Neytendablaðið


Neytendablaðið - 01.09.2007, Blaðsíða 19

Neytendablaðið - 01.09.2007, Blaðsíða 19
Um þetta leyti voru nokkur hundruð áhugamenn að læra hvernig ætti að rækta án eiturefna án þess að til kæmi nokkur opinber stuðningur. Kahn seldi síðar fyrir- tæki sitt til General Mills en nær öll stór matvælafyrirtæki selja nú einnig lífrænt ræktuð matvæli sem nema þó ekki nema litlum hluta heildarframleiðslunnar. Kahn sat í stjórn nefndar sem fjallaði um það hvort leyfa ætti kemísk aukefni í lífrænt ræktuð matvæli og barðist hann fyrir því að ýmis slík efni yrðu leyfð. Reglugerð frá 1990 hafði bannað öll aukefni en Kahn benti á að ekki væri mögulegt að framleiða lífræna sjónvarpsmáltíð (TV dinner) og önnur unnin matvæli án þessara efna nema að stefna öryggi neytenda í hættu. Nokkrir nefndarmenn bentu þá á að það væri e.t.v. nákvæmlega þetta sem málið snerist um. Kannski eru lífrænum mat takmörk sett og ef ekki væri hægt að framleiða unnin matvæli án aukefna þá væri slíkum matvælum einfaldlega ekki ætlaður hinn lífræni stimpill. Kahn og hans fylgismenn höfðu betur og því er nú hægt að kaupa lífrænt ræktaða sjónvarpsmáltíð fyrir ör- bylgjuofn í Bandaríkjunum. Heimsókn á kjúklingabú Pollan heimsótti nokkra framleiðendur í Kaliforníu og komst að því að lífræn ræktun er í mörgum tilfellum að nálgast mjög hefðbundna ræktun. Um er að ræða fjöldaframleiðslu og einsleita ræktun sem ekki var hugmyndin á bak við lífræna ræktun í upphafi þegar hugsjónin réð ferðinni. Pollan heimsótti kjúklingabýli þar sem 20.000 kjúklingar voru samankomnir. Þeir hafa vissulega meira pláss en kjúklingar í hefðbundnu búi og fá hvorki vaxtarhormón né sýklalyf. Samkvæmt stöðlum eiga kjúklingar í lífrænni fram- leiðslu að hafa aðgang að svæði undir berum himni. Þar af leiðandi eru litlar dyr á búinu sem kjúklingarnir gætu notað til að komast undir bert loft ef þeir uppgötvuðu þær. Eigandinn krossar fingur og vonast til þess að kjúklingarnir fari ekki að álpast út þar sem þeir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir sjúkdómum. Komdu sjálfur ef þú vilt bragða matinn Pollan ákvað að heimsækja bóndann Joel Salatin sem rekur bændabýlið Polyface Farm. Ástæðan fyrir því að Pollan hafði uppi á Salatin var óvenju þröng skilgreining Salatins á orðinu sjálfbær. Þegar Pollan vann við heimildaöflun heyrði hann aftur og aftur getið um bónda nokkurn í Virginíu sem hafði enga þörf fyrir þá lífrænu vottun sem bandarísk stjórnvöld gáfu út. Honum skildist líka að afurðirnar frá Polyface Farm væru með afbrigðum góðar og þess vegna hringdi hann í bóndann og bað hann að senda sér kjúkling og steik. Salatin var ófáanlegur til þess. Hann sagði að það væri ekki í anda sjálfbærrar þróunar að senda matvæli landshluta eða jafnvel heimshluta á milli, jafnvel þótt afurðirnar væru lífrænt ræktaðar. „Ef þú vilt smakka afurðirnar okkar verðurðu að koma hingað sjálfur“. Vika á sérstöku býli Forvitni Pollans var vakin og hann fékk leyfi til að dveljast í eina viku á býlinu og fylgjast með framleiðsluháttum. Á 100 ekrum af engjum og 450 ekrum af skóglendi ræktar Salatin hænsni, nautgripi, kalkúna, kanínur, svín, tómata, sætan maís og ber. Áhersla er lögð á fjölbreytileika sem er mjög mikilvægur að mati Salatins og minnkar líkur á sjúkdómum og öðrum plágum sem kunna að hafa áhrif á uppskeruna. Framleiðslugeta býlisins er mjög mikil og vakti furðu Pollans enda er einsleit fjölda- framleiðsla algengasta formið í landbúnaði. Gras er undirstaðan Ef Joel Salatin er spurður hvers konar búskap hann stundi svarar hann: „Ég er grasbóndi“ Þessi fullyrðing kom Pollan nokkuð á óvart en eftir viku á búgarðinum skildi hann betur hvað Salatin átti við. Gras er undirstaða allrar þeirrar ræktunar sem fram fer á búgarðinum og það skiptir máli hvernig grasið vex. Ekki er notaður tilbúinn áburður af neinu tagi; dýrin sjá alveg um þann þátt. Grasið er aðalfæða margra dýra á búgarðinum og til að halda beitarlandinu góðu hefur Salatin útbúið sérstök grindverk sem hann færir til og frá ásamt dýrunum allt eftir ástandinu á jarðvegi og gróðri. Þannig kemur hann í veg fyrir ofbeit og viðheldur jarðveginum í góðu ástandi. Slátrun undir opnum himni Pollan tók þátt í kjúklingaslátrun á býlinu en Salatin slátrar undir beru lofti. Ef viðskiptavinirnir vilja sjá hvernig kjúkl- ingunum er slátrað er þeim velkomið að fylgjast með þótt fæstir þiggi boðið. Salatin heldur því fram að ekki þurfi neina löggjöf og reglugerðir ef fólk getur komið á bæinn og skoðað sig um, talað við bóndann og jafnvel fylgst með slátrun. Það er bak við veggi sláturhúsanna sem óþrifnaður, slæm meðferð á dýrum og slæmar aðstæður verkafólksins þrífast og opinbert eftirlit er of máttlaust til að taka á vandanum. Svæðisbundin framleiðsla Í lok kaflans hefur Pollan komist að þeirri niðurstöðu að lífrænt og lífrænt sé ekki það sama. Lífræn framleiðsla eins og Salatin stundar byggist á árstíðabundinni og svæðisbundinni framleiðslu. Hún gengur út á að matur eigi ekki að ferðast heimshorna eða landshluta á milli. Fólk borðar þannig mat framleiddan eins nálægt heimilinu og kostur er og velur mat eftir árstíðum. Þá tryggir náið sambandið milli bóndans og neytandans að vel sé staðið að öllu er varðar aðbúnað dýra, hreinlæti og framleiðsluhætti. Þetta er í raun hugmyndin á bak við Slow Food hreyfinguna sem áður hefur verið fjallað um hér í blaðinu. Í Bandaríkjunum er hægt að fá unnin matvæli sem innihalda rotvarnarefni og stinga má í örbylgjuofninn en kallast þó lífræn. 1 NEYTENDABLA‹I‹ 3. TBL. 2007

x

Neytendablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Neytendablaðið
https://timarit.is/publication/904

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.