Fréttatíminn - 27.09.2013, Blaðsíða 20
Sigríður grípur síðustu orðin á lofti:
„Eins og segir í textanum“ og vísar
í lag Stjórnarinnar, Til í allt.
Lagt fyrir nefnd hjá RÚV
Eftir sigurinn hér heima kom ekki
annað til greina af hálfu Siggu og
Grétars en að hljómsveitin færi
með þeim til Zagreb í Júgóslagívu
þar sem aðalkeppnin fór fram.
„Þeir hjá RÚV höfðu aðrar hug-
myndir um fyrirkomulagið og
við áttum bara að fara tvö með
einhverjar ríkisbakraddir,“ segir
Grétar. „Þeir sem voru með okkur
í hljómsveitinni voru fullfærir um
að radda lagið með okkur en for-
svarsmenn RÚV höfðu ekki meiri
trú á þessu en það að fengnir voru
þekktir menn úr tónlistarbrans-
anum til að úrskurða um hvort við
værum hæf. Ég ætla ekki að nefna
nein nöfn en þetta voru toppar í ís-
lensku tónlistarlífi. Þeir voru settir
í dómarasæti til að ákveða hvort
strákarnir gætu raddað lagið,“
segir hann. Sigga er þung á brún
þegar hún rifjar þetta upp. „Ég held
að þetta hafi aldrei komið fram.
Mér fannst þetta mjög sérstakt.“
Það fékkst í gegn að Stjórnin færi
öll út og Sigga og Grétar lögðust í
dansæfingar. „Við erum hvorugt
miklir dansarar og æfðum í marga
mánuði,“ segir Grétar. Hann tekur
fram að Sigga sé miklu meiri dans-
ari en hann. Þessi mótmælir Sigga
brosmild og segir Grétar vera betri
dansarann. Lagið hafnaði í fjórða
sæti, sem er þriðji besti árangur Ís-
lands í Eurovison. Á þessum tíma
sungu allar þjóðir á eigin tungu-
máli og bæði segjast þau frekar
hafa viljað syngja á ensku. „Við
hefðum alltaf haft enn betri mögu-
leika á að vinna þannig,“ segir
Grétar.
Blómafötin týnd
Mikið var lagt upp úr klæðnaði
þeirra Siggu og Grétars á þessum
tíma og ekki hægt annað en að
víkja tali að sviðsbúningunum. Í
undankeppninni voru þau í sam-
stæðum gallafatnaði með skraut-
legu blómamynstri sem þóttu þá
afar töff en þykja það vart í dag.
„Ég á flesta búningana. Þeir eru
svo eftirminnilegir. Sér í lagi rauði
kjóllinn sem ég var í úti í keppninni
og svo blómadressið sem er eitt það
hræðilegasta sem hægt er að sjá,“
segir Sigga og hefur fullan húmor
fyrir því hvað tíska þessa tíma
hefur elst illa. Grétar segist hins
vegar ekki lengur hafa blómafötin
í sínum fórum því hann hafi lánað
þau og þeim ekki verið skilað. „Það
voru margir sem vildu fá þessi föt
lánuð. Ég man ekki hver það var
sem fékk þau lánuð síðast. Kannski
er einhver sem klæðir sig reglulega
upp í þeim. En ég verð eiginlega að
nota þetta tækifæri til að auglýsa
eftir skræpóttu fötunum. Það er
einhver með þessi föt,“ segir hann.
Sigga segist einu sinni hafa lánað
rauða kjólinn í söngvakeppni á
Sauðárkróki þar sem flutt var lagið
Eitt lag enn. „Þessi föt eru dæmd
til að týnast ef maður lánar þau í
gæsapartí eða fyrirtækjapartí. Það
er gaman að eiga þessa búninga og
við komum til með að stilla þeim
upp á afmælistónleikunum. Ég held
að fólk hafi gaman af því að skoða
þá,“ segir hún.
Hentu kínaskónum
Útlitið skipti ekki síður máli þegar
hljómsveitin ferðaðist um landið
og spilaði á böllum. „Ég var alltaf í
leðurjakka. Það voru allir að spá í
útlitið því það bara tilheyrir þess-
um bransa. Það er ákveðið leikrit
sem er sett á svið fyrir áhorfendur,“
segir Grétar. Hann rifjar upp að
einum hljómsveitarmeðlimi hafi
þótt hinir svokölluðu kínaskór vera
öllu þægilegri og hann hafi því ekki
gengið í kúrekastígvélum eins og
hinir, sem voru allt annað en hrifnir
að skóbúnaði félagans. „Í hljóm-
sveitarrútunni var í eitt skiptið tek-
in umræða um þessa kínaskó þegar
hann var sofandi og einhverjir tóku
sig til þegar við keyrðum yfir eina
brúna að láta skóna bara gossa þar
ofan í. Þetta voru skýr skilaboð til
hans um að fá sér nýja skó.“
Hljómsveitin var sú vinsælasta
á landinu á tímabili og eitt merkið
um það var að Mjólkursamsalan
fékk þau Siggu og Grétar til að
sitja fyrir á mynd sem prýddi
mjólkurbílana. „Mjólkursamsalan
styrkti okkur til að byrja með. Það
var nú ekki alltaf drukkin mjólk á
ferðalögunum þó ég hafi nú líklega
verið með þeim duglegri þegar
kom að mjólk og kaffi. Þetta gátu
verið skrautlegar rútuferðir,“ segir
Grétar. Þau bókstaflega bjuggu í
rútunni frá fimmtudegi til mánu-
dags þegar þau spiluðu sem mest.
