Morgunblaðið - 16.08.2013, Blaðsíða 39
MINNINGAR 39
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 16. ÁGÚST 2013
að fara í pottinn og að hafa hann
vel heitan. Honum líkaði að hafa
góða og hugljúfa tónlist en var
líka glaður þegar honum var boð-
ið í strákapartí til Huldars og
Sigga þar sem bara var spilað al-
vöru rokk! Þegar Andri brosti
var það svo einlægt og fallegt að
brosið bræddi alla í kring. Elsku
Andri okkar, hvíldu í friði. Kæru
Sigga, Skjöldur og aðrir aðstand-
endur, megi Guð styrkja ykkur á
þessari erfiðu stundu.
Kveðja frá gömlu vinkonun-
um,
Bjarnveigu Magnúsdóttur,
Ernu Sigríði Böðvarsdóttur,
Guðrúnu Völu Jónsdóttur,
Herdísi Hersteinsdóttur og
Sigríði Mundu Jónsdóttur.
Kynni okkar Andra ná allt til
þess að ég fékk hann í fangið þeg-
ar hann var eins og hálfs árs
gamall. Þá kom hann á Dagvist-
unarheimilið Lyngás þar sem ég
starfaði á þeim tíma og kolféll ég
fyrir honum á fyrstu stundu.
Hvernig var líka annað hægt en
að falla fyrir þessum fallega og
ljúfa dreng, sem með sinni hljóð-
legu nærveru var samt svo mikill
karakter. Þó ég riti hljóðlegu, þá
gat hann Andri alveg látið í sér
heyra ef hann var ekki ánægður
eða fannst ég gera of miklar kröf-
ur til sín. Dagar okkar Andra
fóru í að gera æfingar, fara í sund
og ýmiss konar þjálfun ásamt því
að nærast og njóta samveru-
stundanna. Ég var svo heppin að
fá Andra stöku sinnum heim með
mér í næturgistingu og voru það
okkar dekurtímar.
Einu sinni lentum við að vísu í
smáævintýri á Miklubrautinni,
þegar gamla Ladan mín gafst
upp og þá voru „góð ráð dýr“.
Þetta var fyrir tíma farsímanna
og erfiðara að ná í aðstoð. Andra
fylgdi heilmikill farangur og end-
uðum við á því að taka dótið úr
bílnum, ég tók hann síðan í fangið
og við bara „húkkuðum“ okkur
leigubíl sem ók framhjá. Andri
tók þessu öllu með ró og spekt og
fannst þetta eflaust bara vera
fyndið, þó að þessu fylgdi hnjask
og smá vesen.
Sundtímarnir voru okkar
uppáhald, þar leið honum svo vel
og kom ánægju- og sældarsvipur
á hann þegar ofan í vatnið var
komið. Í gegnum Andra kynntist
ég vel fjölskyldu hans og sérstak-
lega ömmu hans, henni Siggu
sem með ást og umhyggju hefur
hugsað um hann og helgað sig
honum, sem og foreldrar hans.
Með okkur Siggu tókst mikill vin-
skapur og kom ég oft á heimili
þeirra, hvort sem það var bara í
heimsókn eða til að vera með
Andra.
Þegar Andri varð eldri og
kominn var tími á að flytjast að
heiman, fækkaði samverustund-
um okkar en alltaf var jafn nota-
legt að hitta hann, strjúka yfir
hárið á honum og augabrúnir og
njóta návistarinnar.
Andri átti fallegt heimili og
bauð alltaf til veglegrar veislu á
afmælisdaginn sinn, þar sem ætt-
ingjum, vinum og sambýlisfólki
var boðið. Afmælisveislan var
fastur punktur í tilverunni og
alltaf var jafnljúft að hitta hann,
þó svo að stundum hefði liðið
langur tími á milli þess sem við
hittumst. Mér hefur alltaf fundist
ég eiga svo mikið í Andra og ef-
laust hef ég verið á hans fyrstu
árum eins og stjórnsöm
„mamma“ gagnvart öðrum sem
komu að umönnun hans, en allir
lögðust á eitt við að uppfylla hans
daglegu þarfir á óeigingjarnan
hátt.
