Vísbending - 23.12.2013, Síða 13
13
var orðinn oddviti mætti til veislunnar og fór að sjálfsögðu í pontu og
þakkaði fyrir sig.
„Þá sagði ég þeim að þarna væri nú hreppsnefndin í Mjóafirði
komin og kynni þeim bestu þakkir fyrir boðið en ég væri samt einn. Þá
voru allir fjórir aðalmennirnir sem voru kosnir með mér í hreppsnefnd
fluttir í burtu og fjórir varamenn þeirra einnig. Ég stóð eftir einn og
það þurfti að efna til aukakosninga árið eftir til þess að hægt væri að
framkvæma lögbundin verkefni hreppsnefndar eins og að jafna niður
útsvari og þess háttar.“
Vilhjálmur var allt í öllu á Mjóafirði og kenndi t.d. við barnaskólann
frá 1936 í ellefu ár og svo aftur frá 1956 í önnur ellefu. Ég hlýt að
spyrja hve mikilvægur skólinn var fyrir byggðaþróunina.
„Hann var auðvitað mjög mikilvægur. Við sáum alltaf um okkar
skólahald og svo má segja að okkur hafi áskotnast hús sem varð eftir
í Mjóafirði eftir síldarárin. Það hefur gegnt hlutverki skólahúss og
félagsmiðstöðvar. Þrátt fyrir stöðuga fækkun fólks þá hefur alltaf
verið haldið uppi skólahaldi í Mjóafirði. En nemendur hafa oft verið
sárafáir.“
Þegar hér er komið sögu er varpað fram þeirri spurningu hvenær
þeir Mjófirðingar sem vildu búa þar hafi gert sér grein fyrir því að
baráttan væri í raun töpuð.
„Ég held að við sem þarna bjuggum höfum í raun vitað strax eftir
stríðsárin að þetta væri töpuð barátta og þarna myndi fólki ekki fjölga
á ný. En þarna bjó fólk sem kunni þessum lífsmáta vel og kunni að
búa að sínu. Sterk tengsl milli þeirra sem eftir voru höfðu sitt að segja.
Menn eru líka þrjóskir og kæra sig kollótta um sum þau atriði sem
aðrir settu fyrir sig.“
Fyrir stríð var einn bíll kominn í Mjóafjörð en sá bíll hafði
fáa og stutta vegi til þess að aka eftir. Fljótlega eftir stríð fengu
Vilhjálmur og frændur hans á Brekku jeppa með skipi að sunnan
en bryggjan var ekki traustari en svo að þeir þorðu ekki að sitja í
bílnum og aka honum upp á þurrt heldur gengu með honum upp
fúið bryggjugólfið.
„Þegar ég tók bílpróf gekk mér ekkert sérstaklega vel, en
prófdómarinn sagði að þetta dygði alveg til að keyra í Mjóafirði.“
Fljótlega kom svo lítil jarðýta í Mjóafjörð og menn hófust handa
við vegagerð. Vilhjálmur segir að inn strönd hafi verið gerður vegur
með jarðýtunni en aldrei borið ofan í hann.
„Sveinn í Firði sem var okkar þingmaður barðist talsvert
ötullega fyrir því að koma firðinum í vegasamband, en það varð
samt ekki fyrr en 1959 sem vegagerð var lokið yfir heiðina. Það
ár komst Mjóifjörður í vegasamband við aðrar sveitir. En þessi
vegur hefur aldrei verið opinn nema yfir sumarið og þess vegna
hafði hann í sjálfu sér engan tilgang eða hlutverk í þróun eða
viðhaldi byggðarinnar. Þar skipti mestu máli að Mjófirðingar undu
glaðir við hlutskipti sitt og settu það ekki sérstaklega fyrir sig þótt
fjörðurinn væri einangraður.
Meðan ég var þingmaður og ráðherra reyndi ég eftir megni að
útvega styrki til þess að treysta samgöngur á sjó milli Norðfjarðar
og Mjóafjarðar enda var það að mínu viti eini samgöngumátinn sem
treysta mátti allt árið. Þar fyrir utan var í sjálfu sér ekki mikið sem hið
opinbera gat gert fyrir Mjófirðinga.
Þeir væntu heldur engrar himnasendingar að sunnan heldur reyndu
eftir megni að vera sjálfum sér nógir eins og verið hafði alla tíð og
treystu á eigið hyggjuvit.“
Vilhjálmur gamli - hver er það?
Vilhjálmi verður tíðrætt um þær miklu breytingar sem hafa fylgt
tæknivæðingu nútímans. Fyrir 1930 var ekkert rafmagn í Mjóafirði,
enginn vegur, engin tæki eða tól til þess að létta mönnum stritið.
„Síðan hefur verið stöðug ásókn í vélar og tæki sem létta okkur svo
óskaplega lífið að þetta er löngu orðið allt önnur tilvera heldur en var
þegar ég var að alast upp.“
Hefur þessi tæknivæðing gert lífið betra?
„Ég er ekki maður til þess að dæma það“, segir öldungurinn
varlega. „Tæknin hefur gert lífið léttara. Hitt hefur alltaf verið undir
manninum komið en ekki tækninni.“
Ég spyr Vilhjálm hvort hann sé einangraður í elli sinni. Hann
viðurkennir að svo sé. Flestir samtíðarmenn hans og jafnaldrar eru
horfnir út í blámóðu heimsins eða yfir móðuna miklu. En Vilhjálmur
talar um þessi mál af yfirvegun og jafnaðargeði og sættir sig við
hlutskipti sitt.
„Ég hitti fólk hérna niðri í matsal á hverjum degi og það er oft
gaman að tala við það. Þetta fólk telst vera orðið aldrað þótt flestir af
þeim séu um 20 árum yngri en ég.“
Mig langar til þess að vita hvort Vilhjálmi finnist hann vera orðinn
eitthvað sérstaklega gamall. Hvort hann sé alltaf meðvitaður um
árafjöldann, því andinn sýnist vissulega vera yngri en efnið í hans tilviki.
„Ég veit vel að ég er orðinn 99 ára“, segir Vilhjálmur og glottir.
„En stundum gleymi ég því og finnst ég í huganum vera töluvert
yngri. Um daginn fékk Jóhanna tengdadóttir mín á Brekku, sem verið
hefur mér hollur ráðgjafi í ellinni, bréf með ýmsum fróðleiksmolum.
Í niðurlagi þess stóð: „Sýndu Vilhjálmi gamla þetta bréf, hann hefur
gaman af því.“ Jóhanna rétti mér bréfið með þessum orðum og ég
get viðurkennt að eitt andartak fannst mér að verið væri að tala um
Vilhjálm afa minn sem í minni vitund var „Vilhjálmur gamli“. En svo
mundi ég hið rétta.“
Eitt andartak fannst mér að verið væri að tala um Vilhjálm afa minn
sem í minni vitund var „Vilhjálmur gamli“. Mynd: Páll Stefánsson
V