Þau fengu rútu sem Stuðmenn
höfðu áður haft afnot af. „Þessi
rúta var eiginlega að syngja sitt
síðasta en hún var dubbuð upp og
merkt Stjórn inni. Það voru fimm
kojur þannig að þetta rétt pass-
aði,“ segir Grétar. Hann rifjar upp
eina helgina þar sem þau spiluðu á
Inghóli á föstudegi, keyrðu af stað
um nóttina að loknum tónleikum
og biðu eftir að söluskálinn í Freys-
nesi opnaði um morguninn til að
fá sér morgunmat. „Við skröltum
svo áfram á Hornafjörð þar sem
við spiluðum á útisamkomu um
daginn. Þaðan fórum við upp í
Lón að spila á svokölluðu Lóns-
balli en þau voru haldin á þessum
tíma. Á laugardagskvöldinu var
fólk orðið þreytt en við héldum
okkur gangandi og eftir tónleikana
keyrðum við af stað til Egilsstaða
þar sem við áttum að spila á fjöl-
skylduskemmtun í Valaskjálf um
daginn. Þarna hafði ég varla sofið
frá föstudeginum og þegar við
komum á Valaskjálf var veðrið al-
veg dásamlegt, grasið varð heldur
freistandi og við lögðumst þar öll
niður og sofnuðum í um klukku-
tíma. Á sunnudagskvöldið náðum
við svo loks almennilegum svefni,“
segir hann.
Í afmæli hjá þekktum
athafnamanni
Upphaflegu meðlimir Stjórnar-
innar hafa ekki komið saman
síðan 1991. Sigga segir að í seinni
tíð hafi Stjórnin verið sett saman
fyrir Eurovision-ball á Players fyrir
mörgum árum og svo eitt einka-
samkvæmi. Ég velti fyrir mér
hver hafði efni á að láta hóa saman
Stjórn inni fyrir einkaboð og Sigga
bendir á að þetta hafi jú verið í
kring um 2007. „Þetta var stóraf-
mæli hjá athafnamanni í bænum,“
segir hún. Þau fást ekki til að gefa
upp hvern var um að ræða en taka
fram að þetta hafi í raun verið
þeirra eina þátttaka í ævintýrinu
sem kennt er við árið 2007.
Þau tilkynna mér að lokum
að nýtt lag með Stjórninni verði
frumflutt næsta dag, á fimmtu-
dag, sumsé daginn áður en þetta
blað kemur út. Lag og texti er
eftir Grétar og Friðrik Karlsson.
„Við erum þarna að gera grín að
okkur sjálfum. Lagið heitir „Þegar
mojo-ið flæðir“ og syngjum um að
við höfum misst mojo-ið og hvað
við þurfum að gera til að finna
neistann aftur, hlustum á Flash,
FM og lifum í gegn um iPhone-
inn okkar,“ segir Grétar. Fáir hafa
eflaust velt mojo-inu jafn mikið
fyrir sér og kvikmyndapersónan
Austin Powers sem hafði yfir að
ráða einstökum persónutöfrum.
Sigga hefur ákveðnar efasemdir við
titil lagsins. „Er ekki flottara að láta
það bara heita Mojo? Hitt er svo
langt. En þið höfundarnir verðið
auðvitað að ráða þessu.“ Ég tek
undir með Siggu og Grétar kemur
með lokaúrskurðinn. „Jú, Mojo er
sennilega flottara. Þá ákveðum við
það hér með. Lagið heitir Mojo.“
Erla Hlynsdóttir
erla@frettatiminn.is
Ég man ekki hver það var sem fékk þau lánuð síðast.
Kannski er einhver sem klæðir sig reglulega upp í þeim.
Blómafötin sem Grétar og Sigga voru í þegar þau sungu
Eitt lag enn í keppninni hér heima. Grétar auglýsir eftir
sínum fötum sem hann lánaði og fékk aldrei aftur.
Söngkonan Alda Ólafsdóttir söng með
Stjórninni áður en Sigga kom til sögunnar.
Hvert mannsbarn þekkti Siggu og Grétar og um
tíma prýddu þau líka bíla Mjólkursamsölunnar.
Hljómsveitin Stjórnin þegar hún var upp á sitt besta.
20 viðtal Helgin 27.-29. september 2013