Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.09.2005, Blaðsíða 14

Neytendablaðið - 01.09.2005, Blaðsíða 14
IMTWW = ! [T] l|| í ■ 1 m ■' . ■ (W> ■ * 1 Félagsmaður sendi Neytendablaðinu þessa áhugaverðu grein um lævís brögð lágvöruverslana. Lævís brögð lágvöruverslana í ferðum mínum í lágvöruverslanir hef ég tekið eftir kerfisbundnu misræmi - eitthvað sem kann að virðast smá yfirsjón, smávægilegt eitthvað hér og þar sem ekki passar alveg við það sem telst sjálfgefið. En þessar litlu gloppur hér og þar eru of reglubundnar til að geta verið tilviljun, ég tel þær vera vel ígrunduð brögð til að hífa heildarverð innkaupakörfunnar upp um talsverðar upphæðir. Einingabragðið Allir vita að stærri umbúðir þýða hag- kvæmari kaup. Að minnsta kosti er það rökrétt - umbúðir kosta sitt og það er dýrt að pakka litlum skömmtum því þá verður hlutfall umbúðanna meira í heildarverðinu, ekki satt? Ekki endilega. Ég hef margoft séð stærri umbúðir seldar á hærra einingaverði, og tvær eða fleiri minni einingar settar saman í knippi og seldar á hærra verði heldur en býðst þegar einingarnar eru keyptar stakar. Það er raunveruleg ástæða fyrir því að neytendalögin skylda verslanir til að sýna einingaverð ásamt heildarverði pakkningar. Með einingaverðinu verður einfalt að bera saman mismunandi pakkningar af sömu vöru. Skoðaðu næst smáa letrið þar sem þú sérð verð á lítra, kíló, stykki eða aðrar einingar. Það getur borgað sig. Torgbragöið Það er eitthvað í hópsálinni hjá okkur sem gerir stafla af einhverjum vörum úti á gólfi svo ómótstæðilega freistandi. En varaðu þig á þessu. Það er ekki víst að þetta séu hagstæðustu kaupin. Vörur í stöflum úti á miðju gólfi seljast eins og heitar lummur. Þetta er kjörinn vettvangur fyrir hagsýnan verslunarstjóra til að losa sig við vörur sem eru að komast á tíma - renna út eða nýrri pakkningar að koma í hús. Ef ekki þarf að losa sig við útrunnar vörur, þá má bara selja hvað sem er með torgbragðinu á hvaða verði sem er. Tilboðsbragðið Tilboð!! Rammað inn í gula stjörnu, eins og æpandi slúðurmolar í Séð og Heyrt. Gulir miðar hengdir á hillur eða í loft, tilboð á þessu, tilboð á hinu. Þetta sparar svo mikinn tíma, þú þarft ekki að vita hvað er eðlilegt verð á hlutunum, þú kaupir bara það sem er á tilboði og gerir góð kaup. Kannski ekki endilega. Það sakar ekki að hafa bak við eyrað að verslunin vill selja mest af þeim vörum sem hafa háa álagningu. Það eru þeirra tilboð. Stundum er besta verðið alls ekki auglýst, þú finnur það inn á milli tilboðsmiðanna, dettur um hangikjötsálegg á 2.000 krónur/kg í stað tilboðshangikjöts á 3.000 krónur/kg. Gleymdist að merkja verðið bragðið Oft fléttað saman við torgbragðið - nokkrir vöruflokkar úti á'gólfi, ef til vill skyldar vörur, og sumar þeirra eru ómerktar. Einnig notað í kælikistum, flestar vörur merktar en nokkrar ómerktar. Þú fyrtist við þetta, en þig vantar þessa ómerktu vöru. Allar hinar vörurnar í kring eru á góðu verði, það hlýtur að vera í lagi með þessa ómerktu, bara smá yfirsjón að verðið er hvergi til sýnis. Ég hef lent í þessu aftur og aftur, og ég man ekki eftir öðru en að mér hafi verið refsað á kassanum. Grillkveikilögur sem ég hélt að myndi