Á kveðjustundu er margs að
minnast en efst í huga er minning
um ljúfan og yndislegan dreng
sem var umvafinn ástríkri og um-
hyggjusamri fjölskyldu. Fjöl-
skyldu hans, vinum, sambýling-
um og öllum þeim sem að
umönnun Andra hafa komið
sendi ég mínar innilegustu sam-
úðarkveðju. Hvíl í friði, Andri
minn – ég elska þig.
Agla Sigríður Björnsdóttir.
Ingibjörg Bergmann Hjálm-
arsdóttir er látin. Hún náði því
að verða eitt hundrað ára, nú í
janúar síðastliðnum.
Ingibjörg, sem gekk undir
gælunafninu Imba, og faðir
minn, Sveinberg Jónsson, ólust
upp saman, frá ungaaldri hjá
þeim Sveinbjörgu Brynjólfsdótt-
ur og Jóni Jónssyni í Stóradal og
hélst með þeim systkinakærleik-
ur meðan bæði lifðu. Árið 1938
giftist Ingibjörg Guðmundi
Bergmann og stofnuðu þau til
búskapar að Stóru-Giljá. Þegar
ég var lítil stúlka á Blönduósi
varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi,
að þau Imba og Mundi tóku í
fóstur jafnöldru mína Bogeyju
Ragnheiði, en við Eyja sóttumst
eftir samvistum hvor við aðra, og
Imba sá til þess að það gæti
gengið. Margar ferðir fóru for-
eldrar mínir að Stóru-Giljá til að
heimsækja þau Munda og Imbu.
Og oft varð ég eftir þar í þeim
ferðum. Þetta voru sæludagar
fyrir okkur stelpurnar. Það veitti
Imbu alltaf gleði að snúast í
kringum okkur, eyjurnar sínar,
eins og hún kallaði okkur alltaf.
Hún söng fyrir okkur og spilaði
undir á gítarinn sinn, einnig
kvað hún fyrir okkur rímur. Og
alltaf kvað hún stemmur eða
raulaði vísur við verkin sín. Við
Eyja áttum okkur sælustað, sem
var gamalt refabú sem stóð á
hæð, sunnan árinnar. Þarna átt-
um við okkar bú og sá Imba allt-
af til þess að við værum vel ne-
staðar þegar við héldum þangað
til bústarfa, en þau voru tíma-
frek í þá daga, við alkyns drullu-
kökubakstur þar sem kökurnar
voru skreyttar með blómum,
helst eyrarrós. Þá var Imba ólöt
við að taka okkur með í berjat-
úra, upp í Öxl, þar sem þau
Mundi byggðu sér seinna býli.
Og margar voru ferðirnar í
Stóradal til þess að heimsækja
frændfólkið þar. Mest voru þetta
vetrarferðir, á jólaböll í sveitinni
og við ýmis önnur tækifæri. Því
stóri vípóninn hans Guðmundar
komst allt. Elsku Imba mín. Ég
þakka þér fyrir allt sem þú varst
mér, því mun ég aldrei gleyma.
Þórey Sveinbergsdóttir.
Ingibjörg Bergmann Hjálm-
arsdóttir er látin á 101. aldurs-
ári. Ung var hún tekin í fóstur af
merkishjónunum Sveinbjörgu
Brynjólfsdóttur og Jóni Jónssyni
í Stóradal. Minntist hún þeirra
alla ævi með þakklæti og virð-
ingu, enda vissi ég aldrei um
sprungu í ræktarsemi hennar
eða vinfesti. Hún giftist Guð-
mundi Bergmann 24. júní 1938,
en þá var þriggja systkina brúð-
kaup á Stóra-Giljá. Ingibjörg og
Guðmundur stofnuðu heimili sitt
á efri hæð hússins þar, en Guð-
mundur sem var húsasmiður rak
þar um skeið trésmíðaverkstæði
í kjallaranum. Allt var það í góðu
samkomulagi við þá sómamenn,
Giljárbræður.
