Morgunblaðið - 02.07.2013, Side 23

Morgunblaðið - 02.07.2013, Side 23
Margt skyldfólk áttu þau hjónin á Ísafirði. Það fólk allt var kjarnafólk og átti ég í þeim hópi marga og trausta vini. Á barns- og unglingsárum er tíu ára aldursmunur mikið djúp. Ég kynntist því Helga Má ekki að ráði fyrr en báðir tveir vorum komnir til þroska. Hann búinn að ljúka námi og ég byrjaður þing- mannsferilinn og í leit að sam- herjum. Leiðir okkar lágu fyrst saman í þeim störfum, sem við höfðum valið okkur – hann í blaðamennskunni og ég í pólitík- inni. Helgi Már hóf sinn starfsferil á Alþýðublaðinu skömmu eftir að ritstjórnarferli mínum þar lauk. Samstarf hans við vin okkar beggja, Vilmund Gylfason, var mjög náið. Saman stofnuðu þeir blaðið Nýtt land. Helgi Már studdi ávallt Vilmund af ein- lægni og festu en sú trúmennska varpaði engum skugga á vináttu okkar þó leiðir skildi með okkur Vilmundi. Helgi Már var sannur jafnað- armaður og verkalýðssinni eins og hann átti kyn til. Tók hann m.a. sæti með mér á framboðs- lista Alþýðuflokksins í Vest- fjarðakjördæmi í einum kosning- um. Síðar var hann svo valinn fjölmiðlafulltrúi BSRB og tók þá m.a. þátt í miklum átökum, sem opinberir starfsmenn stóðu í vegna brigða viðsemjanda. Þeg- ar Helgi Már ákvað að þeim átökum loknum að hverfa frá BSRB tók hann aftur til við fréttamennskuna, sem varð hans aðalstarf. Starfsferlinum lauk hann svo sem fjölmiðlafulltrúi Heilbrigðis- og tryggingaráðu- neytisins. Þó Helgi Már segði skilið við beina þátttöku í stjórnmálum eftir andlát Vilmundar varðveitti hann ávallt sjónarmið sín í anda klassískrar jafnaðarstefnu. Við áttum áfram góð samskipti þó stundum yrði langt milli sam- funda. Stundum átti hann til að senda mér tölvupóst með ábend- ingum og ávallt tók hann því vel ef ég leitaði til hans. Síðustu samfundir okkar voru á Suður- eyri við Súgandafjörð á fögrum sumardegi fyrir nærfellt þremur árum og var hann þá eins og jafnan áður kátur og glaður þrátt fyrir hin erfiðu veikindi sem þá höfðu lengi þjáð hann. Hið stranga veikindaferli Helga Más náði þó aldrei að kæfa með- fædda kímni hans og lífsgleði. Gjarna sá hann broslega hluti á mönnum og málefnum, sem aðrir sáu ekki fyrr en á var bent – og þá hló Helgi Már hjartanlega og glettnin skein úr augunum. Aldr- ei var þó neina illkvittni að finna í kímni Helga Más. Slíkt var hon- um víðs fjarri. Nú er Helgi Már allur, aðeins 62ja ára að aldri. Ævi góðs drengs er lokið. Minningin um hann lifir í hugum vina og sam- ferðamanna. Ég votta aldraðri móður hans, eiginkonu hans, börnum og öðrum ættmennum samúð mína. Minningin lifir þó maðurinn falli. Sighvatur Björgvinsson. Vinátta okkar Helga Más á sér langa sögu. Lengi vel þekkti ég hann úr fjarlægð, en þó ná- lægð, því sem blaðapenninn, sem birtist manni á eldhúsborðinu á morgnana, skar hann sig snemma úr fyrir ritsnilli og af- burða greiningarhæfileika. Í alvöru kynntumst við Helgi Már þó ekki fyrr en á vettvangi BSRB upp úr 1980. Þá hafði hann verið ráðinn upplýsinga- fulltrúi bandalagsins og ritstjóri, þar á meðal BSRB tíðinda, en ég var þá formaður eins aðildar- félaganna, Starfsmannafélags Sjónvarpsins. Í verkfallinu 1984 munstraði Helgi Már mig sem blaðamann á BSRB tíðindum. Hin fámenna ritstjórn vann jafnan fram undir morgun en þá tók við póstburð- arfólkið – sem