Vísbending - 23.12.2013, Síða 44
44
dauða af rannsóknarréttinum. Hann snéri hins vegar á réttinn og lést
áður en dómnum var fullnægt.
auðsældin sýnir blessun guðs
Fyrstu misserin eftir bankahrunið hér á landi árið 2008 urðu margir
til að velta fyrir sér hvernig bregðast ætti við því sem sumir kölluðu
siðrof þjóðarinnar. Það var tilfinning margra að aldrei hefði íslensk
þjóð misst jafn rækilega fótanna gagnvart veraldlegum gæðum.
Í kjölfarið urðu Íslendingar að móta afstöðu sína til þess hvernig
þjóðin ætti að bregðast við athöfnum þeirra sem tengst höfðu
hruninu. Landsmenn tóku að velta fyrir sér siðferði þessara manna
og hvernig hægt væri að umgangast þá og ekki síst það sem eftir
stæði af auð þeirra. Fyrstu misserin eftir hrun mátti heyra þær
skoðanir víða að peningar tengdir auðmönnum íslensku útrásarinnar
yrðu ekki notaðir í uppbyggingu efnahagslífsins. Peningarnir væru
nánast óhreinir eins og eigendur þeirra. Margir virtust tilbúnir til þess
að fella siðferðilega dóma þó það gæti komið sér illa við pyngju
þeirra sjálfra að framfylgja þeim.
Að hluta til er þessi umræða rekin áfram af heiðnum hefndarþorsta
en ekki verður horft framhjá því að Biblían er ströng við ríka menn
og ágirnd er ein af höfuðsyndunum. Breytingar á túlkun á Biblíunni
hafa réttlætt auðsöfnun meira en þegar Klemens frá Alexandríu setti
saman rit sitt. Kalvínisminn færði heiminum þá túlkun að þeir sem
nytu gæfu í veraldlegu lífi fengju blessun guðs. Allt í einu var ríki
maðurinn orðinn öðrum fyrirmynd, að því tilskildu að hann sýndi
dyggð sína með trúmennsku í starfi og lífi sem væri eftirbreytnivert.
Á það hefur nokkuð skort meðal þeirra auðmanna sem forsjónin færði
okkur í upphafi 21. aldar.
Einn kollega séra Valdimars, sem fór með upphafssálminn í
þessum undarlega pistli, var séra Arnljótur Ólafsson (1823-1904).
Sex árum áður en séra Valdimar samdi sálminn, gaf Arnljótur út fyrsta
íslenska hagfræðiritið. Í bók hans Auðfræði er bent á að „mennirnir
eru engan veginn misgóðir eftir því hve mjög þeir elska sjálfan sig,
heldur eftir hinu hvað þeir elska hjá sjálfum sér og í sínum kjörum.“
Sjálfið takmarkast ekki heldur nauðsynlega við einstaklinginn. Móðir,
sem ann barni sínu eins og sjálfri sér, hefur fært sjálf sitt út. Munurinn
á ágirnd og sjálfselsku er að ágirndin beinist ætíð gegn öðrum, felur
í sér ásælni. Sjálfselskan getur hins vegar verið áreitnislaus. Hvernig
geta menn elskað náunga sína í raun? spurði Arnljótur.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor telur að svar séra
Arnljóts sé það sama og Adam Smith veitti: Með því að keppa á
frjálsum markaði að hámarksgróða, því að hann sé vísbending um,
að þeim hafi tekist betur en öðrum að fullnægja þörfum náunga
sinna. Þetta styður Hannes með því að kalla tvær nýjar dauðasyndir
til sögunnar, öfund og hirðuleysi. Boðskapur Hannesar er að menn
eigi ekki að öfunda þá sem vegnar vel og eigi að leggja sig sjálfa fram
um að leysa verkefni lífsins. Biblían sjálf fjallar ekki nákvæmlega um
dauðasyndirnar og það var í raun ekki fyrr en með mótmælandanum
Marteini Lúther sem þær fengu hlutverk í umræðunni. Ekki þó
endilega til bóta þegar kemur að því að vísa manninum leiðina til
auðugs lífs, hvaða skilning sem menn vilja leggja í það orð.
Erindið minnir á að allt er forgengilegt og dauðinn það eina sem
er öruggt. Eitt lifir þó manninn. Það er orðstírinn og hann er eilífur.
