Morgunblaðið - 17.03.2012, Blaðsíða 43
MINNINGAR 43
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 17. MARS 2012
Hvernig skrifar
maður minningargrein um konu
eins og Binnu? Konu sem var svo
stór að hún passar ekki inn í það
form sem svona grein býður upp
á. Binna féll reyndar ekki inn í
nein form. Hún var ekki týpísk að
neinu leyti. Hún var öðruvísi en
allir aðrir en um leið svo dásam-
lega alþýðleg að fólk laðaðist að
henni úr öllum áttum enda var
vina- og kunningjahópurinn í
kringum Binnu stærri en gengur
og gerist um annað fólk. Hún var
alltaf flottust, kátust og dugleg-
ust. Hún var líka hugmyndarík og
þegar hugmyndirnar fæddust
þurfti að framkvæma þær í hvelli.
Það gat til dæmis þýtt það að
Binna kom of seint í fermingar-
veislu af því að hún byrjaði að
sauma sér kjól hálftíma áður en
veislan hófst og kom í honum
ófölduðum og var fínust af öllum í
veislunni.
Það er heldur ekki hægt að
setja sig í hátíðlegar og alvöru-
gefnar stellingar eins og oft er
gert í minningargreinum því ekk-
ert við Binnu var hátíðlegt. Samt
var Binna aðalmanneskjan á öll-
um hátíðum. Hún stóð fyrir því að
fjölskyldan hittist um jól og páska
og helst líka um hvítasunnu, nýár,
í öllum afmælum og helst í hverri
viku líka og hvert aðfangadags-
kvöld hélt hún hátíðlegt með því
að hafa tugi fólks í mat. Binna
hafði auga fyrir kómískum hliðum
mannlífsins og hún átti sérlega
auðvelt með að sjá spaugilegar
hliðar á eigin tilveru.
Mærðarleg minningargrein
kemur auðvitað ekki til greina því
ekkert við Binnu var þannig. Hún
fór hratt yfir, vann rösklegar en
flestir, komst yfir meira en við
flest, vílaði fátt fyrir sér og var
alltaf boðin og búin að hjálpa öðr-
um. „Ég skal bara gera þetta“ var
viðkvæðið ef maður var að vand-
ræðast með eitthvað og svo gekk
hún í að sauma tugi kórkjóla, und-
irbúa frumsýningarveislur, bjóða
í „brunch“, elda mat, skutla
krökkunum, mála stofuna korteri
áður en gestirnir mættu, baka
bestu frönsku súkkulaðiköku í
heimi fyrir allar veislur stórfjöl-
skyldunnar og hlæja svo að öllu
saman. Binna lifði í núinu og lagði
sig ekki eftir því að æðrast yfir
okkur hinum. Hún var reyndar al-
gjörlega fordómalaus gagnvart
öllu fólki og ég held að hún sé eina
manneskjan sem ég hef kynnst
um dagana sem aldrei hallmælti
nokkrum manni.
Elsku Binna mágkona, takk
fyrir allt og allt. Ég mun sakna
þín.
Hrafnhildur Ragnarsdóttir.
Þegar ég kynntist Jónínu
minni árið 2003 má segja að ég
hafi fengið Binnu í meðgjöf. Sam-
heldnari fjölskyldu hef ég ekki
kynnst. Fyrstu árin var miðstöð
samskiptanna í Langagerði, þar
sem foreldrar þeirra systra
bjuggu. Það tók því ekki að læsa
dyrunum þar, svo mikill var
gestagangurinn. Ófáum stundum
vörðum við með Binnu í eldhúsinu
hjá Öllu og Hilmari og þar var
mikið hlegið.
Árið 2007 fluttum við Jónína í
Kópavoginn. Þá hafði Binna þeg-
ar greinst með þann illvíga sjúk-
dóm sem lagði hana að velli að
lokum. Eftir að við kvöddum Öllu
ári síðar tók Víðihvammur að
Bryndís
Hilmarsdóttir
✝ Bryndís Hilm-arsdóttir fædd-
ist í Reykjavík 20.
maí 1960. Hún lést
á líknardeild Land-
spítalans í Kópa-
vogi 1. mars 2012.