var í verkfalli – og dreifði nýjasta tölublaðinu. Fyrst var dreift í Stjórnarráðinu og á Alþingi og síðan inn á hvert heimili. Helgi Már stýrði hjart- slættinum í þessu kröftugasta verkfalli síðari tíma. Í upphafi verkfalls voru prentarar einnig í verkfalli þannig að BSRB tíðind- in voru ein um hituna, ráða- mönnum til lítillar skemmtunar. Í aðdraganda verkfallsins hafði Helgi Már lagt á ráðin um kynningarstarf, þ. á m. svo áhrifaríkar auglýsingar í Sjón- varpi, að Útvarpsráð bannaði þær. Þó sögðu þessar auglýsing- ar ekki annað en hvað einstak- lingar sem sýndir voru á mynd, hefðu í mánaðarlaun. En um- gjörðin var slík að hún hreif. Það hreif reyndar allt sem Helgi Már kom nálægt. Aldrei var þó æsingi fyrir að fara. Alltaf hægð og rökfesta. Enga þörf hafði hann til að trana sjálfum sér fram þótt ærin væru tilefnin til þess. Ég þykist vita að ég er ekki einn um að hafa notið góðra ráða hans. Helgi Már var um dagana blaðamaður, ritstjóri, um all- langt skeið fréttamaður sjón- varpsstöðvanna beggja og síðar gerðist hann upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytisins. Þar hittumst við aftur á samstarfs- vettvangi, enn og aftur afburða- maður. Það kemur upp í hugann hve vel hann reyndist öllum þeim sem hann starfaði með. Mér er það minnisstætt hve umtalsgóð- ur hann var um forvera mína í embætti og er ég sannfærður um að þeir bera honum þá sögu að hann hafi reynst þeim hollráður. Þannig var Helgi Már, hann var sáttur ef hann taldi sig vera að láta gott af sér leiða. Ég heimsótti Helga Má á spít- alann rétt áður en hann dó. Þá var ljóst hvert stefndi. Hann mátti lítt mæla. En hann brosti þegar ég rifjaði upp gamla daga þegar hann skrifaði sínar mögn- uðu ritsmíðar og hvernig hann hefði getað með einu penna- striki, nánast smáorði á réttum stað, breytt heilum texta hjá öðr- um og hafið hann til flugs. Svona geta bara listamenn. En fyrst og fremst minnist ég hans sem vinar, sem að hætti Ill- uga í Grettissögu bregður skild- inum yfir bróður sinn þegar að honum er sótt. Þannig maður var Helgi Már. Það fékk ég að reyna. Við Valgerður sendum Sigríði, börnum og móður Helga Más og fjölskyldu hans allri djúpar sam- úðarkveðjur. Ögmundur Jónasson. Sum augnablik í lífinu verða minnisstæðari en önnur og marka tímamót. Þannig var það þegar Helgi Már kom til starfa í heilbrigðis- og tryggingamála- ráðuneytinu á sínum tíma. Ég fann strax að hér var kominn maður sem þetta stóra og þunga ráðuneyti þurfti á að halda, mað- ur með mikla reynslu og víðsýni. Hann kom inn með alveg nýjar víddir á annars mjög fjölbreytt- an vinnustað. Fyrir mig persónu- lega var koma hans sannkölluð himnasending sem ég fæ seint fullþakkað. Hann kenndi mér svo margt og ósérhlífni og elja hans skilaði málaflokknum svo miklu. Það var einhvern veginn þannig að það fór bara allt að ganga bet- ur eftir að Helgi kom til starfa. Það sem hægt var að ljúka hvern dag geymdi hann aldrei til morg- uns. Með hógværð og réttsýni var hann aldeilis óhræddur að segja mér og öðrum til syndanna og oft var ekki vanþörf á, en um leið var hann alltaf uppbyggjandi og hvetjandi. „Sannleikurinn mun gera yður frjálsan,“ voru hans einkunnarorð. Hann var alltaf á vaktinni, fann oftar en ekki á sér hvað var í pípunum og kunni manna best að bregðast rétt við. Í honum blundaði