Eftir allmörg ár fluttu þau
hjónin að Öxl í Þingi, en Guð-
mundur hafði eignast hálfa jörð-
ina og reist þar myndarlegt
íbúðarhús og útihús. Í Öxl er
fagurt útsýni og ekki efamál að
Ingibjörgu var það mikið gleði-
efni að vera húsfreyja í eigin hí-
býlum. Þar stunduðu þau búskap
Ingibjörg Bergmann
Hjálmarsdóttir
✝ IngibjörgBergmann
Hjálmarsdóttir
fæddist á Blönduósi
20. janúar 1913.
Hún andaðist á
Heilbrigðisstofn-
uninni á Blönduósi
1. ágúst 2013.
Útför Ingibjarg-
ar fór fram frá
Þingeyrarkirkju
12. ágúst 2013.
auk starfa Guð-
mundar utan heim-
ilis.
Þau hjón, Ingi-
björg og Guðmund-
ur, voru í hópi sér-
stakra vina okkar á
Akri og gilti það
jafnt í tíð foreldra
minna sem okkar
Helgu. Fjölmörg at-
vik eru mér minn-
isstæð frá þeim
vinakynnum. Öll vekja þau þakk-
læti í huga mér.
Ingibjörg var rausnarleg hús-
móður, glaðvær í viðmóti og
skemmtileg. Hún var vel gefin
og hafði yndi af bókmenntum,
einkum ljóðum og sögulegum
fróðleik. Hún kunni ógrynni af
lausavísum og ljóðum þjóðskáld-
anna og virtist minnið nánast
óskert fram undir hið síðasta.
Bólu-Hjálmar var langafi hennar
og þótt hún hafi dáðst að orð-
snilld hans og gæti vitnað til
hans hvenær sem var, náði ljóða-
þekking hennar yfir miklu
stærra svið. Sjálf lumaði hún á
hagmælsku en fór dult með. Hún
hafði góða söngrödd og var í
fjölda ára forsöngvari í kirkjukór
Þingeyrakirkju.
Þeim hjónum varð eigi barna
auðið, en tóku fósturbarn, Bo-
geyju Jónsdóttur, sem þau ólu
upp sem sína eigin dóttur. Fleiri
börn áttu hjá þeim skjól um
lengri eða skemmri tíma. Eftir
lát Guðmundar 1987 flutti Ingi-
björg í húsnæði fyrir aldraða í
Héraðshælinu á Blönduósi og
dvaldi síðustu árin á sjúkradeild.
Við Helga litum stöku sinnum
inn til hennar. Hún virtist una
hag sínum allvel, tók glaðlega á
móti okkur, vildi veita kaffi og
með því, fór með vísur og sagði
skemmtilega frá. Við fórum að
jafnaði glaðari frá henni en við
komum.
Síðustu árin sagði hún mér
ítrekað að hún ætlaði sér að
verða 100 ára. Þetta varð og bet-
ur þó 20. janúar sl. Var haldið
hóf henni til heiðurs á 100 ára af-
mælinu. Hún var vel hress og
kvað við raust vísur og kviðlinga
með kvæðamönnum, sem voru
meðal gesta.
Eftir þetta tók þrekið að
dvína. Hún hafði náð sínu mark-
miði og ekkert tilefni til að setja
sér nýtt. Ég leit síðast inn til
hennar fyrir örfáum vikum. Þá
sá ég að skammt mundi til loka.
Við Helga kveðjum hana með
þakklæti og virðingu. Blessuð sé
minning hennar.
Pálmi Jónsson,
Akri.
