stundaði hann um skeið með öðrum ungum mönnum í nágrenninu. Þegar hann gat komist frá búi fósturforeldra sinna leitaði hann sér vinnu annars staðar, var m. a. á vertíð í Grindavík. Vorið 1937 hófst fjárvarsla á Kili til að koma í veg fyrir samgang sauðfjár að sunnan og norðan vegna smitsjúkdóma. Sveinn starfaði við þetta ásamt fleirum, og var hann þar einnig sumarið 1938. Þeir höfðu aðsetur vestan við Þegjanda skammt fyrir ofan þar sem hann sameinast Seyðisá. Fyrra árið var hann matreiðslumaður og bakaði þá rúgbrauð í heitum sandi á Hveravöllum. Síðara árið var hann varðstjóri. Tvær frásagnir Sveins frá þessum árum hafa birtst í Litla-Bergþóri. „Með 17 klyfjahesta á Kjöl“ í 1. tbl. 13. árg. 1992 og „Frásögn frá Kili“ í 1. tbl. 15. árg. 1994. Á verðinum var líflegur félagsskapur, þar sem menn skemmtu sér við sögur, ljóð, lausavísur og söng. Vorið 1941 giftist Sveinn Magnhildi Indriðadóttur í Arnarholti, sem fædd var í Efstadal í Laugardal 1914, og sama vor fóru þau að búa í vesturbænum á Drumboddstöðum, sem þau höfðu þá keypt. Þau bjuggu við kýr, kindur, hesta og varphænur. Einnig voru þau með garðrækt til heimilis og skrúðgarð til yndisauka. Börn þeirra eru fimm og afkomendur hátt á þriðja tuginn. Eftir 31 árs búskap stofnuðu þau félagsbú með syni sínum og tengdadóttur en brugðu svo búi árið 1982 og fluttu í Bergholt í Reykholti hér í sveit, eina af fjórum nýbyggðum íbúðum fyrir aldraða, sem þau höfðu stutt byggingu á með ráðum og dáð. Magnhildur var Ijósmóðir og studdi Sveinn hana mikið í því starfi, og óskaði hún stundum eftir því Sveinn við Hjúkrunarheimilið Ás sumarið 2003 að hann væri viðstaddur fæðingu þegar hún óttaðist að hún yrði erfið, svo sem fyrsta fæðing konu. í þessu sem fleiru voru þau ákaflega samhent, enda báru þau bæði mikla virðingu fyrir lífinu og létu sér annt um velferð fólks. Sveinn tók sjálfur á móti tveimur börnum þeirra hjóna. Hann var oft fenginn til að hjálpa kindum og kúm nágranna sinna við fæðingu og fleira þar sem hann gat lagt lið. I Bergholti voru þau með ýmiskonar starfsemi svo sem hænsnarækt og garðyrkju. Einnig unnu þau ýmislegt í höndunum, og útbjó Sveinn nytjahluti, m. a. hnakkgjarðir og gólfmottur úr hrosshári, sem hann spann. Magnhildur dó haustið 1992 og var Sveinn í Bergholti nokkur ár eftir það, hafði nokkra viðdvöl hjá syni sínum og fjölskyldu hans í Flóa en fór síðan á Hjúkrunarheimilið Ás í Hveragerði og dvaldi þar síðustu 9 árin. Sveinn var mjög félagslyndur, gekk ungur í Ungmennafélagið og tók þátt í leiksýningum á þess vegum, var félagi í stúkunni Bláfelli meðan hún starfaði hér og í nokkur ár starfaði hann í Lionsklúbbnum Geysi. Hann var einn af stofn- endum Hestamannafélagsins Loga og lét land undir athafnasvæði þess við Hrísholt. Hann var um árabil formaður sóknarnefndar Bræðratungukirkju og meðhjálpari þar. Sveinn lést á Hjúkrunarheimilinu Ási í Hveragerði 13. janúar sl. Útför hans fór fram frá Skálholtskirkju og hann var jarðsettur í Bræðratungukirkjugarði. A. K. -------------------------------- 7 Litli Bergþór

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.