Kraftur - 01.11.2010, Blaðsíða 3

Kraftur - 01.11.2010, Blaðsíða 3
3KRAFTUR Fréttablaðið okkar er gefið út tvisvar á ári og við getum svo sannarlega verið stolt af því. Fréttablað félagsins er ein af fjáröflunarleiðum Krafts og þegar gluggað er í fréttablöð seinustu ára þá er það líkt og að fara í gegnum gömul myndaalbúm. Við rifjum upp góðar stundir og áttum okkur á því að margt hefur áunnist. Margir sigrar og sem betur fer miklu fleiri en tapaðar orrustur. Við skulum alltaf hafa það hugfast og nýta okkur það til að fá meðbyr í öllu sem við erum að gera. Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur. Hvenær er maður ungur og hvenær er maður ekki lengur ungur? Við sem höfum starfað með Krafti höfum oft þurft að svara þessum spurningum þ.e. við hvaða aldur er miðað. Þegar ég fæ þessar spurningar þá hættir mér til að detta í heimspekilegar vangaveltur um að aldur sé afstæður. Við erum í raun öll ung eða að sá sem greinist er jú ungur í því ferli og hefur nú hafið nýjan kafla í sínu lífi. Svarið er í raun ekkert flókið. Kraftur er opinn öllum, ungum sem öldnum og við vísum engum frá. Hinsvegar ber að hafa í huga að áherslur Krafts eiga að miða að ungu fólki. Í skilgreiningu okkar á félaginu er Kraftur líka opinn aðstandendum og þeir geta vitaskuld verið á öllum aldri. Meðalaldur stjórnarmeðlima Krafts er um 35 ár. Ósjálfrátt skapast þá verkefni Krafts miðað við þann aldur. Á þessu skeiði erum við að einbeita okkur að börnum og uppeldi, fjölskyldunni og starfsframanum. Fyrr á þessu ári áttuðum við okkur á því að yngra fólkið hafði gleymst. Þetta var hópurinn sem er á aldrinum 18-29 ára. Þegar Kraftur var stofnaður fyrir 11 árum átti félagið einmitt að koma til móts við þennan hóp og nú var hann gleymdur. Umræðan fór af stað og við tókum upp samstarfsviðræður við SKB og Ljósið um að samnýta krafta og hlúa að þessum aldurshópi. SKB og Kraftur höfðu lengi velt fyrir sér slíku samstarfi, enda ljóst að SKB börnin eldast og því nauðsynlegt að geta boðið þeim áframhaldandi félagslegan stuðning. Ljósið og Kraftur hafa áður starfað saman að velferð krabbameinssjúklinga og því þótti eðlilegt að Ljósið kæmi að ungliðastarfinu einnig. Starfið var því mótað að nokkru leyti og kynnt s.l. vor og fór svo formlega af stað nú í haust. Hópurinn hittist nú hálfsmánaðarlega og hefur tekist mjög vel til. Í blaðinu er stiklað á stóru um Ungliðastarf Krafts, Ljóssins og SKB og félögin geta verið stolt af þessu samstarfi og kennir okkur að þau félög sem vinna í þágu þeirra sem greinast með krabbamein, eiga að vinna saman. Það verður virkilega gaman að fylgjast með þróun mála í þessu starfi. Að þurfa skyndilega að treysta á aðra getur verið þrautinni þyngri. Ég hef rætt það margoft hversu furðulegt það er að vera kippt úr venjulegu lífi þar sem maður skilgreinir sjálfan sig sem föður eða móður, út frá þeirri menntun sem maður hefur eða því starfi sem maður gegnir. Ungt fólk í blóma lífsins er að sinna sínu og það er eðlilegt. Það er ekki fyrr en fólk er sett á hliðarlínuna og skilgreint sem sjúklingar sem það áttar sig raunverulega á hversu mörgum hlutverkum það gegnir. Daglega komum við ótrúlegustu hlutum í verk. Þegar krabbamein bankar á dyrum hjá fjölskyldum og einstaklingum þá er sá sem greinist og nánustu aðstandenur ekki færir um að sinna öllum þessum verkefnum. Ný verkefni bætast við s.s læknisheimsóknir, myndatökur, lyfjagjafir, sjúkraþjálfun, sálfræðiráðgjöf, félagsráðgjöf og margt fleira. Verkefnin hlaðast upp og valda kvíða og depurð. Það ástand getur lýst sér í sinnuleysi t.d. með því að sleppa því að opna gluggaumslög, finnast það óyfirstíganlegt að fara með bílinn í smurningu, safna endalausu drasli í bílskúrinn og eiga erfitt með að hitta vini. Ég er ekki að lýsa hér niðurstöðum úr nýjustu rannsóknum heldur deila með ykkur persónulegri reynslu úr lífi mínu. Þegar maðurinn minn greindist með krabbamein komu fjölskylda og vinir mjög sterkir inn okkur til aðstoðar. Fólk ósjálfrátt skipti með sér verkefnum og til varð net. Hér aftar í blaðinu er fjallað um Share the Care sem er aðferð sem vinahópar eða fjölskylda getur nýtt sér þegar ástvinur veikist. Mér er þessi aðferð mjög hugleikin og ég veit að hún gæti nýst mörgum. Margir sem starfa við hjúkrun og umönnun þekkja vel þessa aðferð og nýta hana. Umfjöllunin hér aftar í blaðinu er mjög áhugaverð og getur vonandi orðið einhverjum til góðs. Stuðningsnet Krafts er í blóma og við höldum áfram að hlúa vel að því. Veturinn byrjar vel og við horfum með tilhlökkun til nýrra verkefna og eins og félaginu er einu lagið þá eru hinar ýmsu hugmyndir í deiglunni. Ekki má gleyma því frábæra starfi sem framkvæmdarstjóri Krafts, Hulda Bjarnadóttir er að vinna. Hún vinnur í nánu samstarfi við Rágjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins og hefur aðstöðu þar sem gerir það að verkum að allt starf okkar er aðgengilegt fyrir þá sem vilja til okkar leita. Við leggjum áherslu á að dyrnar séu alltaf opnar. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa komið að starfinu okkar á einn eða annan hátt. Við finnum alltaf fyrir velvild og að vel sé hugsað til okkar. Með þökk, Ásta Hallgrímsdóttir, formaður Krafts *** kveðja fRá foRmanni

x

Kraftur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.