Bæjarins besta


Bæjarins besta - 26.08.2010, Blaðsíða 14

Bæjarins besta - 26.08.2010, Blaðsíða 14
14 FIMMTUDAGUR 26. ÁGÚST 2010 Kristín í Peking fyrir framan forboðnu borgina, áður en hún fór til Sichuan héraðs. Kenndi ensku í Kína Bolvíkingurinn Kristín Ketils- dóttir er komin til stuttrar dvalar heim til Íslands eftir ársdvöl í Kína. Þar eyddi hún þremur mán- uðum í ferðalög um landið og kenndi síðan kínverskum ung- mennum ensku. Kenndi hún um á annað þúsund unglingum á viku og segir kínverska skólakerfið mjög ólíkt því sem við þekkjum á Íslandi. Kristín segir að Kína sé eins og annað heimaland hennar. „Ég hef farið reglulega út til Kína frá því að ég var 15 ára en pabbi fluttist þangað árið 2000. Ári seinna fluttist öll fjölskyldan út og bjó þar um tíma og nú lít ég á Kína sem mitt annað heima- land. Ég fór í júní í fyrra ásamt vini mínum og við ferðuðumst um landið í þrjá mánuði. Við fórum víða og í gegnum tíðina hef ég heimsótt flest héruð lands- ins. Þegar ferðalaginu lauk var ég ekki tilbúin að fara strax heim. Ég var í Peking og fann á netinu fyrirtæki í Chengdu, höfuðborg Sichuan-héraðs, sem var að leita eftir enskukennurum. Ég sendi inn umsókn og daginn eftir var haft samband og ég beðin um að byrja strax. Það vantar alltaf enskukennara í Kína. Síðasta haust var mér boðin staða í Langzhong, sem er á kín- verskan mælikvarða róleg sveita- borg. Þar búa 860.000 manns sem þykir nú ekki mikið þar á bæ. Þetta var eiginlega eins og kínversk útgáfa af Bolungarvík því viðmót fólksins var svo vin- gjarnlegt og rólegt. Loftið var hreint og maturinn góður. Mér fannst yndislegt að vera þarna og borgin átti mjög vel við mig. Lengst af var ég eini útlending- urinn sem bjó í borginni og vakti því óskipta athygli, ekki síst vegna þess hvað ég er hávaxin en fólkið á þessum slóðum er ekki sérlega hátt í loftinu. Ég komst að því seinna að nokkrir krakkar höfðu það fyrir sið að elta mig heim úr skólanum og setjast í anddyrið þar sem ég bjó til að sjá mig ganga inn og út úr byggingunni. Foreldrarnir skildu ekki hvað var í gangi þegar börnin skiluðu sér ekki heim fyrr en um miðnætti. Þá sátu þau og biðu eftir að sjá útlendinginn. Mér fannst það frekar fyndið.“ 1300 nemendur á viku – Hvernig fór kennslan fram? Talarðu reiprennandi kínversku? „Nei, ég get alveg bjargað mér á kínversku en er ekki orðin það fær í tungumálinu að ég geti rök- rætt við fólk. En í skólanum var það aldrei vandamál. Ég kenndi 17 ára krökkum og var með 1300 nemendur á viku. Bekkirnir voru misfjölmennir eftir því hvar krakkarnir voru staddir í náminu. Fjölmennasti bekkurinn taldi yfir 70 nemendur en flestir voru um 60. Það var því ekki um að ræða að sinna hverjum einstaklingi eins og mann langaði til. Það var oft erfitt því mig langaði svo sannarlega að vera til staðar fyrir hvern nem- anda. Skólakerfið er mjög ólíkt því sem Íslendingar þekkja. Skólinn er frá kl. 7 á morgnana til kl. 9:30 á kvöldin. Börnin fá hádegis- og kvöldmatarhlé en að öðru leyti fer allur dagurinn í námið. Þau eru líka í skóla um helgar og eina fríið eru nokkrir klukkutímar eftir hádegi á sunnudögum. Svona er þetta þar til þau eru orðin 18 ára og óneitanlega hefur þetta þau áhrif að þau virðast öll steypt í sama mót. Börnin úr nágrenninu búa á heimavist þar sem það tekur því ekki fyrir þau að fara heim á kvöldin. Heimavistin er á skóla- lóðinni og nemendurnir sem dvelja þar fá aldrei að fara út fyrir lóðarmörkin nema í sunnu- dagsfríinu. Þeir fá ekki einu sinni að skreppa á veitingastað hinum megin við götuna. Kennararnir mæta eldsnemma á morgnanna og eru að fram á kvöld. Þeirra frítími er mjög tak- markaður þar sem þeir kenna á kvöldin og um helgar, svo þetta er mikið álag á alla. Þetta átti þó ekki við um mig. Ég hafði undanþágu frá öllum þessum reglum. Til dæmis kenndi ég oft á kvöldin síðustu þrjá tím- ana þó ég þyrfti þess ekki, svona til að gefa þeim smá tilbreytingu. Það vakti mikla lukku, bæði hjá krökkunum sem trufluðust af gleði þegar ég birtist og eins hjá kennurunum sem fengu þá smá pásu. Í þessum tímum leyfði ég þeim að horfa á kvikmynd, spil- aði á gítar eða fór með þeim út í ping pong.