Fréttatíminn - 29.04.2011, Síða 18
Í
lífinu koma alltaf upp krefjandi
aðstæður þar sem við finnum
fyrir kvíða, depurð eða öðrum
erfiðum tilfinningum. Og þá
skiptir máli að gera sér ljósa
grein fyrir hugsunarhætti sínum.
Hann hefur mikil áhrif á líðan okkar
en er ekki alltaf í takt við raunveru-
leikann,“ segir Anna sem hefur um-
sjón með námi í fræðunum við Endur-
menntunarstofnun Háskóla Íslands.
„Við erum öll ólík og sem börn
mótumst við af umhverfinu á ýmsan
hátt. Við myndum okkur hugmyndir á
unga aldri um annað fólk og heiminn
í kringum okkur, um það hvernig
við eigum að vera og ekki síst hvort
við séum eins og við eigum að vera.
Þessar hugmyndir eða viðhorf sem
eru ýmist kölluð kjarnaviðhorf eða
inngrónar hugmyndar eru meira og
minna ómeðvitaðar og fylgja okkur
fram á fullorðinsár. Þær fara bæði eftir
því sem við okkur var sagt, hvernig
komið var fram við okkur og fyrir-
myndunum sem við höfðum í æsku.
Það gefur því augaleið að þessar
hugmyndir sem mótast áður en við
öðlumst gagnrýna hugsun eru mis-
hjálplegar og sumar jafnvel skaðlegar.
Því er það mikilvægt skref á þroska-
brautinni að verða meðvituð um lífs-
viðhorfin sem við höfum í farteskinu
úr foreldrahúsum. Kortleggja hvernig
maður mótaðist. Þá getum við endur-
skoðað og breytt hugsunarhætti okkar
ef við viljum og breytt þar með líðan
okkar til betri vegar.“
Afsannar hrakspár
Anna segir að hugræn fræði og atferl-
ismeðferð auðveldi fólki að gera sér
grein fyrir hvað það getur gert til að
stuðla að betri andlegri líðan og ekki
síst að verða virkari í lífi sínu. „Kvíði
viðhelst oft vegna þess að maður
forðast það sem veldur kvíða. Ef þú
ert til dæmis mjög feimin við annað
fólk mundi tilhugsunin um að fara á
mannamót valda þér miklum kvíða.
Þú telur þér því trú um að best sé að
sleppa því og líður strax betur af því
að kvíðinn minnkar. Þér líður betur
í augnablikinu en viðheldur vanlíðan
og kvíða til lengri tíma litið því þú
missir af tækifærum til að komast að
því að fólk er miklu vinsamlegra en
þú ímyndaðir þér og að þú ert miklu
áhugaverðari og hefur meira að gefa
en þú ímyndaðir þér. Með því að forða
þér kemurðu í veg fyrir að þú öðlist
nýja reynslu sem afsannar hrakspár
þínar og fyrirfram gefnar neikvæðar
hugmyndir.“
Þunglyndir túlka sér í óhag
Hugræn atferlismeðferð er hagnýt
meðferð sem byggist á rannsóknum
og námskenningum. „Að kynna sér
þennan fræðilega grunn sem hugræn
atferlismeðferð byggist á getur nýst
öllum. Hugræn atferlismeðferð snýst
ekki um að verða einhver Pollýanna og
hugsa bara jákvætt, heldur átta sig á
hvaða merkingu og skilning við leggj-
um í atburðina í lífi okkar. Ef ég sæki
til dæmis um starf og fæ það ekki, get
ég litið svo á að það sé ekkert skrítið
þar sem ég hafi verið ein af mörgum
hæfum umsækjendum. Túlkun mín
felur með öðrum orðum ekki í sér
neinn neikvæðan dóm á sjálfri mér. En
ég gæti líka hugsað sem svo að engum
hafi litist á mig og að ég sé ekki nógu
góð í þetta starf. Svo gæti ég haldið
áfram og varpað þessum hugsunum
yfir á framtíðina: Gefið mér að ekki
þýði að sækja um önnur störf, ég muni
hvort eð er ekki fá þau þar sem ég sé
ekki nógu hæf, ekki nógu góð. Ef mér
tekst ekki eitthvað get ég litið svo á að
það sé mannlegt og enginn heimsend-
ir. En ef ég hef tilhneigingu til þung-
lyndis er hætta á að ég túlki hlutina
mér í óhag, spái illa fyrir um framtíð-
ina, dæmi sjálfa mig of harkalega og
líti annað fólk neikvæðum augum. Til-
finningarnar sem fylgja í kjölfarið geta
verið depurð, þunglyndi og óöryggi
sem magna upp neikvæðar hugsanir.
Þannig verður til vítahringur sem
helst í hendur við orkuleysi, óvirkni
og einangrun. Rannsóknir hafa sýnt
að hugræn atferlismeðferð dugar vel
við þunglyndi og að fólki sem fær slíka
meðferð hættir síður til að falla aftur
niður í þunglyndi en þeim sem fá ein-
göngu lyfjameðferð.“
En hvernig greinir maður vitleysu
frá skynsemi?
