Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.09.2005, Blaðsíða 17

Neytendablaðið - 01.09.2005, Blaðsíða 17
Anna litla kemur heim úr skólanum og seilist eftir lyklinum sem hún hefur venjulega um hálsinn. Hún grípur í tómt. Lykillinn hefur oröið eftir heima í morgun. Hvaða vandræði! Klukkan er bara tvö og pabbi kemur ekki heim fyrr en klukkan fjögur. Hvað á Anna að gera? Hún sest á útidyratröppurnar og vonar að einhver af neðri hæðinni fari að koma heim. Veðrið er gott, sólin skín og fuglarnir syngja í trjánum þannig að ekki væsir um Önnu á útidyratröppunum meðan hún hugsar sinn gang. Gæti hún farið til Dísu vinkonu í næstu götu? Nei, hún er örugglega í tónlistarskólanum núna og enginn heima I húsinu hennar heldur. Öskukallarnir eru að koma að taka ruslið. Þarna kemur einn í appelsínugulum samfestingi og kastar kveðju á Önnu. „Ertu læst úti?" spyr hann. Já, svarar Anna, en man eftir því sem mamma hefur sagt að hún eigi ekki að tala við ókunnuga karlmenn þegar hún er ein úti. „Á ég að lyfta þér upp í gluggann þarna svo þú getir skriðið inn?" heldur öskukallinn áfram. „Svona písl eins og þú ættir að smjúga inn um rifuna." Önnu líst ekki meira en svo á hugmyndina en man skyndilega eftir því að amma, sem býr í þar næstu götu, gæti verið heima. Hún var alla vega heima í gær, hugsar hún með sér. „Kannski er hún ennþá í fríi," kallar Anna ósjálfrátt upp úr hugsunum sínum. Hún kastar kveðju á öskukallinn sem horfir á hana spyrjandi augum. Anna segist ætla að skreppa til ömmu. Hann brosir vingjarnlega til hennar og heldur bjástri sínu með tunnurnar áfram. Anna hringir dyrabjöllunni hvað eftir annað hjá ömmu en enginn kemur til dyra. Amma er örugglega í búðinni, hugsar Anna og andvarpar. Hún veit ekki að amma situr úti í garði með vinkonum sínum sem eru í heimsókn og heyrir því ekki í dyrabjöllunni. Litlu stúlkunni dettur ekki í hug að gá út í garð að ömmu. Hún röltir aftur heim og ákveður að líklega sé best að bíða þar. Fljótlega kemur svo konan á neðri hæðinni heim. Þær Anna eru góðar vinkonur og fá sér hressingu saman úti í garði. Pabbi kemur úr vinnunni klukkan fjögur og ævintýrinu litla lýkur farsællega. Ekki er því þó alveg lokið því um kvöldið ræðir fjölskyldan málið og ákveðið er að Anna, sem er tíu ára gömul, skuli fá farsíma til að ganga með. Þá getur hún alltaf hringt í mömmu, pabba, ömmu eða afa ef eitthvað bjátar á. Vandamálið virðist úr sögunni. Víst er það. Síminn leysir ákveðið vandamál. Þó er ekki víst að hann sé með öllu til góðs. Sögur sem þessi hér að framan gerast á hverjum degi enda mörg lyklabörnin á ferðinni. En hefur tíu ára gamalt barn ekki gott af því að kljást við vandamál sem koma upp án þess að geta með einu símtali fengið leiðsögn hinna fullorðnu? Hafði Anna ekki gott af ævintýrinu litla jafnvel þótt hjartað hefði kippst við nokkrum sinnum? Auðvitað eru ýmsar hætturnar í tilverunni, ekki síst þar sem þéttbýlið er mest og alls kyns misheilbrigt fólk er á ferðinni. En hugsum við málið til enda þegar við setjum síma upp í hendurnar á börnum? Getur verið að við sviptum barnið tækifærum til að þroskast í dagsins önn með því að fjarstýra því gegnum símann? Einhvern veginn verða börn að læra að bjarga sér og standa á eigin fótum. Venjist barnið þvi að alltaf sé hægt að hringja og spyrja þarf það aldrei að ákveða hlutina sjálft og standa eða falla með eigin ákvörðunum. Svo er líka á hinn bóginn alltaf hægt að hringja í barnið og fylgjast með því, veita því leiðsögn og ráð. Tíu ára gamalt barn er varla þvílíkt smábarn að foreldrarnir þurfi að hafa stöðugt auga með því. Allt þar til gemsafárið reið yfir voru börnum settar reglur um hvenær þau ættu að koma heim, hvar þau ættu að vera á tilteknum tíma, hvað þau ættu að hafa með sér, hvernig þau ættu að vera klædd og svo framvegis. Nú er allan daginn hægt að ná í barnið og leiða það gegnum daginn án þess að það þurfi að muna neitt eða ákveða neitt sjálft. Er þetta gott? Ég veit ekki. Tæknin er góð. Víst er það. Ekkert er þó með öllu gott og við verðum að taka við hverjum nýjum hlut með gagnrýnum huga, nýta kosti hans en afþakka gallana. Þurfum við virkilega fjarstýringu á börnin okkar? Kannski, en notum hana þá með varúð. Pétur Halldórsson 17 NEYTENDABLAÐIÐ 3.TBL.2005

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.