Útför Bryndísar
fór fram frá Hall-
grímskirkju 13.
mars 2012.
miklu leyti við því
hlutverki, sem
Langagerði hafði
haft áður. Þar hittist
fjölskyldan og naut
oftar en ekki listi-
lega eldaðs matar
Binnu.
Það er sagt að
greiðasta leiðin að
hjarta mannsins
liggi í gegnum mag-
ann. Matur var ein af
sérgreinum Binnu. Í gegnum
starf sitt hjá Borgarleikhúsinu
fæddi hún hvern leikarahópinn á
fætur öðrum og telja má víst að
þeir sem hafa notið matar hennar í
gegnum tíðina telji nokkur þús-
und.
En Binna var ekki bara örlát á
mat. Dyr hennar stóðu ávallt opn-
ar og hún deildi öllu sínu með öðr-
um. Þremur mánuðum eftir and-
lát Öllu kom ný Alla í heiminn.
Binna tók strax miklu ástfóstri við
hana og milli þeirra myndaðist
einstök vinátta. Binna fékk síðan
þær gleðifregnir undir lok síðasta
árs að hún ætti von á sínu fyrsta
barnabarni. Þótt henni hafi ekki
enst ævin til að sjá það fæðast –
áætluð fæðing er í júlí – fékk hún
þó að sjá það á mynd fyrir andlát
sitt, þökk sé nútímatækni. Þótt
það sé auðvitað leitt að barnið fái
ekki að njóta þess að kynnast
Binnu með beinum hætti er víst að
hún muni vaka yfir velferð þess,
þar sem hún er núna.
Seint á árinu 2009 fluttum við
Jónína með Öllu og kettina okkar
tvo til Hollands. Fljótlega eftir
það kom í ljós að við ættum von á
öðru barni. Veikindi Binnu tóku
jafnframt að ágerast. Það stöðvaði
hana þó ekki í að heimsækja okk-
ur um páskana. Sú heimsókn stað-
festi enn frekar það mikilvæga
hlutverk sem hún lék í lífi okkar.
Við fluttum aftur heim síðar á
árinu og eignuðumst Kára Bjart
um haustið. Þökk sé flýttri heim-
komu okkar, þá náðum við að
verja dýrmætum tíma með Binnu,
sem Alla kallaði stolt „bestu vin-
konu sína“.
Allt tekur enda. En þótt krabb-
inn hafi haft sigur að lokum háði
Binna hetjulegu baráttu, sem stóð
lengur en bjartsýnustu menn
þorðu að vona. Við erum þakklát
fyrir þau sex ár sem við fengum að
hafa hana hjá okkur, eftir að ljóst
varð hvert stefndi. Þótt inn á milli
hafi komið erfiðir kaflar voru
gleðistundirnar fleiri.
Hugur okkar er hjá henni, en
jafnframt hjá Nonna og börnun-
um, sem hafa sýnt ótrúlegan styrk
á þessum erfiðu tímum. Það er til
marks um ríka kímnigáfu Binnu
að þegar þau Nonni ákváðu að
ganga að eiga hvort annað á dán-
arbeðnum sagðist Binna vilja að
spilað yrði lagið „Stand by your
man“.
Svona var Binna og þetta verð-
ur ein af þeim minningum, sem við
tökum með okkur – minningum
um einstaka konu.
Ragnar Bjartur
Guðmundsson.
„Einstakur“ er orð sem notað er þegar
lýsa á því sem engu öðru er líkt, faðm-
lagi eða sólarlagi eða manni sem veitir
ástúð með brosi eða vinsemd.
„Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af
rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu
annarra.
„Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og
dýrmætir og hverra skarð verður aldrei
fyllt.
„Einstakur“ er orð sem best lýsir þér.