„Með því að skoða tilfinningar sínar
og hugsunarhátt og meta með með-
ferðaraðilanum hvort maður geti lagt
jákvæðari merkingu í hlutina sem
er engu að síður í takt við raunveru-
leikann.“
Snýst þetta þá um að verða gagnrýn-
inn á hugsanir sínar?
„Já, það má segja það. Ganga ekki
út frá því að hugsanir manns endur-
spegli veruleikann. Við göngum oft
með ímyndaðan „veruleika“ í hug-
anum og horfum á heiminn í gegnum
hann sem gefur okkur bjagaða mynd
af lífinu. En við megum heldur ekki
gleyma að sýna sjálfum okkur samúð
þegar okkur líður illa. Það er ekkert
rangt við að segja við sjálfan sig: Þetta
fór ekki eins og ég hafði vonað, ekkert
skrýtið að mér líði illa.“
Ræktum með okkur þakklæti
Má segja að hugræn atferlismeðferð
taki á þessum ímyndunum?
„Já, hún gerir það. Það er auðveld-
ara að horfast í augu við sjálfan sig
með manneskju sem kann til verka og
leggur sig fram við að sýna skilning
og setja sig í spor manns. Þá verður
maður fúsari að stíga fram og taka
áhættu sem er iðulega nauðsynlegt
til þess að eitthvað geti breyst. Rann-
sóknir hafa sýnt að traust og gott með-
ferðarsamband er eitt lykilatriðið í því
að sálfræðimeðferð beri árangur.“
Í haust verður í boði nám í hug-
rænni atferlismeðferð á vegum Endur-
menntunar Háskóla Íslands í sam-
starfi við sálfræðideild Oxford-háskóla
og íslenska félagsins um hugræna
atferlismeðferð. Um er að ræða eins og
tveggja ára hagnýtt nám sem ætlað er
háskólamenntuðum fagstéttum sem
geta nýtt nálgun hugrænnar meðferð-
ar í starfi sínu. „Við fáum úrvals kenn-
ara utanlands frá ásamt íslenskum
kennurum og hluti námsins er þjálfun
eða handleiðsla í því að veita þessa
tegund meðferðar með fagmennsku
og mannúð.“
Anna hefur einnig kennt og skrifað
um sjálfsstyrkingu og leiðir til að bæta
sjálfsmat sitt, meðal annars í bók sinni
Leggðu rækt við sjálfan þig sem hefur
verið notuð í sálfræðikennslu. „Þessar
aðferðir eru líka hluti af hugrænni at-
ferlismeðferð og því hefur hún svo víð-
tækt notagildi. Við þurfum öll á því að
halda að efla sjálfsöryggi okkar til að
geta tjáð tilfinningar okkar og þarfir
og bætt þar með samband okkar við
aðra. Gott sjálfsmat og góð tengsl við
aðra eru kjarninn í lífshamingjunni.“
Eru fleiri atriði sem geta gert fólk
hamingjusamt?
„Já, það er mikilvægt að rækta með
sér hugarfar þakklætis. Vera þakk-
látur fyrir lífið og möguleikana sem
felast í því að vakna á hverjum morgni.
Ætlast ekki til þess að lífið sé auðvelt
né fyrirhafnarlaust. Það er einn
liðurinn í því að geta orðið hamingju-
samur.“
Anna segir að rætur hugrænnar at-
ferlismeðferðar nái langt aftur, meðal
annars í búddadóm og gríska stóu-
speki. „Það var gríski heimspekingur-
inn Epiktetos sem sagði að það væru
ekki ytri atburðir sem röskuðu ró
mannanna heldur merkingin sem þeir
legðu í þá. Búddadómur var í sinni
upprunalegu mynd ekki trúarbrögð
heldur hagnýt sálarfræði. Sumir segja
að Búdda hafi verið fyrsti sálfræð-
ingur sögunnar. Markmið hans var að
binda enda á sjálfskapaðar þjáningar
mannanna.“
Þóra Tómasdóttir
thora@frettatiminn.is
Hug-
myndir
sem mót-
ast áður
en við
öðlumst
gagnrýna
hugsun
eru mis-
hjálplegar
og sumar
jafnvel
skaðlegar.
Leiðréttir lærðan misskilning
Anna Valdimars-
dóttir segir mikil-
vægt að kortleggja
hvernig maður
mótast í æsku til
að geta breytt
hugsunarhættinum.
Ljósmynd/Hari
Hugsanir okkar endurspegla ekki alltaf veruleikann. Hugræn atferlismeðferð felst meðal
annars í því að gera sér grein fyrir lífsviðhorfum sínum og hvaða merkingu maður leggur
í hlutina. Anna Valdimarsdóttir sálfræðingur segir hugræna atferlismeðferð gagnlega
öllum en henni er beitt við kvíða, depurð, þunglyndi, þráhyggju og ýmiss konar vanda eins
og lágu sjálfsmati og samskiptavanda. Þóra Tómasdóttir ræddi við hana.
18 viðtal Helgin 29. apríl-1. maí 2011