alltaf hinn sanni fréttamaður, hann var íhugull og minnugur með yndis- legan og hófstilltan húmor. Á þessum árum fóru ekki margir fréttatímar fram hjá okk- ur Helga og oftar en ekki áttum við langt spjall í síma eftir kvöld- fréttir. Reyndar vorum við á tali seint og snemma að henda á milli okkar hugmyndum. Það var víst oft sagt í gamni í ráðuneytinu, að ég nefndi hann alltaf „Helga minn“. Hjá mér mun það hafa þýtt að mér yrði ekki haggað ef ég komst svo að orði við ein- hverja: „Helgi minn sagði …“ Oft hef ég hugsað til þess að ekki hlífði hann sér og ég veit að hann gekk iðulega alltof nærri sér í vinnu. Þegar ég kynntist Helga var hann búinn að fara í gegnum alvarlegt hjartaáfall, sem átti eftir að valda honum ómældum þjáningum með öllum þeim aukakvillum, sem slíkur sjúkdómur getur lagt á menn. Hann var samt ávallt bjartsýnn. Ég hitti hann í síðasta sinn á sjúkrabeði skömmu áður en hann kvaddi. Það var mikið af honum dregið, en samt var svo mikið líf í augum hans og mikil lífslöngun í öllu hans tali enda sat hún Sigga hjá honum, hinn sterki lífsförunautur hans sem hann elskaði og dáði meira en sólina sjálfa. Kæri vinur minn, ég trúi að nú sért þú fæddur inn í friðsælan heim, laus við þjáningar. Við Haraldur þökkum ómetanlega vináttu og tryggð og samhryggj- umst ástvinum þínum öllum. Ingibjörg Pálmadóttir. Með kankvíst blik í brúnum augum kynnti hann sig fyrir mér, nýi blaðamaðurinn á Al- þýðublaðinu, forframaður í kóngsins Kaupmannahöfn og átta árum eldri. Þennan dag, síðla árs 1979, kom mér ekki í hug að í þessum hægláta Ísfirð- ingi væri ég að eignast einn minn nánasta og besta samstarfsmann og vin. Blaðamennskan, félagsskap- urinn og lífsviðhorfin. Allt þetta rann svo eðlilega saman að okk- ur þóttu þeir blaðamenn furðu- legir sem vildu reyna að halda þessu aðgreindu. Þegar Vil- mundur heitinn taldi sig hafa komist að því að við ynnum best undir pressu var sá siður tekinn upp að skrifa helst ekki stafkrók fyrr en líða tók að hádegi. Þess í stað skyldu morgnarnir nýttir til skoðanaskipta og skrafs um flest annað en það flokkspólitíska dægurþras sem við vorum ráðnir til að sinna. Með lævísri kímni í bland við danskættaða róttækni átti Helgi Már ríkan þátt í að gera þessar líflegu morgun- stundir að ómissandi undirstöðu hvers vinnudags. Af Alþýðublaðinu urðum við samferða á Nýtt Land og nokkr- um árum síðar á Helgarpóstinn. Í millitíðinni hafði Helgi fengið skipsrúm hjá BSRB og ég leitaði hælis hjá þingflokki Bandalags jafnaðarmanna. Á þessum árum leið varla sá dagur að við bærum ekki saman bækur okkar um lífið og tilveruna, menn og málefni. Þótt Helgi Már hefði alla tíð brennandi áhuga á stjórnmálum var hann of viðkvæmur í lund til að þrífast í því andrúmslofti hjaðningavíga sem tíðkast á þeim vettvangi. Þá kaus hann heldur að taka sér í hönd góða bók, sagnfræði eða skáldskap, hlusta á börnin sín leika á píanó, fylgjast með sonum okkar í fót- bolta. Fáum hef ég kynnst hrif- næmari en Helga Má og með skarpari sýn á ýmis þau blæ- brigði mannlífsins sem ekki blasa við, það sem ósagt er látið eða lesa má milli lína. Síðustu árin stóð líf Helga margsinnis svo tæpt að það er vart í mannlegu valdi að setja sig í þau spor. Forðum höfðum við stundum rætt um tilvistarvanda, en nú var hann þakklátur fyrir það eitt að fá