Það var einn sólríkan sumar-
dag árið 1950 að ég, sem þá var
13 ára, steig út úr rútunni við
Stóru-Giljá í Austur-Húnavatns-
sýslu. Á móti mér tók kona sem
ég þekkti ekki, en ég vissi að
þetta var Ingbjörg kona Guð-
mundar Bergmann, frænda
míns, sem hafði komið á heimili
foreldra minna nokkrum dögum
fyrr og pabbi spurði hann hvort
hann vantaði ekki snúninga-
stelpu um sumarið. Mundi tók
því vel og tiltók daginn sem ég
mætti koma. Og ég fór. Þetta var
upphafið að sex sumra kaupa-
vinnu hjá þeim ágætu hjónum.
Þau bjuggu uppi á lofti í stóra
húsinu sem Jónas Bergmann,
faðir Guðmundar, hafði byggt
fyrir bræðurna sem bjuggu á
Stóru-Giljá, Sigurð og Jóhannes.
Þeir komu frá Beinakeldu.
Íbúð Guðmundar og Ingi-
bjargar var uppi á lofti, að vest-
anverðu og útsýnið úr vestur-
gluggunum var meiriháttar.
Ekki spillti að ég sá bernsku-
sveit mína, Vesturhópið, sem að
vísu var á bak við Björgin og
Borgarvirkið, en Vatnsnesfjallið
sá ég vel og þekkti þar mörg
kennileiti. Guðmundur bjó ekki á
Giljá, en hafði keypt hálfa jörð-
ina Öxl, sem stóð undir sam-
nefndu fjalli, ca. þrem kílómetr-
um sunnar en Giljá. Mörg á ég
sporin á milli þessara bæja, hljóp
stundum alla leiðina, eða fór ríð-
andi á Jarpi eða Grána, en svo
kom traktorinn og Mundi kenndi
mér strax að keyra hann svo að
ég gæti snúið og rakað þegar
viðeigandi vél hafði verið sett
aftan í. Túnið í Öxl var bratt og
sumsstaðar snarbratt svo ég var
jafnvel hrædd um að velta trak-
tornum. En það gerðist nú ekki
sem betur fer. Ingibjörg útbjó
alltaf nesti til dagsins áður en
farið var út að Öxl.
Við Ingibjörg urðum strax
góðar vinkonur, töluðum um allt
milli himins og jarðar, trúmál og
heimspeki auk heldur annað. Og
ég var á þeim aldrinum að gefa
ungum mönnum hýrt auga og
alltaf trúði ég henni Ingibjörgu
fyrir slíkum hugrenningum. En
svo fór ég í skóla suður á land og
þar kynntist ég mannsefninu
mínu og gerðist kaupakona hjá
foreldrum hans að Litlu-Sand-
vík. En ég verð alla ævi þakklát
fyrir þessi björtu og hlýju sumur
á Giljá og í Öxl. Í minningunni
var alltaf sólskin í þá daga. En ef
það gerðist að ekki var verið að
vinna í heyi og við bara heima á
Giljá, þá tókum við lagið, við
Ingibjörg. Hún hafði undurfal-
lega söngrödd, hafði auk þess
lært að syngja á yngri árum. Og
hún kunni heil ósköp af ljóðum
og lögum. Spilaði auk þess á org-
el og gítar.
Ekki varð þeim barna auðið,
Guðmundi og Ingibjörgu, en
fósturdóttir þeirra er Bogey
Ragnheiður Jónsdóttir frá Litla-
Hvammi í Miðfirði. Hún missti
móður sína þegar hún fæddist og
Guðmundur og Ingibjörg tóku
barnið að sér nýfætt og var hún
þeim sem besta dóttir.
Síðast hitti ég Ingibjörgu á
100 ára afmæli hennar í janúar
sl. Í hátíðarsal elliheimilisins á
Blönduósi var stórveisla henni til
heiðurs.