(Terri Fernandez)
Þannig minnumst við þín, bros-
milda, fallega og góða Binna. Við
geymum minninguna um þig í
hjörtum okkar.
Ólöf, Þórunn, Olga, Birna,
Sigríður, Björn og fjölskyldur
þeirra.
Mig langar að minnast með
nokkrum orðum kærrar frænku
og vinkonu, Binnu Hilmars. Syst-
urnar Alla og Sigga, mæður okkar
Binnu, háðu báðar baráttu við
sama vágest og Binna, krabba-
meinið.
Það er sárt að sjá á eftir góðu
fólki í blóma lífsins vera kallað
burt svo snemma. Binna, þessi lífs-
glaða og hlýja manneskja sem var
hvers manns hugljúfi, eins og þeir
þekkja sem kynntust henni, var
ævinlega hrókur alls fagnaðar og
laðaði fram bros hvar sem hún
kom. Hvernig er hægt annað en
klökkna þegar svona gott fólk fell-
ur frá.
Við leigðum saman einn vetur á
Ránargötunni með Mattý og
Berki. Binna hafði þá viðurnefnið
Drottning næturinnar. Ekki af því
að hún stundaði næturlífið í óhófi
heldur vegna þess að það var alltaf
stuð í kringum Binnu. Í mínum
minningum eru Binna og Mattý
alltaf að skipuleggja eitthvað og
halda uppi stuðinu. Nú hafa þær
báðar kvatt okkur með stuttu
millibili. Þeir mást ekki stafirnir á
tölvuskjánum þótt tárin falli á
lyklaborðið.
Ég sakna Binnu og bið allar
góðar vættir að vaka yfir ástvinum
hennar.
Elsku Nonni, Steinunn, Atli,
Magnús, Hilmar, Helgi, Óli og
Jónína Auður og fjölskyldur, ég
samhryggist ykkur í missinum.
Sigurþór Heimisson (Sóri).
Elsku Binna. Ótrúlegt og óskilj-
anlegt er lífið á stundum.
Ein af mörgum æskuminning-
um mínum úr Langó er sá tími er
við lékum okkur saman, tvær svo
flottar stelpur. Þú í Langó ’78, ég í
Langó ’82. Og alltaf til í eitthvað
skemmtilegt saman. Minnisstæð-
ast er mér þegar ég í óþökk móður
þinnar heitinnar klippti þig svo
skelfilega í einum af hárgreiðslu-
leikjum okkar að móðir þín sá sig
knúna til að koma yfir og láta mína
móður vita af þessum verknaði
mínum. Ég ætlaði ekki að þora að
spyrja eftir þér eftir það. En auð-
vitað greri allt um heilt og við átt-
um margar stundir saman eftir
það sem litlu vinkonurnar í Langó.
Það er svo gott að geta rifjað
upp góðar minningar úr barnæsk-
unni og líka svo gott að ylja sér við
minningarnar þegar við hittumst í
Langó síðustu ár og ýmist veifuð-
um hvor til annarrar eða tókum tal
saman úti á götu í heimsóknum
okkar til foreldra okkar.
Foreldrar þínir, Binna mín,
voru foreldrum mínum mikil stoð.
Þökk sé þeim og þeirra góð-
mennsku. Takk fyrir stundirnar
sem við áttum saman í barnæsku
Binna mín.
Guð geymi þig.
Sendi mínar bestu samúðar-
kveðjur til allra aðstandenda.
Kveðja,
Sigríður Bergmann.
Ég kynntist Binnu þegar þau
Jón urðu par. Ég hafði að vísu oft
tekið eftir henni í gegnum tíðina,
svo einstök í klæðaburði og fasi að
annað var ekki hægt.
Ég áttaði mig fljótt á því að hún
væri einstök manneskja að öllu
leyti.