að vakna að morgni og njóta þess undurs sem lífið er. Í okkar síðasta samtali sagðist hann þó farinn að hugsa svolítið eins og Ólafur Kárason og velta því fyrir sér hvor væri í reynd trúaðri á hinn – hann á Guð eða Guð á sig. Í þessum orðum end- urspeglaðist sú innri kyrrð og dýpt sem alla tíð var svo ríkur þáttur í fari míns gengna vinar. Blessuð sé minning Helga Más Arthúrssonar. Garðar Sverrisson. Kær vinur, Helgi Már Arth- ursson, er fallinn frá. Ég sé hann fyrir mér bros- andi, fyndinn, alltaf með gam- anyrði á vör, hlæjandi sínum sér- staka hlátri, ráðagóðan – öryggið uppmálað á skjánum. Við Helgi Már vorum einmitt vinnufélagar um árabil á Sjónvarpinu. Það voru dýrðlegir dagar. Helgi var einstakur vinnufélagi. Við gerðum saman marga þætti og lögðum í þá mikla vinnu. Þegar við bárum svo saman bæk- ur okkar rétt fyrir útsendingu var Helgi gjarnan með 25 spurn- ingar tilbúnar, ég kannski sjö. „En Helgi, þetta er bara 15 mín- útna þáttur!“ „Við eigum þá bara afganginn í handraðanum,“ var viðkvæðið. Ég heyrði eitt sinn á tal tveggja alþingismanna: „Ég er að fara í viðtal við Helga Má á Sjónvarpinu,“ sagði annar. „Jæja vinur,“ sagði hinn, „þá skaltu fara og vinna heimavinn- una þína.“ Þetta samtal lýsti Helga. Hann var fyrirliði, stroffískytta og senter þegar kom að viðtölum við pólitíkusa á fréttastofunni. Það þýddi ekkert að svara Helga með hálfkveðnum vísum eða út- úrsnúningi. Hann spurði bara aftur og aftur, þar til hann fékk svar. Þegar tölur voru annars vegar var ekki hægt að reka hann á gat. Svo var hann fróður og minnugur svo af bar. Helgi þreifst á hraðanum, stressinu og álaginu, sem fylgdi störfum okkar á þessum árum. Það var gaman í vinnunni. Og vinnutímanum lauk ekki þegar við stimpluðum okkur út á kvöld- in. Þegar heim var komið þurfti að ræða málin í síma. „Síminn losnar ekki í bráð, hún er að tala við Helga Má,“ var viðkvæðið hjá unglingunum á heimilinu, þegar síminn var upp- tekinn löngum stundum. Það er rétt, símtölin gátu orðið býsna löng, en skemmtileg voru þau. Helgi hafði alltaf eitthvað til málanna að leggja. Hann var uppbyggilegur í gagnrýni en óspar á hrósyrði þegar tilefni gafst. Það er góður eiginleiki. Siggu og börnum þeirra Helga sendi ég innilegar kveðjur. Ég sakna vinar í stað. Kristín Þorsteinsdóttir. „Veistu ekki af hverju það er? Ég skal segja þér það.“ Þetta heyrði ég Helga Má segja í ófá skipti við félaga sína á frétta- stofu Sjónvarps. Þetta var ein- kennandi fyrir fréttamann sem vildi ekki bara segja hvað gerðist heldur einnig vita af hverju. Hann vildi skilja hið stóra sam- hengi hlutanna. Helgi Már hafði lifandi áhuga á umhverfi sínu og samfélagi og vildi deila þekkingu sinni. Þegar hann gekk til liðs við fréttastofu Sjónvarpsins var hann reyndur blaðamaður með góð tengsl og víðtæka þekkingu og reynslu. Við nutum þessara og annarra kosta hans og á tí- unda áratug síðustu aldar var hann einn af lykilmönnum frétta- stofunnar. Honum voru falin krefjandi verkefni eins og að vera þingfréttamaður. Það starf er afar þýðingarmikið og skiptir öllu máli að þingfréttamaðurinn sé ákveðinn, með bein í nefinu en jafnframt réttsýnn. Helgi Már vann verkefni sín í þinginu af kostgæfni, elju og heiðarleika eins og allt annað, fréttir og þætti, sem hann tók að sér. Við vorum ekki alltaf sam- mála