Skessuhorn - 20.11.2013, Blaðsíða 16
16 MIÐVIKUDAGUR 20 . NÓVEMBER 2013
Ekki eru allar byggðir á Íslandi
þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa að-
gang að hitaveitu. Oft er talað um
að slík samfélög séu á svokölluð-
um „köldum“ svæðum. Þar er yfir-
leitt stuðst við rafhitun. Kostnað-
ur við hana fer stöðugt hækkandi.
Árið 1996 stofnuðu 37 sveitarfé-
lög með sér Samtök sveitarfélaga á
köldum svæðum (SSKS). Tilgang-
ur samtakanna er að vinna að lækk-
un orkukostnaðar til húshitunar á
köldum svæðum, stuðla að frekari
jarðhitaleit, afla og dreifa upplýs-
ingum um orkumál til aðildarsveit-
arfélaga og stuðla að aukinni þekk-
ingu almennings á leiðum til orku-
sparnaðar. Kristinn Jónasson, bæj-
arstjóri í Snæfellsbæ, er formaður
samtakanna. Þó að flest sveitarfélög
á Vesturlandi njóti nú þeirra gæða
að hafa aðgang að hitaveitum þá
hafa íbúar á utanverðu Snæfellsnesi
ekki verið svo heppnir. Ekki enn að
minnsta kosti. Hitaveituvatn hef-
ur ekki fundist þrátt fyrir ítrekað-
ar leitartilraunir.
Kaldasta borhola
á Íslandi
„Við erum sannfærð um að það
finnist heitt vatn hér. Þetta er bara
spurning um tíma. Það eru kannski
um fjögur ár síðan við fórum síð-
ast í stóra leit. Þá boruðum við hér
við Búrfellið, í kringum Ólafsvík
og við Fróðá og víðar. Þetta skilaði
engu nema því að við fundum köld-
ustu borholu á Íslandi. Vatnið var
svo kalt að það fraus þegar það kom
upp á yfirborðið. Við höfum líka
sett töluvert fé í að bora á Lýsu-
hóli. Þar höfum við fundið fimm
sekúndulítra af 60 gráðu heitu vatni
en það er því miður ekki nóg,“ seg-
ir Kristinn. „Það á að vera vatn hér.
Vandinn er bara að allt kalt vatn
hér fer undir hraunið og streymir
gegnum jarðlögin út í sjó. Það hafa
alltaf verið vandræði með ferskvatn
yst á Snæfellsnesi af þessum sökum.
Það hlýtur að vera hiti í kringum
þessa miklu eldstöð sem Snæfells-
jökull er.“
Stefnir í mikla skerð-
ingu á niðurgreiðslum
Eins og í öðrum „köldum“ sveit-
arfélögum þá eru íbúar á utan-
verðu Snæfellsnesi mjög upptekn-
ir af raforkuverði. Það er skiljanlegt
í ljósi þess að kyndingarkostnað-
ur með rafmagni er hár. Stjórnvöld
hafa niðurgreitt raforku til þessara
byggða. Blikur eru þó á lofti í því
fjárlagafrumvarpi fyrir 2014 sem nú
liggur fyrir Alþingi. Þar er gert ráð
fyrir um 75 milljóna króna lækk-
un á niðurgreiðslu til húshitunar
á næsta ári. Heildar upphæðin færi
þannig úr 1.418 milljónum króna
niður í 1.343 milljónir. Þetta þykir
mörgum blóðugt. Bent hefur verið
á að niðurgreiðslurnar ættu í raun
að vera um 550 milljónum hærri en
nú er, ef miðað er við raungildi þess
sem greitt var út árið 2005.
Kristinn Jónasson segir að það
stefni í að lækkun á niðurgreiðslum
verði enn meiri en virðist við fyrstu
sýn í fjárlagafrumvarpinu. Hann
útskýrir þetta með því að hluti
af niðurgreiðslunum renni sem
stofnstyrkur til nýrra hitaveitna
þar sem sú á Skagaströnd vegur
þyngst. „Stofnstyrkir til nýrra hita-
veitna eru þannig að þar eru niður-
greiðslur sem annars hefðu runn-
ið þangað vegna rafmagnshitunar
lagðar saman fyrir 12 ára tímabil. Á
Skagaströnd verða þetta þannig 250
milljónir sem ný hitaveita þar fær í
eingreiðslu nú þegar hún er sett á
laggirnar. Á næsta ári lítur út fyr-
ir að það þurfi á bilinu 330 til 340
milljónir til niðurgreiðslu á nýjum
hitaveitum.“ Þannig stefnir í að það
verði aðeins rétt rúmur milljarður
eftir til skiptanna í niðurgreiðslur
til íbúa á köldu svæðunum.
„Þetta er vonlaust dæmi fyrir
íbúa þessara sveitarfélaga. Í ofaná-
lag hafa orkufyrirtækin síðan boð-
að hækkanir á raforku um áramót-
in. Við erum búin að fara nú í haust
og hitta ráðherra vegna þessa. Ég er
sjálfur búinn að ræða við þingmenn
Norðvesturkjördæmis og ég veit að
það hefur líka verið gert í öðrum
kjördæmum,“ segir Kristinn.