Við bjuggum á móti hvor ann-
arri við Þórsgötuna, eignuðumst
þar frumburðina okkar þær Stein-
unni og Sigrúnu og vorum í dag-
legum samskiptum. Við Sigrún
nutum góðs af því að Binna tók að
sér að gæta barna nokkurra vin-
kvenna sinna. Sigrún hitti jafn-
aldra og eignaðist leikfélaga sem
sumir hverjir eru enn meðal henn-
ar bestu vina. Ég fékk fullorðins
félagsskap.
Svo fæddust Atli og Þórdís árið
1991, við vinkonurnar samferða
með það líka. Þau tvö voru svo
samrýnd á tímabili að einhverjir
ýjuðu að því að þau væru kærustu-
par. Þau urðu svo hneyksluð, þau
voru sko frændsystkin, sem er
nokkuð rétt, þau eru fjórmenning-
ar.
Binna og Jón misstu barn sem
var komið langt áleiðis, hún þurfti
að fæða það og ég veit að það tók
verulega á hana þótt hún hafi borið
sig vel eins og alltaf.
Svo fæddist þeim Jóni fjórða
barnið, sólargeislinn hann Maggi.
Við Binna unnum saman í Kaffi-
leikhúsinu, þá hóuðu hún og Stína í
nokkrar vinkonur, Mattý, Kibbu,
Hafdísi, Dagmar, Siggu o.fl. auk
mín af því að þær vildu hafa
skemmtilegt fólk í kringum sig.
Stína var þá að taka við veitinga-
rekstri þar af Steinunni Berg-
steinsdóttur sem sumar þeirra
unnu hjá.
Við unnum líka saman í Grænu
og gómsætu með Júlíu og Fríðu
Sophíu o.fl.
Svo var það Borgarleikhúsið.
Binna byrjaði þar í eldhúsinu um
áramótin 2000-2001 með Stígrúnu
frænku sinni.
Ég tók við af Stígrúnu þegar
hún fór í barneignarfrí haustið
2001 og þar unnum við Binna sam-
an þar til hún veiktist fyrst 2006.
Hún fór í árs leyfi og mætti gal-
vösk til vinnu haustið 2007.
Hún lét ekki deigan síga þótt
hún færi reglulega í lyfjameðferðir
sem tóku verulega á en í desember
2009 varð hún mjög veik og hvarf
frá störfum.
Ég var afar hrædd um að við
værum að missa hana í byrjun árs
2010 en með góðri hjálp lækna og
lyfja reisti hún sig upp úr því.
Minningarnar eru margar og
þótt það sé sárt núna að rifja upp
veit ég að það verður gott að ylja
sér við þær í framtíðinni.
Það sem upp úr stendur er
þakklæti til Binnu minnar fyrir að
hafa alltaf verið til staðar fyrir mig.
Binna var reyndar þannig að
hún var til staðar fyrir alla vini
sína, vildi allt fyrir alla gera.
Hún var í ótrúlega mörgum
vinahópum og var límið í þeim öll-
um.
Ég á þá ósk heitasta að við vinir
Binnu virðum minningu hennar
með því að halda áfram að rækta
vina- og fjölskylduböndin.
Ég kveð mína nánustu vinkonu
og óska henni góðrar ferðar.
Elsku Jón, ég er svo ánægð með
að þið létuð verða af því að pússa
ykkur saman og ég veit að hún
mun fylgjast með drengnum
þeirra Atla og Ólafar sem fæðist í
sumar.
Steinunn, Atli og Maggi, þið átt-
uð bestu mömmuna sem hugsast
gat, það á eftir að fylgja ykkur og
vísa veginn.
Innilegar samúðarkveðjur til
ykkar, til Hilmars, annarra ástvina
og allra vinanna.
Sigurveig.
Við Binna kynntumst um það
leyti sem við vorum að stofna fjöl-
skyldur fyrir rúmlega tuttugu ár-
um. Binna og Nonni bjuggu á
Þórsgötunni í pínulítilli en fallegri
íbúð sem var nostursamlega inn-
réttuð. Þó að íbúðin væri lítil var
þar alltaf fullt af fólki, litlu og
stóru. Steinunn var nýfædd og
Margrét dóttir mín var hálfu ári
eldri. Úr varð að Binna varð dag-
mamma hennar fram að því að
Steinunn fékk pláss á leikskóla.