Nú gefst ekki lengur tilefni til
að stoppa á Blönduósi á ferðum
norður. Ég er þakklát fyrir að
hafa þekkt Ingibjörgu Hjálmars-
dóttur Bergmann og fyrir sumr-
in sex, sem ég var á Giljá. Þau
hafa gefið mér gott veganesti út
í lífið.
Blessuð sé minning hennar.
Elínborg Guðmundsdóttir.
Hinn 20. janúar 1913 fæddist
hjónunum Önnu og Hjálmari
Lárussyni á Blönduósi dóttirin
Ingibjörg, kölluð Imba. Fjöl-
skyldan óx hratt og erfitt var að
framfleyta henni. Þegar Imba
var á sjötta ári var leitað til
Sveinbjargar og Jóns í Stóradal
um barnsfóstur. Sveinbjörg kaus
telpu, sá þar félaga fyrir dótt-
urina Guðrúnu. Imba féll vel inn
í barnahópinn í Stóradal, vinátta
Gunnu og Imbu varð einlæg og
entist meðan báðar lifðu. Þrátt
fyrir mikið annríki gaf Jón sér
tóm til að sinna uppeldi
barnanna og lagði mikla áherslu
á að þau töluðu gott mál, síðan
var Imbu fallegt málfar mjög
hugleikið. Sveinbjörg veitti stóru
heimili forstöðu og kenndi telp-
unum hannyrðir og skólinn var
oftast í Stóradal. Imba fór á
Kvennaskólann á Blönduósi, eins
var hún í vist í Reykjavík. Örlög
Imbu réðust þegar samkomuhús
sveitarinnar var byggt. Smiður-
inn, Guðmundur Jónasson Berg-
mann, dökkhærður með glettn-
isglampa í augum og hlýtt bros,
heillaði ungu stúlkuna í Stóradal.
Imba og Mundi gengu í hjóna-
band á Jónsmessu sumarið 1938
samtímis tveimur systrum hans.
Þau settust að á Stóru-Giljá, fjöl-
skylda hans leigði þar hluta
íbúðarhússins. Jónas, faðir Guð-
mundar, var smiður og rafmagn-
ið á Giljá var eftirsóknarvert.
Ungu hjónin keyptu hálfa ná-
grannajörðina Öxl, þar var heyj-
að. Þeim varð ekki barna auðið
en gleðin varð mikil þegar fóst-
urdóttirin, Bogey Ragnheiður
Jónsdóttir, kom. Eyja, og síðar
börn hennar og venslafólk urðu
þeim ástkær fjölskylda.
Ég fór í sveit níu ára gömul til
Imbu og Munda, naut vináttu
þeirra mömmu. Imba tók mér
opnum örmum og við Eyja urð-
um góðar vinkonur. Ég var hjá
þeim í sjö sumur. Imba var mjög
barngóð, og var hugkvæm við að
hafa ofan af fyrir okkur innivið
þegar rigndi, kenndi okkur fullt
af spilum, gátum og að kveðast
á. Hún kunni sæg af ljóðum og
átti stutt að sækja áhugann á
kveðskap. Hjálmar faðir hennar
var kvæðamaður og langafinn
var skáldið Hjálmar Jónsson frá
Bólu. Ekki er unnt að minnast
Imbu án þess að nefna sönginn.
Hún hafði fallega sópranrödd,
spilaði á gítar og orgel og mikið
var sungið og spilað. Imba söng í
kirkjukór Þingeyrakirkju í
marga áratugi og var þar lengi
organisti.
Mundi var tvískiptur milli
smíðanna og búskaparins, hann
var iðulega að heiman við smíð-
ar, jafnvel sumarpart. Þá fannst
okkur Eyju við bera ábyrgðina á
heyskapnum, þó fyrst hafi Ella,
frænka Munda, sem var hjá
þeim í sex sumur, borið þyngstu
byrðina.
