Neytendablaðið - 01.11.2006, Blaðsíða 21
Neytandinn svarar
Vilhjálmur Bjarnason er hagfræðingur að
mennt og kennir fjármál í viðskipta- og
hagfræðideild Háskóla íslands auk þess
að starfa á Hagstofu íslands. Vilhjálmur
er einnig formaður Samtaka fjárfesta.
Vilhjálmur býr í Garðabæ ásamt konu
sinni Auði Maríu og tvíburadætrunum
Huldu Guðnýju og Kristínu Mörthu.
Hefur ýtinn sölumaður fengið þig til
að kaupa eitthvað sem þú hefðir aldrei
annars keypt?
Já, eflaust hef ég látið undan lagni sölu-
manns sem vann vinnuna sina. Oft læt ég
eftir löngunum mínum, annars verður lífið
svo drepleiðinlegt. Þegar sölumenn hringja
í mig um kvöldmatarleytið segi ég þeim
að ég sé með svo marga afborgunarsamn-
inga í gangi að ég geti ekki borgað meira.
Sölumönnum finnst slikur kaupandi ekki
traustvekjandi.
Biður þú um Tax Free þegar þú kaupir
vöru erlendis?
Já, það geri ég. "Tax free" verslun er mjög
einföld og upplýstir neytendur eiga að
notfæra sér slík þægindi.
Hefurðu veitt í matinn?
Nei, ég stunda hvorki skot- né stangveiði.
Ég tíní þó ber og laga saft. Konan mín tinir
ber og býr til berjahlaup.
Hvenær skiptir þú síðast um banka eða
tryggingafélag?
Ég hef ekki skipt um tryggingafélag lengi og
hef ekkert ut á mitt tryggingafélag að setja.
Ég varð fyrir vatnstjóni á heimili mínu og
tryggingafélagið hefur gert skyldu sína. Ég
kanna vel hvað þjónusta banka kostar eða
þá hvaða tekjur bjóðast hjá þeim og vel það
sem hentar mér best og er kostnaðarminnst
eöa tekjumest. Ég er ekki bundinn banka
með hreðjataksláni.
Hefurðu reynt að semja um lægra verð
fyrir vöru eða þjónustu?
Já, aö sjálfsögðu. Mér finnst eðlilegt að
óska eftir staðgreiðsluafslætti þegar kredit-
kortaviðskipti eru í boði. Einu sinni vildi
verslun Ijúka viðskiptum með þokkalegum
afslætti en með þeim orðum að ég væri svo
leiðinlegur. Ég tók það ekki nærri mér.
Hvert er versta neytendahneykslið sem
þú manst eftir?
Neytendahneykslin eru mörg og það mætti
æra óstöðugan með upptalningunni. í hvert
skipti sem atvinnurekendur koma saman til
fundar gera þeir það til að sameinast gegn
viðskiptavinum sínum, neytendum. Hver
kannast ekki við Samtök íslenskra kál- og
grænmetissala eða Samtök íslenskra oliufé-
laga? Hver kannast ekki við Samtök banka
og verðbréfafyrirtækja? Er eðlilegt að
efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis ræði
við framkvæmdastjóra þeirra samtaka um
hagsmunamál aðildarfyrirtækja? Er glóra í
þvi þegar framkvæmdastjóri Samtaka banka
og verðbréfafyrirtæka fjallar um samkeppni
þessara fyrirtækja í fjölmiðlum? Af hverju
spyrja fjölmiðlar ekki einfaldrar spurn-
ingar; til hvers eru þessi samtök? Efla þau
samkeppni? Annað neytendahneyksli snýr
að áhugamáli mínu, sem er langhlaup. Af
hverju er gengi á dollar tvöfalt þegar kemur
að hlaupaskóm? Skór, sem kosta 80 - 90
dollara í búð í New York, kosta 13.000 -
15.000 krónur hér á landi; skór af sama tagi,
framleiddir í Kína.
Hverju myndir þú vilja breyta varðandi
neyslu þína?
Það er helst súkkulaðiát mitt, það er sjúk-
legt. Þar er við mig einan að sakast.
Vörugjöld munu ekki breyta nokkru þar um.
Kaupir þú vörur sem eru með vottuöu
umhverfismerki?
Já, ég geri það stundum. Er alltaf að marka
slík merki? Því miður er umræða um
umhverfisvænt, lífrænt og vistvænt úti í
móum og Andri og Ómar bæta þar ekki úr.
Vilhjálmur Bjarnason
Ertu fylgjandi því að áfengi verði selt í
matvöruverslunum?
Nei, ég er það ekki, að svo miklu leyti sem
mig varðar um það. Ríkiseinokunin býður upp
á mjög gott úrval af léttum vínum og bjór
og ég dreg í efa að kaupmaðurinn á horninu
muni gera betur. Að auki eru verslanir rikis-
einokunarinnar mjög aðlaðandi.
Ég óttast líka að Whiskey-áhugamenn muni
bera skarðan hlutfrá borði ef kaupmaðurinn
á horninu tekuryfir Whiskey-sölu og býður
aðeins eina samræmda tegund af rudda.
Ríkiseinokunin býður upp á val, þrátt fyrir
allt.
Finnst þér islenskir neytendur nógu með-
vitaðir og kröfuharðir?
Nei, neytendur eru aldrei nógu kröfuharðir.
Langlundargeð neytenda hefur þó minnkað
og nú lætur enginn bjóða sér morknaðar
kartöflur. Kröfuharka neytenda snýr ekki
aðeins að framleiðendum og verslunum
heldur einnig að ríkisvaldinu, sem oftar en
ekki hefur misboðið neytendum.
Hvað finnst þér um áform ríkisstjórnar-
innar um að lækka matvælaverð?
Þau eru hreint fráleit um margt. Fjölþrepa
virðisaukaskattur þjónar ekki hagsm-
unum neytenda og getur beinlínis verið
hættulegur. Það má ná sömu markmiðum
með persónuafslætti, barnabótum og
elli- og örorkulífeyri. Það er þó sannar-
lega kominn tími til að hreinsa til í skógi
fjölbreyttra vörugjalda, sem virðast ekki
i neinu innbyrðis samræmi. Umræðan um
verðlag á landbúnaðarafurðum fer alltaf í
sama farveginn. Líklega munu æðri máttar-
völd leysa þá þrætu hávaðalaust. Þó get ég
ekki látið hjá líða að nefna að umræðan um
hollustu íslenskra landbúnaðarafurða er á
þann veg að ef rétt er eiga allir útlendingar
að vera dauðir því þeir njóta ekki þessarar
gífurlegu hollustu á kostnað íslenskra skatt-
borgara.
21 NEYTENÐABLAÐIÐ 4.TBL. 2006