Við tengdumst nánum böndum á
þessum tíma sem aldrei slitnuðu.
Binna var heillandi og lífsglöð
manneskja sem jafnan var öxullinn
í þeim fjölmörgu hópum sem hún
tilheyrði. Hún var alltaf að skapa
eitthvað, ef ekki mat, föt eða annað
handarverk þá góðar samveru-
stundir.
Við störfuðum saman að ýmsu,
m.a. að veitingarekstri í Kaffileik-
húsinu. Við brutum þá reglu, sem
heyrst hefur að sé mikilvæg í fyrir-
tækjarekstri, að ráða ekki vini sína
í vinnu og söfnuðum að okkur
skemmtilegum vinum til að vinna
með okkur. Ég held að það hafi
verið skemmtilegast í eldhúsi
Kaffileikhússins þó að margar vin-
sælar sýningar hafi verið settar
upp á þeim tíma sem við störfuðum
þar. Það var líka frábært að vinna
með Binnu, hún var skemmtileg,
kát og velti sér aldrei upp úr smá-
munum heldur gekk í verkin af
röggsemi.
Það er ekki hægt að segja um
Binnu að lítið hafi farið fyrir
henni, alls staðar vakti hún athygli
og eignaðist vini. Samt var hún í
raun mjög hógvær manneskja og
lítið upptekin af sjálfri sér. Það
gat verið mikil skemmtiferð að
ganga með henni um miðbæinn á
þeim árum sem við bjuggum þar
og vorum á rölti með barnavagn-
ana. Hún virtist þekkja flesta sem
urðu á vegi okkar og það var ekki
farið í manngreinarálit, útigangs-
fólki bæjarins var líka heilsað með
bros á vör.
Eitt ríkasta einkenni Binnu var
örlætið. Þegar við Ib ákváðum að
gifta okkur fyrir rúmlega tíu árum
með litlum fyrirvara, en lengri að-
draganda, var ég stödd úti á landi.
Þegar ég hringdi í Binnu til að
bjóða henni í brúðkaupið spurði
hún hvort ég væri búin að kaupa
mér kjól fyrir tilefnið. Nei, ég var
ekki búin að því. „Má ég ekki
sauma á þig kjól?“ Ég sendi henni
mittismálið og nokkrar aðrar tölur
suður yfir Faxaflóann og gifti mig
stuttu seinna í einstökum, hvítum
kjól úr þæfðri ull sem skreyttur
var páfuglsfjöðrum.
Nú er Binna farin eftir löng og
ströng veikindi sem hún gekk í
gegnum af þeirri reisn og dugnaði
sem einkenndi allt hennar líf. Ef
það væri eitthvert vit í dauðanum
myndi hann varla treysta sér í
svona kjarnakonur eins og Binnu
sem elskaði lífið og virtist strá í
kringum sig töfradufti hvar sem
hún fór. Lát hennar er því enn ein
sönnun þess að dauðanum er ekki
úthlutað eftir neinu vitrænu kerfi
sem við eftirlifendur getum skilið.
Það eina sem okkur býðst er að
vera þakklát fyrir að fá að vera
samferða slíku fólki.
Ég þakka fyrir allar góðu
stundirnar sem ég átti með þess-
ari einstöku vinkonu og votta
Nonna, Steinunni, Atla og Magga
samúð mína. Einnig Hilmari,
systkinum Binnu og fjölskyldum
þeirra. Megi allar góðu minning-
arnar um Binnu styrkja ykkur í
sorginni.
Kristín I. Pálsdóttir.
Elsku besta Binna mín, nú ertu
meðal englanna. Þú hlustaðir, þú
framkvæmdir, þú varst, falleg,
fordómalaus, sterk, skemmtileg,
fyndin, einstaklega barngóð, ein-
læg og hreinskilin, þú varst vin-
kona mín.
