Skessuhorn - 20.11.2013, Side 24
24 MIÐVIKUDAGUR 20 . NÓVEMBER 2013
Ljótt er þegar líkin fá - leið á að vera dáin
Vísnahorn
Einhvern veginn
streymir þessi blessaður
tíma alltaf áfram og allir
hlutir halda stöðugt áfram
að koma mönnum á óvart ár eftir ár. Skiptir
ekki öllu máli hvort um er að ræða kosninga-
úrslit, fyrsta snjóinn, haustið eða vorið, fæðingu
eða andlát. Allt kemur þetta manni jafn mikið
á óvart og alltaf eru menn óviðbúnir. Bjarni frá
Gröf í Víðidal orti um þessa hluti:
Allt í gegnum aldaraðir,
ekki breytast heimsins kynni,
ýmist hryggir eða glaðir
dansa menn um dauðans traðir.
- Drottinn stjórnar hljómsveitinni.
Það er nú svona með þessa hljómsveitarstjórn-
un skaparans að hún getur tekist allavega enda
tónverkin nokkuð breytileg í flutningi. Ætli
Björn S. Blöndal hafi ekki verið í einhverjum
moll kafla í lífinu þegar hann orti:
Ég er votur, víða kalt
varla þrot á trega.
Lífið potast áfram allt
ekki notalega.
Kunningi Brynjólfs Einarssonar í Vestmanna-
eyjum gaf út ljóðabók í nýtískulegum stíl undir
höfundarnafni. Þá varð Brynjólfi að orði:
List rænt vera líst mér
ljóðakverið frá þér.
Að það fer í flokk sér
finnur hver, sem læs er.
Hvort þessi ritdómur flokkast sem lof eða last
getur reyndar farið eftir framburði eða stafsetn-
ingu. Allavega skiptir nokkru máli hvort listrænt
er eitt eða tvö orð.
Ekki hef ég getað komist að því hver orti eft-
irfarandi vísu en gengið hefur sá í skóla til Þor-
steins Erlingssonar. Mun hafa birst í Morgun-
blaðinu á sínum tíma undir dulnefni:
Viti sneyddan eymdaróð
atómskáldin sungu
það getur enginn þeirra ljóð
þýtt á nokkra tungu.
Matthías Johannessen sem um árabil var rit-
stjóri Lesbókar Morgunblaðsins var duglegur
að koma ungum skáldum á framfæri og birta
ljóð þeirra og ber honum þökk og virðing fyrir
það. Vafalaust hefur eitthvað flotið þar með sem
ekki stóðst stífustu kröfur um stuðlasetningu
og fleira og margir tilbúnir að kasta steinum ef
þeim líkar ekki sjálfum. Um Matthías byrjaði
Helgi Hjörvar vísu á þessa leið:
Ill er hlutdeild örlaganna,
um atomskálda rímlaust fjas.
Hallgrímur Jónasson botnaði:
Að höfuðsmiður hortittanna,
heita skuli Matthías.
Sveinbjörn Egilsson mun hafa ort eftirfar-
andi ritdóm hvort sem hann átti nú rétt á sér
eða ekki:
Þetta birtir bragarskort,
blómaskert og heldur þurrt.
Það er stirt og illa ort
ekki vert að láta burt.
Ekki ber að vanmeta lækningagildi kveðskap-
arins og ætli það megi ekki líta á eftirfarandi
sendingu Hjálmars Freysteinssonar til Bjarna
Stefáns Konráðssonar sem nokkurs konar re-
sept:
Andleysi, athyglisbrest,
uppþembu, hjartslátt og pest
ættlæga galla,
ilsig og skalla,
limrurnar lækna best.
Ulrich Richter var eitt sinn kosinn formað-
ur Iðunnar og orti þegar hann fékk ábending-
ar um verkefni frá gömlu stjórninni:
Gamla stjórnin er gengin frá
guðar hún samt á skjáinn.
Ljótt er þegar líkin fá
leið á að vera dáin.
Það hefur verið talað um að kvikmyndin
,,Hross í oss“ sýni það mannlega í hestinum
og hestinn í manninum. Reyndar er oft ótrú-
lega stutt í dýrið í mannskepnunni og á síð-
astliðnu vori sendi Vigfús Pétursson í Hæg-
indi Þórdísi Sigurbjörnsdóttur í Hrísum eft-
irfarandi vísur sem fjalla um sýn karlmannsins
á konuna og ýmis tilbrigði við það stef:
Áður varstu efni í frú
og við lékum saman
í fáein skipti þegar þú
þvoðir mér í framan.
Ef ég sagði ,,Að mér snú“
oft ég sá þig trillta
árið sem mér þótti þú
þrifleg eins og gylta.
Ef að ég fór út að spá
eða til að spræna.
Ennþá man ég það að þá
þú varðst eins og hæna.
Ef ég þreyttur út af lá
eða sat og réri
víst ég minnist þess að þá
þú varðst eins og meri.
Ef ég mér til bæja brá
og bað þig heima tolla.
Alla daga þú varst þá
þrálát eins og rolla.
Ef að fæ ég ögn í tá
engan vil ég kvelja.
ævinlega þú varst þá
með þverúð eins og belja.