um alla hluti enda er frétta- mennska ekki færibandavinna og stundum eru fleiri leiðir rétt- ar en ein. Nú er Helgi Már allur, langt um aldur fram, og hans verður saknað. Ég votta fjöl- skyldu hans dýpstu samúð. Bogi Ágústsson. Minningarnar um Helga Má eru umvafðar mikilli birtu og hlýju. Af honum geislaði gleðin og blikið í augum hans fékk alla til að brosa á móti. Helgi Már var greindur, víðlesinn og sagði ein- staklega skemmtilega frá. Hann var mjög áhugasamur um land og þjóð og önnur lönd og þjóðir. Margar samverustundir í vinnu og utan vinnu koma í hugann en lengst munum við minnast ferð- ar okkar saman til Kína árið 2002. Þar var Sigríður með í för og áttum við ógleymanlega daga, átta ferðafélagar. Helgi þekkti sögu og menningu Kína mjög vel og miðlaði okkur hinum af visk- unni sem gerði ferðina að enn meiri upplifun. Allir sem þekktu Helga Má vissu að hann var góð- ur ljósmyndari og skráði hann ferðasöguna í myndrænu formi og skírði söguna „Nýr dagur, Nýr tími, Ný veröld“. Þar var hver dagur rakinn frá morgni til kvölds og í lok ferðasögunnar segir hann Nýr dagur, Nýr tími, Ný veröld – sem verður aldrei söm. Slík var upplifunin sem markaði okkur öll. Veikindum sínum mætti Helgi Már af aðdáunarverðri yfirvegun en að sama skapi lagði hann sig allan fram við að gera það sem hann mögulega gat gert til að vinna úr áföllum og koma í veg fyrir ný. Af slíku er margt hægt að læra. Lengi munum við búa að öll- um skemmtilegu stundunum með Helga Má og þökkum þær af alhug. Við biðjum góðan Guð að styrkja og styðja Sigríði, börnin og afabörn Helga. Nú mætir Helga Má Nýr dag- ur, Nýr tími, Ný veröld. Vilborg Ingólfsdóttir og Leifur Bárðarson. Það voru forréttindi að alast upp á Ísafirði á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Þar var dugandi og kraftmikið samfélag og metnaður mikill jafnt hjá ung- um sem öldnum. Hjá ungum drengjum var fótboltinn helsta áhugamálið og félögin tvö, Vestri og Hörður. Við vorum Vestra- púkar og var Helgi Már bestur af okkur í boltanum. Á þessum ár- um kynntumst við vel, og með okkur tókst ævilöng vinátta, sem aldrei bar skugga á. Við áttum síðar margar góðar samveru- stundir og um árabil höfum við vinirnir hist reglulega á veitinga- staðnum Horninu, borðað sam- an, spjallað um allt milli himins og jarðar og notið stundarinnar. Síðast hittumst við í lok apríl og ákváðum að hittast næst í maí, en eigi má sköpum renna. Helgi Már var einstakur drengur, vel að sér um alla hluti og það var nánast alveg sama um hvað var rætt, hvergi var komið að tómum kofunum. Það var un- un að ræða við hann hvort sem var um þjóðfélagsmál, fótbolta eða gamlar minningar frá upp- vaxtarárunum á Ísafirði. Gaman- semi og smitandi hlátur voru hans aðalsmerki, þó svo alvaran væri aldrei langt undan, enda var Helgi Már einstaklega raun- sær, afburða greindur og heil- steyptur. Maður gekk alltaf betri af hans fundi. Ógleymanleg er ferð okkar vinanna til Manchester fyrir nokkrum árum til að horfa á fót- boltaleik, en þá heimsóttum við í leiðinni Liverpool, söguslóðir Bítlanna og Vatnahéruðin á Norður-Englandi. Þetta var frá- bær ferð og við höfðum ákveðið að endurtaka leikinn við fyrsta tækifæri og þá með mökum okk- ar. Missir okkar vinanna er mik- ill, en sárastur er missir Sigríð- ar, barnanna og aldraðrar