Ég sakna þín.
Elsku Nonni, Steinunn, Atli og
Maggi, missir ykkar er mikill, ég
bið allar góðar vættir að vaka yfir
ykkur.
Margrét Bjarman.
Það fylgir því sér-
stök tilfinning að skrifa minning-
argrein um æskufélaga sem ekki
einungis var samferðamaður eða
bekkjarfélagi heldur líka einn af
okkar bestu vinum. Það vekur
mann til umhugsunar um hvað líf-
ið er klippt og skorið, spyr hvorki
um stétt né stöðu þegar einstak-
lingurinn er tekinn í burtu án
nokkurrar aðvörunar. Vinur okk-
ar hann Teddi, eins og hann var
alltaf kallaður, er farinn. Við mun-
um minnast hans með gleði í
hjarta um ókomna tíð.
Teddi kom alltaf til dyranna
eins og hann var klæddur, einlæg-
ur, heiðarlegur og vinur vina sinna
og mátti ekkert aumt sjá . Hann
fékk ástríkt uppeldi og naut þess
að vera yngstur systkina og þaraf-
leiðandi ofdekraður myndu sumir
segja. Það var nokkuð sem okkur
vinunum leiddist ekkert enda
deildi Teddi öllu sem hann fékk
með okkur strákunum. Hann átti
skellinöðru sem við þeyttumst á á
sumrin. Hann átti einnig vélsleða
sem við brunuðum á um fjöll og
firnindi á veturna. Einn daginn
dúkkaði hann upp með seglbretti
Theodór Árni
Emanúelsson
✝ Theodór ÁrniEmanúelsson
fæddist í Reykjavík
18. júní 1973. Hann
lést af slysförum á
heimili sínu föstu-
daginn 2. mars.
Útför Theodórs
Árna fór fram frá
Ólafsvíkurkirkju
10. mars 2012.
og auðvitað skelltum
við okkur í sjóinn!
Margar góðar og
skemmtilegar minn-
ingar fylgja Tedda
og okkur strákun-
um. Eitt skipti hafði
Teddi fengið svaka
kassettutæki, þetta
var á þeim tíma er
hljómsveitir á borð
við Iron Maiden og
DIO áttu dygga
aðdáendur í okkur félögum. Það
var ekki spurt að því heldur fórum
við vinirnir í ’73-árganginum með
„gettoblasterinn“ niður í bæ og
gengum inn í allar verslanirnar
með allt í botni, hlustandi á sama
lagið aftur og aftur. Viðbrögðin
voru öll á sama veg: „Strákar, verið
þið úti!“ Einnig er skemmtilegt að
minnast „vídeóleigunnar“ sem
Emmi var með en þar voru ófáar
hryllingsmyndirnar teknar í
Stekkjarholtinu, oft á kostnað
skólans.
Í Stekkjarholtinu þar sem Teddi
ólst upp vorum við vinirnir alltaf
velkomnir og mætti maður alltaf
jákvæðni og hlýju frá foreldrum
hans. Stekkjarholtið var nokkurs
konar félagsmiðstöð þar sem ým-
islegt var brallað og ef foreldrar
brugðu sér af bæ, þá var partí.
Við kveðjum vin okkar og send-
um jafnframt fjölskyldu hans inni-
legar samúðarkveðjur.
Elsku Emmi, Unnur, Maggi og
fjölskylda. Megi englar Guðs vaka
yfir ykkur og gefa ykkur styrk í
sorginni.
Alexander og Ævar.
MOSAIK Hamarshöfða 4 • 110 Reykjavík
sími 587 1960 • www.mosaik.is
Legsteinar og fylgihlutir
Í tilefni af 60 ára starfsafmæli okkar bjóðum
við fría uppsetningu á höfuðborgarsvæðinu og
fría pökkun á legsteinum sem fara út á land
Mikið úrval - Vönduð vinna - Gott verð