Víkurfréttir


Víkurfréttir - 21.06.2012, Blaðsíða 22

Víkurfréttir - 21.06.2012, Blaðsíða 22
22 FIMMTUDAGURINN 21. júNí 2012 • VÍKURFRÉTTIR Björn Snæ var Björnsson yfirþjálfari Hnefaleikafélags Reykjaness er þessa dagana staddur í Las Vegas í Bandaríkjunum þar sem hann mun æfa í elsta æfingasal borgarinnar ásamt reyndum hnefaleikaköppum. Víkurfréttir litu við á æfingu í gömlu sundlauginni í Keflavík en þar var Björn að ljúka við að setja á sig vafningana. Björn hefur verið að æfa box í fimm ár og á að baki 17 bardaga. Björn hóf að æfa hnefaleika 19 ára gamall og þá undir handleiðslu Daða Ástþórssonar sem Björn segir vera einn færasta þjálfara landsins. Björn hefur nú tekið við keflinu af Daða sem yfirþjálfari Hnefaleikafélags Reykjaness. Björn sér um það að þjálfa fólk sem vill ná grunn- og tækniatriðum í íþróttinni en einnig er hægt að æfa svokallað fitness-box, þar sem fólk nýtir hnefaleika sem líkamsrækt. Einnig þjálfar Björn þá sem vilja ná langt í hnefaleikum. Um 40 hnefaleikakappar á öllum aldri eru undir handleiðslu Björns um þessar mundir en hann er nú staddur í Bandaríkjunum í æfingabúðum eins og áður segir. Nánar t i l tekið í Las Vegas í eyðimörkinni í Nevada- fylki, þar sem margir frægustu hnefaleikakappar sögunnar hafa æft og margir stórir bardagar hafa einnig verið háðir. Þar hyggst Björn ná sér í reynslu sem hann mun miðla af sér með iðkendum hér heima. Björn segist hafa endað í boxinu til þess að skora á sjálfan sig. Hann ætlaði sér í raun aldrei að fara eitthvað langt í íþróttinni en að lokum var það svo komið að hann sá sér ekki fært að hætta að mæta á æfingar. Það sem heillar Björn hvað mest við boxið er hversu erfið íþróttin er. „Maður þarf að vera í góðu líkamlegu ástandi, hafa góða færni, gott þol og sprengikraft. Þetta spilar allt svo vel saman,“ segir Björn. Fyrir honum eru hnefaleikar eins og skák frekar en bardagi. Honum finnst krefjandi að reyna að lesa andstæðinginn. Í Bandaríkjunum mun Björn æfa í elsta æfingasal í Las Vegas borg, Johnny Tocco´s gym, sem hefur verið starfræktur síðan í kringum 1950. Þar hafa margir goðsagnarkenndir kappar æft en á meðal þeirra eru: Mike Tyson, Sonny Liston og Larry Holmes. Með Birni í för verða fleiri Íslendingar, m.a. Daði Ástþórsson fyrrum þjálfari hans og Árni Ísaksson sem er einn fremsti bardagakappi Íslendinga. „Ég ákvað að stökkva á þetta tækifæri og fara með,“ en Björn vonast til þess að fá að reyna sig í bardögum gegn reyndum köppum. Tilhlökkunin er mikil og Björn er afar spenntur. „Á Íslandi eru ekki það margir í hverjum þyngdarf lokki og því verður gaman að fá að takast á við nýja andstæðinga,“ segir Björn. Björn er sammála blaðamanni að því leyti að vinsældir hnefaleika hafa dalað talsvert á undanförnum árum enda hafa aðrar bardagaíþróttir verið á mikilli uppleið. „Ég hef trú á því að boxið sé aftur á uppleið. Það eru mikið af bardagaíþróttum í boði og fólk er að prófa þær. Ég tel þó að boxið muni alltaf koma sterkt inn aftur enda rótgróin íþrótt.“ Til þess að hnefaleikar skipi sér aftur á fyrri stall telur Björn að hlúa þurfi að unga fólkinu. Björn er á því að boxið muni alltaf vera spennandi kostur þegar ungt fólk stendur frammi fyrir því að velja sér íþróttagrein til þess að æfa. Sama hvort fólk vilji stíga inn í hringinn eða bara þjálfa og vera með vinum sínum. Hann segir að í einstaklingsíþróttum læri maður að treysta fyrst og fremst á sjálfan sig. „Hér hef ég séð unga stráka verða að mönnum. Það er það sem við viljum gera hérna. Hjálpa ungum krökkum að styrkja sig bæði andlega og líkamlega og þroskast sem manneskjur. Við þurfum ekki að búa til neina heimsmeistara til þess að ná því fram.“ Björn segir hnefaleika hafa hjálpað honum mikið í lífinu og mun boxið alltaf vera til staðar fyrir hann að hans mati. Starfsemin er alltaf á fullu í gömlu sundlauginni í Keflavík en það hús hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir að húsinu var breytt í hnefaleikasal. Nú á næstunni eru að hefjast grunntækninámskeið fyrir 16 ára og eldri. Á Ljósanótt fer svo fram árlegt mót í Reykjanesbæ. Hnefaleikamenn á Íslandi hafa átt í góðu samstarfi við frændur okkar Dani á undanförnum árum og hefur Björn fimm sinnum keppt við danska hnefaleikamenn. Eins og er er hann undir 3-2 í þeim viðureignum en hann hefur átt góðu gengi að fagna í öðrum bardögum. Á Ljósanótt gæti farið svo að Danir verði fyrir barðinu á okkar mönnum en einnig mæta margir af fremstu hnefaleikamönnum landsins til Reykjanesbæjar á mótið. En af hverju ætti maður að prófa boxið? „Ég get tryggt það að þú sért að fara að prófa eitthvað sem þú hefur aldrei gert áður. Það að prófa nýja hluti er eitthvað sem ég tel að fólk ætti að gera meira af,“ sagði Björn að lokum. Æfir í elsta „gymminu“ í Las Vegas

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.