Bændablaðið - 10.11.2011, Blaðsíða 20
20 Bændablaðið | fimmtudagur 10. nóvember 2011
Skógræktarráðstefnan Heimsins
græna gull var haldin í salnum
Kaldalóni í Hörpu laugardaginn
22. október sl. Um var að ræða
ráðstefnu í tilefni af Alþjóðlegu
ári skóga 2011 og var hún með
fjölþjóðlegu yfirbragði. Flestir
fyrirlesaranna voru komnir
frá nágrannalöndum okkar, en
eini fulltrúi Íslands var Þröstur
Eysteinsson, sviðsstjóri Þjóðskóga.
Fundarstjóri var Aðalsteinn
Sigurgeirsson, forstöðumaður
Rannsóknarstöðvar skógræktar-
innar á Mógilsá, og ræddi hann
efni ráðstefnunnar við blaðamann.
Fjölþjóðlegt yfirbragð – íslenskur
undirtónn
„Árið 2011 er Alþjóðlegt ár skóga
hjá Sameinuðu þjóðunum og það
eru tildrög ráðstefnunnar,“ segir
Aðalsteinn. „Skógræktargeirinn á
Íslandi stóð fyrir einni ráðstefnu í vor
af þessu tilefni þar sem áhersla var
lögð á Ísland og möguleikana hér í
skógræktarmálum. Upplegg þessarar
ráðstefnu var hins vegar alþjóðlegt og
þar með gert ráð fyrir að Ísland yrði í
bakgrunninum. Við skipulagninguna
var þannig gert ráð fyrir því að reyna
að fá einhverja heildarmynd af stöðu
skógræktar í heiminum og því var for-
stöðumaður innan skógræktarsviðs
Matvæla- og landbúnaðarstofnunar
Sameinuðu þjóðanna, Mette Løyche
Wilkie, fengin til að halda erindi um
stöðu skógarmála á heimsvísu. Hún
er yfirmaður þeirrar deildar sem
sér um upplýsingasöfnun frá öllum
aðildarríkjunum og gerði hún m.a.
grein fyrir því að skógarþekjan héldi
áfram að minnka, þó dregið hefði
dálítið úr því á síðasta áratug – sér-
staklega í hitabeltisskógum Brasilíu,
sem skiptir miklu máli.
Jan Heino, formaður samninga-
nefndar um lagalega bindandi milli-
ríkjasamning um skóga í Evrópu, var
fenginn til að veita svipað yfirlit um
stöðu mála í Evrópu og svo vildum
við kynnast aðstæðum í tveimur
nágrannalöndum okkar, menningar-
lega og landfræðilega, sem þó eru
mjög ólík. Annars vegar talaði
Monika Stridsman, skógræktarstjóri
Svíþjóðar, undir yfirskriftinni Frelsi
með ábyrgð í sænska skógræktargeir-
anum. Svíþjóð er mikið skógarríki
þar sem um 70% landsins eru skógi
vaxin og skógariðnaðurinn stendur
undir drjúgum hluta þjóðarframleiðslu
og útflutningsverðmæta. Hins vegar
talaði Aine Ni Dhubháin frá Írlandi,
sem er nokkuð nálægt okkur í skóg-
ræktarlegu tilliti. Eins og Ísland var
Írland skóglaust land fyrir um einni
öld, en síðan hafa Írar aukið skógar-
þekjuna jafnt og þétt – sérstaklega á
allra síðustu áratugum. Í máli Aine
kom fram að Írar hafi nú náð um
11% skógarþekju en árið 1996, þegar
skógarþekjan var um 7%, var stefnan
sett á að hún næði 17% árið 2040.“
Þröstur Eysteinsson var svo síðast-
ur á mælendaskrá og segir Aðalsteinn
að það hafi alveg verið við hæfi að
ramma hina fjölþjóðlegu umræðu inn
með samanburði við íslenskar aðstæð-
ur. Þröstur fjallaði þar um íslenska
skógrækt í sögulegu ljósi og um leið
hina miklu vannýttu möguleika sem
Íslendingar byggju yfir. Þeir væru ríkir
af skóglausu landi og ættu að njóta
þess að vera í þeirri aðstöðu að geta
aukið útbreiðslu skóga til að ná mark-
miðum í loftslagsmálum.