Því getur í það minnsta Gunnar á Hlíðarenda leyft sér að halda fram,
hvar sem hann er í vist í dag. Hin heiðnu skilaboð voru að menn
skyldu haga lífi sínu þannig að eftirmæli þeirra yrðu lofsamleg og líf
þeirra eftirbreytnivert. Biblían hefur sína leið til að koma svipuðum
skilaboðum áleiðis. Þar er það ekki orðstírinn sem lifir heldur sú eilífa
sæla sem fæst í himnaríki, sem menn öðlast með því að leggja inn alla
ævi, með guðsótta og góðum siðum:
Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu,
þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.
Safnið yður heldur fjársjóðum á himni,
þar sem hvorki eyðir mölur né ryð
og þjófar brjótast ekki inn og stela.
Því að hvar sem fjársjóður þinn er,
þar mun og hjarta þitt vera.
(Matteus 6:19-21)
Eins og fyrri daginn er leiðsögn kirkjunnar hvorki einföld né
án mótsagna. Auðsöfnun gat vafist fyrir guðhræddum eins og sést
þegar ytri umgjörð kirkjunnar er skoðuð, en lengst af á miðöldum
safnaði kirkjan gríðarlegum auði og skammaðist sín ekki fyrir að
sýna hann. Hafa verður í huga að margir kirkjunnar þjónar töldu
auðinn ekki eign sína þótt þeir í daglegu amstri færu þannig með
hann. Þeir voru eingöngu vörslumenn auðæfanna og notkunin fyrst
og fremst guði og kirkju hans til dýrðar. Um þetta ríkti ekki sátt og
með reglubundnu millibili risu upp andófshreyfingar sem boðuðu
meinlæti og fátækt, líka fyrir kirkjunnar þjóna, ekki síst þegar
kirkjufeðurnir urðu of gírugir í völd og auðævi. Sú varð þróunin
með eflingu páfadómsins sem að lokum gekk kaupum og sölum
og varð um langt skeið lykill að veldi helstu kaupahéðna Ítalíu,
guðhræddum mönnum til armæðu.
Sælir eru fátækir
Á 13. öld hafði kirkjan safnað miklum auði, sem margir töldu
óeðlilegt. Það kallaði á margvíslegar þrætur milli heimsspekinga og
guðfræðinga, en á þeim tíma var ekki óalgengt að þá mætti finna í
einum og sama manninum. Ein þekktasta predikun guðfræðingsins
Eckhart von Hochheim (1260 – 1327) leggur út af orðunum
„sælir eru fátækir í anda. Þeirra er himnaríki.“ Eckhart var einn af
áhrifamestu guðfræðingum síðmiðalda og lærimeistari förumunka.
Hann taldi tvenns konar fátækt í heimi hér. Önnur er ytri fátækt
sem er góð og „ber mjög að lofa með þeim manni er hana umber
viljandi af ást á vorum herra, Jesú Kristi, er iðkaði hana á jörðu. Um
þessa fátækt ætla ég ekki að ræða frekar. En til er önnur fátækt, innri
fátækt, og um hana ber að skilja orð vors Herra er hann segir: Sælir
eru fátækir í anda.“
Eckhart var metnaðarfullur maður og boðað hinn eilífa sannleika.
Það var heppilegt fyrir mann sem vildi takast á við fátæktarhugtakið
svo það gagnaðist kristni og kirkju sem best. Áður höfðu menn talið
þann mann fátækan sem ekki hafði nóg af nokkrum hlut. Þetta taldi
Eckhart vel mælt og bætti við: „En við segjum enn meir og skiljum
fátækt enn hærri skilningi: Sá er fátækur maður sem ekkert vill og
ekkert veit og ekkert hefur.“ Líklega hefur upphafning fátæktar sjaldan
orðið ríkulegri en í þessum orðum. Þeim mun undarlegra er að hugsa
til þess að út við sjóndeildarhringinn var að birtast meinlætastefna
Lúterstrúarinnar sem að endingu skóp grundvöll fyrir kapítalismann.
Meira að segja trúin fær ekki flúið kaldhæðni sögunnar. Af Eckhart
er það að segja að hann var ákærður fyrir villutrú og var dæmdur til
V
Arnljótur Ólafsson: Auðfræði. Útgefandi: Fjölsýn - Félag viðskipta- og hagfræðinema. Rvík. 1988.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. febrúar 2013
Kristinn Ólafsson: http://gudfraedi.is/node/58, sótt 20. september 2013.
Klemens frá Alexandríu: Hjálpræði efnamanns í þýðingu eftir dr. Clarence E. Glad sem jafnframt ritar
inngang og skýringar. Eftirmála skrifar Ólafur Páll Jónsson ritstjóri. Hið íslenska bókmenntafélag.
Rvík. 2002.
Sigurður Már Jónsson: Ríkir Íslendingar. Framtíðarsýn. Rvík. 2001.
HEIMILDIR