“ Tónlistarnám forréttindi – Þannig að það er greinilega mun meiri agi en við eigum að venj- ast hér á norðurhjara veraldar? Já, það er agi en samt enginn heragi eins og margir virðast halda. Ég upplifði það allavega ekki þannig þó vissulega væri meiri agi en þekkist hér heima. Í skólanum voru 7000 nemendur á aldrinum 12-18 ára. Maður sá þegar nemendur á aldrinum 12-15 ára skiluðu ekki heimaverkefnum sínum á réttum tíma eða voru óþægir, að þeir voru slegnir með reglustiku á fing- urna. Ég sá nú aldrei neitt alvar- legra en það en ég veit að refs- ingarnar geta verið harkalegri. Ég spurði samkennara minn einu sinni hvort það ætti við um mína nemendur og hann svaraði um leið að nei, þeir væru orðnir of sterkir (17 ára). Ég hugsaði um leið að já, þá er það í lagi á meðan þeir eru of litlir til að geta lamið frá sér. Sjálf er ég ekki hlynnt þessu skólakerfi þar sem mér finnst það ekki ýta undir einstaklings- framtakið og skapandi hugsun. En á móti kemur að þetta er of- boðslega fjölmennt land og það er erfitt að leyfa einstaklingnum að njóta sín í 70 manna bekk. Ég tala ekki um þegar bekkirnir eru orðnir stærri en það. Ég kynntist stelpu sem langaði svo mikið til að læra á gítar, en allt nám utan kerfisins eru mikil forréttindi þarna úti. Ekki vegna þess að það sé svo dýrt, heldur af því að það gefst einfaldlega eng- inn tími til að sinna því. Hún tók matartímann sinn í gítarnámið. Rétt er að taka þó fram að Kínverjar eru að leita ýmissa leiða til að breyta skólakerfinu hjá sér. Það var til að mynda ástæða fyrir því að ég var fengin til að kenna þarna og kennarar hafa verið beðnir um að hvetja nemendurna til sjálfstæðra vinnu- bragða. Þetta tekur bara allt tíma og þá sérstaklega þegar kerfið er jafn ótrúlega stórt og þarna úti.“ Snýr aftur til Kína í haust Kristín hafði frjálsar hendur í kennslunni. „Í tímunum reyndi ég að vekja áhuga þeirra á því að læra ensku. Ég mátti styðjast við textabók en það var ekki skylda svo ég reyndi að fara í leiki og syngja lög með þeim. Ég hvatti þau með því að gera námið skemmtilegt og sýna þeim hvernig það myndi gagnast þeim að læra tungumálið. Ég sat aldrei tíma hjá öðrum kennurum svo ég veit ekki hvernig þeir voru, en ég veit að tímarnir mínir voru frjálslegri og krökkunum leið vel í tímum og sýndu mikinn áhuga svo mér fannst ég ná góðum ár- angri með þau. Nemendurnir eru því sem næst allir einkabörn og það er ekki bara krafa foreldranna að þau standi sig vel heldur krefst skól- inn þess líka af þeim. Maður kemst ekki í háskóla nema að vera með toppeinkunnir og því er mikilvægt að þau standi sig vel frá upphafi. Ég hreinlega dáist að dugnað- inum í þessum krökkum og skil eiginlega ekki hvernig þau fara að þessu.“ Kristín snýr aftur til Kína í september. „Þá verð ég ekki lengur að kenna úti í sveit heldur í stórborg sem heitir Shenzhen og er á landamærunum við Hong Kong. Hún er vestrænni en aðrar borgir í Kína og ég hlakka til vetrarins.“ – thelma@bb.is Á afmælisdaginn gaf skóla- stjórinn Kristínu blómvönd.

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.