Mikil verðmæti tapast
í hitabeltinu
Í erindi Mette Wilkie kom fram að
áfram er mesta skógareyðingin í hita-
beltinu. Á norðurslóðum, hjá þeim
þjóðum þar sem almenn velmegun er,
hafa skógar hins vegar verið að breiða
úr sér – sérstaklega í Evrópu. Þá hefur
á sumum stöðum í Asíu, sérstaklega
Kína, orðið mikil aukning í skógrækt.
Heldur hefur dregið úr skógareyðingu
á síðustu tíu árum miðað við tíu árin
þar á undan. Árin 1990 til 2000 nam
skógareyðingin 8,3 milljónum hektara
á ári, en næstu tíu árin var hún 5,2
milljónir hektara. Aðalsteinn segir
skógareyðinguna í hitabeltinu einnig
áhyggjuefni vegna þess að þar séu
svæði í hættu sem eru í raun vagga
lífræðilegrar fjölbreytni skóga í heim-
inum. Skógarnir sem koma í staðinn,
hvort sem um er að ræða á norður-
slóðum eða í Kína, geta ekki fyllt það
skarð sem eyðing hitabeltisskóganna
hefur í för með sér í tilliti lífræðilegrar
fjölbreytni. Það er því hætta á því, með
eyðingu regnskóga t.a.m. í Brasilíu og
Indónesíu, að við taki vistkerfi sem er
mun rýrara og fábreyttara.
Í lok erindis síns birti Mette Wilkie
forvitnilega tölfræði sem ætti að ein-
hverju leyti að geta glatt íslenskt
áhugafólk um skógrækt, þrátt fyrir erf-
iðan mótbyr á stundum. Þar kom fram
að Ísland er í öðru sæti á heimsvísu
þegar tekið er tillit til hlutfallslegrar
aukningar á nýskógrækt. Einungis
Franska Pólýnesía er ofar á þeim
lista. Aðalsteinn segir þó ekki mega
taka þessa tölfræði of hátíðlega, þar
sem Ísland hafi auðvitað verið sérlega
skógarlítið land miðað við önnur lönd
þegar þessar mælingar hófust fyrir um
áratug. Ísland hefur á þessum tíma
bætt við sig um 6% skógarþekju.
Sem fyrr segir beindi Jan Heino
sjónum eingöngu að Evrópu og gaf
hlutfallslegt yfirlit um ýmsar hliðar
skógræktar í álfunni. Þar kemur
í ljós að mikill munur er á skógar-
þekju landa sunnan til miðað við á
Norðurlöndunum. Mörg lönd í Suður-
Evrópu hafa mjög litla skógarþekju en
nágrannalönd Íslands eins og Svíþjóð,
Finnland og Noregur eru mikil og
rótgróin skógræktarlönd. Ísland sker
sig þó úr, með einungis um 0,4%
skógarþekju og vermir botnsætið,
en Finnland er andstæðan með um
76%. Almennt má segja um Evrópu
að þar hafi aukning á skóglendi verið
um 800 þúsund hektarar á ári – sl. 20
ár – vegna nýskógræktar eða sjálf-
græðsluskóga. Þar af eru um 1.000 til
1.500 hektarar hér á landi.
Í máli Heino kom fram að 70%
af nýtingu skóga í Evrópu er nýting
á trjáviði. Stærsti hluti þeirra 30%
sem eftir standa er nýttur í tengslum
við ferðamennsku og náttúruskoðun.
Eignarhaldi skóga í Evrópu er almennt
nokkuð jafnt skipt milli ríkis og
einkaaðila. Íslenskir skógar eru meðal
þeirra sem eru hvað mest í einkaeign,
eða um 70%, og í Vestur-Evrópu er
eignarhald skóga almennt í þá veru.
Í Austur-Evrópu eru skógar meira í
ríkiseign og í Sviss eru þjóðskógar
nánast 100% af skógum landsins.