kosta 150-200 kostar skyndilega 400 krónur lítrinn. Hvítlauksknippi býst ég við að greiða 50-100 krónur fyrir, en það kostar 300 krónur. Þú skilur hvað ég er að fara. Ef þú skýst í búð og kaupir nokkrar vörur, heildarreikningur upp á 4.000 krónur og tveir svona hlutir i körfunni. Þá hefur þú tekið á þig 10°/o hækkun á heildarverði körfunnar, 200 krónur á grillvökvanum, 200 krónur á hvítlauknum, það gerir 400 krónur sem þú hefðir sloppið við ef vörurnar hefðu verið kyrfilega merktar, til dæmis með „Okur!1' í Hér og Nú-stjörnu. Ég hef nýlega fundið góðan mótleik við þessu bragði. Tvær tegundur af appelsínusafa eru ómerktar inni í kæli. Ég tek bara 3 lítra af hvoru, og byrja svo á því við kassann að spyrja um verð og skila annarri eða báðum ef vörurnar reynast á hærra verði en ég kæri mig um. Afsláttarbragðið 20% afsláttur á kassa, 30%, jafnvel 40 prósent afsláttur af merktu verði. Allt auglýst í viðeigandi slúðurstjörnum. Hei, sjáðu hér, AFSLÁTTUR. Lambalæri með 30% afslætti af 1.500 krónum á kíló seljast betur heldur en lambalæri sem kostar 900 krónur á kíló með engum afslætti. Ef þér finnst þetta óskiljanlegt, taktu þá vel eftir. Það er verð per einingu sem þú greiðir á endanum, ekki afsláttur í prósentum. 30% afslátturinn kemur út á 1.150 kr/kg, það er um 30% dýrara en 900 kr/kg lærið. Þegar þú sérð 30% afslátt auglýstan, mundu þá að það gæti í raun þýtt 30% okur, þó að það sé auðvitað ekki algilt. Lágvörumerkisbragðið Lágvöruverðsverslanir bjóða gjarnan upp á ýmsar vinsælar vörur í sínum eigin pakkningum. Ávaxtasafar, brauð, pakkað grænmeti, sápur og svo framvegis. Neytandinn er alinn upp við það að þessar vörur séu ekki endilega þær bestu á markaðnum, en þær séu ódýrastar. Á þessum skrýtnu tímum þar sem krónan hefur styrkst í langan tíma, þá hefur það gerst að merkjavörurnar lækka stundum niður fyrir lágvörumerkin. Það er engin ástæða til að verðlauna lágvörumerkin ef þau standa ekki við það eina sem þau lofa, sem er lægsta verðið. Verðkönnunarlottóbragðið Það er mikilvægt fyrir lágvöruverðsverslanir að koma vel út í verðkönnunum sem fram- kvæmdar eru reglulega á vegum ýmissa samtaka og fjölmiðla. Verðstríðin svokölluðu eru unnin með því að koma statt og stöðugt út með lægsta verðið á þeim vörum sem eru í þessum könnunum. Því má ýmsu fórna til að vinna þetta stríð. Lausnin er að hafa þær vörur sem eru í verðkönnunum á góðu verði, að minnsta kosti á þeim dögum sem kannanir eru gerðar. Það er í lagi fyrir verslunarkeðjuna að tapa ögn á þessum vörum, þvi góð útkoma er góð auglýsing og styður þá ímynd sem er nauðsynleg fyrir lágvöruverðsverslun, og svo má alltaf bæta sér skaðann með því að gabba neytendur með hinum brögðunum. Þannig lækka lágvöruverðsverslanir verð á ýmsum vörum niður úr öllu valdi í von um að sigra í verðkönnunum. Þetta ótrúlega hagstæða verð er hvergi auglýst með gulum stjörnum og tilheyrandi. Þvert á móti eru sambærilegar vörur, til dæmis lágvörumerkjavörur, auglýstar með tilboðs- miðum allt í kring. Neytandi sem horfir framhjá brögðunum finnur að bestu tilboðin eru þau sem hvergi eru auglýst eða otað fram. 14 NEYTENDABLAÐIÐ 3. TBL 2005

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.