Svona kveðskap mátti að sjálfsögðu ekki
láta ósvarað og þó svarið kæmi ekki strax þá
kom það nú samt og ekki voru tilbrigðin síðri
þeim megin:
Að þú værir efni í mann
einu sinni trúði
en við kynni út það fann
að þú reyndist lúði.
Ef mig fyrir útlitið
ofurlítið svelti
þú með látum kýldir kvið
keimlíkastur gelti.
Þá ég var í þrifunum
á þokkalegu spani
sprangaðir þú sposkur um
sperrtur eins og hani.
Þegar við þig vildi kjá
og vefja blíðu og dekri
oftast varstu eykinn þá
eins og gamall bekri.
Ef ég kom þér ögn á skrið
og átti að halda í vestur
ætíð gekkstu út á hlið
eins og kargur hestur.
Ef ég bauð þér upp í dans
eftir vangalagi
lést þú eins og andskotans
illvígt naut í flagi.
Með þökk fyrir lesturinn,
Dagbjartur Dagbjartsson
Hrísum, 320 Reykholt
S 435 1189 og 849 2715
dd@simnet.is
Hjónin Sigurbjörn Guðmundsson
og Málfríður Ögmundsdóttir færðu
Bókasafni Akraness papýrus örk að
gjöf fyrr í mánuðinum. Papýrus er
þunnt blað, líkt pappír og unnin
úr stönglum papýrusreyrs. Hjón-
in keyptu örkina á ferð sinni um
Egyptaland 1987 en ekki er vit-
að með vissu hversu gömul örk-
in er. Töluvert magn hefur fund-
ist af ævafornum papýrus á þessum
slóðum enda varðveitist hann vel í
sandinum. Slíkar rúllur hafa fundist
allt að 5200 ára gamlar en papýrus
var aðal ritmiðill Egypta í fornöld.
Örkin, sem hjónin gáfu bókasafn-
inu, var keypt í úthverfi Kaíró. Sig-
urbjörn fékk að fara í bakherbergi
á verkstæði einu og kaupa örkina.
Seljendurnir voru hræddir um að
hann yrði tekinn með hana á leið úr
landi þannig að þeir þorðu ekki að
rúlla henni upp eins og vaninn er.
Hún var því brotin saman og þurfti
Sigurbjörn að geyma hana innan-
klæða á leið sinni úr landi. grþ
Sýningin Franskir sjómenn við
Íslandsstrendur var haldin í markað-
inum við Nesveg í Grundarfirði á
Rökkurdögum. Sýningin var miðviku-
daginn 13. nóvember en þar fór María
Óskarsdóttir frá Patreksfirði yfir sögu
franskra sjómanna sem veiddu hér við
Ísland fyrr á öldum. María hefur safn-
að heimildum um þetta viðfangsefni
og hefur meðal annars gefið út bók á
frönsku um þessa samtvinnuðu sögu
Frakka og Íslendinga. Sýningin var vel
sótt og þótti fróðleg. Hópur Frakka frá
Paimpol, vinabæ Grundarfjarðar, voru
meðal annarra gesta viðstaddir þessa
skemmtilegu sýningu.
tfk
Jón Magni Ólafsson hefur opn-
að sölusýningu á sautján olíu- og
krítarmyndum í húsgagnaverslun
Bjargs við Kalmansvelli á Akranesi.
Jón Magni er fæddur 1943, mjólk-
urfræðingur að mennt og búsett-
ur á Selfossi. Hann hefur í gegn-
um tíðina teiknað mikið en síðari
ár einnig málað með olíulitum. Jón
Magni hefur haldið nokkrar sýning-
ar áður, bæði einn og með öðrum.
Hann hefur sótt námskeið í málun
og teikningu og var um tíma félagi
í Myndlistarfélagi Árnessýslu. mm
Alþjóðlegur minningardagur um
fórnarlömb umferðarslysa var hald-
inn síðastliðinn sunnudag. Lands-
menn voru hvattir til að nota dag-
inn til að leiða hugann að minn-
ingu þeirra sem látist hafa í um-
ferðinni og þeim sem hafa slas-
ast, en jafnframt íhuga þá ábyrgð
sem hver og einn ber sem þátttak-
andi í umferðinni. Klukkan 11:15
var einnar mínútu þögn sem lands-
menn voru hvattir til að taka þátt í.
„Um það bil 4.000 manns láta lífið
og hundruð þúsunda slasast í um-
ferðinni í heiminum á degi hverj-
um. Enn fleiri þurfa að takast á við
áföll, sorgir og eftirsjá af völdum
þessa. Segja má að allir upplifi með
einum eða öðrum hætti afleiðing-
ar umferðarslysa. Vart er til sá ein-
staklingur sem þekkir ekki einhvern
sem lent hefur í alvarlegu slysi í
umferðinni,“ segir í tilkynningu frá
Samgöngustofu vegna þessa minn-
ingardags. mm
Franskir sjómenn við Íslandsstrendur
Sigurbjörn stendur hér við innrammaðan papýrusinn. Hjónin lánuðu bókasafn-
inu einnig minni myndina en hún er eftirlíking af papírusmyndum sem algengar
voru um 2500 árum fyrir Krist.
Bókasafn Akraness fær egypskan papýrus að gjöf
Minningardagur um
fórnarlömb umferðarslysa
Tvö verka Jóns Magna í Bjargi.
Jón Magni með
sölusýningu í Bjargi