Framtíðarsýn evrópskra skóga
er fögur
Heino er sem fyrr segir formaður
samninganefndar um lagalega bind-
andi milliríkjasamning um skóga í
Evrópu. Nokkur tími fór því í að
greina frá störfum þessarar nefndar,
en unnið er út frá yfirskriftinni
Evrópskir skógar 2020. Þar er lagt
út af þeirri framtíðarsýn að evr-
ópskir skógar verði mikilvægir til
framleiðni og fjölnytja og leggi sinn
skerf af mörkum til sjálfbærrar þró-
unar samfélaga; til velfarnaðar fyrir
mannfólk og hagþróun í heiminum.
Helstu markmiðin sem eiga að nást
með þessum samningi eru þríþætt:
sjálfbær nýting skóga, að viðhalda og
auka skógarauðlindir og tryggja að
skógar standist loftslagsbreytingar og
svo á að auka þanþol skóga gagnvart
náttúruhamförum og vernda gagnvart
ýmsum ógnum.
Aðalsteinn segir að þessi sameigin-
lega skógastefna hafi verið í undir-
búningi í um 20 ár og hefur Ísland
tekið fullan þátt í því starfi. Gagnvart
Íslandi er kannski mikilvægast í mark-
miðum nefndarinnar að stórauka
hlutverk skóga í mótvægisaðgerðum
gegn loftslagsbreytingum. Stefnt er
að því að samningurinn verði undir-
ritaður í lok næsta árs. Fjórir fundir
verða haldnir fram að þeim tíma og
mun sá fyrsti þeirra verða haldinn nú
í nóvember í Genf.
Gagnrýni á neikvæðni og afturhald
Þröstur Eysteinsson rakti fremur
dapurlega sögu skóga á Íslandi í
stuttu en skýru máli. Hann gerði
grein fyrir því hvernig stórvaxnir
skógar, ríkulegur botngróður og víð-
áttumikið kjarr hefðu hopað fyrir
kröfum manna um beitarland og
byggingartimbur, vegna kolagerðar
og smíða á verkfærum. Þá sótti búfé
fæðu sína æ meira í skóga og fram
undir 1950 var skógviður notaður
til að elda mat. Skógarnir gátu því
ekki endurnýjað sig. Jarðvegsrof og
eyðimerkurmyndun fylgdu í kjöl-
farið. Hann sagði Ísland hafa verið
í sömu stöðu og nágranna þess, en
endurheimt skóga síðan hefði gengið
mun hægar á Íslandi.
Erindi Þrastar var býsna bein-
skeytt gagnrýni á neikvætt við-
horf Íslendinga gagnvart skógrækt.
Framan af 20. öld hefði almenn
fátækt verið ástæða fyrir hægagangi
í skógrækt, en síðan hefði málið
snúist um að reyna að sannfæra
Íslendinga um að tré gætu vaxið hér
á landi yfir höfuð – og enn eimdi
eftir af þeirri hugsun hér á landi.
Máli sínu til stuðnings, og því að
skógrækt væri að ýmsu leyti ákjósan-
leg hér á landi, tók Þröstur dæmi um
að minnsta kosti fjórar trjátegundir
yxu jafn vel eða betur á Íslandi en
aðal timburtrén yxu í Skandinavíu
á sömu breiddargráðum – þar sem
úrvinnsla skógarafurða er stærsta
atvinnugreinin. Hann sagði að það
væri líka áhugaverð staðreynd að
skógar, sem urðu til við aðeins lítið
brot af mjög svo takmarkaðri gróður-
við grisjun að skila um 100 milljónum
króna í brúttótekjur á ári og skapa
um 15 ársverk. Það væri merkilegt að
hugsa til þess að þetta væri grisjun á
landsvæði sem væri einungis um 80
hektarar, en það samsvaraði svæði
sem væri álíka stórt og Öskjuhlíðin að
viðbættum Fossvogskirkjugarði. Trén
sem eftir yrðu héldu áfram að vaxa
næstu áratugina og marfalda verð-
mæti sitt. Við þessa grisjun opnast
skógarnir og verða betri til útivistar
og lífríkið verður fjölbreyttara. Sagði
Þröstur að ef Íslendingar ættu í dag
200.000 hektara af slíkum skógum
– og við grisjuðum eða felldum 3%
þeirra á hverju ári – gæfi það um
tvö þúsund ársverk og það munaði
um minna í okkar litla samfélagi.