móður. Við sendum fjölskyldu Helga Más okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning um góðan dreng og kæran vin. Magnús Jóhannesson og Samúel Jón Samúelsson. Það eru mikil forréttindi að hafa fengið að kynnast og vinna með Helga Má. Prúðmennska, heiðarleiki og fagmennska ein- kenndu öll hans störf. Lands- menn þekkja hann flestir sem af- burðafréttamann úr sjónvarpinu. Við sem þurftum stundum að svara spurningum hans kynntumst því hvernig vel undirbúnir fréttamenn vinna. Fréttaviðtöl hans gætu vafalaust nýst vel sem kennsluefni í frétta- mennsku í háskólum. Hann lét engan komast upp með að svara í hálfkveðnum vísum. Ég átti eftir að kynnast Helga Má, persónulega sem góðum vini og félaga, þegar hann kom til starfa í heilbrigðis- og trygg- ingamálaráðuneytinu. Hann sá auk annars um upplýsinga- og fræðslumál. Í því fólst m.a. að undirbúa margvíslegt fræðslu- efni og útgáfurit ráðuneytisins. Einnig undirbjó hann ýmis gögn vegna samskipta ráðuneytisins við Alþingi, fréttastofur, stofn- anir og einstaklinga. Þarna naut fagmennska Helga Más sín vel. Yfirbragð alls sem frá ráðuneyt- inu fór breyttist á mjög skömm- um tíma og varð með mun fag- legri blæ. Ég held, að við sem unnum með honum, höfum lært mjög margt af honum á þessum tíma. Að minnsta kosti er sá sem þetta ritar mjög þakklátur fyrir allt sem Helgi Már kenndi hon- um. Það var alltaf gaman að um- gangast Helga Má. Hans góða skap, kímnigáfa og stríðni naut sín vel í góðra vina hópi. Leiftr- andi augnaráðið, brosið og stutt- ur hlátur, samtímis því að hann hallaði aðeins höfðinu, gleymist aldrei. Hvað stjórnmál varðar sá hann atburðarás, langt fram í tímann. Ég held að hann hafi oft skynjað hvað stjórnmálamenn myndu gera, áður en þeir vissu það sjálfir. Þetta gilti ekki bara fyrir íslensk stjórnmál. Hann var ótrúlega vel að sér í alþjóða- stjórnmálum og gat sagt manni hvernig líklegt væri að flókin mál myndu þróast á alþjóðavett- vangi. Það var ómetanlegt að hafa hann sér við hlið þegar und- irritaður stýrði störfum Alþjóða- heilbrigðismálastofnunarinnar WHO í Genf. Það var gott að ferðast með þeim hjónum, Helga Má og Sig- ríði. Ferðirnar voru þó ekki allt- af neinn dans á rósum. Við fórum á vegum WHO um hamfara- svæðið í Taílandi, skömmu eftir að flóðbylgjan skall á ströndinni þar sem hundruð þúsunda létu lífið og mannvirki urðu rústir einar langt inn eftir ströndinni. Neyð fólksins var mikil. Slíkar ferðir taka á og skiptir miklu að hafa góða ferðafélaga. Það er margs að minnast, bæði úr starfi og góðra stunda sem við áttum saman utan vinnu. Fundir sem við áttum reglulega ásamt nokkrum félögum, eftir að báðir hættu að vinna, verða ekki samir. Á þessum fundum mátti ræða um allt nema málefni ráðu- neytisins. Skarðið sem Helgi Már skilur eftir sig verður ekki fyllt. Góðu minningarnar munu hins vegar hjálpa okkur mikið, en það kemur ekkert í staðinn fyrir hárfínar greiningar hans á stöðu mála, brosið og hláturinn. Við Ella sendum Sigríði, börn- unum og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðar- kveðjur. Davíð.  Fleiri minningargreinar um Helga Má Arth- ursson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. MINNINGAR 23 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 2. JÚLÍ 2013

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.