Ljúfar minningar eru ná-
tengdar þessu góða fólki. Ég
kom árlega í heimsókn, á Giljá,
þá í Öxl og loks á Blönduós.
Mundi fékk slag og búskapnum í
Öxl var sjálfhætt. Þau Imba áttu
saman nokkur góð ár á Hnit-
björgum, heimili aldraðra, þar
sem Imba bjó áfram eftir lát
hans. Loks fékk hún stórt her-
bergi á hjúkrunarheimilinu.
Heilsa Imbu var oft ekki sem
skyldi, en alltaf rétti hún við aft-
ur. Hún sagðist ætla að verða
100 ára og halda þá ærlega
veislu. Við það stóð hún. Enginn
má sköpum renna. Síðustu vik-
urnar var sýnt hvert stefndi. Það
var þreytt, háöldruð kona sem
sofnaði hinsta svefni þann 1.
ágúst síðastliðinn.
Sigríður Hjartar.
Ingibjörg Bergmann Hjálm-
arsdóttir á Blönduósi, fyrrum
húsfreyja á Stóru-Giljá og Öxl í
Húnaþingi, kvaddi þennan heim
1. ágúst 2013 og verður jarðsett í
dag hinn 12. ágúst á Þingeyrum.
Hún mun hvíla þar við hlið
bónda síns, Guðmundar Berg-
manns Jónassonar, trésmíða-
meistara og bónda frá Marðar-
núpi og Stóru-Giljá, sem hún
missti fyrir 26 árum. Á Þing-
eyrum stendur ein merkasta
kirkja landsins, glæsileg að utan
sem innan, steinkirkja vígð 1877,
reist úr klettum frá Nesbjörgum
vestan Hóps af Ásgeiri Einars-
syni alþingismanni og bónda.
Þar verður Ingibjörg kvödd
hinstu kveðju. Á Þingeyrum reis
hið fyrsta klaustur á Íslandi árið
1133 og fræðasetur stóð þar í
rúm 400 ár. Það er við hæfi, að
merkiskonan Ingibjörg Berg-
mann skuli vera á Þingeyrum,
þar sem víðsýni er einna mest í
byggðum Húnaþinga og tignar-
legt heim að líta. Gott er að vita
af henni á hinu forna höfuðbóli.
Faðir Ingibjargar, Hjálmar
myndskeri Lárusson fyrst á
Blönduósi, síðar í Reykjavík, var
dóttursonur Bólu-Hjálmars.
Móðir hennar var Anna Halldóra
Bjarnadóttir af Stöndum. Bæði
voru þau kvæðafólk af lífi og sál.
Hjálmar var bróðir Jóns Lár-
ussonar í Hlíð á Vatnsnesi, sem
var merkasti kvæðamaður þjóð-
arinnar á sínum tíma. Þeir bræð-
ur kunnu fjölmargar stemmur.
Hjálmar dó áður en Kvæða-
mannafélagið Iðunn var stofnað,
áður en skipulegar hljóðritanir
hófust á kvæðalögum. Anna
hafði lært kvæðalögin af manni
sínum og starfaði náið með Ið-
unni. Hún varð því einn þýðing-
armesti hlekkurinn í varðveislu á
kvæðalögum úr Húnavatnssýslu.
Ingibjörg var meðvituð um
þjóðararfinn og stolt af honum;
vísurnar, ljóðin og kvæðalögin
léku henni á tungu og borðið
hennar var að jafnaði hlaðið bók-
um um kveðskap og annan þjóð-
legan fróðleik. Hún naut þess að
kveða og bað mig þess að kveða
yfir sér, ef hún færi fyrr en ég úr
þessum heimi. Þess vegna kveð
ég fyrir hana á Þingeyrum í dag.
