Fréttatíminn - 18.01.2013, Blaðsíða 30
Bastían ber ábyrgðina
É
Ég man enn spenninginn eftir því að sjá
Kardimommubæinn í Þjóðleikhúsinu sem
barn þar sem Bastían bæjarfógeti réð
ríkjum, að minnsta kosti að nafninu til,
ræningjarnir þrír, Kasper, Jesper og Jón-
atan fóru í reglulegar ránsferðir og full-
komnuðu ferilinn með því að ræna Soffíu
frænku, sem ekki var öll þar sem hún
var séð og Kamilla litla söng svo undur
fallega.
Í einfeldni minni hef ég alla tíð síðan
staðið í þeirri meiningu að lífið í Kardi-
mommubæ hafi verið tiltölulega saklaust,
þrátt fyrir gripdeildir þeirra þremenn-
inga og ránið á Soffíu frænku. Hún lét þá
kumpána enda ekki eiga neitt hjá sér held-
ur kenndi þeim mannasiði. Í hverju skoti
hjá þeim var skúm og ryk. Jesper komst
ekki upp með frekara múður. Hann mátti
skítinn þvo og skrúbba óhroðann. Þeir
Jónatan voru síðan reknir í bað eftir að
Kasper hafði hitað vatn enda voru andlit
þeirra svört eins og moldarflag.
Það kom því á mig á dögunum þegar ég
las frétt um allt annan veruleika í Kardi-
mommubænum og beinlínis skaðlegan
ungviði. Sofia Jupither, leikstjóri í Svíþjóð,
skrifaði grein í norska blaðið Aftenposten
og fann Kardimommubænum allt til for-
áttu. Hún fullyrti að boðskapur norska
leikskáldsins Thorbjörns Egner, sem
einnig samdi Dýrin í Hálsaskógi og Kar-
íus og Baktus, og sýn hans á konur skað-
aði börn. „Það að Kasper, Jesper og Jón-
atan ræni Soffíu frænku kennir börnum
að ef karlmaður getur ekki náð sér í konu
til að elda fyrir sig og gera hreint þá er
mannrán sjálfsagt örþrifaráð,“ segir Sofia
og er ekki sátt við meðferðina á nöfnu
sinni í Kardimommubænum.
Ég sem hélt að Soffía hefði verið sterk-
ari en ræningjagreyin, mesta skass, ef
leyfilegt er að segja það, eða öllu heldur
mikill kvenskörungur. Hún tók því hvorki
við beiðni ræningjanna um að elda ofan í
þá né þrífa ræningjabælið heldur skipaði
þeim að sitja og standa eftir sínu höfði,
eftir nokkra tiltekt að vísu enda var ekki
nokkur hlutur á sínum stað eftir að Soffía
hafi farið um sem hvítur stormsveipur.
Þeir áttu því ekki annan kost í stöðunni en
að ræna henni til baka – skila henni aftur
til síns heima. Í millitíð hafði hið milda yf-
irvald, Bastían bæjarfógeti, að vísu reynt
að bjarga Soffíu úr prísund ræningjanna
en sú góða kona kærði sig hreint ekki um
að láta bjarga sér.
Rán þeirra Jespers, Kaspers og Jónat-
ans á Soffíu frænku mun því, samkvæmt
kenningum Sofiu Jupither, hafa skaðað
mig sem barn og væntanlega til allrar
frambúðar. Hið sama á þá við um hátt í tvö
hundruð þúsund Íslendinga, obba þjóðar-
innar, sem séð hafa Kardimommubæinn
frá því hann var fyrst sýndur hér á landi,
í Þjóðleikhúsinu árið 1960. Leikhúsið
hefur síðan tekið leikritið til reglulegra
sýninga enda hefur það notið fádæma
vinsælda. Hver ný kynslóð hefur því fylgst
með mannskemmandi samskiptum ræn-
ingjanna og Soffíu frænku, hvernig þeir
rændu konu til að elda fyrir sig og hreinsa
bælið af því að þeir nenntu því ekki sjálfir.
Ég og mín kynslóð fengum því, sam-
kvæmt kenningu Sofiu Jupither, ranghug-
myndir í kollinn á viðkvæmum barns-
aldri. Þar virðist vera fundin skýring á
rembu þeirra karla sem komnir eru á
virðulegan aldur og sáu fyrstu uppfærslu
Þjóðleikhússins á Kardimommubænum
– og kannski meira og minna allra ís-
lenskra drengja sem síðan hafa þroskast í
fullvaxta karla. Hvaða áhrif rán Kaspers,
Jespers og Jónatans á Soffíu frænku hafði
á stúlkur jafnaldra okkur, og nánast allar
íslenskar stúlkur síðan, skal ósagt látið.
Þarna er þá komin skýringin á því hversu
hægt gengur að jafna mun kynjanna í okk-
ar annars ágæta samfélagi. Ræningjarnir
í Kardimommubænum eiga sökina og
ekki síður hið lina yfirvald, Bastían. Ekki
bætir úr skák að áður en yfir lýkur trúlof-
ast Soffía frænka sjálfum Kasper, einum
mannræningja sinna. Það eru voðaleg ör-
lög. Verst af öllu er að Þjóðleikhúsið held-
ur áfram að sýna Kardimommu bæinn,
þjóðhættulega sýningu, með reglulegu
millibili. Brotavilji stjórnenda þar á bæ er
einbeittur, mann fram af manni.
Í þessu sambandi verður mér hugsað
til æskuvinar míns. Pabbi hans vann hjá
Þjóðleikhúsinu á æskudögum okkar.
Hann naut því þeirra forréttinda að fá að
fylgjast með æfingaferli Kardimommu-
bæjarins, þegar ræningjarnir æfðu mann-
ránið og jafnframt það örþrifaráð að
skila hinni stjórnsömu og ströngu
konu aftur. Þá naut hann aðstöðu
sinnar eftir að sýningar hófust og
sá því þessa vinsælu barnasýn-
ingu, nú alræmdu, rúmlega tutt-
ugu sinnum – tuttugu sinnum
oftar en meðalbarn þess tíma.
Þessi góði æskuvinur minn
hlýtur að hafa verið óvenju vel af
guði gerður því hjónaband hans
hefur verið farsælt og jafnræði
með þeim hjónum, barnauppeldið
sameiginlega í höndum þeirra svo og
heimilishald allt. Þar er hvorki að finna
skúm og ryk, skran og rusl og dót, eins
og Soffía fann hjá ræningjunum.
Ábyrgð Bastíans bæjarfógeta, sem
æðsta yfirvalds í Kardimommubænum,
er því mikil og sömuleiðis skapara
hans, hins norska Thorbjörns Egners.
Látum ástandið í heimalandi hans
liggja á milli hluta en hérlendis ber
Bastían, auk ræningjahyskisins,
ábyrgð á bévítans karlrembunni
sem öllu tröllríður. Ef ekki væri
fyrir þann milda þrjót væri staða
kynjanna löngu orðin jöfn.
Sofia Jupither leggur til að
verkum Egners verði fargað. Um
þann gjörning hljóta allir sann-
gjarnir menn að vera sammála.
Jónas
Haraldsson
jonas@
frettatiminn.is
HELGARPISTILL
Te
ik
ni
ng
/H
ar
i
30 viðhorf Helgin 18.-20. janúar 2013