Neytendablaðið - 01.09.2007, Blaðsíða 18
Neytendablaðið heldur nú áfram umfjöllun
um hina áhugaverðu bók The Omnivore´s
Dilemma eftir bandaríska rithöfundinn
Michael Pollan. Umfjöllunarefnið að þessu
sinni er lífræn ræktun.
Lífræn ræktun í sókn
Eftirspurn eftir lífrænni ræktun hefur
aukist á undanförnum árum. Ástæðan er
m.a. aukinn áhugi á umhverfisvernd en
hefðbundinn landbúnaður hefur oft í för
með sér mikla notkun skordýraeiturs og
illgresiseyða auk notkunar á tilbúnum
áburði. Þá hafa ýmsar áleitnar spurningar
vaknað í sambandi við hefðbundna mat-
vælaframleiðslu. Eins og fram kom í síðasta
blaði eru grasætur gjarnan fóðraðar á
korni og dýrum eru gefin vaxtarhormón
og sýklalyf og þau alin í þrengslabúskap.
Allt er þetta gert til að auka hagkvæmni og
ná niður verði. Hins vegar eru sífellt fleiri
neytendur tilbúnir að borga hærra verð fyrir
afurðir sem hafa lífræna vottun en lífræn
framleiðsla er sá geiri matvælaframleiðslu í
heiminum sem vex hvað hraðast.
Lítill stuðningur við lífræna ræktun
Vinsældir lífrænnar framleiðslu í Banda-
ríkjunum eru ekki síður merkilegar fyrir
þær sakir að bandarísk yfirvöld komu þar
hvergi nærri. Þannig naut lífræn ræktun
einskis opinbers stuðnings á sama tíma og
aðrir geirar landbúnaðar voru niðurgreiddir
af hinu opinbera. Landbúnaðarráðuneytið,
USDA, var meira að segja gagngert á móti
lífrænni ræktun þar til nokkuð nýlega og
leit á lífræna ræktun - kannski réttilega -
sem gagnrýni á hefðbundna ræktun sem
ráðuneytið hafði lengi vel stutt með ráðum
og dáð. Það má því segja að bandarískir
neytendur og bændur hafi í sameiningu
byggt upp einn stærsta geirann innan
matvælaiðnaðar algerlega án aðkomu
bandarískra stjórnvalda.
Vottun sem hægt er að treysta
Uppruni matvæla skiptir marga neytendur
máli og í versluninni Whole Foods, sem selur
lífræna framleiðslu, er uppruni matvæla
kynntur með myndum og frásögnum
af litlum sveitabýlum, sólríkum ökrum
og sælum búfénaði. Eitt af lykilatriðum
lífrænnar ræktunar eru þau samskipti
sem eiga sér stað á milli framleiðenda og
neytenda og með einu litlu merki, lífrænni
vottun, fá neytendur meiri upplýsingar um
matvöru en gengur og gerist. Neytandi sem
kaupir lífrænt ræktuð matvæli sendir þau
skilaboð til baka upp fæðukeðjuna að hann
kunni að meta tómata sem framleiddir eru
án eiturefna eða mjólk sem fengin er úr kúm
sem ekki hafa verið gefin vaxtarhormón.
Orðið „organic“, lífrænt, er þannig eitt
mikilvægasta orðið í verslunum og því ekki
að undra að margir framleiðendur vildu
fá lífrænan stimpil á vöru sína án þess
að þurfa að uppfylla öll skilyrði. Það leit
einmitt út fyrir að það gæti orðið.
Barist um skilgreiningu
Ólík öfl og ýmsir hagsmunaaðilar börðust
um yfirráðin á skilgreiningu „lífrænnar
ræktunar“ og var baráttan löng og ströng.
Landbúnaðargeirinn barðist fyrir því að
skilgreiningin yrði eins ónákvæm og
mögulegt var, að hluta til með það fyrir
augum að auðveldara yrði fyrir stóra og
þekkta matvælaframleiðendur að komast
inn á markaðinn en einnig af ótta við
að allar matvörur sem ekki eru lífrænt
ræktaðar (t.d. erfðabreytt matvæli) fengju á
sig neikvæðan blæ.
Óánægja með staðla
Árið 1997 setti USDA loksins staðla um
lífræna ræktun, þ.e. hvaða skilyrði vörur
þyrftu að uppfylla til að hljóta vottun sem
lífræn afurð. Staðlarnir voru að mörgu leyti
frábrugðnir því sem gerist í Evrópu. Til
dæmis var leyfilegt að nota erfðarbreyttar
lífverur og skólp við framleiðsluna. Margir
töldu að fyrirtæki eins og Monsanto
eða ADM hefðu beitt áhrifum sínum en
allt eins má gera ráð fyrir að USDA hafi
einfaldlega gengið út frá þeirri ályktun að
fyrirtæki vildu eins losaralega löggjöf og
unnt væri. En lífræni geirinn er ekki eins
og annar iðnaður. Framleiðendur lífrænna
vara og neytendur brugðust ókvæða við og
kröfðust þess að kröfurnar yrðu strangari
og að lokum varð USDA að draga í land.
Lífræn sjónvarpsmáltíð fyrir
örbylgjuofn
Gene Kahn stofnaði Cascadian Farm árið
1971. Eins og títt var um lífræna bændur á
þessum tíma skorti hann faglega þekkingu
og oftar en ekki varð uppskerubrestur.
Ógöngur alætunnar
1 NEYTENDABLA‹I‹ 3. TBL. 2007