Ég kynntist henni eftir að hafa
þekkt systur hennar, Margréti
Hjálmarsdóttur, sem var félagi
okkar í Iðunni og frábær kvæða-
kona. Hún hafði gefið út hljóm-
plötu, þar sem hún kvað sjálf öll
lögin. „Kvæðarödd bjó yfir orku
aftan úr grárri forneskju“ og
eins var það hjá Ingibjörgu.
Raddfögur var hún alla tíð.
Við Ólöf Erla konan mín kom-
um til hennar á Blönduósi, hve-
nær sem við komum því við á
kristilegum tíma. Oft var hún
með bók í höndum eða handa-
vinnu. Fallegt gult og skreytt
teppi fékk Halldóra sonardóttir
mín frá henni, þegar hún var
93ja ára. Ingibjörg breiddi út
faðminn, þegar við komum og
bauð okkur velkomin „krakkana
sína“, þótt við værum að komast
á áttræðisaldurinn. Bakið var
beint, gráblá augun snör, brosið
hlýtt og fasið skörulegt. Og svo
tók hún undir kveðskapinn með
styrkri röddu þrunginni tilfinn-
ingu. Oftar en ekki byrjuðum við
á kvæðalagi og vísu föður henn-
ar:
Hrönn, sem brýtur harða strönd
höfug lýtur knörum.
Topps með hvítu tröfin þönd
tvennir ýta úr vörum.
Blessi allar góðar vættir Ingi-
björgu og styrki og huggi vanda-
menn hennar og vini.
Ólöf Erla Halldórsdóttir og
Sigurður Sigurðarson dýra-
læknir.
Mig langar að minnast góðrar
vinkonu, Ingibjargar Bergmann,
í fáeinum orðum. Ég er þakklát
fyrir okkar vináttu og væri fá-
tækari ef ég hefði ekki fengið að
kynnast henni. Hún var fædd
fyrir fyrra stríð og hafði upplifað
miklar breytingar á sinni löngu
ævi. Það var notalegt og fróðlegt
að spjalla við hana bæði um mál-
efni líðandi stundar og liðna tíð.
þrátt fyrir mikinn aldursmun
áttum við ýmislegt sameiginlegt,
t.d. sama uppáhalds útvarpsþátt
um tíma, hún sagði mér frá bók-
unum sem hún var að lesa og
stundum hlustuðum við saman á
tónlist. Hún hafði mikinn áhuga
og ákveðnar skoðanir á íslensku
máli, var mjög ljóðelsk og kunni
heilan hafsjó af vísum og kvæð-
um, og svo kunni hún að kveða
upp á gamla mátann sem þykir
ekki ónýtt í dag því þessi arfur
okkar, kveðskapurinn, hefur
komist aftur í tísku. Ég undr-
aðist oft hvað hún hafði gott
minni, sérstaklega hvað varðar
ljóð og kvæði en hún mundi líka
alls konar hluti sem hún hafði
lært áratugum fyrr. Tónlist var
henni í blóð borin og hún hafði
mikið yndi af henni og talaði oft
um sína uppáhalds söngvara sem
voru m.a. Stefán Íslandi, Jussi
Björling og Pavarotti.
Við Leó og börnin heimsóttum
hana gjarnan á sumrin og feng-
um alltaf höfðinglegar móttökur.
Meðan hún bjó á Hnitbjörgum
gátum við gist hjá henni en hún
hafði mikla ánægju af að fá fólk-
ið sitt og dekraði við okkur á all-
an hátt með nógum mat og alltaf
voru bakaðar pönnukökur og
settur á mikill sykur og svo var
spilað og spjallað. Hún var sífellt
að prjóna og kom færandi hendi
með sokka, peysur og fleira á
bæði börn og fullorðna. Það
verður tómlegt að keyra í geng-
um Blönduós og engin „amma í
sveitinni“ til að heimsækja.
Ég þakka samveruna með
þessari mætu konu og veit að
þar sem hún er núna hljómar
fagur söngur.
Arnbjörg Guðmundsdóttir.