Vilja stofna
jöfnunarsjóð
Togstreitan um niðurgreiðslu ríkis-
ins til húshitunar á köldum svæðum
er orðinn árviss viðburður í hvert
sinn sem nýtt fjárlagafrumvarp ligg-
ur fyrir þinginu. Margir eru orðnir
þreyttir á þessu. Til að finna varan-
legt fyrirkomulag sem sátt gæti ríkt
um var í fyrra lagt fram þverpóli-
tískt frumvarp þingmanna úr öllum
flokkum. Það byggði á vinnu nefnd-
ar sem fulltrúar SSKS áttu sæti í og
snýst um að koma á fót jöfnunarsjóði
húshitunar. „Á hverju ári höfum við
farið fram á að niðurgreiðslan yrði
þannig að húshitunarkostnaður á
köldu svæðunum yrði svipaður og
dýrustu hitaveiturnar. Hann yrði þó
umtalsvert hærri en til dæmis nú er
hjá Orkuveitu Reykjavíkur á stöð-
um eins og Reykjavík, Akranesi og í
Stykkishólmi. Það vantar einhverj-
ar 500 milljónir í pottinn til að ná
því. Frumvarpið er tillaga um tekju-
öflun í þetta. Með því að leggja tíu
aura gjald á alla orku sem framleidd
er á Íslandi mætti ná um tveggja
milljarða tekjum. Orkureikningur-
inn hjá einstaklingi myndi kannski
hækka við þetta um 300 krónur á
ári. Þetta myndi gefa einhverja tvo
milljarða í tekjur og þá væri hægt
að nota til að jafna orkukostnaðinn.
Þar með væri þetta úr sögunni.“
Íbúar kaldra svæða
standa höllum fæti
Kristinn Jónasson segir að íbú-
ar kaldra svæða beri mjög skarðan
hlut frá borði í orkumálum saman-
borið við aðra landsmenn. „Tökum
dæmi af Blönduvirkjun sem fram-
leiðir rafmagn og einhverri hita-
veitu. Það er tekið lán til 25 ára til
að koma hitaveitunni á fót. Eftir
þann tíma er hún væntanlega orðin
skuldlaus. Íbúarnir njóta þess í mjög
lágu orkuverði. Blönduvirkjun er
þannig að þó hún sé búin að borga
sig upp og orðin skuldlaus eftir 25
ár þá njóta íbúar nærumhverfis-
ins þess ekki að neinu leyti. Á sama
tíma er orkuverð alltaf að hækka og
við erum að byggja við orkudreifi-
kerfið í landinu til að sinna stór-
iðju. Við, þessi tíu prósent þjóðar-
innar sem búum á köldum svæðum,
erum alltaf að borga hærra orku-
verð vegna þess að orkukostnaður
er að hækka því við erum alltaf að
setja upp nýjar og dýrari línur með
hærri flutningskostnaði. Síðan er
alltaf verið að byggja nýjar virkjan-
ir og þær eru dýrari og dýrari. Við
njótum aldrei góðs af fjárfesting-
unni í raforkunni. Það er munurinn
á okkar aðstöðu og þeirra sem búa
við hitaveitu. Okkur finnst ósann-
gjarnt að við sem lítill hópur þjóð-
arinnar séum alltaf látin taka fullan
þátt í fjárfestingum í raforkugeir-
anum. Það á frekar að viðurkenna
að þessi hópur eigi að njóta orku á
sömu kjörum og aðrir þó orkan sé
í formi rafmagns. Þetta getum við
gert með því að stofna þennan jöfn-
unarsjóð. Ef hann væri fyrir hendi
þá ættum við hægara með að fallast
á nýfjárfestingar í línum og virkj-
unum. Í núverandi stöðu má segja
að það væri best fyrir okkur ef það
yrði ekki virkjaður einn einasti læk-
ur meir og dreifikerfinu bara hald-
ið við.“
Kristinn bætir við að hann trúi því
að allir hljóti að geta orðið sammála
um að þetta er sanngirnismál. „Við
höfum verið að knýja þingmennina
um að þeir fylgdu þessu máli eftir og
jöfnunarsjóðurinn yrði settur á fót í
nokkrum skrefum. Við myndum þá
skila þessum 1200 milljónum á árs-
grundvelli sem nú fer bent úr ríkis-
kassanum til niðurgreiðslu á köld-
um svæðum aftur inn í ríkissjóð. Í
staðinn yrði tekjupósturinn af orku-
sölunni til jöfnunar á húshita. Við
fengjum þar að auki um 700 mill-
jónir til viðbótar. Þetta myndi duga
til jöfnunar á húshitunarkostnaði í
landinu,“ segir Kristinn Jónasson
bæjarstjóri í Snæfellsbæ og formað-
ur Samtaka sveitarfélaga á köldum
svæðum.
mþh
Kristinn Jónasson bæjarstóri í Snæ-
fellsbæ og formaður Samtaka sveitar-
félaga á köldum svæðum.
Stefnir í mikla lækkun á niðurgreiðslu
raforku á „köldum“ svæðum
Jarðhitinn er mjög eftirsótt orkuauðlind en ekki eru allir landsmenn svo heppnir að njóta hans.
Borað eftir heitu vatni í landi Eiðhúsa í Eyja- og Miklaholtshrepppi nýverið.