Sagði hann að 200.000 hektarar
væru aðeins um 2% af Íslandi og við
gætum auðveldlega komið okkur upp
slíkri auðlind á komandi áratugum –
og raunar miklu stærri – án þess að
ganga á önnur gæði lands, svo sem
kornræktarland, útsýni, fornleifar
eða mófuglastofna. Það væru engir
raunverulegir árekstrar þar á milli.
Þröstur lagði áherslu á að við þyrft-
um að snúa vörn í sókn í skógrækt á
Íslandi. Í samanburði við nágranna-
lönd okkar – þau lönd sem hafa til-
tölulega litla skógarþekju – værum
við ekki nálægt þeim þegar kæmi að
markmiðunum. Á það bæði við um
markmið á stærð skógarþekjunnar
og eins hraða skógræktunarinnar.
Íslendingar hafa það markmið að
klæða 5% af láglendinu skógi, en
ólíkt því sem gerist hjá nágrönnum
okkar eru ekki tiltekin tímamörk á því
markmiði. Hefur Þröstur reiknað út að
miðað við núverandi hraða á gróður-
setningu muni taka um 250 ár að ná
því takmarki. Því sé helst um að kenna
að ríkisframlög til skógræktar hafi
dregist saman um helming að raun-
virði frá 2004 og einungis helming
þess sé hægt að skýra með efnahags-
hruninu. Þetta hafi gerst þrátt fyrir að
við höfum haldið því fram, á vettvangi
loftslagssáttmála Sameinuðu þjóð-
anna, að nýræktun skóga væri mikil-
vægur þáttur í viðbrögðum okkar í
loftslagsmálum og að við myndum
gera ráð fyrir henni óbreyttri frá því
sem var árið 2005.
Íslandi ríkt af skóglausu landi
Það að Ísland sé ríkt af skóglausu landi
gefur Íslendingum mikla möguleika,
að mati Þrastar, sem aðrar þjóðir hafa
ekki. Við höfum þannig tækifæri til að
ná markmiðum í loftslagsmálum auk
möguleika til iðnaðarnota og fram-
leiðslu á byggingartimbri – sem gætu
gert skógrækt sjálfbæra á Íslandi.
Þröstur segir að það eina sem
okkur skorti sé vilji; það sé ekki
lengur afsökun fyrir því að vera á
móti skógrækt að okkur skorti sönnun
þess að hún sé möguleg hér á landi
í miklum mæli. Við gætum, ef við
vildum, orðið kolefnishlutlaus þjóð
með nýræktun skóga einni. Eðlilegra
væri þó að skógræktin bæri helming
þeirrar ábyrgðar, sem þýddi nýræktun
skóga á um 5% af landinu. Hann segir
að ef við viljum geti Ísland orðið
útflytjandi skógarafurða í stað þess
að vera einn mesti innflytjandi heims
þeirra miðað við höfðatölu. /smh
Skýringarmynd frá Mette Wilkie. Hér sjást nettóbreytingar á skógarþekju á árunum 2005-2010. Miðað er við fjölda
hektara á ári. Á myndinni sést að skógareyðingin er mest í Brasilíu, Indónesíu og Ástralíu, en nýrækt mest í Kína.
Á þessari skýringarmynd frá Jan Heino má sjá hlutfall skógarþekju í löndum
Evrópu. Ísland er ekki á listanum en væri þar langneðst með um 0,4%.
Skógræktarráðstefnan Heimsins græna gull var haldin Hörpunni:
Ísland er eftirbátur nágranna sinna
– verðmætasköpun í skógrækt hér á landi ómarkviss, að mati sviðsstjóra Þjóðskóga
Mette Løyche Wilkie. Jan Heino. Þröstur Eysteinsson.